Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

38/2020 Orustustaðir

Árið 2020, föstudaginn 16. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 16. desember 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi til lagfæringar á hluta vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða og á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps sem tilkynnt var með bréfi, dags. 31. s.m., um að samþykkja byggingarleyfi fyrir þremur starfsmannahúsum að Orustustöðum.

Í málinu er nú kveðinn svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Hraunbóls/Sléttabóls 2 í Skaftárhreppi og leigutakar lóða nr. 192492 og nr. 221043 í landi jarðarinnar þær ákvarðanir „skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps, dags. 31. desember 2019, annars vegar að samþykkja framkvæmdaleyfi til „lagfæringar á hluta vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða í Skaftárhreppi, þannig að vegurinn verði akfær öllum bílum“ og hins vegar dags. 31. desember 2019 að samþykkja byggingarleyfi „fyrir starfsmannahúsum að Orustustöðum” ”. Skilja verður kæruna á þann veg að þar sé átt við þær ákvarðanir sem tilkynntar voru umsækjanda með bréfum, dags. 31. s.m., þ.e. fyrrgreint byggingarleyfi og jafnframt afgreiðsla skipulagsnefndar frá 12. desember 2019, sem samþykkt var af sveitarstjórn 16. s.m., um að fallast á umsókn um leyfi til lagfæringar á hluta vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Einnig var gerð krafa um úrskurð um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinna kærðu leyfa, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 5. júní 2020.

Til vara er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 12. maí 2020 um að afturkalla þá ákvörðun, dags. 7. maí s.á., að afturkalla áðurgreindar ákvarðanir. Er þess krafist að ákvörðunin frá 12. maí 2020 verði felld úr gildi og að staðfest verði að forsenda fyrir leyfunum sé að leyfishafi afli samþykkis landeigenda Hraunbóls fyrir framkvæmdum innan eignarlands þeirra. Þar sem þess hafi ekki verið aflað þrátt fyrir að framkvæmdir hafi hafist hafi fyrrnefnd afturköllun á leyfunum verið í fullu í samræmi við lög og skyldur og eigi að standa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skaftárhreppi 22. maí, 15. júní og í september og október 2020.

Málavextir: Jörðin Orustustaðir er á Brunasandi í Skaftárhreppi og lagðist í eyði um 1950. Áformað er að reisa hótel á jörðinni og hefur sveitarfélagið samþykkt skipulagsáætlanir þar sem slík landnotkun er ráðgerð. Hinn 20. janúar 2015 tók gildi breyting á Aðalskipulagi Skaftár­hrepps 2010-2022 er gerði m.a. ráð fyrir verslunar- og þjónustusvæði með um 7.000 m² hóteli á jörðinni, sem og aðkomuvegi að Orustustöðum. Sama ár samþykkti sveitarstjórn Skaftár­hrepps deiliskipulag vegna hótels í landi Orustustaða og öðlaðist það gildi 17. febrúar 2016. Í skilmálum þess kemur m.a. fram að aðkoma að hótelinu sé frá þjóðvegi 1 eftir núverandi vegi sem liggi að Hraunbóli. Þar sem enginn vegur liggi að jörðinni, aðeins slóðar, sé gert ráð fyrir nýjum 1,7 km vegkafla sem liggi af núverandi vegi rétt vestan við Hraunból. Í febrúar 2016 lá einnig fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhugað hótel og aðkomuvegur að því væru ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Var tveimur síðastnefndum ákvörðununum skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og þess aðallega krafist að þær yrðu felldar úr gildi. Með úrskurðum nefndarinnar í máli nr. 26/2016 og í máli nr. 31/2016 var kröfum um ógildingu hafnað.

Á fundi skipulagsnefndar Skaftárhrepps 13. mars 2019 var tekin fyrir umsókn eiganda jarðarinnar Orustustaða um framkvæmdaleyfi til að leggja veg frá þjóðvegi 1 að Orustustöðum og var afgreiðslu málsins frestað. Í júní og september s.á. var lögmaður kærenda, f.h. eigenda jarðarinnar Hraunbóls/Sléttabóls 2, í tölvupóstsamskiptum við skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps og óskaði gagna og upplýsinga um stöðu umsóknarinnar. Var bent á að umbjóðendur hans hefðu frá upphafi mótmælt hugmyndum eiganda jarðarinnar Orustustaða um að leggja veg að fyrirhuguðu hóteli á jörðinni Orustustöðum og hefðu þeir ekki og myndu ekki heimila afnot af landi til þessa. Í svarbréfi skipulags- og byggingarfulltrúa 16. september s.á. voru send gögn sem lágu fyrir fyrrnefndum fundi skipulagsnefndar og í svarbréfi hans 17. s.m. kom fram að umsóknin hefði ekki verið tekin aftur fyrir í skipulagsnefnd og að engar frekari upplýsingar hefðu borist.

Nýtt erindi er laut að aðkomu að Orustustöðum var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 12. desember 2019, nánar tiltekið umsókn um leyfi til að lagfæra hluta vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða þannig að hann yrði akfær öllum bílum. Í umsókninni kom fram að framkvæmdin væri nauðsynleg til að komast að bænum Orustustöðum til að hefja þær framkvæmdir sem gert væri ráð fyrir í skipulagsáætlunum. Sækja þyrfti um leyfi til að laga núverandi veg í ljósi þess dráttar sem orðið hefði á að hægt væri að ráðast í framkvæmdir í hinu nýja vegstæði. Einkum væri um að ræða þann hluta vegarins sem lægi frá beygju, meðfram hrauninu, og að landamerkjum Orustustaða. Heildarlengd vegarins væri um 5,8 km en gera mætti ráð fyrir lagfæringum á um 2 km kafla. Var því lýst hvernig vinnu við lagfæringar yrði hagað og að þær yrðu samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðarinnar og þversniði 2.1.11, vegtegund D á þeim stöðum sem nauðsynlegt væri til að gera veginn akfæran. Þá kom fram að Vegagerðin hefði hafnað beiðni umsækjanda um að taka hinn nýja veg á skrá sem héraðsveg, en það væri forsenda þess að hægt væri að ráðast í eignarnám. Sú afgreiðsla hefði verið kærð og væri til meðferðar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Skipulagsnefnd færði til bókar á fyrrnefndum fundi sínum 12. desember 2019 að hún gæti fyrir sitt leyti fallist á fyrirhugaðar vegabætur en þó með fyrirvara um samþykki landeigenda þess lands sem þær tækju yfir utan lands Orustustaða. Á sama fundi var samþykkt umsókn eiganda jarðarinnar Orustustaða um byggingarleyfi fyrir þremur starfsmannahúsum að Orustustöðum, einnig með fyrirvara um að fyrir lægi samþykki frá landeigendum Hraunbóls/Sléttabóls 2 og Fossjarða vegna aðkomuvegar. Jafnframt var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á jörð Orustustaða. Sveitarstjórn samþykkti greindar afgreiðslur á fundi 16. desember 2019. Í kjölfar þess gerði lögmaður leyfishafa með bréfi, dags. 18. s.m., athugasemd við að umsókn um byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum hefði verið afgreidd með fyrrnefndu skilyrði og taldi að um mistök hefði verið að ræða. Var þess óskað að það yrði lagfært án tafar með vísan til 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en væri ekki um villu að ræða var farið fram á að afgreiðslan yrði endurupptekin eða afturkölluð. Yrði það ekki gert var þess krafist að ákvörðunin yrði rökstudd ítarlega með vísan til stjórnsýslulaga. Jafnframt þessu sendi leyfishafi inn nýja umsókn um byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 31. desember 2019, var leyfishafa tilkynnt að umsókn um byggingar­leyfi fyrir starfsmannahúsum að Orustustöðum samræmdist samþykktu deiliskipulagi og að málið hefði verið afgreitt af hans hálfu án sérstakrar aðkomu sveitarstjórnar Skaftárhrepps. Í bréfinu var ekki vikið að því að leyfið væri veitt með fyrirvara um samþykki landeigenda Hraunbóls/Sléttabóls 2. Sama dag tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi leyfishafa um samþykkt fyrrgreinds framkvæmdaleyfis en slíkt leyfi mun enn ekki hafa verið gefið út.

Hinn 29. janúar 2020 sendi lögmaður kærenda tölvubréf til skipulags- og byggingarfulltrúa og óskaði m.a. upplýsinga um það hvort umsókn um framkvæmdaleyfi hefði fengið frekari afgreiðslu. Lögmaður kærenda sendi annað tölvubréf 3. febrúar s.á. til skipulags- og byggingarfulltrúa og benti á að honum hefðu engin svör borist, en tók jafnframt fram að samkvæmt fundargerðum sveitarfélagsins hefði þegar verið veitt framkvæmdaleyfi. Var þess óskað að send yrðu afrit af gögnum málsins og að veittar yrðu upplýsingar um verklagsreglur hjá sveitarfélaginu við veitingu framkvæmdaleyfa. Jafnframt var upplýst að svo virtist sem hafist hefði verið handa við framkvæmdir innan eignarlands Hraunbóls/Sléttabóls 2, þrátt fyrir að ekki hefði verið aflað samþykkis landeigenda, svo sem bæri að lögum, og sem virtist hafa verið gert að skilyrði í fyrrnefndu framkvæmdaleyfi. Skyldi stöðva slíkar framkvæmdir tafarlaust og krefjast þess af framkvæmdaraðila að allt jarðrask yrði afmáð þegar í stað, sbr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi lögmanni kærenda gögn með tölvubréfi 4. febrúar 2020. Meðal þeirra var fundargerð skipulagsnefndar frá 12. desember 2019 sem og ákvörðun sveitarstjórnar frá 16. s.m. Einnig var tekið fram í bréfinu að borist hefði ný umsókn um byggingarleyfi vegna þriggja starfsmannahúsa í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Frekari tölvupóstsamskipti áttu sér stað í framhaldinu og í svarbréfi skipulags- og byggingar­fulltrúa 10. febrúar s.á. við fyrirspurn lögmanns kærenda kom m.a. fram sú afstaða fulltrúans að framkvæmdaleyfið tæki ekki gildi fyrr en samþykki landeigenda Hraunbóls/Sléttabóls 2 lægi fyrir, eins og bókun skipulagsnefndar fæli í sér.

Skipulags- og byggingarfulltrúi var jafnframt í tölvupóstsamskiptum við leyfishafa vegna framkvæmda við veginn. Með tölvubréfi 2. mars 2020 var leyfishafa gerð grein fyrir réttinda­leysi hans til nýtingar vegslóðans án samþykkis eigenda Hraunbóls og vikið að því í hverju umferðarheimild hans um land Hraunbóls fælist. Í bréfinu kom einnig fram að næðist ekki samkomulag um vegabætur að Orustustöðum væri ekki annað fært en að fella úr gildi framkvæmdaleyfi fyrir endurbótum vegarins, sem og byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum. Með bréfinu fylgdi lögfræðiálit, dags. 25. febrúar 2020, um rétt eiganda Orustustaða til umferðar um slóða sem lægi um land Hraunbóls. Umrætt bréf var jafnframt sent lögmanni kærenda. Kom lögmaður leyfishafa á framfæri athugasemdum með bréfi, dags. 5. mars s.á., og benti m.a. á að eigandi Orustustaða ætti skýran umferðarrétt um veginn og að lagfæringar á veginum sem nauðsynlegar væru til að leyfishafi gæti nýtt þann rétt sinn væru ekki háðar samþykki landeigenda. Svaraði skipulags- og byggingarfulltrúi leyfishafa með tölvubréfi 2. apríl 2020 og vísaði til nýs lögfræðiálits, dags. 12. mars s.á. Þar sagði m.a. að þar til Vegagerðin hefði lagt varanlegan veg að Orustustöðum í samræmi við samþykkt deiliskipulag væru tveir kostir fyrirliggjandi, þ.e. að eigandi Orustustaða semdi við eiganda Hraunbóls og aðra eigendur núverandi vegar um endurbætur á veginum og aukinn umferðarrétt eða að frestað yrði uppbyggingu á jörð Orustustaða.

Hinn 7. maí 2020 sendi skipulags- og byggingarfulltrúi tölvubréf til m.a. leyfishafa og lögmanns kærenda. Í bréfinu kom fram að ekkert samkomulag lægi fyrir um endurbætur/uppbyggingu á veginum að Orustustöðum og skyldu framkvæmdir tafarlaust stöðvaðar. Einnig sagði að í ljósi þess að ekkert samkomulag lægi fyrir um endurbætur/uppbyggingu aðkomuvegar, sem og þess að eiganda Orustustaða væri ekki heimil þungaumferð vegna uppbyggingarframkvæmda fyrir 200 herbergja hótel, væri byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum afturkallað og skyldu fram­kvæmdir tafarlaust stöðvaðar. Enn fremur var óskað eftir því að skilað yrði skriflegu samkomu­lagi málsaðila um framgang málsins eigi síðar en 11. maí s.á. Loks að yrðu aðilar ekki við þeirri ósk væri bent á ákvæði 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um skyldu skipulagsfulltrúa til að stöðva framkvæmdir. Kom lögmaður leyfishafa að mótmælum með bréfi, dags. 8. maí 2020, og krafðist þess að afturköllun byggingarleyfisins yrði endurskoðuð og staðfest yrði að það væri enn í gildi. Var og tekið fram að eingöngu hefði verið ráðist í framkvæmdir til að lagfæra þær skemmdir sem unnar hefðu verið af einum kærenda á veginum og gerðar óverulegar lagfæringar til að komast um veginn, en slíkar framkvæmdir væru ekki framkvæmdaleyfisskyldar. Væri því ekki um það að ræða að stöðva neinar framkvæmdir við veginn enda engar framkvæmdir í gangi við lagfæringar á honum.

Nokkrum dögum síðar, eða 12 maí 2020, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi í tölvubréfi til m.a. leyfishafa og lögmanns kærenda að hann hefði endurskoðað afstöðu sína varðandi afturköllun leyfisveitinga fyrir Orustustaði. Í bréfinu kom fram að ljóst væri eftir vettvangs­skoðun að engar endurbætur/uppbygging hefðu átt sér stað á aðkomuvegi að Orustustöðum þar sem hann færi um land Hraunbóls. Ekki væri um neinar óleyfisframkvæmdir að ræða, aðeins minni háttar viðhald. Hefði því ekki reynt á framkvæmdaleyfið sem veitt hefði verið í desember 2019. Þá var tekið fram að eina aðkoman að Orustustöðum væri um land Hraunbóls og að eigandi þeirrar jarðar yrði að þola umferð vegna byggingar íbúðarhúss á jörðinni Orustustöðum. Niðurstaðan væri því sú að leyfisveitingarnar frá desember 2019 stæðu, en afturköllun leyfanna í tölvubréfi 7. maí 2020 væri afturkölluð.

Svo sem fyrr greinir skaut eigandi Orustustaða ákvörðun Vegagerðarinnar um að synja umsókn hans um nýjan héraðsveg að Orustustöðum til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og lá úrskurður ráðuneytisins fyrir 8. maí 2020. Með úrskurðinum var ákvörðun Vegagerðarinnar staðfest og m.a. talið að hún hefði byggst á málefnalegum grundvelli vegna andstöðu þriggja landeigenda sem hagsmuna hefðu að gæta.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að það hafi ekki verið fyrr en 4. febrúar 2020, eftir ítrekaða eftirgrennslan, að þeir hafi verið upplýstir um að búið væri að gefa út hin kærðu leyfi. Þegar í stað hafi verið komið á framfæri athugasemdum og mótmælum. Að fenginni staðfestingu skipulags- og byggingarfulltrúa á efni útgefinna leyfa og skilyrðis þeirra, þ.e. að þau væru háð fyrirvara um að aflað yrði samþykkis kærenda, hafi þeir verið í góðri trú um að réttindi þeirra væru nægilega tryggð. Teljist kærufrestur því frá 12. maí 2020 þegar kærendum hafi orðið kunnugt um breytta afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa til leyfanna og skilyrðis þeirra.

Eigandi jarðarinnar Orustustaða hyggist leggja aðkomuveg að áætlaðri hótelbyggingu að Orustustöðum þvert í gegnum ósnortið eignarland kærenda. Þeir hafi hins vegar ekki og muni ekki heimila þá veglagningu. Séu hagsmunir landeigenda Hraunbóls/Sléttabóls 2 verndaðir með 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. ákvæði 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttinda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt ákvæðinu megi engan skylda til að láta af hendi eign sína nema samkvæmt heimild í lögum og að almenningsþörf krefji.

Útgáfa þeirra leyfa sem um ræði brjóti í bága við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og meginreglur stjórnsýsluréttar. Máls­meðferð og ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um afturköllun frá 12. maí 2020 brjóti í bága við 53. gr. skipulagslaga sem og málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga.

Deiliskipulag nægi ekki eitt og sér sem grundvöllur leyfisveitinga heldur þurfi samþykki landeigenda fyrir viðkomandi framkvæmd einnig að liggja fyrir eða aðrar heimildir. Þess hafi ekki verið aflað þrátt fyrir að hvor tveggja slóðinn, sem og skilgreindur aðkomuvegur að framkvæmd sem byggingarleyfið nái til, séu innan eignarlands kærenda. Sé í þessu sambandi m.a. vísað til 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, sbr. einnig 13. gr. skipulagslaga. Þá segi í 10. gr. reglugerðarinnar að áður en umsókn um framkvæmdaleyfi sé afgreidd skuli leyfisveitandi hafa tryggt að gætt hafi verið ákvæða laga og reglugerða sem til álita komi. Til hliðsjónar megi jafnframt vísa í bréf Skipulagsstofnunar til Skaftárhrepps, dags. 20. maí 2015 og 9. febrúar 2016, þar sem þetta sé áréttað. Umræddur slóði sé ekki á skipulagi og hafi aldrei verið, hvorki sem vegslóði né aðkomuvegur að Orustustöðum, enda aldrei nýttur sem aðkomuvegur að jörðinni. Forsenda fyrir því að leyfa framkvæmdir á grundvelli deili­skipulags hljóti að vera að til staðar sé sú aðkoma sem staðfest skipulag geri ráð fyrir að sé að svæðinu. Ekki sé gert ráð fyrir neinum bráðabirgðavegtengingum í deiliskipulagi vegna hótels í landi Orustustaða, aðeins að lagður verði aðkomuvegur sem feli í sér að sá vegur verði nýttur á framkvæmdatíma. Séu hin kærðu leyfi hvorugt í samræmi við skipulag.

Þá hafi við leyfisveitingu verið brotin ákvæði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga en þar segi að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Áréttað sé að umræddur slóði hafi ekki verið annað en hjólför á þeim hluta sem næstur sé landamerkjum Orustustaða. Á skipulagsuppdrætti megi sjá að gert sé ráð fyrir aðkomuvegi að Orustustöðum talsvert fyrir sunnan þann slóða sem hér um ræði.

Fyrir liggi staðfesting leyfishafa á því að ráðist hafi verið í framkvæmdir á slóðanum innan eignarlands kærenda. Efni hafi verið borið í slóðann á a.m.k. fimm stöðum og ræsi sett niður. Slóðinn sé nú akfær öllum bílum. Eigi leyfishafi engan umferðarrétt um slóðann, annan en almannarétt. Fullyrðingar um að meintum umferðarrétti hans fylgi réttur til lagfæringa eða endurbóta á veginum upp á sitt eindæmi séu fjarstæðukenndar. Það sé með ólíkindum að yfirvöld á svæðinu skirrist við að fylgja skýrum ákvæðum 53. gr. skipulagslaga og telji sér auk þess fært að kveða á um að leyfishafa sé heimilt að nýta sér eignarland annarra til framkvæmda án samþykkis viðkomandi með tilheyrandi skerðingum á réttindum og röskun á landi til frambúðar. Eftir þessar framkvæmdir muni standa fullbúinn vegur „akfær öllum bílum“ um ókomna tíð, slóði sem sé fjarri þeim aðkomuvegi að framkvæmdum sem skilgreindur hafi verið í skipulagi.

Málsrök Skaftárhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað.

Kæra í máli þessu hafi ekki borist nefndinni innan lögmælts kærufrests. Engra gagna njóti um það í málinu hvenær kærendum hafi verið tilkynnt um afgreiðslu leyfanna en fram komi í kæru að þeim hafi verið kunnugt um útgáfu þeirra 4. febrúar 2020. Útilokað sé að fallast á skýringar kærenda um að kærufrestur hafi hafist 12. maí s.á., enda standi engin rök til að túlka upphaf kærufrests með öðrum hætti í þeirra tilviki. Með afgreiðslu skipulagsnefndar 12. desember 2019 hafi stjórnsýslulegri meðferð umsóknanna verið lokið og stjórnvaldsákvörðun verið tekin um skipulagslega skipan mála í tengslum við byggingu íbúðarhúss á jörðinni Orustustöðum. Í ákvörðun um framkvæmdaleyfi hafi falist að skipulagsnefnd hafi talið allar kröfur og önnur þau skilyrði sem áskilið sé jafnt í lögum sem reglugerðum uppfyllt. Auk þess hafi það verið mat nefndarinnar að málefnalegar og réttmætar skipulagslegar forsendur lægju að baki umsókninni. Því hafi hvorki verið efni né ástæður til að synja henni. Sömu sjónarmið eigi við um afgreiðslu skipulagsnefndar á byggingarleyfisumsókn um starfsmannahús. Hafi kærendur verið mótfallnir greindum ákvörðunum, réttara sagt forsendum og öðrum sjónarmiðum sem þær hafi byggst á, hafi þeim verið í lófa lagið að láta reyna á lögmæti þeirra fyrir úrskurðarnefndinni. Ákvarðanir þær sem kæranlegar hafi verið til nefndarinnar varði framkvæmda- og byggingarleyfi og hafi ekkert með það að gera hvort samþykki kærenda fáist fyrir vegabótum eða aðkomuvegi. Í því sambandi vegi það sjónarmið þyngst á vogarskálunum að umfjöllun og afgreiðsla úrskurðar­nefndarinnar einskorðist við lögmæti hinna kærðu leyfa, en réttarágreiningur af einkaréttar­legum toga heyri ekki undir nefndina. Af því leiði að kærufrestur til nefndarinnar sam­kvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi byrjað að líða 4. febrúar 2020 og lokið 30 dögum síðar. Kærufrestur hafi því verið liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Útgáfa framkvæmda- og byggingarleyfa komi til vegna byggingar íbúðarhússins, sem kærendur hafi ekki gert athugasemd við. Að baki veitingu byggingarleyfis fyrir starfsmanna­húsum hafi fyrst og fremst legið það sjónarmið að til að geta unnið að byggingu íbúðarhússins hafi verið nauðsynlegt að hafa starfsmannaaðstöðu. Þrátt fyrir að deiliskipulagið geri ráð fyrir þremur starfsmannahúsum og talað sé um starfsmannahús í fleirtölu í byggingarleyfinu snúist fram­kvæmdir á þessu stigi málsins eingöngu um byggingu eins starfsmannahúss. Rúmist fram­kvæmdin innan deiliskipulags og því samræmist ákvörðun um veitingu byggingarleyfis reglum skipulags- og byggingarlöggjafar og reglugerða.

Í umsókn um leyfi sé vinnu við lagfæringu vegar lýst og frekari rök færð fram. Sé litið til eðlis hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar, svo sem henni sé lýst í umsókn, og til meðfylgjandi gagna, þ.m.t. þversniðs vegar, kennisniðs, verði að líta svo á að fyrir skipulagsnefnd hafi legið þær upplýsingar og nauðsynleg gögn í skilningi 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem framkvæma mætti eftir, sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Enn fremur sé á því byggt að veiting framkvæmdaleyfis með þeim skilyrðum sem lög og reglugerðir áskilji sé eitt, hitt sé svo sjálfstætt atriði hvernig reyni á leyfið.

Ekki sé um svo meiri háttar framkvæmdir að ræða eins og haldið hafi verið fram. Raunar meti skipulags- og byggingarfulltrúi það svo að framkvæmdirnar séu það óverulegar að til þeirra þurfi ekki leyfi. Einungis hafi verið um minni háttar viðhald að ræða. Einskorðist skoðun og afgreiðsla úrskurðarnefndarinnar við það hvort hinu kærða framkvæmdaleyfi hafi að lögum verið áfátt að formi til eða efni. Nefndin sé í engri aðstöðu til að leggja mat á það hvort framkvæmdirnar hafi verið umfram það sem leyft hafi verið. Til þess hafi hún engar heimildir. Sæti framkvæmdir eftirliti af hálfu sveitarstjórnar samkvæmt skipulagslögum og sé heimild til beitingar þvingunarúrræða í X. kafla laganna. Hafi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa, svo sem henni sé lýst og með hliðsjón af þeim forsendum sem hún hafi grundvallast á, verið lögmæt að formi til sem og efni og byggst á málefnalegum ástæðum. Beri því að hafna þeirri kröfu. Málsrök kærenda fyrir varakröfu séu með öllu haldlaus og sé bent á að eftir sem áður verði framkvæmdir sem leyfin taki til háðar samþykki þeirra. Þá sé rétt að árétta að ekki verði veitt leyfi fyrir hótelbyggingu fyrr en kominn sé varanlegur vegur að Orustustöðum samkvæmt deiliskipulagi.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá úrskurðar­nefndinni, en kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi verið sett fram. Tilvísanir kærenda til þess að þeir hafi eftir samskipti við skipulags- og byggingarfulltrúa talið að leyfi vegna framkvæmdanna yrðu felld úr gildi sé mótmælt. Slík samskipti lengi ekki lögbundinn kærufrest og ekki liggi fyrir í gögnum málsins að gefin hafi verið vilyrði um afturköllun áður en kæru­frestur hafi runnið út. Þá stofnist ekki nýr kærufrestur vegna ákvarðana skipulags- og byggingarfulltrúa frá 12. maí 2020. Afturköllunin hafi verið ólögmæt frá upphafi og hafi því ekki öðlast gildi og verið markleysa. Ekki sé því um kæranlega ákvörðun að ræða. Auk þess eigi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af byggingu starfsmannabúðanna. Þær séu svo langt frá jörð og húsum kærenda að þær hafi engin grenndaráhrif, hvorki hvað varði útsýni, hljóðvist, skuggavarp né annars konar grenndaráhrif. Aukin umferð vegna uppbyggingar þeirra sé ekki varanleg og hafi því ekki í för með sér grenndaráhrif umfram það sem búast hafi mátt við um greindan veg.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé bent á að óumdeilt sé að leyfishafi eigi umferðarrétt um þann veg sem liggi um land kærenda, enda sé hann eina aðkoman að jörð leyfishafa. Hafi leyfishafi fyrir margt löngu fengið útgefið framkvæmdaleyfi til að lagfæra veginn innan eigin lands og séu framkvæmdir við þá lagfæringu hafnar. Eigi leyfishafi umferðarrétt um slóðann, í samræmi við skipulag, sem sæti ekki sérstökum takmörkunum að lögum. Eingöngu sé deilt um eðli þess umferðarréttar, en sá ágreiningur sé utan valdssviðs úrskurðarnefndarinnar. Sá ágreiningur sé að auki þýðingarlaus hvað varði þau leyfi sem deilt sé um í máli þessu. Bygging starfsmannahúss og umferð því tengd sé örugglega innan þess umferðarréttar sem leyfishafi eigi. Byggingarleyfið verði því ekki fellt úr gildi á þeim forsendum. Framkvæmdaleyfi vegna vegarins sé bundið skilyrði um samþykki kærenda og verði því ekki fellt úr gildi á þeim forsendum að það vanti.

Fullyrðingum um að ráðist hafi verið í umfangsmiklar framkvæmdir við veginn sé mótmælt. Ekki hafi verið ráðist í framkvæmdir á veginum á grundvelli hins umdeilda framkvæmdaleyfis. Gerðar hafi verið óverulegar lagfæringar til að geta komist um veginn en þær séu ekki framkvæmdaleyfisskyldar. Aðeins hafi verið lagfærðar skemmdir sem einn kærenda hafi unnið á veginum með því að stífla ræsi, fjarlægja ræsi og grafa veginn í sundur. Sé leyfishafa heimil umferð um slóðann til framkvæmda á jörðinni og til að laga skemmdarverk landeiganda á veginum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur taka m.a. fram að fullyrðingar um að einungis sé um minni háttar viðhald að ræða hafi ekkert vægi enda byggi þær á huglægu mati skipulags- og byggingarfulltrúa eftir vettvangsferð. Enginn samanburður liggi fyrir um ástand slóðans fyrir og eftir framkvæmdir. Það eina sem sé óumdeilt er að slóðinn hafi ekki verið akfær öllum bílum en hann sé það eftir framkvæmdir leyfishafa. Þá sé rétt að taka fram til frekari skýringa að sá hluti vegslóðans sem liggi vestan megin við fasteignirnar í landi Hraunbóls, þ.e. frá landa­merkjum Foss og að fasteignunum sé nýttur sem aðkomuvegur eigenda. Austan megin við fasteignir innan eignarlands Hraunbóls hafi á köflum aðeins verið um hjólför að ræða og hafi slóðinn verið nýttur til heyskapar, er búskapur hafi verið stundaður á Hraunbóli, þegar ekið hafi verið um hann á traktor með heyvagn. Nú hafi þessum menningarsögulegum merkjum um búskapar­hætti fyrri tíma verið eytt fyrir veg sem sé akfær öllum bílum.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Í máli þessu er einkum deilt um gildi tveggja ákvarðana sem teknar voru í desember 2019, en kæra vegna þeirra barst úrskurðarnefndinni 13. maí 2020. Af hálfu kærenda er bent á að þeir hafi fyrst verið upplýstir um hinar kærðu ákvarðanir 4. febrúar 2020, en þeir hafi talið réttindum sínum borgið eftir að þeim hafi borist staðfesting frá skipulags- og byggingarfulltrúa á efni og skilyrði umræddra leyfa. Hafi þeir ekki talið þörf á því að beina kæru til nefndarinnar fyrr en 12. maí s.á. þegar þeim hafi orðið kunnugt um breytta afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa. Í málavöxtum er vikið að þeim tölvupóstsamskiptum sem skipulags- og byggingarfulltrúi átti við m.a. lögmann kærenda 4. og 10. febrúar, 2. mars, og 7. og 12. maí 2020. Að áliti úrskurðarnefndarinnar verður að miða við að kærufrestur hafi byrjað að líða þegar kærendum varð ljóst efni hinna kærðu ákvarðana 4. febrúar 2020, enda hafði þeim ekki verið kynnt það fyrr þrátt fyrir að hafa þá um hríð átt í samskiptum við fulltrúa sveitarfélagsins vegna fyrir­hugaðra framkvæmda. Áður en kærufresti lauk barst lögmanni kærenda tölvubréf skipulags- og byggingarfulltrúa, sem beint var til leyfishafa, um að næðist ekki samkomulag um vegabætur að Orustustöðum væri ekki annað fært en að fella úr gildi framkvæmdaleyfi fyrir endurbótum vegarins, sem og byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum. Gekk það eftir með ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa 7. maí 2020, sem síðan var afturkölluð 12. s.m. Eins og sakir stóðu var því ekki tilefni fyrir kærendur að beina kæru til úrskurðarnefndarinnar fyrr en þá, sem þeir og gerðu án ástæðulauss dráttar. Eins og hér stendur sérstaklega á þykir því afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en að auki verður ekki séð að kærendum hafi verið leiðbeint um kæruheimild og kærufrest. Verður máli þessu því ekki vísað frá af þeim sökum að kærufrestur hafi verið útrunninn.

Í 3. mgr. nefndrar 4. gr. laga nr. 130/2011 er kveðið á um að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Með hinu kærða byggingarleyfi er veitt leyfi til byggingar þriggja starfsmannahúsa að Orustustöðum. Ekki er hægt að játa kærendum kæruaðild á þeim grundvelli einum að þeir telji sig eiga hagsmuna að gæta af því að ekki verði af byggingu hótels á landi Orustustaða og öðru því tengdu, heldur verður að gera þá kröfu að hinar umdeildu ákvarðanir raski einstaklingsbundnum og verulegum hagsmunum þeirra. Við það mat verður því að líta til annarra atriða. Umræddar byggingar munu standa í töluverðri fjarlægð frá fasteignum kærenda. Með hliðsjón af því verður ekki séð að hagsmunir þeirra muni skerðast í þeim mæli að skapi þeim kæruaðild. Er þá jafnframt til þess að líta að byggingarleyfið veitir einvörðungu heimild til byggingar téðra húsa en felur t.d. ekki í sér heimild til umferðar um land kærenda. Þykja framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingar­leyfi því ekki vera þess eðlis að þær snerti grenndarhagsmuni eða aðra einstaklega lögvarða hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir geti talist eiga kæruaðild hvað varðar byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum að Orustustöðum. Eðli málsins samkvæmt eiga þeir þá ekki heldur aðild að ákvörðun skipulags- og byggingar­fulltrúa um að afturkalla afturköllun sína á því leyfi. Kröfum kærenda hvað þessar ákvarðanir varðar verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Svo sem frá er greint í málavöxtum er gert er ráð fyrir því í deiliskipulagi vegna hótels í landi Orustustaða að aðkoma að fyrirhuguðu hóteli sé frá þjóðvegi 1 eftir núverandi vegi sem liggi að Hraunbóli. Er tekið fram í skipulaginu að þar sem enginn vegur liggi að Orustustöðum, aðeins slóðar, sé gert ráð fyrir nýjum 1,7 km vegkafla sem liggi af núverandi vegi rétt vestan við Hraunból. Hið kærða framkvæmdaleyfi heimilar hins vegar lagfæringar á hluta núverandi vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða þannig að vegurinn verði akfær öllum bílum. Er þannig ekki veitt heimild fyrir lagningu hins nýja vegar sem gert er ráð fyrir í greindu deiliskipulagi, heldur leyfi til að lagfæra veg sem fyrir er í landi Hraunbóls. Halda kærendur því fram að í raun sé um slóða að ræða sem á köflum hafi einungis verið hjólför og er það í samræmi við það sem kemur fram í skipulagsáætlunum um aðkomu að Orustustöðum.

Ágreiningur máls þessa lýtur að miklu leyti að réttindum yfir áðurnefndum vegslóða. Slóðinn liggur að Orustustöðum í gegnum eignarland Hraunbóls/Sléttabóls 2, en samkvæmt 13. gr. vegalaga nr. 80/2007 hafa eigendur einkavega veghald þeirra. Í því felst samkvæmt skilgreiningu 5. tl. 3. gr. laganna á veghaldi að þeir hafa forræði yfir vegi og vegstæði, þ.m.t. vegagerð, þjónustu og viðhaldi vega. Leyfishafi telur sig eiga umferðarrétt um slóðann og að í honum felist réttur til lagfæringa svo hann fáið notið þess réttar. Þessu er harðlega mótmælt af kærendum. Hvorugur aðila hefur gert reka að því að fá úr þessum ágreiningi skorið, t.d. fyrir dómstólum sem eru til þess bærir að leysa úr honum. Til þess er úrskurðarnefndin hins vegar ekki bær, heldur einskorðast valdheimildir hennar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar lögum samkvæmt.

Hið kærða framkvæmdaleyfi lýtur að framkvæmdum við umþrættan vegslóða. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku. Við meðferð málsins var lögð fram skrifleg umsókn um framkvæmdaleyfi þar sem því var lýst hvernig framkvæmdinni yrði hagað. Hreinsað yrði úr gamla vegstæðinu efni sem ekki væru frostfrí, fyllt í með burðarhæfu efni og fláar lagaðir þannig að efni sem hreinsað yrði upp úr vegstæði yrði notað í fláa meðfram veginum. Var tekið fram að lagfæringar yrðu gerðar samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðarinnar og þversniði 2.1.11. vegtegund D á þeim stöðum sem nauðsynlegt væri til að gera veginn akfæran. Hafa skipulagsnefnd og sveitarstjórn Skaftárhrepps metið það svo að framkvæmd sú sem sótt var um leyfi fyrir sé framkvæmdaleyfisskyld, en í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi er tekið fram að framkvæmdir sem geti verið háðar framkvæmdaleyfi, sbr. 4. gr., séu m.a. nýir vegir og enduruppbygging vega. Verður í kærumáli þessu því tekin afstaða til þess hvort hinu kærða framkvæmdaleyfi hafi að lögum verið áfátt að formi til eða efni.

Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn m.a. fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga, og er tiltekið í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að allar framkvæmdir sem teljist meiri háttar, hafa áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Vegslóði sá sem um ræðir sést á skipulagsuppdrætti deiliskipulags vegna hótels í landi Orustustaða, en skipulagið tekur ekki til hans þar sem hann liggur um land Hraunbóls/Sléttabóls 2 og er ekki um hann fjallað í greinargerð skipulagsins. Ekki er að sjá að sérstaklega sé fjallað um slóðann í greinargerð Aðalskipulags Skaftárhrepps 2010-2022, en í greinargerð með breytingu þeirri er gerð var á aðalskipulaginu í tilefni af þeim áformum sem fyrirhuguð eru á jörðinni Orustustöðum er vikið að því að slóðar liggi að landi Orustustaða að austan- og vestanverðu. Þá segir m.a. í aðalskipulaginu að héraðsvegum (safnvegir) og einkavegum sé ekki gerð sérstök skil í aðalskipulagi, en þeir helstu sýndir á skipulagsuppdrætti. Á skipulagsuppdrætti með Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022 fyrir umrædda breytingu er slóðinn sýndur liggja í átt að vestanverðum landamerkjum Orustustaða. Eftir aðalskipulagsbreytinguna er hann sýndur styttri og endar samkvæmt breyttum uppdrætti skammt sunnan við Hraunból. Gerir enda breytt aðalskipulag ráð fyrir því að uppbygging vegar að Orustustöðum verði eftir annarri veglínu sem á uppdrætti er sýnd sunnan við núverandi vegslóða áður en hún sveigir aftur til norðurs þar sem hún mætir slóðanum við áðurnefnd landamerki Orustustaða. Þótt aðalskipulag geri ráð fyrir að einkavegum sé ekki gerð sérstök skil og aðeins þeir helstu sýndir á skipulagsuppdrætti er ekki hægt að líta fram hjá því að hið kærða framkvæmdaleyfi heimilar að sá hluti vegslóða sem hefur verið afmáður af aðalskipulagsuppdrætti verði lagfærður, þar sem það á við, með þeim hætti að hann uppfylli viðmið um vegtegund D. Þrátt fyrir framangreint fjölluðu hvorki skipulagsnefnd né sveitarstjórn um eða tóku afstöðu til þess hvort framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir, svo sem áskilið er í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

Tekið er fram í 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að framkvæmdaleyfi skuli gefið út á grundvelli deiliskipulags, en svo sem áður er fram komið tekur deiliskipulag vegna hótels í landi Orustustaða ekki til umdeilds vegslóða þar sem hann liggur um land Hraunbóls/Sléttabóls 2. Víkja má frá greindu skilyrði samkvæmt 5. mgr. 13. gr. skipulags­laga sem segir að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Þá er heimilt að falla frá grenndarkynningu ef gerð er grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Eins og fyrr greinir var ekki tekin afstaða til samræmis við skipulagsáætlanir við meðferð málsins hjá skipulagsnefnd og sveitar­stjórn. Að auki er rétt að benda á að þrátt fyrir að telja megi að heimiluð framkvæmd sé alvanaleg og almennt þarfnast ekki ítarlegrar skýringar er sá hluti vegslóðans sem til stóð að lagfæra ekki lengur sýndur á aðalskipulagsuppdrætti. Að því virtu, og að teknu tilliti til þess sem áður er rakið um gildandi aðalskipulag, er ljóst að því fer fjarri að þar sé ítarlega fjallað um framkvæmdina. Voru því ekki uppfyllt lagaskilyrði til að veita hið umdeilda framkvæmdaleyfi án grenndarkynningar. Þykir í því sambandi engu breyta þótt þegar hafi legið fyrir afstaða kærenda til vegaframkvæmda í landi þeirra.

Þar sem ekki var gætt ákvæða 4. og 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga við veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis verður það óhjákvæmilega fellt úr gildi.

Fyrir liggur að framkvæmdir hafa þegar átt sér stað við vegslóðann og greinir aðila máls þessa á um hvort þær framkvæmdir falli innan þess framkvæmdaleyfis sem úrskurðarnefndin hefur komist að niðurstöðu um að fella verði úr gildi. Er því áður lýst hvernig framkvæmdum við veginn skyldi háttað samkvæmt umsókn um leyfi, en í kæru kemur fram að leyfishafi hafi borið í slóðann á a.m.k. fimm stöðum auk þess sem ræsi hafi verið sett niður. Vegurinn sé nú akfær öllum bílum, líkt og falist hafi í umsókn um framkvæmdaleyfi. Af hálfu leyfishafa er því mótmælt að ráðist hafi verið í umfangsmiklar framkvæmdir við veginn, eingöngu hafi verið lagfærðar þær skemmdir sem einn kærandi hafi unnið á veginum, s.s. með því að stífla ræsi eða grafa þau í burtu.

Samkvæmt 16. gr. skipulagslaga hefur sveitarstjórn eftirlit með því að framkvæmdir séu í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi og er skipulagsfulltrúa falið það eftirlit í umboði sveitarstjórnar, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Þá er það á hendi skipulagsfulltrúa að stöðva framkvæmd tafarlaust sé leyfisskyld framkvæmd hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni, sbr. 16. gr. reglugerðarinnar. Svo sem áður er rakið tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi í tölvubréfi til aðila málsins 7. maí 2020 að framkvæmdir skyldu tafarlaust stöðvaðar m.a. þar sem ekki lægi fyrir samkomulag um uppbyggingu aðkomuvegar að Orustustöðum. Nokkrum dögum síðar kynnti skipulags- og byggingarfulltrúi sér aðstæður á vettvangi og taldi að skoðun lokinni að ekki væri um óleyfisframkvæmdir að ræða heldur minni háttar viðhald og hefði því ekki reynt á framkvæmdaleyfið. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja ljósmyndir sem skipulags- og byggingarfulltrúi tók að beiðni nefndarinnar og sýna myndirnar slóðann eins og hann er nú. Þá eru meðal gagna málsins lögregluskýrsla og ljósmyndaskýrsla lögreglu sem þykja varpa ljósi á ástand slóðans eins og hann var fyrir hinar umdeildu lagfæringar. Kemur þar m.a. fram að ræsi hafi verið fjarlægt af hálfu eins kærenda. Ekki er hægt að telja framkvæmdaleyfisskylt að setja niður ræsi að nýju og þykja önnur gögn málsins styðja það mat skipulags- og byggingarfulltrúa að um minni háttar viðhald hafi verið að ræða sem ekki hafi þarfnast framkvæmdaleyfis. Hefur þá ekki verið tekin afstaða til þess hvort leyfishafa hafi verið þær framkvæmdir heimilar að virtum réttindum kærenda. Verði af frekari framkvæmdum skal sem áður á það bent að ágreiningur um umferðarrétt og inntak hans á ekki undir úrskurðarnefndina. Verða kærendur því að byggja á öðrum réttarreglum, t.a.m. um lögbann, vilji þeir ekki þola hagnýtingu leyfishafa og verður hann sömuleiðis að nýta sér önnur úrræði, s.s. um innsetningu, eða eftir atvikum höfða dómsmál, vilji hann fá úr rétti sínum skorið.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 16. desember 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi til lagfæringar á hluta vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða.

Öðrum kröfum kærenda er vísað frá úrskurðarnefndinni.