Árið 2020, föstudaginn 28. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 67/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 25. júní 2020 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur spildunnar Grjótárgerðis, Þingeyjarsveit, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 25. júní 2020 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu. Er þess m.a. krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 21. ágúst 2020.
Málsatvik og rök: Á árinu 2019 var óskað heimildar til að fara að 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hefja vinnu við deiliskipulag fyrir hluta jarðarinnar Fjósatungu í Fnjóskadal vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar frístundabyggðar. Skipulagslýsing var auglýst og í kjölfar athugasemda og umsagna var unnin deiliskipulagstillaga. Hinn 26. mars 2020 samþykkti sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu vegna uppbyggingar frístundabyggðar. Tillagan var auglýst og frestur gefinn til athugasemda til 20. maí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar 18. júní 2020 var lagt til við sveitarstjórn að hún samþykkti fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu með áorðnum breytingum í samræmi við svör nefndarinnar við innsendum athugasendum. Jafnframt lagði nefndin til að skipulagsfulltrúa yrði falið að sjá um málsmeðferð vegna gildistöku tillögunnar í samræmi við lög og reglugerðir. Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 25. júní 2020 var tekin fyrir fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 18 s.m. Samþykkti sveitarstjórn tillögu að nýju deiliskipulagi Fjósatungu að teknu tilliti til athugasemda/umsagna og svara nefndarinnar. Var og bókað að skipulagsfulltrúa væri falin málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagsins.
Kærendur vísa m.a. til þess að deiliskipulagstillagan lúti að landnýtingu jarðarinnar Fjósatungu, Þingeyjarsveit sem liggi að og umlyki spildu kærenda, Grjótárgerði. Breytt deiliskipulag hafi bein og mikil áhrif á nýtingu þeirrar frístundalóðar vegna gríðarlegs þéttleika og byggingarmagns sem hið kærða deiliskipulag geri ráð fyrir.
Af hálfu Þingeyjarsveitar er krafist frávísunar. Umþrætt deiliskipulag hafi ekki tekið gildi og gildistaka þess ekki auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Málsmeðferð deiliskipulags samkvæmt ákvæði 42. gr. skipulagslaga standi nú yfir. Þar sé gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun taki deiliskipulag til athugunar og fari yfir það hvort efnis- eða formannmarkar séu á samþykktu deiliskipulagi. Nú séu ekki lögvarðir hagsmunir kærenda til kærumálsmeðferðar enda ríki óvissa um gildistöku ákvörðunar og endanlegt efni hennar. Því beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Þá skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Auglýsing hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda vegna deiliskipulags Fjósatungu en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Jafnframt liggur fyrir að Skipulagsstofnun hefur ekki lokið yfirferð sinni á deiliskipulaginu, sbr. fyrirmæli 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga þar um, og hefur af hálfu Þingeyjarsveitar verið vísað til þess að ekki liggi fyrir hver afgreiðsla stofnunarinnar verði á hinu umdeilda deiliskipulagi. Þar sem óvissa ríkir um afdrif deiliskipulagsins og lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem skilyrði þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar eru ekki uppfyllt, verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.
Árétta skal að ljúki meðferð deiliskipulagsins með gildistöku þess með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda telst mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar frá þeirri birtingu.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.