Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2011 Úrskurður vegna kæru Jóns Inga Cæsarssonar gegn Akureyrarkaupstað vegna framkvæmdar sorphirðu.

Mál nr. 17/2011.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, fimmtudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2011 Jón Ingi Cæsarsson,  Ránargötu 30, Akureyri gegn Akureyrarkaupstað.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 26. júlí 2011, kærði Jón Ingi Cæsarsson (hér eftir nefndur kærandi) framkvæmd sorphirðu af hálfu Akureyrarkaupstaðar (hér eftir nefndur kærði), sem feli í sér ?að láta fólk ganga með heimilisúrgang í gámastöðvar.? Kærði krefst þess aðallega að kæru málsins verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfu kæranda verði hafnað, hvort tveggja vegna þess að kærandi byggi mál sitt á reglum sem gildi ekki fyrir Akureyrarkaupstað.

II. Málsmeðferð

Kærandi málsins beindi kæru sinni til umhverfisráðuneytisins sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 17. ágúst 2011. Kæran byggir á kæruheimild í 1. mgr. 39. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 22. ágúst 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 29. ágúst 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf honum kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Auk þess fór úrskurðarnefndin þess á leit að kærandi gerði nefndinni grein fyrir hvort samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað nr. 670/2011 breytti á einhvern hátt umkvörtunarefni hans. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 12. september 2011 og voru þær kynntar fyrir kærða með bréfi, dags. 15. september 2011. Frekari gögn hafa ekki borist.

III. Málstæður og rök kæranda

Í kæru kveðst kærandi hafa verið gagnrýninn á þann hluta úrgangsmála á Akureyri sem gangi út á að láta fólk ganga með heimilisúrgang í gámastöðvar og það í sumum tilvikum langa leið. Heldur kærandi því fram að þar með sé brotið ákvæði í samþykktum sveitarfélaga um fyrirkomulag sorphirðu. Kveður kærandi það vera sitt mat að ekkert undanþáguatriði sé í reglugerð sem heimili Akureyrarkaupstað að víkjast undan að sækja allan heimilisúrgang að heimilum og þar með telji hann að notkun og uppsetning gámastöðva í hverfum bæjarins sé brot á reglum bæjarins og annarra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Vísar kærandi í kæru sinni til 3. gr. samþykktar um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000.

Í athugasemdum við greinargerð kærða kveður kærandi að þær reglur sem hann hafi vísað til hafi verið á heimasíðu Akureyrarkaupstaðar sem fullgilt gagn í ágúst 2011. Hann kveður að það fyrirkomulag að íbúar bæjarins hafi verið skikkaðir til að fara með hluta af úrgangi á gámastöðvar hafi ríkt frá því seinni hluta árs 2010 og því hafi íbúar mánuðum saman verið að framkvæma gjörning sem hafi verið óheimill. Einnig kveður kærandi að íbúum á Akureyri hafi verið gróflega mismunað því öll sveitarfélög sem tekið hafi upp flokkunarfyrirkomulag á Íslandi bjóði upp á tunnu við heimahús þar sem flokkaður úrgangur sé sóttur að heimilum fólks. Það að skikka fólk til að fara verulegar vegalengdir með úrgang sinn í flokkunarstöðvar dragi úr árangri flokkunar, auki mengun og slysahættu og sé því veruleg skerðing á þeim möguleikum sem umhverfi og náttúra njóti með flokkun úrgangs. Þá kveður kærandi að íbúar sem vilji flokka við heimahús eigi þann kost að leigja sér tunnu til að hafa við heimili sitt en því fylgi verulegur viðbótarkostnaður sem bætist við úrgangsgjald sem bærinn leggi á íbúana.

IV. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að árið 2000 hafi verið sett samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, nr. 541/2000 og hafi samþykktin gilt um Byggðasamlög um sorpeyðingu og sveitarsjórnir þeirra sveitarfélaga sem ekki voru aðilar að slíkum byggðasamlögum. Akureyrarkaupstaðar hafi á þeim tíma verið í Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs., en hafi sagt sig úr byggðasamlaginu árið 2007 og það sama ár hafi verið ákveðið að slíta því. Þá segir í greinargerðinni að þann 26. apríl 2011 hafi umhverfisráðuneytið samþykkt breytingu á samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000 þess efnis að heiti samþykktarinnar varð ?Samþykkt um sorphirðu eftirtalinna sveitarfélaga á Norðurlandi eystra: Dalvíkurbyggðar, Hörgárbyggðar, Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps, Grýtubakkahrepps, Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps, Norðurþings, Tjörneshrepps og Svalbarðshrepps?. Akureyrarbær sé því ekki lengur aðili að þeirri samþykkt sem kærandi vísi til og sem kærandi telji kærða vera að brjóta með sorpfyrirkomulagi sínu.

Þá segir í greinargerðinni að samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað, nr. 670/2011, hafi verið samþykkt í bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar þann 19. október 2011 [innskot: á að vera 2010], staðfest af ráðherra 22. júní 2011 og birt í Stjórnartíðindum þann 6. júlí 2011. Með hinni nýju samþykkt hafi verið gerð sú breyting að Akureyrarkaupstaður sjái um söfnun og meðhöndlun heimilisúrgangs frá heimilum í sveitarfélaginu og sjái til þess að reknar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir almennan neysluúrgang, annan en hefðbundinn heimilisúrgang.

V. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 er kveðið á um að sveitarstjórn skuli ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í viðkomandi sveitarfélagi. Enn fremur er þar kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skuli sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem falli til í sveitarfélaginu. Jafnframt að sveitarstjórn geti sett sveitarfélaginu sérstaka samþykkt þar sem tilgreind séu atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögum um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þá er tekið fram að í slíkri samþykkt sé m.a. heimilt að kveða á um skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang.

Um gerð og staðfestingu samþykkta um meðhöndlun úrgangs fer samkvæmt 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunavarnir nr. 7/1998. Í 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er m.a. kveðið á um að sveitarstjórnum sé heimilt að setja sér eigin samþykkt sem varði meðferð úrgangs og skolps. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga skal heilbrigðisnefnd semja drög að samþykktum og leggja fyrir viðkomandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra. Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. sömu laga skulu samþykktir sveitarfélaga birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélaga.

Í málatilbúnaði sínum vísar kærandi til 3. gr. samþykktar um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og heldur því fram að kærði hafi brotið gegn þeirri samþykkt. Kærði var um tíma eitt þeirra sveitarfélaga sem var aðili að samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Í dag er málum hins vegar háttað á annan veg og hefur verið sett sérstök samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til að sú samþykkt hafi ekki verið sett með lögformlegum hætti samkvæmt framangreindum ákvæðum 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, en hún var samþykkt af hálfu umhverfisráðuneytisins þann 22. júní 2011 og birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 6. júlí 2011.

Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað nr. 670/2011 tók gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda þann 6. júlí 2011 og var hún því í gildi þegar kæra barst frá kæranda máls þessa. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. þeirrar samþykktar skal setja úrgang sem fellur til daglega við venjulegt heimilishald í sorpílát sem nánar er fjallað um í 8. gr. samþykktarinnar. Gera verður ráð fyrir að því ákvæði hafi verið fylgt enda hefur öðru ekki verið haldið fram og af málatilbúnaði kæranda verður ekki ráðið að hann telji kærða hafa brotið gegn gildandi samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Akureyrarkaupstað. Af þeim sökum sér úrskurðarnefndin sér ekki annað fært en að vísa kæru máls þessa frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru Jóns Inga Cæsarssonar varðandi sorphirðu í Akureyrarkaupstað er vísað frá úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal Arndís                        Soffía Sigurðardóttir

Date: 11/21/11