Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

6/2005 Úrskurður vegna kæru Jóns Bergkvistssonar gegn Austurbyggð

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005, föstudaginn 11. nóvember kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 6/2005 Jón Bergkvistsson gegn Austurbyggð.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I.

Erindi Jóns Bergkvistssonar, Búðavegi 10 A, 750 Fáskrúðsfirði er dags. 25. apríl 2005. Litið er á erindið sem stjórnsýslukæru og er því Jón hér eftir nefndur kærandi. Kærð er álagning Austurbyggðar (áður Búðahrepps) á álagningu sorphirðugjalds á fasteignir kæranda að Hlíðargötu 12 og Hafnargötu 41 á Fáskrúðsfirði. Austurbyggð er hér eftir nefnd kærði. Kærandi óskar eftir áliti á því hvort sveitarfélag geti innheimt sorphirðu- og sorpeyðingargjöld óháð því hvort þjónusta er innt af hendi eða ekki og ennfremur hvort kærandi teljist hafa greitt fullnægjandi fyrir sorphirðu með því að greiða gjöld v. þess húsnæðis sem hann býr í. Í ljósi þessa lítur úrskurðarnefnd svo á að kærandi geri kröfu um niðurfellingu sorphirðugjalds vegna fasteignanna Hlíðargötu 12 og Hafnargötu 41 á Fáskrúðsfirði. Kærða var sent afrit af gögnum kæranda með bréfi dags. 16. maí s.l. og sendi greinargerð ásamt gögnum með bréfi dags. 30. maí s.l. Bréfi kærða fylgdu eftirfarandi gögn:

1) Afrit af bréfi nefndarinnar ásamt kærubréfi kæranda.

2) Afrit af bréfi Austurbyggðar dags. 20. janúar 2005.

3) Afrit af bréfi kæranda dags 6. janúar 2005.

4) Afrit af bréfi umhverfisráðuneytis dags. 10. desember 2004.

5) Afrit af bréfi til kæranda dags. 19. október 2004.

6) Afrit af bréfi til umhverfisráðuneytis dags. 3. nóvember 2004.

7) Afrit af bréfi kæranda dags. 30. september, 2004.

8) Afrit af bréfi umhverfisráðuneytis dags. 15. september 2004.

9) Afrit af bréfi kæranda dags. 30. júlí 2004.

10) Afrit af bréfi kærða dags. 9. maí 2003.

11) Afrit af bréfi kærða dags. 10. mars 2003.

12) Afrit af bréfi kæranda dags. 3. mars 2003.

13) Afrit af bréfi kærða dags. 20. mars 2001.

14) Afrit af bréfi kæranda dags. 29. janúar 2001.

15) Afrit af bréfi kærða dags. 17. janúar 2001.

16) Afrit af úrskurði úrskurðarnefndar dags. 29. maí 2000.

17) Afrit af svari frá Sambandi ísl. Sveitarfélaga við fyrirspurn í kjölfar bréfs kæranda 30. september 2004 og bréfs Umhverfisstofnunar 15. september 2004.

18) Gjaldskrá fyrir sorphirðu í Austurbyggð 2005.

Gögn kærða voru send kæranda með bréfi dags. 9. júlí. Svarbréf kæranda er dags. 23. júlí 2005.

II.

Kærandi lýsir málavöxtum á þá leið að hann sé sjálfstæður atvinnurekandi með smábátaútgerð á Fáskrúðsfirði. Hann sé eigandi að einbýlishúsi að Hlíðargötu 12 og að einbýlishúsi að Búðavegi 10A á Fáskrúðsfirði. Þess utan sé hann eigandi að Hafnargötu 41 s.st. sem sé sjóhús með bátaskýli og bryggju. Hann kveður ekki hafa verið búið að Hlíðargötu 12 í fjölda ára og séu engin sorpílát við húsið og ekkert sorp hafi verið hirt þaðan. Ekki séu heldur sorpílát við Hafnargötu 41 og það litla sem til hafi fallið þar hafi kærandi sjálfur séð um losun á. Kveðst kærandi hafa búið að Búðavegi 10A ásamt aldraðri móður þar til hún féll frá á árinu 2003 en síðan hafi hann búið einn í húsinu. Kærandi kveður að fram til ársins 2001 hafi Austurbyggð fellt niður gjöldin af Hafnargötu 41 og Hlíðargötu 12 af ofangreindum ástæðum, þ.e. að sveitarfélagið hafi ekki þurft að veita neina sorphirðuþjónustu þeirra vegna.

Hinnn 17. janúar 2001 hafi sveitarstjóri kærða tilkynnt kæranda að heimild til niðurfellingar á sorphirðu- og sorpeyðingargjöldum hafi verið felld úr gildi og kæranda gert að greiða álögð gjöld á umræddar fasteignir. Þessu hafi kærandi strax mótmælt með bréfi dags. 29. janúar, 2001 þar sem ekkert hefði breyst varðandi búsetu eða notkun á viðkomandi húsnæði að Hlíðargötu 12 og Hafnargötu 41 og því væri þetta gjaldtaka fyrir þjónustu sem ekki hefði verið innt af hendi af sveitarfélaginu. Erindinu hafi verið hafnað af kærða. Í ársbyrjun 2003 hafi kærði breytt um aðferð og leggi tunnugjald kr.12.100 pr. tunnu í stað sorphirðu- og sorpeyðingargjalda. Hafi þá kærandi aftur mótmælt bréflega hinn 3. mars 2003 þar sem við tilgreindar fasteignir við Hlíðargötu og Hafnargötu hafi aldrei verið sorptunnur og að kærði hafi ekki séð ástæðu til að leggja þær til við þessi hús þar sem starfsmenn kærða hafi vitað að þeirra hafi ekki verið þörf. Hafi því kærandi óskað eftir því að fá tunnugjöldin felld niður þar sem enn væri um tilefnislausa gjaldtöku að ræða. Sveitarstjóri kærða hafi svarað þessu með því að láta starfsmenn sína fleygja tómum tunnum inn á lóðir viðkomandi húsa, væntanlega til að réttlæta gjaldtökuna. Kærandi hafi skilað þeim aftur í áhaldahús kærða þar sem þeirra hafi ekki verið þörf.

Kærandi kveður koma fram í samþykkt kærða 7. gr. að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Gjöld skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti framangreindrar þjónustu. Vísar kærandi til þess að þar sem um sé að ræða gjald fyrir veitta þjónustu en ekki skatt veki það upp spurningar um lögmæti framangreindrar framkomu sveitarfélagsins. Vísar kærandi til þess að hann hafi áður sent mál þetta til félagsmálaráðuneytis sem hafi vísað því til umhverfisráðuneytis. Fram komi í áliti ráðuneytisins að sé engin þjónusta veitt af hálfu sveitarfélagsins sé að mati ráðuneytisins óheimilt að innheimta fyrir hana. Kærandi bendir á að kærði hafi ekki fallist á þessa niðurstöðu sbr. bréf hans dags. 20. júní 2005. Óumdeilt sé að á vegum kærða sé veitt sorphirðuþjónusta sem sitt kosti að reka, en þegar fyrir liggi í upphafi hvers árs að ekki sé þörf á þessari þjónustu vegna ofangreindra fasteigna líti kærandi svo á að sveitarfélagið sé vísvitandi að misskipta kostnaðinum. Kostnaðinum skuli skipta milli þeirra sem þjónustuna nota.

Þá telur kærandi að sveitarfélagið misbeiti valdi sínu með því að innheimta í einu lagi fyrir lögboðin fasteignagjöld og þjónustugjöld. Þar með sé íbúum gert ókleift að skilja á milli þessara gjalda við greiðslu og hafi forsvarsmenn sveitarfélagsins enga löngun til að leita svara við ágreiningsmálum. Fjármunir fyrir þjónustugjöld séu innheimtir í skjóli lögboðinna fasteignagjalda og ekki hlustað á neinar mótbárur. Því óskar kærandi eftir áliti á því :

1) Hvort sveitarfélag geti innheimt sorphirðu- og sorpeyðingargjöld óháð því hvort þjónustan sé innt af hendi eða ekki,

2) Hvort kærandi teljist ekki hafa greitt fullnægjandi fyrir sorphirðu með því að greiða af því húsnæði sem hann raunverulega býr í að Búðavegi 10A.

Með bréfi dags. 23. júlí s.l. svaraði kærandi framlögðum gögnum kærða í málinu. Telur kærandi að enn á ný hafi kærða mistekist að svara ágreiningsefninu. Vísar hann enn á ný til þess að ekki sé veitt þjónusta nema við eina fasteigna hans. Ítrekar kærandi að sorphirðugjöld hafi verið felld niður í nokkur ár af fasteignum hans að Hlíðargötu og Hafnargötu þar sem viðurkennt hafi verið að ekki hafi nein þjónusta verið veitt þar. Bendir hann á að óþolandi stjórnsýsluhættir séu að íbúar þurfi að búa við það að sveitarstjóri og sveitarstjórn geti ákveðið eftir því hvernig á þeim liggur hvort þjónusta teljist hafa verið veitt og hvort greiða skuli fyrir hana eða ekki. Kveður kærandi það von sína að úrskurðarnefnd taki undir það sjónarmið að slíkir stjórnsýsluhættir séu hverju sveitarfélagi til skammar burtséð frá því hver niðurstaða mála verði.

III.

Í bréfi kærða dags. 30. maí 2005 er vísað til meðfylgjandi gagna til rökstuðnings synjunar sveitarfélagsins á því að fella niður sorphirðugjöld af tveim fasteignum í eigu kæranda. Í svarbréfi kærða dags. 9. maí 2003 kemur fram að gjald fyrir sorphirðu og sorpeyðingu sé lagt á allar húseignir í hreppnum og fylgi þar með rétturinn til þess að fá þá þjónustu hvort sem hún sé mikið eða lítið nýtt. Gjald vegna þessa svari til gjalds fyrir eina tunnu og sé óháð fjölda íbúa og því hve stóran hluta árs eignin sé notuð. Gerir svo sveitarstjóri kærða grein fyrir því að kostnaður við sorphirðu og sorpeyðingu kærða sé miklu mun meiri en innkomnar tekjur. Er erindi hafnað með þeim rökum að í einni fasteigninni sé um að ræða vinnustað sem sé aðsetur starfsmanns og því skuli greitt fyrir sorphirðu og sorpeyðingu sem svari til gjalds fyrir eina tunnu. Þar falli til sorp vegna aðstöðu starfsmanna sem flokkist undir heimilissorp. Í bréfi kærða frá 20. mars 2001 kemur fram að rök fyrir því að ekki sé samþykkt að fella niður gjöld af öðrum eignum kæranda sé að sveitarfélagið sé skyldugt til að bjóða upp á þessa þjónustu að taka við sorpi og koma því fyrir með viðurkenndum hætti. Ekki sé gerður greinarmunur á því hvort eigandi eignar noti þjónustu mikið eða lítið eða ekki neitt, sama gjald sé á hverja eign. Þjónusta standi öllum til boða og lagt hafi verið í umtalsverðan stofnkostnað til að geta veitt þessa þjónustu í samræmi við lög og reglugerðir þar um. Telur kærði rétt að fram komi að þrátt fyrir álögð gjöld þá kosti þjónusta sveitarfélagsins töluvert meira en fáist við innheimtu þessara gjalda. Kærði leggur fram í málinu m.a. úrskurð úrskurðarnefndar frá árinu 2000. Í úrskurði þeim er vísað frá kæru vegna álagningar sorphirðugjalda þar sem fasteign var ekki í notkun.

IV.

Deilt er í máli þessu um álagningu sorphirðugjalda á fasteignir að Hliðargötu 12 og Hafnargötu 41 á Fáskrúðsfirði, sem báðar eru í eigu kæranda. Kærandi kveður ekkert sorp falla til vegna fasteignanna en kærði vísar til þess að sorp falli til vegna vinnustaðar starfsmanna að Hafnargötu 41 en kærandi kveðst sjálfur hafa séð um losun á því litla sem þar hafi til fallið.

Í 9. gr. l. nr. 45/1998 kemur fram að sveitarstjórnir hafi ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélag annast, að svo miklu leyti sem ekki séu settar um það reglur í löggjöf. Í 11. gr. rgl. um úrgang nr. 805/1999 kemur fram að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglubundinni tæmingu og flutningi heimilisúrgangs á viðkomandi svæðum. Í 25. gr. l.nr. 7/1998 segir m.a. að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin og síðar segir áfram að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu en gjöld megi ekki vera hærri en nemur kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Í samræmi við framangreint hefur kærði sett sér gjaldskrá fyrir sorphirðu í Austurbyggð, nr. 1087 frá 30. desember 2004.

Í samræmi við framangreint er litið svo á að sorphirðugjald sé bundið veittri þjónustu þó ekki komi slíkt fram í gjaldskrá kærða.

Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 lítur svo á að sorphirðugjald sé bundið veittri þjónustu. Ekki kemur fram í gögnum málsins að ágreiningur sé með aðilum um hvort sorp falli til frá tilgreindum fasteignum. Verður því að líta svo á að ágreiningslaust sé að sorp falli ekki til vegna fasteignarinnar að Hlíðargötu 12 á Fáskrúðsfirði en að sorp falli til vegna Hafnargötu 41, enda sé það vinnustaður. Með tilvísan til þessa er fallist á kröfu kæranda varðandi sorphirðugjöld af Hlíðargötu 12 á Fáskrúðsfirði, en hafnað er kröfu kæranda um niðurfellingu sorphirðugjalda af Hafnargötu 41.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda um að ekki beri að greiða sorphirðugjöld vegna fasteignar hans að Hlíðargötu 12 á Fáskrúðsfirði. Kröfu kæranda um niðurfellingu sorphirðugjalds af Hafnargötu 41 á Fáskrúðsfirði er hafnað.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                                Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 11/25/05