Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Mál 2/2003 Austurkot á Vatnsleysuströnd

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2003 föstudaginn 25. júlí, kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu Gunnars Eydal í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr 2/2003 kæra Stefáns Árnasonar, Austurkoti, Vatnsleysuströnd gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður.

I.

Stjórnsýslukæra kæranda, barst nefndinni með bréfi umhverfisráðuneytis dags. 27. mars, 2003.  Kærunni fylgdu afrit bréfa lögmanns kæranda til kærða dags. 10. júlí, 2002, 30. júlí 2002 og 15. ágúst 2002 svo og afrit af bréfum kærða til lögmannsins dags. 24. júlí, 2002 og 27. ágúst 2002.  Með bréfi dags. 11. júní s.l. var óskað eftir greinargerð Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, sem barst með bréfi lögmanns þeirra dags. 27. júní, s.l.

II.

Í ódagsettu erindi kæranda, sem litið er á sem stjórnsýslukæru, er óskað úrskurðar vegna töku tveggja bifreiða í eigu kæranda af landi hans Austurkoti á Vantsleysuströnd.  Samkvæmt upplýsingum í bréfum lögmanns voru bifreiðar kæranda af gerðinni Scania 141 og Nissan Doublecap fjarlægðar hinn 29. júní, 2002.  Í bréfum lögmannsins til kærða kemur fram að kærendur telji að um ágang hafi verið að ræða og er gerð sú krafa að bifreiðunum verði skilað.

III.

Í greinargerð kærða, dags. 27. júní, 2003, er aðallega gerð sú krafa að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd sem of seint fram kominni kæru.  Er á því byggt að ódagsett erindi kærða hafi verið sent frá umhverfisráðuneyti með bréfi dags. 27. mars s.l. eða hálfu ári eftir að kærufrestur hafi runnið út.  Þá gerir lögmaður kærða grein fyrir málinu efnislega að öðru leyti og rekur aðgerðir kærða og bréfaskriftir við lögmann kæranda.

IV.

Svo sem fram er komið barst kæra úrskurðarnefnd með bréfi umhverfisráðuneytis dags. 27. mars s.l.  Í 27. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að kæru skuli bera fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli fyrir á annan hátt.  Svo er ekki í máli þessu.  Stjórnsýslukæra kæranda er því of seint komin fram og verður því málinu vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð :

Með vísan til framkominna málavaxta og með tilvísan til 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er máli þessu vísað frá nefndinni.

Lára G. Hansdóttir

 Gunnar Eydal                         Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 9/9/03