Kæra þarf að vera skrifleg
Kæru og gögn skal senda í gegnum Mínar síður sem er bæði fljótlegt og öruggt. Innskráning á Mínar síður er annað hvort með Íslykli eða rafrænum skilríkjum og er því ekki nauðsynlegt að undirrita kæruna á gamla mátann. Athugið þó að ef fleiri en einn standa að kæru þarf umboð að berast frá öðrum kærendum.
Einnig er hægt að senda kæru með tölvupósti á uua@uua.is og þarf kæran þá að vera undirrituð eigin hendi. Ef fleiri en einn kæra þurfa allir að skrifa undir kæruna nema sá sem skrifar undir kæruna leggi fram umboð um að hann hafi heimild til að undirrita kæruna fyrir hönd annarra kærenda. Skrifi lögmaður undir kæru fyrir hönd kæranda eða kærenda þarf eftir sem áður að leggja fram umboð, m.ö.o. gildir málflutningsumboð dómstóla ekki fyrir nefndinni.
Mikilvægt er að fram komi í kæru hvaða ákvörðun sé kærð, hvernig hún snerti hagsmuni kæranda og hvaða kröfur séu gerðar (t.d. að ákvörðunin sé felld úr gildi). Æskilegt er að gögn sem varða málið fylgi kærunni. Heppilegt er að vísa til kæruheimildar í lögum ef kæranda er kunnugt um hana.
Kærufrestur er almennt einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra skal. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingunni.
Sé kæru, greinargerð eða gögnum skilað á pappír er æskilegt að slíkt sé einnig sent nefndinni á rafrænu formi á netfang hennar uua@uua.is.