Árið 2018, föstudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 116/2017, kæra vegna ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík um að aðhafast ekki vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Furugerðis 5 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar að Furugerði 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. október 2017 að aðhafast ekki vegna erindis kæranda varðandi skjólvegg á lóðarmörkum Furugerðis 5. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Umsögn Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 10. október 2017.
Málavextir: Á árunum 2004-2005 mun hafa verið reistur skjólveggur á lóðarmörkum Furugerðis 5 í Reykjavík án þess að gefið hafi verið út byggingarleyfi. Hinn 5. október 2017 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúans í Reykjavík og gerði athugasemdir við að skjólveggurinn hafi verið reistur án tilskilins leyfis. Í svari byggingarfulltrúa við erindi kæranda sama dag kom fram að hann taldi sér ekki heimilt að beita íþyngjandi úrræðum vegna skjólveggjarins.
Málsrök kæranda: Kærandi gerir athugasemd við að reistur hafi verið skjólveggur á lóðarmörkum Furugerðis 5 án leyfis. Vísar kærandi til þágildandi 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um að leita skuli samþykkis byggingarnefndar á gerð og frágangi girðingar ef hún sé hærri en 1,80 m.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Að mati borgaryfirvalda hafi embætti byggingarfulltrúa verið fullkomlega heimilt að afgreiða málið með þeim hætti sem gert var. Fram hafi komið í málinu að skjólveggurinn hafi staðið á lóðinni í fjölda ára án afskipta byggingaryfirvalda auk þess sem allir núverandi eigendur hafi keypt sína eignarhluta eftir að skjólveggnum hafi verið komið fyrir. Ekki sé hægt að sjá að gerðar hafi verið athugasemdir við skjólvegginn fyrr en nú og ekki sé loku fyrir það skotið að hann hafi verið reistur með samþykki aðliggjandi lóðarhafa á sínum tíma. Í öllu falli sé ljóst að þeir sem hagsmuni kunni að hafa að gæta í málinu hafi þannig sýnt af sér tómlæti vegna byggingar og stöðu veggjarins á lóðinni, en eðlilegt hefði verið að hafa uppi kröfu um aðgerðir í málinu á þeim tíma sem skjólveggurinn hafi verið reistur. Hvorki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að umræddur skjólveggur verði fjarlægður né að almannahagsmunir knýji á um það. Ekki sé hægt að fallast á þá röksemd kæranda að möguleg slysahætti stafi af veggnum. Við ákvörðun vísaði byggingarfulltrúi til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að hafna því að beita þvingunarúrræðum í tilefni erindis kæranda vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Furugerðis 5.
Ef ráðist hefur verið í byggingarskylda framkvæmd án tilskilins leyfis er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva framkvæmdir eða krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum samkvæmt 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. og gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé í hverju tilviki metin, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við ef gengið er gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna, enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki ákvæðum laga um mannvirki.
Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að sameigendur lóðar Furugerðis 5 og lóðarhafar aðliggjandi lóða hafi sýnt af sér tómlæti, en ekki sé vitað til þess að núverandi eigendum skjólveggjarins hafi verið kunnugt um skort á leyfi eða samþykki er þeir hafi keypt eignir sínar, ekki væri fyrir hendi brýn nauðsyn á að fjarlægja skjólvegginn og ekki væri loku fyrir það skotið að samþykki nágranna hafi legið fyrir er veggurinn hafi verið reistur. Með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins taldi byggingarfulltrúi sér því ekki heimilt að beita íþyngjandi úrræðum. Lágu samkvæmt þessu efnisleg rök að baki hinni kærðu ákvörðun.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. október 2017 um að aðhafast ekki vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Furugerðis 5.