Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2017 Unalækur

Árið 2018, föstudaginn 17. ágúst tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 48/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 19. apríl 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðir A6 og B2, Unalæk á Völlum, Fljótsdalshéraði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2017, er barst nefndinni 17. s.m., kæra A og B þá ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 19. apríl 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðir A6 og B2, Unalæk á Völlum, Fljótsdalshéraði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fljótsdalshéraði 15. júní 2017.

Málsatvik og rök: Óskað var eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir Unalæk á Völlum vegna lóða A6 og B2 af hálfu lóðarhafa. Fólst breytingin í að landnotkun lóðanna yrði breytt úr frístundarbyggð í starfrækslu ferðaþjónustu og sölu á gistiþjónustu. Ákvað umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs á fundi 8. febrúar 2017 að grenndarkynna umsóknina sem óverulega breytingu á deiliskipulagi Unulækjar. Sú bókun var staðfest af bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs 15. febrúar 2017. Við grenndarkynninguna bárust athugasemdir frá kærendum og var þeim svarað. Var breyting á deiliskipulagi Unulækjar samþykkt á fundi bæjarstjórnar 19. apríl 2017 með vísan til 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Kærendur byggja málatilbúnað sinn á því að óheimilt hafi verið að fara með málið skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga þar sem breytingin geti ekki talist óveruleg. Þá yrðu grenndaráhrif deiliskipulagsbreytingarinnar veruleg vegna ónæðis af starfrækslu ferðaþjónustu og gististarfsemi sem færu á svig við réttmætar væntingar kærenda um notkun svæðisins sem frístundabyggðar.

Af hálfu Fljótsdalshéraðs er vísað til þess að telja verði umrædda breytingu óverulega í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Form gistireksturs í húsum á umræddum lóðum verði leiga á litlu frístundarhúsi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun samþykkta deiliskipulagsbreytingu og birta auglýsingu um samþykki hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun hefur umrædd deiliskipulagsbreyting ekki verið send stofnuninni og þrátt fyrir eftirgrennslan liggur ekki fyrir að auglýsing um samþykki breytingarinnar hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Fram kemur í 5.8.2. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 að hafi auglýsing um óverulega breytingu á deiliskipulagi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá samþykki sveitarstjórnar telst breytingin ógild. Hin kærða skipulagsbreyting var samþykkt hinn 19. apríl 2017 og er því meira en ár liðið frá samþykkt hennar. Liggur því ekki fyrir í málinu gild ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

__________________________________
Ómar Stefánsson