Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2018 Hraunteigur 3

Árið 2018, föstudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 61/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um veitingu byggingarleyfis til að byggja tveggja hæða einbýlishús með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2018, er barst nefndinni 25. s.m., kæra lóðarhafar Hraunteigs 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn máls bárust frá Reykjavíkurborg 4. maí 2018.

Málavextir:  Hinn 27. janúar 2017 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna Hraunteigs 3 grenndarkynnt. Komu kærendur á framfæri athugasemdum á kynningartíma er lutu að götumynd, skuggavarpi, stærð, hæð og lögun fyrirhugaðrar nýbyggingar. Var skipulagsbreytingin samþykkt með breytingum og tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2017.

Hinn 9. október 2017 var sótt um heimild til niðurrifs húss og bílskúrs sem fyrir voru á lóðinni Hraunteigi 3. Var byggingarleyfi þess efnis gefið út 27. s.m. og var niðurrifi lokið í janúar 2018. Þá var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017 samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóðinni og var sú afgreiðsla staðfest af borgarráði 12. s.m. Úttekt vegna botns undir fyllingu fór fram 10. janúar 2018 og í byrjun febrúar s.á. hófust framkvæmdir á byggingu hins nýja einbýlishúss, en útgefið byggingarleyfi er dagsett 8. febrúar s.m. Byggingarfulltrúi staðfesti úttekt á sökklum hinn 22. mars 2018. Hefur kærandi skotið nefndri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda er á því byggt að upphaf kærufrests í máli þessu skuli miða við 8. apríl 2018, en þá hafi þeim fyrst orðið ljóst að útgefið byggingarleyfi samrýmdist ekki gildandi deiliskipulagi. Tveimur dögum áður, þ.e. 6. apríl, hafi byggingarleyfishafi komið að máli við annan kærenda vegna 140 cm hás steinveggjar sem hann hafi talið sig þurfa að byggja á lóðamörkum Hraunteigs 3 og 5. Þá fyrst hafi kæranda orðið ljóst að hækka átti lóð nr. 3 um meira en 100 cm frá því sem áður hafi verið. Í kjölfar þess hafi nefndur kærandi rætt við byggingarleyfishafa í síma og sent honum bréf, dags. 8. apríl 2018, þar sem alvarlegar athugasemdir hafi verið gerðar við áðurgreindan hæðarmun og að teikningar gerðu ráð fyrir að byggt væri út fyrir byggingarlínu við götu.

Kærendur telji ljóst að þær teikningar sem Reykjavíkurborg hafi samþykkt og lagt til grundvallar umþrættu byggingarleyfi, feli í sér að hæðarkótum lóðar hafi verið breytt umtalsvert. Ekkert komi fram á þeim myndum sem fylgdu deiliskipulagi að ætlunin hafi verið að breyta hæðarkóta á lóð, heldur beri þær þvert á móti með sér að hæðarkóti skuli vera óbreyttur. Þessu til stuðnings sé vísað til e. liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, þar sem segi m.a. að óheimilt sé að breyta hæð lóðar á lóðarmörkum án samþykkis leyfisveitanda og lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þar komi og fram að óheimilt sé að breyta hæð innan lóðar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni, t.d. útsýni.

Kærendum hafi ekki þótt athugavert að deiliskipulag vegna Hraunteigs 3 hafi kveðið á um að steypa mætti stoðvegg á lóðarmörkunum þar sem kærendur hafi lækkað lóð sína lítillega út við götu árið 2003 með samþykki eftirlitsaðila. Umræddar lóðir hafi verið jafn háar fram að því. Hins vegar segjast kærendur hafa verið grunlausir um að til stæði að hækka lóðina um 100 cm, sem myndi leiða til a.m.k. 140 cm hæðarmunar á mörkum lóðanna við innkeyrslu að lóð nr. 5. Steyptur veggur við lóðamörkin sé úr takti við götumynd og jafnframt skýrt brot á kvöðum um hámarkshæð í gildandi deiliskipulagi. Breytingar á hæðarkótum lóðar nr. 3 leiði til þess að mikill hæðarmunur verði við aðrar nærliggjandi lóðir, s.s. Hrísateig nr. 8 og 10. Myndir sýni að hæð lóðar Hraunteigs 3 hafi verið sú sama og hæð lóðar við Hrísateig 10, en nú hafi verið steyptur veggur til að halda við jarðveg á framangreindum lóðamörkum. Veggurinn sé um 180 cm hár frá hæð lóðar á Hrísateig 10 og ljóst sé að reisa þurfi grindverk þar ofan á til að tryggja öryggi og því stefni í að veggurinn verði um 3 m hár með tilheyrandi lýti og skuggavarpi.

Umþrætt byggingarleyfi, sem veiti leyfishafa heimild til að byggja hús sem standi 2,7 × 8,2 m út fyrir skilgreindan byggingarreit, sé ekki í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags um óbreytta byggingarlínu við götu. Deiliskipulagið heimili svalir til suðurs að götu og þak megi fara allt að 2,7 m út fyrir byggingarreit, en ljóst sé að samþykktar teikningar geri ráð fyrir verulegum frávikum. Í þessu sambandi bendi kærendur á að svalir í Teigahverfi séu almennt ekki stærri en 1,2 × 3,0 m og hinar fyrirhuguðu svalir séu þannig sex sinnum stærri, eða 22 m2 í stað 3,6 m2, og með láréttum og lóðréttum steinsúlum, auk skorsteins sem standi út fyrir byggingarreit.

Ljóst sé að hin fyrirhugaða framkvæmd muni varpa skugga á eign kærenda og þar með verðfella hana. Kærendur hafi eytt bæði tíma og fjármunum í að gera garð í kringum fasteign sína aðlaðandi, einkum fyrir framan húsið, þar sem þau eigi athvarf, einkum að loknum vinnudegi á sólríkum dögum að vori og hausti. Skuggavarp hafi ekki verið kynnt þegar umrætt deiliskipulag hafi verið auglýst og hafi kærendur gert athugasemdir við það og óskað eftir skuggavarpsútreikningi kl. 18. Ekki hafi verið fallist á það og skuggavarp kl. 17 hafi borist sem hluti af grenndarkynningu á breyttu deiliskipulagi. Bent sé á að vegna staðhátta tapist engin gæði sé skuggavarp kl. 17 skoðað en verulega halli á gæði við lóð nr. 5 þegar skoðað sé skuggavarp frá kl. 17:30 til 19:30.
 
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að kærufrestur í máli þessu sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Umdeilt byggingarleyfi hafi verið gefið út 8. febrúar 2018 og framkvæmdir séu löngu hafnar.

Framkvæmdum við niðurrif eldra húss hafi lokið í janúar 2018 og 10. janúar s.m. hafi farið fram úttekt vegna botns undir fyllingu. Frá þeim tíma hafi verið gerðar nokkrar úttektir af hálfu byggingarfulltrúa á framkvæmdum. Staðfest úttekt á sökklum hafi verið gerð hinn 22. mars 2018. Samkvæmt ofangreindu hafi frestur til að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Því beri að vísa málinu frá.

Rétt sé að benda á að það sé á verksviði leyfisveitanda að gæta þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti og skipulag og gera nauðsynlegar ráðstafanir reynist þess þörf.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að í gildandi deiliskipulagi séu ekki gefnir upp hæðarkótar en gerð sé grein fyrir hæðarsetningu fyrirhugaðs húss að Hraunteigi 3 og sú hæðarsetning sé í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins þar að lútandi. Lóðin sé eðli málsins samkvæmt hæðarsett til samræmis við hæð aðalgólfplötu hússins og kærendur hafi mátt vænta þess að svo yrði. Hæðarmuninn á lóðunum megi einnig rekja til breytinga sem gerðar hafi verið á lóð nr. 5, en hún sé 50-60 cm lægri en hún eigi að vera auk þess sem hún halli niður á við frá götu en það sé ekki í samræmi við uppdrætti.

Hæð stoðveggjar á mörkum lóða nr. 3 og 5, ákvarðist af hæð lóðar Hraunteigs 3. Sú girðing sem fyrir sé á lóð nr. 5 sé mun hærri en stoðveggurinn út við götuna en hún halli niður á við inn í lóðina og endi í svipaðri hæð og stoðveggurinn þar sem hún mæti horni bílskúrs lóðar nr. 5. Þar sé veggurinn hærri séð frá lóð nr. 5 vegna hæðarsetningar þeirrar lóðar og verði kærendur að bera hallann af því.

Fullyrðing kærenda um skerðingu útsýnis úr eldhúsglugga jarðhæðar sé vafasöm þar sem um kjallaraíbúð sé að ræða, auk þess sem kærendur séu búnir að selja þá íbúð og undirrita afsal sem lagt hafði verið inn til þinglýsingar þegar kæra var gerð. Leyfishafi sé að nýta þá heimild sem gefin sé í skipulagi til að byggja svalir til suðurs og hafa þak yfir þeim. Hönnun hafi verið breytt í samræmi við þær athugasemdir sem borist hafi við kynningu deiliskipulagsbreytingar vegna lóðarinnar Hraunteigs 3, þannig að hliðarveggur að austanverðu hafi verið felldur út og svalasvæðið opnað til hliðanna. Liður e í gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 veiti heimild fyrir verönd eða palli við suðurhlið undir svölum. Því verði ekki séð að byggingarleyfið fari svo í bága við skipulag að ógildingu varði.

Niðurstaða: Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011, er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun.

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Upphaf kærufrests í þessu máli ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um efni hins kærða byggingarleyfis, m.a. um hæðarkóta umræddrar lóðar. Líkt og fram kemur í málavöxtum samþykkti byggingarfulltrúi umsókn leyfishafa 10. október 2017 og var byggingarleyfið gefið út 8. febrúar 2018. Verður ekki fullyrt með óyggjandi hætti að kærendum hafi mátt vera kunnugt um að uppgefnir hæðarkótar fælu í sér breytingu frá fyrra áststandi fyrr en við úttekt byggingarfulltrúa á sökklum hinn 22. mars 2018, en þá lá grunnflötur hins nýja húss fyrir. Miðast kærufrestur því við þann dag. Samkvæmt framangreindu rann kærufrestur út mánudaginn 23. apríl s.á., eða tveimur dögum áður en úrskurðarnefndin tók á móti umræddri kæru. Þegar litið er til þess að kærendum var ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest verður talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni. Í því sambandi er litið til þess að deiliskipulagsbreyting sú sem byggingarleyfið styðst við hefur ekki að geyma hæðarkóta lóðarinnar svo sem rétt hefði verið. Verður málið því tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis m.a. að mannvirkið og notkun þess sé í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Í 16. gr. laganna kemur fram að útgefandi byggingarleyfis skuli hafa eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og reglugerða settum með stoð í þeim. Krafa kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar byggir á því að samþykktar teikningar séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og breyting á hæðarlegu lóðar frá því sem fyrir var eigi ekki stoð í því skipulagi.

Í málsgögnum er að finna gildandi hæðarblað vegna lóðar nr. 3 við Hraunteig sem sýnir hæðarkótana 12,82 og 13,16 við götu. Á hæðarblaðinu er hins vegar enga hæðarkóta að finna innst á lóð. Deiliskipulag sýnir enga hæðarkóta fyrir lóðaryfirborð, eins og fyrr var að vikið, en á teikningum sem byggingarfulltrúi samþykkti 10. október 2017, sem voru grundvöllur útgáfu byggingarleyfis, eru hæðarkótar við götu í samræmi við hæðarkóta framangreinds hæðarblaðs. Teikningarnar sýna enn fremur hæðarkótann 13,16 innst á lóð sem ber með sér að yfirborði lóðarinnar þar er ætlað að vera í sömu hæð og út við götu. Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að umræddir hæðarkótar lóðar fari í bága við gildandi deiliskipulag.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi má stoðveggur á lóðinni ekki vera hærri en 0,4 m. Hæðarkóti stoðveggjarins, samkvæmt samþykktum teikningum, er 13,56. Líkt og áður greinir er grunnlína lóðar nr. 3 við Hraunteig 13,16. Samkvæmt því er veggurinn 0,4 m að hæð miðað við grunnflöt lóðar nr. 3 og því í samræmi við gildandi deiliskipulag. Í kæru kemur fram að lóð kærenda var lækkuð lítillega út við götu og á myndum sem fylgdu kæru sést að lóðin hallar niður á við frá götu. Veggurinn er því að hluta hærri en 0,4 m séð frá lóð nr. 5. Ákvarðanir kærenda um að lækka sína lóð geta ekki haft áhrif á réttarstöðu lóðarhafa Hraunteigs nr. 3. 
 
Í gildandi deiliskipulagi er heimiluð hámarksmænishæð aðalhúss frá aðalgólfi 7,3 m og má kjallari standa 0,2 m upp úr frágengnu yfirborði. Á samþykktum teikningum umdeilds byggingarleyfis kemur fram að hæðarkóti gólfplötu hússins er 13,49. Stendur kjallari því 0,33 m upp úr frágengnu yfirborði með hliðsjón af hæðarkóta lóðarinnar 13,16. Gólfflötur hússins er því 13 cm hærri en heimilt er samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Þetta frávik er þó það óverulegt að það getur ekki ráðið úrslitum um gildi byggingarleyfisins. 

Kærendur telja byggingarlínu hússins ekki vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Á samþykktu deiliskipulagi kemur fram heimild til að gera svalir til suðurs að götu og að þak yfir þeim megi fara allt að 2,7 m út fyrir byggingarreit og eru samþykktar teikningar í samræmi við það. Skuggavarp sem framangreind breyting kann að valda er þegar ákveðin í deiliskipulagi sem sætir ekki endurskoðun í máli þessu.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið slíkum annmörkum að raskað geti gildi þess. Af því leiðir að hafna ber kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson