Fyrir var tekið mál nr. 130/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. september 2016 um að veita leyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti á 1. hæð í suðurenda húss á lóð nr. 3 við Vatnsstíg.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kæra VHV lögmannsþjónusta slf., S2 fjárfesting ehf., Vatnsstíg 3, og Hildur Björnsdóttir, Vatnsstíg 3b, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti á 1. hæð í suðurenda húss á lóð nr. 3 við Vatnsstíg. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. október 2016.
Málavextir: Hinn 6. september 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík samþykkt byggingarleyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti á 1. hæð í suðurenda fjöleignarhússins að Vatnsstíg 3. Með erindinu fylgdi umsögn skipulagsfulltrúa, umsögn Minjastofnunar Íslands og hljóðvistarskýrsla verkfræðistofu.
Málsrök kærenda: Kærandi bendir á að fasteignin að Vatnsstíg 3 sé fjöleignarhús sem háð sé ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Lögin séu ófrávíkjanleg og eigendum því almennt óheimilt að skipa málum sínum, réttindum og skyldum á annan veg en mælt sé fyrir um í lögunum.
Ólíkt mörgum öðrum húsum í miðbæ Reykjavíkur séu flestir eignarhlutar í því, eða um 70%, íbúðir. Rekstur veitingastaðar í húsinu sem hafi sameiginlegan inngang muni hafa í för með sér verulega röskun á hagsmunum íbúðareigenda, enda feli hin breytta hagnýting í sér eðlisbreytingu á notkun húss og lóðar. Í stað kyrrlátrar verslunarstarfsemi komi veitingastaður án takmarkana með tilheyrandi gestakomum, umgangi, hávaða og sóðaskap. Um sé að ræða breytta hagnýtingu á séreign, sem falli undir 27. gr. fjöleignarhúsalaga, og sé um verulega breytingu að ræða. Hin kærða ákvörðun sé því háð samþykki allra eigenda hússins, eða a.m.k einfalds meirihluta þeirra, á húsfundi.
Hin kærða ákvörðun snerti sameign hússins og sameiginlega lóð. Sameiginlegur inngangur verði notaður af starfsmönnum veitingastaðarins og aðföng komi þar inn. Eigendur fasteigna á lóðinni eigi óskoraðan rétt til að taka þátt í öllum ákvörðunum er varði sameignina, en augljóst megi vera að einn eigandi geti ekki ákveðið slíkt í eigin þágu gegn hagsmunum annarra eigenda. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. fjöleignarhúsalaga eigi ákvörðunarréttur skv. 1. mgr. sama ákvæðis einnig við um m.a. fyrirkomulag, skipulag, hvers kyns framkvæmdir, rekstur og hagnýtingu sameignar og séreignar.
Ákvörðunin samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Á umræddu svæði sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð á efri hæðum húsa en skrifstofum og verslunum á jarðhæðum. Í ákvæðum aðalskipulagsins séu sett skilyrði um að breytt notkun húss hafi ekki truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum, auk þess sem hún megi ekki leiða af sér óæskilega aukningu umferðar og aðgengi verði að vera tryggt. Við mat á því hvort þessum skilyrðum sé fullnægt verði að taka tillit til þess að ráðgert sé í þróunaráætlun miðborgar að á svæðinu sé m.a. íbúðarhúsnæði. Starfsemi veitingastaðar, sem sé opinn næturlangt um helgar, fylgi aukin umferð bifreiða og umgangur fólks, sem skapa muni verulegan hávaða og óþrifnað. Leyfishafi hafi ekki sýnt fram á að fyrirhugaður rekstur uppfylli skilyrði þróunaráætlunar miðborgarinnar. Deiliskipulag reits 1.172.0 taki til lóðarinnar Vatnsstígs 3, en þar sé svæðinu lýst sem blandaðri byggð íbúðar-, verslunar og þjónustuhúsnæðis. Rekstur veitingastaða samræmist ekki þeirri landnotkun. Borgaryfirvöldum hafi því borið að grenndarkynna áformin, sbr. 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Loks hafi annar umsækjandi byggingarleyfisins verið úrskurðaður gjaldþrota 8. júní 2016 og hafi af þeim sökum verið óheimilt að taka fyrir umsókn þess umsækjanda til afgreiðslu án aðkomu þrotabús hans.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagins er vísað til þess að á uppdrætti Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 sé umræddur skipulagsreitur í miðborgarkjarna M1a. Þar séu heimilaðar allar tegundir veitingastaða í flokki I-III, sem megi lengst vera opnir til kl. 03 eftir miðnætti um helgar. Engin sérstök notkun sé bundin við húsið að Vatnsstíg 3 í gildandi deiliskipulagi. Húsið sé byggt árið 1919 og því séu breytingar á því háðar umsögn Minjastofnunar, sem hafi ekki gert athugasemdir við breytinguna. Gluggasetning á jarðhæð hússins geri ráð fyrir verslun og/eða þjónustu sem sé opin almenningi og sé hið kærða byggingarleyfi í fullu samræmi við aðal- og deiliskipulag. Í skipulagi svæðisins sé gert ráð fyrir fjölbreyttri notkun húsnæðis. Eina starfsemin sem sæti takmörkunum á svæðinu sé óþrifalegur iðnaður. Telja verði að rekstur veitingastaðar í húsnæðinu í stað verslunar samrýmist því landnotkun aðalskipulags svæðisins og því hafi ekki verið þörf á að grenndarkynna umrædda breytingu.
Inngangur að veitingastaðnum verði á gafli suðurenda hússins og muni gestir því ekki ganga inn um sameiginlegan gang með öðrum eigendum hússins. Þá standi húsið á lóð sem sé skilgreind sem íbúðar- og atvinnulóð og heimiluð breyting úr verslun í veitingastað verði gerð án samþykkis annarra eigenda í húsinu, sbr. 2. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé eignarhluti hans ætlaður undir atvinnustarfsemi og rúmist þar undir veitingarekstur í flokki III.
Niðurstaða: Með hinu kærða byggingarleyfi var heimiluð breytt notkun séreignarhluta á 1. hæð og í kjallara fjöleignarhússins að Vatnsstíg 3. Kærendur telja að umrædd breyting eigi ekki stoð í skipulagi svæðisins og sé hún háð samþykki allra sameigenda hússins eða eftir atvikum meirihluta þeirra.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er ekki heimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skulu með byggingarleyfisumsókn fylgja nauðsynleg gögn, m.a. samþykki meðeigenda ef þess er þörf samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Í 27. gr. nefndra laga er kveðið á um að breytingar á hagnýtingu séreignar í fjöleignarhúsi frá því sem verið hafi eða ráð hafi verið fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins.
Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 heyrir umrætt svæði undir miðborgarkjarna M1a. Er því lýst sem svæði þar sem sérstök áhersla sé lögð á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu, sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Jafnframt er tekið fram að á umræddu svæði gildi almennar veitingaheimildir, þar sem lengst megi vera opið til kl. 01 á virkum dögum og 03 um helgar. Gert er ráð fyrir að á jarðhæðum húsa sé verslunar-, veitinga-, menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en efri hæðir séu skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu. Þá tekur deiliskipulag reits 1.172.0, Brynjureits, til svæðisins þar sem skilgreining landnotkunar aðalskipulags er áréttuð. Samkvæmt framangreindu er heimilaður veitingarekstur í húsnæði leyfishafa í samræmi við landnotkun gildandi skipulags á svæðinu.
Ganga verður út frá þeirri forsendu að eigendur fasteigna geti notað fasteign sína í samræmi við heimildir gildandi skipulags viðkomandi svæðis að uppfylltum skilyrðum laga og reglna sem við eiga um notkunina, s.s. um hljóðvist. Eins og að framan er rakið er umrædd fasteign í miðborgarkjarna þar sem veitingastarfsemi er ótvírætt heimiluð. Verður því ekki talið að þörf hafi verið á samþykki kærenda, sem sameigenda að umræddu fjölbýlishúsi, fyrir hinni breyttu notkun á séreign leyfishafa skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga.
Með hinni kærðu ákvörðun er ekki verið að breyta notkun sameignar fjöleignarhússins við Vatnsstíg 3 og var ákvörðunin því ekki háð samþykki sameigenda samkvæmt fjöleignarhúsalögum. Uppdrættir sem fylgdu hinni umdeildu byggingarleyfisumsókn bera með sér að útgangur úr séreign leyfishafa inn á sameiginlegan gang sé ætlaður sem flóttaleið og aðgengi starfsmanna að geymslurými í kjallara, sem tilheyrir séreignarhluta leyfishafa. Inngangur að veitingastaðnum er hins vegar frá götu inn í séreignarhluta leyfishafa í suðurenda hússins. Verður ekki séð að notkun leyfishafa á sameign verði önnur eða meiri en annarra sameigenda við breytta notkun séreignarhlutans frá því sem áður var.
Leyfishafi er skráður eigandi þess eignarhluta sem hér um ræðir og var hann annar umsækjenda um hið kærða byggingarleyfi. Hefur gjaldþrot hins umsækjandans ekki áhrif á gildi byggingarleyfisins í ljósi greindrar réttarstöðu leyfishafa.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis hafnað.
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. september 2016 um að veita leyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti á 1. hæð í suðurenda húss á lóð nr. 3 við Vatnsstíg.
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson