Árið 2013, fimmtudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 66/2012, kæra vegna byggingar sumarbústaðar við Meðalfellsvatn í Kjósarhreppi.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júní 2012, er barst nefndinni 20. s.m., mótmæla F, Grundargerði 2, Reykjavík og Ý, Svíþjóð, byggingu sumarbústaðar innan við 50 m frá vatnsbakka Meðalfellsvatns.
Málsatvik og rök: Í erindi, dags. 10. júní 2012, til úrskurðarnefndarinnar mótmæla kærendur byggingu sumarbústaðar innan við 50 m frá vatnsbakka Meðalfellsvatns og falast eftir útskýringum. Í erindinu kom fram að umræddur bústaður væri í byggingu á milli Flekkudalsvegar og austurenda vatnsins, væntanlega í landi Sands. Jafnframt var tekið fram að ekki væri vitað hvort fyrir lægi samþykkt byggingarleyfi fyrir bústaðnum. Kærendur vísuðu í gildandi aðalskipulag Kjósarhrepps og rökstuðning fyrir synjun skipulags- og byggingarnefndar hreppsins hinn 5. nóvember 2008 á umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir bátaskýli tilheyrandi Sandi 1 og 2. Synjað hafi verið um það byggingarleyfi þrátt fyrir að legið hafi fyrir þinglýst leyfi fyrir byggingu bátaskýlisins á landi milli austurenda Meðalfellsvatns og Sands 20A þegar „leiguleyfi á Sandi 1 og 2 var keypt á sínum tíma“.
———-
Í ljósi vafa um hvort umrætt erindi ætti undir úrskurðarnefndina var kærendum sent tölvubréf hinn 22. júní 2012 og óskað skýringa. Bent var á að með erindinu væri ekki verið að kæra tiltekna ákvörðun og ekki hefði verið gerð grein fyrir því hvernig umrædd bygging snerti hagsmuni kærenda. Úrskurðarnefndin ítrekaði fyrirspurn sína 2. ágúst 2012 og 2. apríl 2013. Hinn 4. apríl 2013 barst svarbréf frá kærendum. Þar var tekið fram að kærendur hafi ekki litið á fyrirspurn sína sem kæru en það mætti meðhöndla hana sem svo. Ástæða fyrirspurnarinnar hafi verið sú að við kaup á bústöðum kærenda hefði legið fyrir þinglýst leyfi fyrir byggingu á bátaskýli við vatnið. Byggingarnefnd Kjósarhrepps hafi hins vegar hafnað umsókn um byggingarleyfi fyrir bátaskýlinu og vísað í gildandi aðalskipulag um fjarlægð bygginga frá vatnsbakka. Nú sé verið að byggja sumarbústað um 50 m frá þeim stað þar sem bátaskýlið hefði átt að vera samkvæmt þinglýstum teikningum. Verði ekki annað séð en að bústaðurinn standi nær vatninu en leyfi sé fyrir samkvæmt aðalskipulagi. Sé svo, séu kærendur ekki sáttir við afgreiðslu umsóknar sinnar um bátaskýli sem sé lægra og feli í sér minna rask en fullbyggt sumarhús.
Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar.
Í erindi sínu vísa kærendur til synjunar skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps á umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir bátaskýli, en sú ákvörðun hafi verið tekin á fundi nefndarinnar hinn 5. nóvember 2008. Ljóst er að kærufrestur varðandi þá ákvörðun eru löngu liðinn og verður því ekki tekin afstaða til lögmætis þeirrar ákvörðunar.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. fyrrgreindra laga geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Eins og málið er vaxið liggur ekki fyrir með hvaða hætti bygging umrædds bústaðar við Meðalfellsvatn snertir lögvarða hagsmuni kærenda og skortir því á að sýnt sé fram á kæruaðild í málinu.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Ómar Stefánsson
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson