Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2011 Hólabraut

Árið 2012, fimmtudaginn 16. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 21. júní 2011 um að breyta deiliskipulagi norðurhluta miðbæjar Akureyrar, er tekur til lóða við Hólabraut og Laxagötu, og ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrar frá 11. október 2011 um að samþykkja byggingarleyfisumsókn fyrir viðbyggingu að Hólabraut 16.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. júlí 2011, er barst úrskurðarnefndinni 20. s.m., kærir Ó hrl., f.h. 14 íbúa og eigenda fasteigna við Hólabraut 15, 17, 18 og 19 og Laxagötu 3b og 6, Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 21. júní 2011 að breyta deiliskipulagi norðurhluta miðbæjar Akureyrar, er tekur til lóða við Hólabraut og Laxagötu á reit nr. 18.  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. júlí 2011.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. og 16. ágúst 2011, sem bárust 15. og 19. s.m., kæra þrír íbúar og eigendur fasteigna að Laxagötu 3a og 4, Akureyri, framangreinda deiliskipulagsbreytingu með kröfu um að hún verði felld úr gildi.  Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verða kærumál þeirra, sem eru nr. 61 og 63/2011, sameinuð kærumáli þessu.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. nóvember 2011, skutu allir 17 kærendur í framangreindum kærumálum til nefndarinnar til ógildingar ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrar frá 12. október 2011 um að samþykkja byggingarleyfisumsókn fyrir viðbyggingu að Hólabraut 16 á grundvelli hins breytta deiliskipulags.  Kröfðust þeir þess jafnframt að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi yrðu stöðvaðar.  Kærumálið vegna byggingarleyfisins byggir á sömu málsrökum og málið vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar og hefur úrskurðarnefndin því ákveðið að sameina það kærumál, sem er nr. 79/2011, kærumáli þessu.

Ekki hefur komið til neinna framkvæmda á grundvelli hins kærða byggingarleyfis.  Kemur krafa kærenda um stöðvun framkvæmda því ekki til álita og verður ekki frekar um hana fjallað í málinu.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að árið 1961 hóf lóðarhafi Hólabrautar 16 rekstur vínbúðar þar.  Síðar keypti hann lóðina Gránufélagsgötu 1-3 og fasteignina að Laxagötu 1.  Húsið sem þá stóð að Laxagötu 1 var síðar rifið.  Auk greindra lóða fékk lóðarhafinn árið 2003 afnot lóðarinnar Gránufélagsgötu 5 undir bílastæði.  Í samningi um þá lóð var sett kvöð um að bílastæði á lóðinni yrðu aðgengileg almenningi utan opunartíma verslunarinnar.  Á árinu 1981 tók gildi deiliskipulag miðbæjar Akureyrar og tilheyra nefndar lóðir, sem eru samliggjandi, reit sem merktur var nr. 18 á skipulagsuppdrætti.  Var þar gert ráð fyrir uppbyggingu reitsins eftir því sem eldri byggð viki.  Byggingarreitur var markaður fyrir reitinn í heild og nýtingarhlutfall ákvarðað 0,7.  Norðurhluta miðbæjardeiliskipulagsins var breytt á árinu 1996 og tók sú breyting m.a. til nefnds reits nr. 18.

Árið 2010 var samþykkt sameining lóðanna að Hólabraut 16 og Laxagötu 1 og veitt byggingarleyfi fyrir tveggja hæða viðbyggingu við húsið að Hólabraut 16 sem var 7,00×18,06 m að stærð, eða 126,4 m2 að grunnfleti, og að heildarflatarmáli 211 m2.  Var byggingarleyfið kært til úrskurðarnefndarinnar sem felldi það úr gildi með úrskurði uppkveðnum 21. janúar 2011 þar sem það færi í bága við skilmála gildandi deiliskipulags um nýtingarhlutfall.

Hinn 17. febrúar 2011 var haldinn íbúafundur þar sem kynnt var tillaga að breyttu deiliskipulagi norðurhluta miðbæjar Akureyrar er tók til Hólabrautar og Laxagötu. Var tillagan síðan auglýst til kynningar hinn 9. mars 2011 með athugasemdafresti til 20. apríl s.á.  Í tillögunni var gert ráð fyrir sameiningu lóðanna að Hólabraut 16, Gránufélagsgötu 1-3 og Gránufélagsgötu 5 í eina lóð, Hólabraut 16, og var aðkomu að lóðinni breytt.  Lóðarmörk, byggingarreitir og nýtingarhlutfall var skilgreint fyrir allar lóðir sem breytingin tók til og gert var ráð fyrir að Laxagata yrði einstefnugata en Hólabraut og Smáragata botngötur.  Athugasemdir bárust við tillöguna, m.a. frá kærendum.  Skipulagsnefnd tók málið fyrir á fundi hinn 1. júní 2011 þar sem lágu fyrir framkomnar athugasemdir og voru svör nefndarinnar við athugasemdunum bókuð á fundinum.  Meirihluti nefndarinnar ákvað að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja deiliskipulagsbreytinguna og fela skipulagsstjóra að annast gildistöku hennar.  Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti tillögu skipulagsnefndar hinn 21. júní s.á.

Hinn 10. október 2011 samþykkti skipulagsstjóri Akureyrarbæjar veitingu byggingarleyfis fyrir sömu stækkun hússins að Hólabraut 16 og hið fyrra byggingarleyfi hafði heimilað.  Var leyfið síðan gefið út hinn 2. nóvember s.á.

Kærendur skutu greindum ákvörðunum um breytingu á deiliskipulagi og veitingu byggingaleyfis til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda.  Kærendur benda á að ekki verði ráðið af skipulagsgögnum að ákvæði 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem fjalli um gerð deiliskipulags, kynningu og samráð, hafi verið fylgt.  Samkvæmt ákvæðinu skuli sveitarstjórn taka saman lýsingu þar sem m.a. komi fram upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu.  Slíka lýsingu hefði sveitarstjórn þurft að samþykkja sérstaklega og leita umsagnar um hana hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum auk þess kynna lýsinguna fyrir almenningi.

Í eldra deiliskipulagi umrædds svæðis komi fram að ekki séu ráðgerðar frekari nýbyggingar.  Auk þess sé skýrlega mælt svo fyrir að komi til endurskoðunar á skipulagi reitsins verði slíkt einungis gert samkvæmt nánara deiliskipulagi, sem unnið verði í samhengi við reit nr. 17 í deiliskipulaginu.  Farið sé gegn þessum fyrirmælum án þess að lögmæt og málefnaleg sjónarmið búi þar að baki.  Kærendur hafi treyst því að fyrirmælum gildandi deiliskipulags frá árinu 1996 yrði fylgt og að ekki yrði ráðist í breytingar á því nema lögmætar ástæður byggju þar að baki.  Deiliskipulagsbreytingin taki ekki til Hólabrautar 15, 17 og 19, sem hljóti að teljast hluti af þeirri heildstæðu einingu sem deiliskipulag eigi að taka til eins og fyrir sé mælt í gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, og afmörkuð sé í aðalskipulagi.

Ekki verði séð að gerð hafi verið viðhlítandi könnun á áhrifum breytinganna á umferð og bílastæðaþörf né hafi athugun verið gerð á þeim breytingum sem gerðar séu í deiliskipulaginu á aðkomu sem og vegtengingum.  Undirbúningi tillögunnar hafi því verið áfátt.  Loks hafi ekki verið gerð athugun á skuggamyndun á næstu lóðum við þá nýju byggingu sem skipulagið heimili.

Þá feli hin kærða skipulagsákvörðun í sér mismunun á nýtingarmöguleikum einstakra lóðarhafa og fari því í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.  Ráðgerð viðbygging við vínbúð að Hólabraut 16 og viðamiklar breytingar á vegtengingum auk fleiri atriða séu langt umfram það sem næstu nágrannar hafi mátt vænta þegar þeir hafi orðið eigendur fasteigna sinna.  Um sé að ræða róttækar breytingar á grónu íbúðarhverfi með húsagerð og hverfamyndun sem sé í samræmi við það skipulag sem í gildi hafi verið, en nú sé verið að heimila nýbyggingu með tilheyrandi skuggavarpi og aukinni umferð.

Umdeild ákvörðun sé íþyngjandi fyrir kærendur og feli ekki aðeins í sér verulega skerðingu á verðmæti fasteigna þeirra heldur einnig inngrip í fjölskyldulíf.  Samkvæmt dómafordæmum og viðurkenndum sjónarmiðum í stjórnsýslurétti beri að gæta sérstakrar varkárni og gera strangar kröfur til málsmeðferðar í slíkum málum.  Við mat á efnislegu réttmæti hinnar umdeildu ákvörðunar verði því að hafa þetta í huga.  Ekki séu efnisleg skilyrði fyrir ákvörðuninni, en hún brjóti gegn grenndarreglum eignarréttar, sem og lögmætum væntingum íbúa, sem verndar njóti skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 í mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Af framangreindu megi ljóst vera að ógilda beri hina kærðu deiliskipulagsbreytingu sem fari í bága við lög bæði að formi og efni til.  Hið kærða byggingarleyfi styðjist þar af  leiðandi ekki við gilt deiliskipulag og beri af þeim sökum að fella það úr gildi.

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfum kærenda verði hafnað enda séu hinar kærðu ákvarðanir hvorki haldnar form né efnisannmörkum.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi verið tekið mið af forsendu að baki niðurstöðu úrskurðarnefnar skipulags- og byggingarmála í úrskurði nr. 78/2010, þar sem byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Hólabraut 16 hafi verið fellt úr gildi.  Með breytingunni sé einnig verið að skilgreina og festa í sessi þær lóðir sem nú séu á umræddum reit.  Einnig sé fallið frá fyrri hugmynd eða möguleika á að fjarlægja öll núverandi hús og byggja upp reitinn sem eina heild, með nýtingarhlutfalli 0,7.  Við breytinguna séu því skilgreindir nýir byggingarreitir og nýtingarhlutfall fyrir hverja lóð út frá stækkunarmöguleikum og aðstæðum.  Jafnframt hafi verið gerðar breytingar innan reitsins til hagræðis fyrir íbúa, m.a. með því að gera Laxagötu að einstefnugötu til norðurs og Hólabraut að botngötu með snúningshaus.  Þá sé ný aðkoma að lóð byggingarleyfishafa frá Gránufélagsgötu.  Eingöngu sé leyfður útakstur frá lóðinni inn á Laxagötu fyrir vöruflutninga en þar verði rafstýrt hlið.

Í 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga sé gert ráð fyrir að við deiliskipulagsgerð sé tekin saman lýsing á skipulagsverkefni en í 1. mgr. 43. gr. laganna segi að ekki sé skylt að gera slíka samantekt þegar um breytingu á deiliskipulagi sé að ræða.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið kynnt á fyrri stigum á íbúafundum og yfirfarin af Skipulagsstofnun án athugasemda.  Skipulagsnefnd bæjarins hafi á fundi, þar sem fyrir lágu svör við fram komnum athugasemdum, lagt til við bæjarstjórn að samþykkja umrædda skipulagstillögu.  Í því hafi falist að málið eins og það hafi legið fyrir hlyti samþykki, þar með talin fyrirliggjandi svör við athugasemdum.  Bæjarstjórn hafi ekki séð ástæðu til að breyta þeim svörum og hafi því fallist á tillögur skipulagsnefndar.

Vegna tilvísana kærenda í ákvæði eldra deiliskipulags fyrir umræddan reit frá árinu 1996 sé rétt að taka fram að þar sé vísað til hugsanlegrar allsherjar endurnýjunar á reitnum vegna stærri framkvæmda í tengslum við miðbæjarreitinn í heild sinni.  Slíkar vangaveltur geti ekki haft áhrif á gildi skipulagsbreytinga sem síðar komi til.  Með umdeildri skipulagsbreytingu sé verið að festa í sessi núverandi byggingar á reitnum til framtíðar en engin breyting sé gerð á skipulagsreit nr. 17.  Deiliskipulag sé í eðli sínu breytingum undirorpið í tímans rás vegna framþróunar og breyttra hugmynda.

Við meðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar hafi sérstaklega verið gætt að flæði umferðar um reitinn, m.a. vegna ábendinga íbúa um mikla umferð um Hólabraut og Laxagötu.  Vegna þeirra ábendinga hafi verið gerðar meiri háttar breytingar í umferðarstýringu í því skyni að koma í veg fyrir umferðaröngþveiti og tryggja að umferðin hafi í för með sér sem minnsta röskun fyrir nágranna á álagstímum.  Þá séu mun fleiri bílastæði á lóðinni að Hólabraut 16 en reglur geri ráð fyrir, eða 28 talsins.

Hvað varði skuggamyndun á næstu lóðir vegna ráðgerðrar viðbyggingar að Hólabraut 16 verði að hafa í huga að viðbyggingin sé aðeins 7 m á breidd og 6 m á hæð.  Að Laxagötu 3a, sem sé næsta lóð við Hólabraut 16, sé 18 m há alaskaösp en skuggavarp af henni sé mjög mikið á lóðirnar Laxagötu 3a, Laxagötu 3b og Hólabraut 18.  Viðbyggingin muni ekki hafa í för með skuggavarp nema á lóðina Laxagötu 3a, sem sé í raun ekkert miðað við skuggavarp frá hinni 18 m háu alaskaösp sem sé á lóðinni.  Jafnvel án asparinnar myndi skuggavarp af viðbyggingunni verða hverfandi.

Umræddur reitur hafi byggst upp allt frá árabilinu 1932 til 1935.  Á honum séu mismunandi stórar lóðir og ekki síður misstórar húsbyggingar.  Á sumum lóðum sé því lítið svigrúm fyrir frekari byggingar en á öðrum sé hægt að auka umfang þeirra og hækka nýtingarhlutfall.  Málefnalegar ástæður geti verið fyrir því að nýtingarhlutfall sé ekki hið sama á lóðum innan deiliskipulagssvæðis og eigi það sérstaklega við þegar um sé að ræða þegar byggð hverfi.  Með breytingunni sé verið að bregðast við áðurgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar varðandi lóðina að Hólabraut 16 og um leið taka á umferðarmálum í ljósi athugasemda íbúa.  Séu því lögmætar ástæður fyrir skipulagsbreytingunni.

Í gr. 4.4.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segi að á miðsvæði skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóni heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi.  Líta verði til þess að hér sé um að ræða miðbæjarsvæði og megi því kærendur búast við breytingum, þéttingu byggðar og þjónustu á svæðinu.  Áréttað sé að starfsemi byggingarleyfishafa hafi verið við Hólabraut 16 í 50 ár, eða lengur en eignarhald flestra ef ekki allra kærenda að fasteignum á svæðinu hafi varað.

Hið kærða byggingarleyfi styðjist samkvæmt framangreindu við gilt deiliskipulag sem sé í samræmi við gildandi aðalskipulag og séu því engin rök fyrir ógildingu þess.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu um ógildingu hins kærða byggingaleyfis mótmælt.

Verslunarrekstur byggingarleyfishafa á umræddum stað sé rótgróinn, enda hafi hann verið þar um áratuga skeið.  Í tímans rás hafi starfsemin vaxið og fyrir löngu hafi verið orðið brýnt að stækka húsnæði verslunarinnar.  Ítrekað hafi verið leitað eftir því við bæjaryfirvöld á Akureyri að fundið yrði fullnægjandi húsnæði undir verslunina í miðbæ eða á öðrum hentugum stað í bænum en það hafi ekki tekist.  Hafi því verið  brugðið á það ráð að nýta möguleika á stækkun núverandi verslunarhúsnæðis.  Byggingarleyfi fyrir stækkuninni hafi verið veitt en úrskurðarnefndin hafi fellt það úr gildi með umdeilanlegri túlkun á deiliskipulagi svæðisins.  Húsið að Hólabraut 16 hafi verið byggt áratugum fyrir gildistöku deiliskipulagsins og hafi ákvæði þess um nýtingarhlutfall því engin áhrif átt að hafa gagnvart þeirri lóð.  Nýtingarhlutfall lóðar byggingarleyfishafa að Laxagötu 1 hafi við veitingu fyrra byggingaleyfis farið úr 0,0 í 0,53 sem hafi verið talsvert undir hámarksnýtingarhlutfalli skipulagsins.  Miðað við forsendur umrædds úrskurðar hafi byggingarleyfishafi í reynd tapað rétti til frekari bygginga á lóðunum með sameiningu þeirra og þar með verið sviptur stjórnarskrárhelguðum eignarrétti.

Hið kærða byggingaleyfi hafi verið veitt í kjölfar breytingar á deiliskipulagi svæðisins sem einnig sé til meðferðar í kærumáli þessu.  Óumdeilt sé að byggingarleyfið sé í samræmi við breytt deiliskipulag, en kærendur hafi ekki fært fram sérstakar málsástæður til stuðnings kröfu sinni um ógildingu þess.  Þeir vísi hins vegar til málsraka sem færð hafi verið fram til stuðnings kröfu um ógildingu deiliskipulagsbreytingarinnar.

Athugasemdir byggingarleyfishafa við einstakar málsástæður kærenda varðandi gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar eru á sömu lund og fram komnar athugasemdir Akureyrarbæjar í því efni.  Benda þeir á að umdeild deiliskipulagsbreyting sé í raun aðeins staðfesting á fyrra ástandi í lóðamálum hvað byggingarleyfishafa áhræri, en hann hafi um langt skeið rekið verslun sína á umræddum stað og haft umráð þeirra lóða sem nú hafi verið sameinaðar.  Í hvívetna hafi verið farið að lögum við meðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar og því séu engar forsendur fyrir því að taka kröfu kærenda um ógildingu hennar til greina.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum en hér hefur verið rakið en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn kærumálsins.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu voru lóðir markaðar auk þess sem byggingarreitir og nýtingarhlutfall hverrar lóðar var ákvarðað í stað eins byggingarreits og nýtingarhlutfalls fyrir umræddan reit í heild í eldra skipulagi.  Þá voru lóðir að Gránufélagsgötu 1-3 og 5, sem nýttar hafa verið undir bílastæði, sameinaðar lóðinni að Hólabraut 16, viðbygging heimiluð við fasteign lóðarhafa hinnar sameinuðu lóðar og breytingar gerðar á skipulagi umferðar á svæðinu.  Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að fyrst og fremst sé deilt um heimilaða viðbyggingu að Hólabraut 16, með vísan til þess að hún festi rekstur vínbúðar í sessi á staðnum, með tilheyrandi ónæði og óþægindum fyrir íbúa í nágrenninu.

Hugmyndir að hinni kærðu breytingu á deiliskipulagi lóða við Hólabraut og Laxagötu var kynnt á íbúafundi, breytingartillagan síðan auglýst til kynningar og húsakönnun gerð.  Að lokinni kynningu var tillagan tekin fyrir í skipulagsnefnd, sem bókaði svör við fram komnum athugasemdum og lagði til við bæjarstjórn að hún samþykkti deiliskipulagsbreytinguna, sem hún og gerði.  Verður að telja að bæjarstjórn hafi með samþykkt sinni fallist á svör við fram komnum athugasemdum í fyrirliggjandi bókun skipulagsnefndar.  Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er ekki skylt að taka saman lýsingu þá á skipulagsverkefni, sem fjallað er um í 1. mgr. 40. gr. laganna, þegar um er að ræða breytingu á deiliskipulagi.  Var því ekki þörf á samantekt slíkrar lýsingar við meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar, sem að öðru leyti virðist hafa verið farið með í samræmi við ákvæði 40. – 43. gr. um meðferð deiliskipulagsákvarðana  í skipulagslögum.

Í eldra deiliskipulagi svæðisins voru ráðagerðir um niðurrif húsa á umræddum reit og enduruppbyggingu hans í tengslum við nærliggjandi svæði.  Ákvæði deiliskipulagsins um tilhögun breytinga á því, sem taka mið af skipulagsáformum sem þá voru uppi, geta ekki bundið hendur sveitarstjórnar við endurskoðun deiliskipulags til framtíðar, enda gera skipulagslög ráð fyrir að til breytinga geti komið á deiliskipulagi.  Geta t.d. breytt viðhorf, byggðaþróun og skipulagsrök kallað á slíkar breytingar.  Eins og hér stóð á lá fyrir umsókn um leyfi fyrir nýrri byggingu á svæðinu og verður að telja að bæjaryfirvöldum hafi verið rétt að taka deiliskipulag umrædds reits til endurskoðunar, enda var það nauðsynlegt til að fullnægt yrði kröfum skipulagslaga og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um framsetningu skipulagsáætlana.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er ekki hróflað við þeirri byggð sem fyrir er á umræddum reit og með skilgreiningu lóða, auk byggingarreita og nýtingarhlutfalls innan hverrar lóðar, er réttarstöðu hvers lóðarhafa gerð betri skil en áður var.  Nýtingarhlutfall sameinaðrar lóðar að Hólabraut 16 verður við breytinguna 0,6.  Nýtingarhlutfall lóða kærenda innan reitsins verður 0,93 að Hólabraut 18, 0,65 að Laxagötu 3a og 0,75 að Laxagötu 3b, 4 og 6.  Nýtingarhlutfall nefndra lóða víkur ekki að marki frá fyrra nýtingarhlutfalli reitsins og verður ekki séð að á kærendur halli borið saman við rétt annarra lóðarhafa á reitnum.

Kærendur vísa til þess að umdeild breyting á skipulagi og fyrirhuguð nýbygging hafi umtalsverð grenndaráhrif gagnvart þeim eignum sem næst standi hinni nýju byggingu.  Þegar þess er gætt að nýtingarhlutfalli nýrrar sameinaðrar lóðar nr. 16 við Hólabraut er í hóf stillt og að um miðbæjarsvæði er að ræða verða þessi áhrif þó ekki talin meiri en íbúar gátu vænst.

Nokkrar breytingar eru gerðar á skipulagi umferðar á svæðinu sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á umferðarflæði þar, svo sem með því að ákvarða einstefnu um Laxagötu og loka Hólabraut til norðurs.  Þá er þess ekki að vænta að heimilaðri viðbyggingu að Hólabraut fylgi aukin umferð í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir að þjónustusvæði verslunarinnar stækki vegna breytingarinnar.

Að öllu framangreindu virtu eru ekki fyrir hendi þeir annmarkar á málsmeðferð eða efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem leiða eigi til ógildingar hennar.  Þá verður að telja að lögmætar ástæður hafi búið að baki skipulagsbreytingunni.  Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Að þessari niðurstöðu fenginni telst hið kærða byggingarleyfi eiga stoð í gildandi deiliskipulagi og þar sem ekki verður séð að það sé haldið ágöllum er varði form þess eða efni verður kröfu kærenda um ógildingu þess einnig hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrar frá 21. júní 2011 um að breyta deiliskipulagi norðurhluta miðbæjar Akureyrar er tekur til lóða við Hólabraut og Laxagötu.

Jafnframt er hafnað kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsstjóra Akureyrar frá 12. október 2011 um að samþykkja byggingarleyfisumsókn fyrir viðbyggingu að Hólabraut 16.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson