Árið 2012, miðvikudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.
Fyrir var tekið mál nr. 26/2012, kæra vegna framkvæmda fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ó, Lálandi 14, Reykjavík, framkvæmdir fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland.
Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að umdeildar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar. Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.
Málsatvik og rök: Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. júní 2009 var samþykkt tillaga að nýju deiliskipulagi Fossvogsdals sem tók til legu á göngu- og hjólreiðastígum sem tengja saman Öskjuhlíð og Elliðaárdal. Í skilmálum deiliskipu¬lagsins segir m.a. að meðfram göngustígnum sé gert ráð fyrir áningarstöðum annars vegar minni, þar sem verði bekkir og hins vegar stærri sem verði hannaðir m.t.t. aðstæðna á hverjum stað. Staðsetning áningarstaðanna og afmörkun sé til skýringar og því ekki bindandi fyrir endanlega útfærslu. Á skipulagsuppdrætti er sýndur áningarstaður af stærri gerð fyrir framan lóð kæranda að Lálandi 14. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 11. ágúst 2009.
Snemma á árinu 2012 virðist hafa verið ráðist í framkvæmdir við frágang áningarstaðar fyrir framan lóð kæranda. Þar liggja tveir stígar, nokkurn veginn samsíða, og eru um það bil 5-6 metrar á milli þeirra þar sem umræddur áningarstaður er. Hellulagt svæði er við stíg þann sem er nær lóð kæranda, en nokkur tæki eru á svæðinu milli stíganna, nokkru fjær lóðinni en hellulagða svæðið.
Kærandi vísar til þess að þegar hann hafi grennslast fyrir um umfang framkvæmda í Fossvogi hafi skýringarmynd að mannvirkjum sem staðsett hafi verið við enda fyrirhugaðs hjólreiðastígs ekki gefið til kynna að umfang þeirra yrði í raun það sem síðar hafi komið í ljós. Á fundi með verkefnastjóra og deildarstjóra hjá Reykjavíkurborg hafi fyrst komið fram skýring á því hversu umfangsmikil framkvæmdin yrði. Þá hafi framkvæmdum verið harðlega mótmælt með ítarlegum rökstuðningi. Í kjölfarið hafi verkefnastjóri óskað eftir því að mótmæli og rök yrðu send í tölvupósti til formlegrar meðhöndlunar. Hinn 23. mars 2012 hafi komið svar frá verkefnastjóra þar sem niðurstaða fundar með skipulagsyfirvöldum hafi verið sú að framkvæmd við áningarstað og hönnun samræmdist deiliskipulagi að öllu leyti.
Kærandi telji að með framkvæmdunum sé augljóslega verið að rýra verðmæti eignarinnar að Lálandi 14 og valda honum verulegu tjóni. Því sé kærð uppbygging á líkamsræktaraðstöðu með margvíslegum líkamsræktartækjum fyrir framan lóðina að Lálandi 14 þar sem einungis hafi verið gert ráð fyrir áningarstöð í samþykktu deiliskipulagi. Einnig sé kært hversu nálægt áningarstöðin sé lóð kæranda, um 3 metrar, og valdi þannig eignartjóni. Hvergi séu fordæmi fyrir áningarstöð svo nálægt einkalóð í Fossvogi.
Reykjavíkurborg bendir á að ákveðið hafi verið að koma upp nokkrum æfingatækjum á umræddum áningarstað eins og víðar sé að finna á hliðstæðum áningarstöðum. Það sé hins vegar ofmælt að um líkamsræktaraðstöðu sé að ræða. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda verði kunnugt eða hafi mátt vera kunnugt um ákvörðun þá sem hann hyggist kæra. Umrætt deiliskipulag hafi verið auglýst í ágúst 2009 og sé kærufrestur því löngu liðinn nú tæpum þremur árum síðar. Að auki megi geta þess að ekkert byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir líkamsræktartækjum á umræddri áningarstöð enda, séu þau ekki byggingarleyfisskyld. Í raun liggi því engin kæranleg ákvörðun fyrir í málinu og sé þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið vísa borgaryfirvöld til deiliskipulags fyrir Fossvogsdal, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 11. ágúst 2009. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er frá birtingu umræddrar auglýsingar og er hann löngu liðinn. Kemur umrætt skipulag því ekki til endurskoðunar í málinu.
Ekki verður annað séð en að umdeildar framkvæmdir séu í samræmi við tilvitnað deiliskipulag. Það liggur hins vegar fyrir að ekki hefur verið veitt leyfi fyrir framkvæmdunum samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 og halda borgaryfirvöld því fram að ekki sé um leyfisskyldar framkvæmdir að ræða. Því liggur ekki fyrir kæranleg ákvörðun í málinu og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. Engin afstaða er hins vegar tekin í úrskurði þessum til þess hvort um leyfisskylda framkvæmd sé að ræða.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Hildigunnur Haraldsdóttir