Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2011 Kúrland

Árið 2012, fimmtudaginn 2. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2011, kæra á samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. mars 2011 fyrir setlaug í bakgarði fasteignarinnar við Kúrland 27 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. maí 2011, er barst nefndinni 4. s.m., kærir Þórhallur H. Þorvaldsson hdl., fyrir hönd E og K, Kúrlandi 25, Reykjavík, samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. mars 2011 fyrir setlaug í bakgarði fasteignarinnar við Kúrland 27.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að setlaugin verði fjarlægð.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að í maímánuði 2010 hugðist byggingarleyfishafi koma fyrir setlaug á trépalli í bakgarði raðhússins að Kúrlandi 27.  Með bréfi, dags. 7. desember 2010, synjaði byggingarfulltrúi um leyfi fyrir setlauginni með vísan til þess að ekki lægi fyrir samþykki sameiganda lóðar fyrir byggingu laugarinnar.  Synjun byggingarfulltrúa var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi þar sem rök að baki ákvörðuninni þóttu ekki haldbær.  Í kjölfar þess leitaði byggingarleyfishafi í annað sinn eftir samþykki fyrir nefndum framkvæmdum og var umsóknin samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 29. mars 2011.  Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að við meðferð umræddrar byggingarleyfisumsóknar um uppsetningu setlaugar hafi ekki verið gætt málsmeðferðarreglna III. kafla mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem ekki hafi verið látin fara fram grenndarkynning til að nágrönnum gæfist kostur á að koma á framfæri athugasemdum.  Eigi sá annmarki að leiða til þess að fella beri umrætt byggingarleyfi úr gildi og að byggingaryfirvöld hlutist til um að heimilað mannvirki verði fjarlægt í samræmi við 55. gr. mannvirkjalaga.  Ráðist hafi verið í hinar umdeildu framkvæmdir án þess að áður hafi verið gefið út gilt byggingarleyfi fyrir þeim í samræmi við ákvæði laganna, sbr. og ákvæði skipulagslaga, en framkvæmdum hafi að mestu eða öllu leyti verið lokið áður en um þær hafi verið sótt.  Hafi byggingaryfirvöldum því borið að stöðva þá þegar framkvæmdir í samræmi við 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga.

Krafan um ógildingu byggingarleyfis sé byggð á sjónarmiðum nábýlisréttar.  Ljóst sé að umræddar framkvæmdir hafi í för með sér verulegt ónæði og jafnframt röskun og óþægindi fyrir kærendur.  Heimiluð setlaug sé staðsett nyrst á baklóð lóðarinnar við Kúrland 27 og sé því í beinni sjónlínu frá norðurgluggum fasteignar kærenda og í raun blasi hún við úr setustofu.  Staðsetning laugarinnar sé þannig óviðunandi enda verði með engu móti séð að fasteignareigendum verði gert að hafa slíkt mannvirki fyrir augum.  Staðsetningin hafi bæði sjón- og hljóðmengun í för með sér.  Þá sé staðsetning og notkun setlaugarinnar til þess fallin að særa blygðunarkennd kærenda og þeirra sem sæki þá heim og skerði í raun athafnafrelsi þeirra.  Kærendur eigi augljósra hagsmuna að gæta í þessu efni og við slíkt hagsmunamat verði m.a. að horfa til sjónarmiða um meðalhóf og þá sérstaklega að byggingarleyfishöfum hafi verið í lófa lagið að velja setlauginni annan stað á lóð sinni, t.d. undir húsvegg fasteignar þeirra. 

Hafa verði í huga að kærendur hafa búið í þrjá áratugi að Kúrlandi 25 og teljist því umræddar framkvæmdir veruleg breyting á nágrenni þeirra og útsýni.  Leggja beri þær kvaðir á fasteignareigendur að þeir hagi framkvæmdum með þeim hætti að þess sé gætt eftir fremsta megni að þær skerði ekki hagsmuni eða not þeirra fasteignareigenda sem fyrir séu.  Vísað sé til almennra sjónarmiða nábýlisréttar og til sjónarmiða 3. tl. 13. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, en umrætt raðhús teljist vera fjöleignarhús í skilningi laganna.  Í lögunum séu lagðar þær skyldur á eiganda fasteignar í fjöleignarhúsi að hann taki eðlilegt og sanngjarnt tillit til hagsmuna annarra eigenda við hagnýtingu séreignar sinnar, en einkaréttur eiganda í fjöleignarhúsi sé m.a. háður reglum nábýlisréttar, sbr. 12. gr. laganna. 

Loks sé bent á að umræddar framkvæmdir séu líklegar til að draga úr verðgildi fasteignar kærenda með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafar krefjast þess að kæru á veittu byggingarleyfi byggingarfulltrúa verði vísað frá nefndinni. 

Hafnað sé þeirri fullyrðingu kærenda að 44. gr. skipulagslaga eigi ekki við í málinu líkt og kærendur haldi fram enda sé í gildi deiliskipulag frá árinu 1968 fyrir raðhúsahverfi í Fossvogi, nánar tiltekið á því svæði þar sem umræddar raðhúsalóðir séu staðsettar.  Þá muni bygging setlaugar á sérgreindum lóðarhluta byggingarleyfishafa ekki hafa í för með sér verulegar breytingar á deiliskipulagi fyrir raðhúsahverfið í Fossvogi.  Skipulagsnefnd hafi því ekki verið skylt að láta fara fram grenndarkynningu. 

Fyrir liggi útgefið leyfi byggingarfulltrúans frá 29. mars 2011 fyrir byggingu setlaugarinnar.  Því sé hafnað að hægt sé að beita ákvæði 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga, líkt og kærendur byggi kröfu sína á, með þeim hætti að það taki til tilvika þar sem leyfi hafi þegar verið gefið út fyrir framkvæmd.  Ef ákvæðinu væri beitt á þann hátt myndi það leiða til að stöðva yrði umræddar framkvæmdir og fjarlægja laugina eingöngu í þeim tilgangi að geta hafið framkvæmdir að nýju.  Þá sé ljóst af orðalagi ákvæðisins að því sé ætlað að taka til mannvirkja í skilningi umræddra laga.  Í 3. gr. sé hugtakið mannvirki skilgreint og þrátt fyrir að ákvæðið feli ekki í sér tæmandi talningu sé ljóst að setlaug verði ekki skilgreind sem mannvirki en í ákvæðinu séu í dæmaskyni nefnd mannvirki á borð við hús, byggingar og skýli. 

Því sé hafnað að setlaugin hafi í för með sér sjón- og hljóðmengun eða særi blygðunarsemi kærenda.  Setlaugin sé staðsett á lóðarhluta á baklóð byggingarleyfishafa.  Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins og lóðarleigusamningi ásamt lóðarblaði sé ljóst að raðhúsi nr. 27 fylgi garður sem sé sérstakur lóðarhluti.  Kærendur geti því ekki tekið sér það vald að ákveða hvar setlaugin sé staðsett, þrátt fyrir að hún kunni að sjást úr einum glugga raðhússins nr. 25. 

Þá liggi loks fyrir að umrætt mál hafi áður hlotið lögmæta afgreiðslu byggingarfulltrúa, sem og úrskurðarnefndar, sem komist hafi að þeirri niðurstöðu að byggingarleyfishafa væri ekki skylt að afla samþykkis annarra rétthafa þeirrar sameiginlegu lóðar sem hér um ræði til framkvæmda á sérgreindum lóðarhluta þar sem setlaugin sé staðsett. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg byggir málsrök sín á því að með úrskurði hinn 4. mars 2011 hafi úrskurðarnefndin fellt úr gildi synjun byggingarfulltrúa frá 7. desember 2010 á umsókn um leyfi fyrir nefndum potti.  Hafi Reykjavíkurborg ekki séð sér annað fært í kjölfarið en að samþykkja leyfi fyrir umræddum potti.  Reykjavíkurborg muni af þeim sökum ekki láta málið frekar til sín taka fyrir úrskurðarnefndinni.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 21. nóvember 2011. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið felldi úrskurðarnefndin úr gildi synjun byggingarfulltrúa á umsókn um leyfi fyrir umdeildri setlaug þar sem rök byggingarfulltrúa fyrir synjuninni þóttu ekki haldbær.  Töldu borgaryfirvöld að í kjölfar þess úrskurðar væri þeim ekki annað fært en að veita leyfi fyrir setlauginni.  Gaf úrskurðurinn þó ekki tilefni til þeirrar ályktunar að byggingaryfirvöldum hefði verið skylt að veita leyfi fyrir setlauginni þótt hafnað hefði verið þeim rökum að veiting leyfisins væri háð samþykki eigenda húsanna nr. 23, 25 og 29 við Kúrland á grundvelli laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Þvert á móti bar borgaryfirvöldum að taka til athugunar réttarstöðu aðila miðað við þær forsendur að ekki væri um sameiginlega lóð að ræða. 

Byggingarleyfi þarf fyrir setlaugum, sbr. 69 gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin og á við í þessu máli.  Við mat á því hvort veita ætti leyfi fyrir setlauginni bar að líta til staðsetningar hennar og þeirra áhrifa er hún kynni að hafa gagnvart lóð kærenda. 

Í 67. og 68 gr. tilvitnaðrar byggingarreglugerðar eru ákvæði um girðingar og gróður á lóðum og verður af þessum ákvæðum ráðið að lóðarhafar þurfi að vera sammála um girðingar og gróður á og við lóðamörk og að lóðarhafi eigi íhlutunarrétt um girðingar séu þær nær lóðamörkum en sem nemi hæð þeirra.  Setlaug sú sem um er deilt í málinu er á upphækkuðum palli sem nær að girðingu á lóðamörkum og er setlaugin staðsett alveg við girðinguna.  Þá verður að fallast á að setlaugin, á þeim stað sem henni var valinn, hafi veruleg grenndaráhrif gagnvart eign kærenda.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem búi að baki ákvæða 67. og 68. gr. tilvitnaðrar byggingarreglugerðar og þeirra grenndaráhrifa, sem setlaugin hefur, hafi ekki verið rétt að veita leyfi fyrir henni á umræddum stað án samþykkis kærenda.  Styðst þessi niðurstaða einnig og við ákv. 4. mgr. gr. 4. 2. 2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, þar sem segir að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar. 

Með hliðsjón af framansögðu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi. 

Auk þess að krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar krefjast kærendur þess að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að setlaugin verði fjarlægð í samræmi við fyrirmæli 55. gr. laga nr. 160/2010.  Er það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að kveða á um beitingu slíkra þvingunarúrræða enda liggur ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun þar sem tekin hefur verið afstaða til slíkrar kröfu.  Verður þessari kröfu því vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavíkur frá 29. mars 2011, um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir setlaug í bakgarði fasteignarinnar nr. 27 við Kúrland.  Vísað er frá kröfu kærenda um að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að hlutast til um að setlaugin verði fjarlægð. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson