Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2011 Leirutangi

Ár 2011, miðvikudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 49/2011, kæra vegna kröfu byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 24. júní 2011 um úrbætur á frágangi og viðhaldi húss, lóðar og bílastæða að Leirutanga 29 í Mosfellsbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júní 2011, er barst nefndinni 1. júlí s.á., framsendi umhverfisráðuneytið til úrskurðarnefndarinnar erindi G, Krosshömrum 29, Reykjavík, þar sem hann kærir kröfu byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar, dags. 24. júní 2011, um úrbætur, m.a. varðandi frágang bílastæða, lóðar og húss að Leirutanga 29 í Mosfellsbæ. 

Málsatvik og rök:  Kærandi er eigandi að fasteigninni að Leirutanga 29, Mosfellsbæ.  Hinn 24. júní 2011 ritaði byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar bréf til kæranda í framhaldi af skoðun hans á ástandi og frágangi húss og lóðar að Leirutanga 29.  Kom þar fram að úrbóta væri þörf varðandi frágang og viðhald hússins, frágang bílastæða á lóð og að nauðsynlegt væri að fjarlægja trjágróður eða minnka verulega umfang hans.  Var til þess vísað í bréfinu að í gr. 61.5-61.7 og 68. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 væri kveðið á um byggingareftirlit sem og skyldur húseigenda varðandi gróður á lóðum og frágang húsa og lóða.  Í grein 2.8 í gildandi skipulags- og byggingarskilmálum fyrir Leirutanga frá 19. maí 1981 hafi verið mælt fyrir um að frágangi húss, lóðar og bílastæða skyldi vera lokið eigi síðar en fjórum árum eftir veitingu byggingarleyfis.  Í 11. gr. gildandi lóðarleigusamnings fyrir Leirutanga 29, undirrituðum af kæranda, séu ákvæði sem kveði á um að frágangi húss og lóðar skuli vera lokið.  Var kæranda gefinn frestur til 15. ágúst 2011 til að lagfæra frágang bílastæða, lóðar og húss og  fjarlægja eða minnka umfang trjágróðurs á lóðinni.  Yrði kröfum um úrbætur ekki sinnt mætti kærandi, að þeim tíma liðnum, búast við að gripið yrði til aðgerða til að knýja fram úrbætur í samræmi við 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. 

Kærandi mótmælti framangreindum kröfum byggingarfulltrúa með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 28. júní 2011, sem framsent var samdægurs til úrskurðarnefndarinnar.  Kemur þar fram að kærandi telji sig ofsóttan af nágrönnum sínum sem og af byggingarfulltrúa, m.a. með hótunum um háar dagsektir.  Þá sé rökstuðningur byggingarfulltrúans byggður á reglum sem lögfestar hafi verið löngu eftir gróðursetningu trjánna sem um ræði, en þau hafi verið gróðursett í kringum 1980 án nokkurra athugasemda byggingarfulltrúa eða nágranna á þeim tíma. 

Af hálfu Mosfellsbæjar er farið fram á að kröfum kæranda er varði skrif byggingarfulltrúa eftir vettvangsskoðun hans verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki hafi verið um stjórnvaldsákvörðun að ræða í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 líkt og 59. gr. mannvirkjalaga kveði á um.  Til vara gerir Mosfellsbær þá kröfu að skrif byggingarfulltrúa verði talin réttmæt sem hluti af eðlilegu eftirliti hans með málaflokknum enda hafi skrifin fyrst og fremst miðað að því að gefa kæranda kost á að bregðast við og neyta andmælaréttar síns, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, áður en hugsanlega yrði tekin stjórnvaldsákvörðun af hálfu sveitarstjórnar, sbr. 56. gr. mannvirkjalaga.  Í bréfinu hafi hins vegar láðst að inna kæranda formlega eftir andmælum sínum. 

Heimildir byggingarfulltrúa til að skrifa kæranda bréf, líkt og hann hafi gert með bréfi sínu, dags. 24. júní 2011, byggi á almennum heimildum hans sem eftirlitsmanns með gildandi reglum og lögum í þeim málaflokki sem honum sé ætlað að hafa umsjón með.  Geti umrædd skrif ekki talist formleg stjórnvaldsákvörðun um réttindi og skyldur kæranda heldur einungis ábendingar um atriði sem talin séu vera á skjön við þær skyldur sem kærandi hafi tekið á sig með vísan til gildandi lóðarleigusamnings, skipulagsskilmála, byggingarreglugerðar og 56. gr. mannvirkjalaga.  Til að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða verði að fara með hina kærðu ákvörðun samkvæmt 56. gr. mannvirkjalaga, sbr. 210. gr. byggingarreglugerðar, þ.e. stjórnvaldsákvörðun verði að vera tekin af sveitarstjórn Mosfellsbæjar. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé.  Í 2. mgr. 56. gr. sömu laga er mælt fyrir um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 krónum til að knýja menn til þeirra verka sem þau skuli hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum.  Er þar ekki gerður áskilnaður um samþykki sveitarstjórnar líkt og gert var í tíð eldri laga. 

Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.  Í máli þessu var um að ræða áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur innan tiltekins frests og mælt fyrir um að yrði úrbótum ekki lokið að þeim tíma liðnum mætti kærandi búast við að gripið yrði til aðgerða til að knýja þær fram skv. 56. gr. mannvirkjalaga.  Var því aðeins um að ræða tilkynningu byggingarfulltrúa um að hann kynni að beita dagsektum að ákveðnum tíma liðnum en ekki ákvörðun um álagningu slíkra sekta eða upphæð þeirra.  Verður þessi tilkynning byggingarfulltrúa ekki talin fela í sér lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson