Ár 2011, miðvikudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 47/2011, kæra vegna framkvæmda við breytingu og stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júní 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir S, íbúi að Urðarholti 7, Mosfellsbæ, framkvæmdir við breytingu og stækkun bílastæðis að Þverholti 6 í Mosfellsbæ. Gerir kærandi þá kröfu að leyfi byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar fyrir hinum kærðu framkvæmdum verði fellt úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði á um stöðvun framkvæmda. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.
Málsatvik og rök: Í lok aprílmánaðar 2011 munu framkvæmdir hafa byrjað við stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6, en þar er rekin bílasala. Liggur fasteign kæranda að nefndri lóð. Í kjölfarið spurðist kærandi fyrir um framkvæmdirnar hjá byggingaryfirvöldum bæjarins, m.a. í bréfi, dags. 23. maí 2011, og mótmælti þeim. Svar barst frá byggingarfulltrúa bæjarins í bréfi, dags. 3. júní 2011, þar sem sú afstaða kom fram að umdeildar framkvæmdir væru hvorki leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum né mannvirkjalögum og kölluðu ekki á breytingar á skipulagi.
Kærandi vísar til þess að umdeildar breytingar á lóðinni að Þverholti 6 raski grenndarhagsmunum hans með útsýnisskerðingu, auknu ónæði vegna reksturs bílasölunnar og takmarki auk þess afnot kæranda af fasteign hans, svo sem við að koma sólpalli fyrir í því horni lóðarinnar sem snúi að greindu bílastæði. Þá valdi breytingarnar því að fasteign kæranda verði ekki jafn söluvæn og áður. Umdeildar framkvæmdir brjóti í bága við 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, eða eftir atvikum 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, varðandi framkvæmdaleyfi og samþykki byggingaráforma auk þess sem farið sé gegn reglum eigna- og grenndarréttar. Áhöld séu jafnframt um hvort umræddar framkvæmdir séu í samræmi við skipulag.
Af hálfu byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar hefur verið áréttuð sú skoðun, sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda frá 3. júní 2011, að greindar framkvæmdir séu ekki þess eðlis að þær kalli á nýtt skipulag eða séu háðar formlegum leyfum samkvæmt skipulags- eða mannvirkjalögum.
Niðurstaða: Kæra í máli þessu er reist á efni bréfs byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ, dags. 3. júní 2011, sem sent var sem svar við fyrirspurnum kæranda til embættisins í tilefni af umdeildum framkvæmdum á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ.
Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og verður ákvörðunin að binda endi á meðferð máls sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum hefur ekki verið tekin stjórnvaldsákvörðun sveitarstjórnar á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010, eða kæranleg ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010, sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
__________________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson