Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/2011 Skipulagsgjald

Ár 2011, föstudaginn 1. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2011, kæra á álagningu skipulagsgjalds vegna geymslu, matshluta 3, í landi Hóls, Rangárþingi eystra. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. mars 2011, er barst nefndinni 18. sama mánaðar, framsendi Þjóðskrá Íslands erindi eiganda jarðarinnar Hóls, Rangárþingi eystra, dags. 1. mars 2011, þar sem farið er fram á að álagning skipulagsgjalda vegna geymslu, matshluta 3, á nefndri jörð verði felld niður.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2000 áritaði byggingarfulltrúi Rangárþings b.s. teikningu, sem dagsett er í júlí 2000, af 52 m2 óskráðu húsi í landi Hóls.  Hinn 23. ágúst 2010 sendi byggingarfulltrúi Þjóðskrá Íslands móttökulista fyrir matsgögn vegna verkfærageymslu, sem merkt var matshluti 3, í landi Hóls.  Kemur þar fram að greindur matshluti, sem byggður hafi verið í kringum árið 2000, hafi náð byggingarstigi 7.  Um sé að ræða kalda geymslu, lítið sem ekkert einangraða, og fylgdi með fyrrgreind teikning frá árinu 2000.  Geymslan var síðan skráð og virt til brunabóta hjá Þjóðskrá Íslands hinn 2. febrúar 2011 og skipulagsgjald lagt á.  Fékk umræddur matshluti matsnúmerið 232 2010.

Kærandi vísar til þess að hið umdeilda skipulagsgjald sé nú lagt á gamlan kofa sem standi á lögbýli hans en hafi byggingaryfirvöldum verið tilkynnt um hann fyrir mörgum árum.  Skipulagsgjald eigi að leggja á nýreist hús samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en ekki sé um það að ræða í máli þessu.  Umræddur kofi hafi verið byggður á árunum 1998-1999 með leyfi Vestur-Landeyjahrepps, sem nú tilheyri Rangárþingi eystra, og hafi teikning legið fyrir hjá byggingarfulltrúa í mörg ár.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.

Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún geti dregist nokkuð eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á allnokkru eftir að byggingu mannvirkis var lokið.  Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar og verður að gera þá kröfu að tilkynning til Þjóðskrár, sem er forsenda álagningar skipulagsgjalds, eigi sér stað án ástæðulauss dráttar.  Verður ekki á það fallist að umrædd bygging, sem leggja verður til grundvallar að reist hafi verið fyrir tíu til tólf árum, verði talin nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga þegar umdeild álagning fór fram.  Ekki liggur fyrir í málinu að atvik sem kærandi ber ábyrgð á hafi átt þátt í þeim drætti sem varð á umdeildri álagningu.

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi álagningu skipulagsgjalds á umrædda byggingu kæranda eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds frá febrúar 2011, vegna geymslu, sem merkt er matshluti 3, í landi Hóls, Rangárþingi eystra, og ber matsnúmerið 232 2010.

______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson