Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2009 Þúfukot

Ár 2011, fimmtudaginn 10. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 43/2009, kæra á afgreiðslu hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 2. apríl 2009 á beiðni um deiliskipulag hluta jarðarinnar Þúfukots í Kjósarhreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. júní 2009, er barst nefndinni 22. s.m., kærir H, Þúfukoti, Kjósarhreppi, afgreiðslu hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 2. apríl 2009 á beiðni um deiliskipulag hluta jarðarinnar Þúfukots.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gild. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps 10. júlí 2008 var til umfjöllunar tillaga kæranda máls þessa um deiliskipulag hluta jarðarinnar Þúfukots í Kjós.  Var eftirfarandi fært til bókar á fundinum:  „Tillagan gerir ráð fyrir 20 lóðum fyrir búgarða og 4 lóðum fyrir íbúðarhús ásamt sameiginlegu svæði.  Meðfylgjandi eru umsagnir Veðurstofu Íslands og Fornleifaverndar ríkisins.  Frestað. Skipulagsnefnd tekur jákvætt undir erindið en felur skipulagsfulltrúa að afla ítarlegri gagna og umsagna.“  Á fundi nefndarinnar 5. nóvember s.á. var erindi kæranda til umfjöllunar og var eftirfarandi bókað:  „Tekin var fyrir öðru sinni deiliskipulagstillaga fyrir búgarðabyggð í landi Þúfukots. … Skipulagsnefnd samþykkir erindið með fyrirvara um umsagnir heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis og Vegagerðarinnar.“  Á fundi hreppsnefndar 6. s.m. var áðurnefnd fundargerð skipulags- og byggingarnefndar til umfjöllunar og afgreiðslu og var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Byggingarnefndarhluti fundargerðarinnar er samþykktur en skipulagshluta er hafnað og vísað aftur til skipulagsnefndar.“  Í kjölfarið ritaði oddviti hreppsnefndar formanni skipulags- og byggingarnefndar bréf, dags. 10. nóvember 2008, þar sem segir m.a. að hreppsnefnd hafi ekki þótt tímabært að samþykkja tillöguna í skipulagsnefnd fyrr en umsögn Vegagerðarinnar og Heilbrigðiseftirlits liggi fyrir.  Einnig er bent á ýmsa ágalla er hreppsnefnd þóttu vera á tillögunni.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 14. febrúar 2009 var erindi kæranda enn til umfjöllunar og var eftirfarandi bókað:  „Erindið var áður samþykkt í skipulagsnefnd 5. nóvember 2008 með fyrirvara um samþykki Vegagerðar og Heilbrigðseftirlits Kjósarsvæðis.  Afgreiðslu fundargerðar skipulagsnefndar var hafnað í hreppsnefnd 6. nóvember 2008 vegna ágalla á skipulagsuppdrætti.  Lagður er fram nýr og endurbættur uppdráttur af skipulagssvæðinu. … Bókun:  Frestað. Skipulagsfulltrúa falið að vera í samráði við skipulagshöfund varðandi frekari útfærslur skipulagsins og sjá um hagsmunaaðilakynningu.“ 

Á fundi hreppsnefndar 2. apríl 2009 var lagt fram erindi frá skipulagsfulltrúa er varðaði jörðina Þúfukot og var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagt fram erindi frá skipulagsfulltrúa fyrir hönd skipulagsnefndar þar sem óskað er eftir því að hreppsnefndin taki afstöðu til deiliskipulagstillögu í landi Þúfukots, en hún felur í sér að hin fyrirhugaða byggð skilgreinist sem þéttbýli samkvæmt skipulagslögum.  Afgreiðsla:  Framlögð tillaga fellur undir skilgreiningu á þéttbýli samkvæmt byggingar- og skipulagslögum.  Í aðalskipulagi Kjósarhrepps er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu á þéttbýlissvæðum í sveitarfélaginu.  Sveitarstjórn er einhuga um að framfylgja þeirri stefnu.“

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi unnið tillögu að deiliskipulagi fyrir hluta jarðarinnar eftir forsögn aðalskipulags sveitarfélagins og ábendingum skipulags- og byggingarnefndar og því sé óskiljanlegt hvers vegna tillögunni hafi verið hafnað. 

Kjósarhreppur bendir á að tillaga kæranda rúmist ekki innan aðalskipulags sveitarfélagsins auk þess sem henni hafi aldrei verið formlega hafnað heldur einvörðungu verið bent á að tillagan samræmdist ekki aðalskipulagi og henni vísað til frekari úrvinnslu.  Verulegir ágallar hafi verið á tillögunni sem þurfi að vinna úr áður en hún sé tæk til auglýsingar. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið vísaði hreppsnefnd, á fundi sínum 6. nóvember 2008, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 5. s.m., um tillögu að deiliskipulagi hluta jarðarinnar Þúfukots, að nýju til skipulags- og byggingarnefndar.  Í bréfi oddvita hreppsnefndar til formanns nefndarinnar, dags. 10. nóvember 2008, kom m.a. fram það mat hreppsnefndar að ekki væri tímabært að samþykkja tillöguna og bent á ágalla er hreppsnefnd þóttu vera á henni. 

Á fundi hreppsnefndar 2. apríl 2009 var lagt fram erindi frá skipulagsfulltrúa þar sem óskað var eftir afstöðu hreppsnefndar til tillögu að deiliskipulagi í landi Þúfukots.  Í bókun hreppsnefndar af því tilefni sagði að í aðalskipulagi sveitarfélagins væri ekki gert ráð fyrir uppbyggingu þéttbýlissvæða innan þess en ekki verður af bókuninni ráðið, með tilliti til forsögu málsins, að endanleg afstaða hafi verið tekin til erindisins. 

Með vísan til þessa verður hin kærða afgreiðsla ekki talin fela í sér lokaákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson