Ár 2011, þriðjudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 76/2010, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 15. nóvember 2010 um heimild til staðsetningar grenndargáma á Akureyri.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. desember 2010, er barst nefndinni samdægurs, kærir J, Ránargötu 30 á Akureyri, þá ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 15. nóvember 2010 að heimila staðsetningu grenndargáma á fjórum stöðum í bænum.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gild.
Málavextir og rök: Á fundi skipulagsnefndar Akureyrarbæjar 15. nóvember 2010 var eftirfarandi fært til bókar: „Gámasvæði vegna sorpflokkunar. Leyfi fyrir staðsetningu … Erindi dags. 08.11.2010 frá Bergi Þorra Benjamínssyni f.h. framkvæmdadeildar þar sem hann óskar eftir leyfi til að setja niður gáma til sorpflokkunar á eftirtöldum stöðum á Akureyri. Samþykki lóðarhafa og leigjenda um staðsetningarnar liggja fyrir.
Á verslunarlóðum:
1) Hrísalundur 5, Samkaup.
2) Byggðavegur 98, Strax.
Á svæði Akureyrarbæjar:
3) Kjarnagata sunnan við Bónus (heimild til staðar í deiliskipulagi).
4) Hólmatún austan leikskóla (heimild til staðar í deiliskipulagi).
Skipulagsnefnd heimilar staðsetningar grenndargáma samkvæmt meðfylgjandi tillögu framkvæmdadeildar til sorpflokkunar á ofangreindum stöðum til eins árs á grundvelli gr. 71.2 í byggingarreglugerð.“
Af hálfu kæranda er bent á að með hinni kærðu samþykkt fari skipulagsnefnd á svig við heimild í gr. 71.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 um bráðabirgðaleyfi til að setja niður grenndargáma. Framkvæmd sem þessi sé ótvírætt deiliskipulagsskyld og með samþykktinni sé sveitarfélagið að hliðra sér hjá því að vinna deiliskipulag og þar með sé fest í sessi starfsemi í hverfum bæjarins sem íbúum hafi aldrei verið veitt færi á að tjá sig um. Með þessu sé gróflega gengið á rétt íbúa.
Af hálfu Akureyrarbæjar er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu samþykktar mótmælt og vísað til þess að í grenndargámunum verði ekki lífrænt sorp og því sé ekki hætta á lyktarmengun frá þeim nema að mjög takmörkuðu leyti.
Ákveðið hafi verið að veita bráðabirgðastöðuleyfi þar sem um tilraunaverkefni sé að ræða en reynslan muni skera úr um hvort staðsetningarnar séu hentugar. Að því fengnu verði gámastæði fest í deiliskipulagi viðkomandi svæða. Með vísan til þessa sé því mótmælt að skipulagsnefnd sé með hinni kærðu samþykkt að hliðra sér hjá deiliskipulagsgerð.
Niðurstaða: Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra lögvarinna hagmuna að gæta í málinu. Var þessi regla áréttuð hvað varðar málskot til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 74/2005. Kærandi hefur ekki tilgreint með hvaða hætti hin umdeilda samþykkt varði einstaklega hagmuni hans heldur byggir hann málatilbúnað sinn alfarið á því áliti sínu að framkvæmdin sé deiliskipulagsskyld og að íbúum hafi aldrei verið veitt færi á að tjá sig um hana. Þegar litið er þess að væntanleg staðsetning grenndargámanna er fjarri heimili kæranda verður ekki séð að hann eigi þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í málinu sem eru skilyrði aðildar að kæru til úrskurðarnefndarinnar. Hefur kærandi ekki heldur bent á að hann eigi neina slíka hagsmuni af öðrum ástæðum og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni vegna aðildarskorts.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
_______________________________
Hjalti Steinþórsson
_______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson