Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2010 Sundlaug Norðfjarðar

Ár 2010, miðvikudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 55/2010, kæra á afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 5. júlí 2010 um aðkomu að sundlauginni á Norðfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. ágúst 2010, er barst nefndinni samdægurs, kærir P, eigandi íbúðar í húsinu að Egilsbraut 9, Neskaupstað, afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 5. júlí 2010 um aðkomu að sundlauginni á Norðfirði. 

Með samþykktu kauptilboði S og B, dags. 24. september 2010, í fasteign kæranda tóku þau við kæruaðild málsins hjá úrskurðarnefndinni. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.  Með bréfi kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. desember 2010, gerðu þau jafnframt kröfu um að framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu afgreiðslu yrðu stöðvaðar. 

Málavextir og rök:  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar 27. janúar 2010 var eftirfarandi bókað varðandi aðkomu að sundlauginni á Norðfirði:  „Lögð fram teikning skipulagsfulltrúa dagsett 22. janúar 2010 af tillögu af bílastæðum við sundlaugina á Norðfirði.  Nefndin fór yfir tillöguna og felur skipulagsfulltrúa að setja hana í grenndarkynningu.  Nefndin óskar eftir kostnaðaryfirliti frá umhverfisstjóra vegna fyrri framkvæmda við sundlaugarplanið.“  Að genndarkynningu lokinni var á fundi eigna- skipulags- og umhverfisnefndar 5. júlí 2010 m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Á 39. fundi umhverfis- og skipulagsnefndar samþykkti nefndin að senda tillögu um breytingar við Norðfjarðarsundlaug í grenndarkynningu með vísan í 7. mgr. 43 gr. skipulags- og byggingarlaga.  Grenndarkynningu er lokið og barst ein athugasemd frá Pétri Óskarssyni og Kristínu Brynjarsdóttur.  Nefndin fellst ekki á framkomnar athugasemdir og felur skipulagsfulltrúa að svara þeim.  Afgreiðslu deiliskipulagsins er vísað til bæjarráðs.“ 

Á fundi bæjarráðs 6. júlí s.á. var eftirfarandi bókað varðandi málið:  „Vísað frá eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd vegna afgreiðslu á deiliskipulagi.  Vísað til bæjarstjórnar.“  Á fundi bæjarstjórnar 22. júlí 2010 var bókað varðandi aðkomu að sundlauginni:  „Staðfest af bæjarstjórn með 9 atkvæðum.“ 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að nýbygging við sundlaugina á Norðfirði hafi verið reist án samráðs við næstu nágranna og að hvorki hafi farið fram grenndarkynning né gerð deiliskipulags er heimilað hafi viðbygginguna.  Með viðbyggingunni muni aðkoma að sundlauginni breytast og áformi bæjaryfirvöld nú lagningu vegar mjög nærri lóð kærenda.  Hafi vegurinn í för með sér mikið ónæði og geri fasteign þeirra illseljanlega.

Af hálfu Fjarðabyggðar er viðurkennt að mistök hafi átt sér stað á fyrstu stigum máls þessa og mikill tími farið í að reyna að ná sáttum við kærendur en ekki tekist.  Ekki verði séð að aðkomuvegur að sundlauginni rýri á nokkurn hátt verðmæti húseignarinnar að Egilsbraut 9 enda sé vegurinn vel utan lóðarmarka og alfarið í landi bæjarins.  Aðeins sé um að ræða stæði fyrir 14 bíla en aðalatriðið sé að mikilvægt sé að geta komið tækjum að byggingunni öryggisins vegna.  

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið ákváðu skipulags- og byggingaryfirvöld í Fjarðabyggð að grenndarkynna áform um breytta aðkomu að sundlauginni á Norðfirði og komu kærendur athugasemdum sínum á framfæri við þá fyrirætlan.  Á fundi eigna,- skipulags- og umhverfisnefndar 5. júlí 2010 var annars vegar bókað að nefndin féllist ekki á framkomnar athugasemdir og fæli skipulagsfulltrúa að svara þeim og hins vegar að afgreiðslu deiliskipulagsins væri vísað til bæjarráðs.  Á fundi bæjarráðs 6. júlí s.á. var málinu vísað til bæjarstjórnar, sem á fundi 22. júlí 2010 staðfesti framangreint, en af bókunum þessum verður aðeins ráðið að skipulagsfulltrúa hafi verið falið að svara kærendum og að deiliskipulagi væri vísað til bæjarstjórnar.  Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag og verður ekki af málsgögnum ráðið að nein ákvörðun hafi verið tekin af bæjaryfirvöldum um gerð deiliskipulags fyrir svæðið.  Með vísan til þessa verður hin kærða afgreiðsla ekki talin fela í sér lokaákvörðun, sem bindur enda á meðferð máls, og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ___________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson