Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

29/2008 Svæði Hestamannafél. Sörla

Ár 2010, fimmtudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 29/2008, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. janúar 2008 um breytt deiliskipulag athafnasvæðis Hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. apríl 2008, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kæra J og B, eigendur jarðarinnar Selskarðs í Garðabæ, samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. janúar 2008 um breytt deiliskipulag athafnasvæðis Hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök málsaðila:  Sunnan Kaldárselsvegar í Hafnarfirði er athafnasvæði Hestamannafélagsins Sörla.  Á árinu 2003 var gerð breyting á aðalskipulagi bæjarins og svæði þetta stækkað til suðausturs og landnotkun breytt í opið svæði til sérstakra nota.  Í kjölfarið var samþykkt deiliskipulag svæðisins.  Á fundi bæjarstjórnar 29. janúar 2008 samþykkti bæjarstjórn breytingu á deiliskipulagi þessu.  Samkvæmt auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 25. mars 2008 fólst eftirfarandi í henni:  „… að felldur er út hluti af áætluðum hesthúsalóðum við Kaplaskeið.  Á þessu svæði verði lagt nýtt gatnakerfi sem felur í sér fleiri lóðir fyrir hesthús auk þess sem gert er ráð fyrir að lóð Íshesta við Sörlaskeið verði uppfærð í samræmi við samþykkt deiliskipulag frá árinu 2006.“

Hafa kærendur skotið ofangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kærenda, sem eru eigendur jarðarinnar Selskarðs í Garðabæ, er því haldið fram að með hinni kærðu ákvörðun sé gengið á lögvarinn ítaksrétt þeirra til beitar á svæðinu. 

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er því haldið fram, með vísan til laga um ítaksrétt, að beitarréttur sé að öllum líkindum ekki lengur til staðar en dómsmál þurfi til að skera úr um það álitaefni.  Beitarréttur sé verðlaus í tilviki því er hér um ræði þar sem búfjárhald sé bannað á svæðinu.  Samkvæmt samkomulagi milli Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, Grindavíkurbæjar og Vatnsleysustrandarhrepps frá árinu 2004 hafi bann við lausagöngu utan afmarkaðra beitarhólfa verið samþykkt.  Hvorki sé í aðalskipulagi Hafnarfjarðar né í hinu kærða deiliskipulagi gert ráð fyrir beitarhólfi á Sörlasvæðinu. 

Niðurstaða:  Á árinu 2003 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar breytingu á aðalskipulagi bæjarins er laut að stækkun athafnasvæðis Hestamannafélagsins Sörla við Kaldárselsveg og í kjölfarið var samþykkt deiliskipulag svæðisins er lýsti mörkum þess og fyrirkomulagi mannvirkja.  Öðlaðist deiliskipulagið gildi hinn 10. júní 2003. 

Í núgildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 segir í kafla 2.2.11, opin svæði til sérstakra nota, að hvorki sé gert ráð fyrir nýjum svæðum eða stækkun svæða fyrir hestaíþróttir við Hlíðarþúfur né á athafnasvæði Sörla í Gráhelluhrauni.  Þá segir í kafla 2.2.13, landbúnaðarsvæði, að ekki séu afmörkuð nein svæði fyrir landbúnað í Hafnarfirði nema í Krýsuvík. 

Hin kærða samþykkt um breytt deiliskipulag á athafnasvæði Hestamannafélagsins Sörla fól ekki í sér stækkun svæðisins heldur aðeins breytingu innan þess, m.a. fjölgun lóða.  Fólst því ekki í henni ákvörðun um breytta landnotkun frá því sem ákveðið hafði verið í eldra deiliskipulagi frá árinu 2003.  Hefur lögmæti þess skipulags ekki verið borið undir úrskurðarnefndina og getur það hér eftir ekki komið til endurskoðunar af hálfu nefndarinnar þar sem frestir til kæru eða endurupptöku eru löngu liðnir. 

Samkvæmt framansögðu getur ákvörðun sú sem kærð er í máli þessu engin áhrif haft á rétt kærenda, umfram það sem þegar er orðið og felst í fyrri ákvörðunum um skipulag á umræddu svæði.  Verða þeir af þeim sökum ekki taldir eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, svo sem áskilið er í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson