Ár 2010, fimmtudaginn 20. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 73/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. júní 2008 um veitingu byggingarleyfis fyrir hækkun húss, gerð tveggja nýrra kvista, breytingu eldri kvists og glugga, greftri frá kjallara og breytinga á innra skipulagi einbýlishússins að Sörlaskjóli 24 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni 7. ágúst sama ár, kærir K, íbúðareigandi að Sörlaskjóli 26, persónulega og fyrir hönd T, íbúðareiganda að Ægissíðu 117 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. júní 2008 að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss, gerð tveggja nýrra kvista, breytingu á eldri kvisti og glugga, greftri frá kjallara og breytingu á innra skipulagi einbýlishússins að Sörlaskjóli 24 í Reykjavík. Borgarráð staðfesti hina kærðu ákvörðun hinn 26. júní 2008. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. mars 2008 var tekin fyrir leyfisumsókn fyrir áður gerðri stækkun bílskúrs og hækkun húss, byggingu tveggja nýrra kvista, breytingu á kvisti og gluggum sem fyrir voru, stækkun svala, greftri frá kjallara og breytingu á innra skipulagi einbýlishússins að Sörlaskjóli 24. Málinu var vísað til umsagnar skipulagsstjóra sem afgreiddi erindið neikvætt á embættisafgreiðslufundi sínum 7. mars 2008 með vísan til umsagnar sinnar, dags. sama dag.
Erindið var síðan til meðferðar hjá byggingarfulltrúa sem ákvað á fundi sínum hinn 22. apríl 2008 að vísa því til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 25. apríl 2008 var samþykkt að grenndarkynna framlagða umsókn fyrir hagsmunaaðilum að Sörlaskjóli nr. 22 og 26 ásamt Ægissíðu nr. 115 og 117 og bárust athugasemdir frá kærendum. Ákvað skipulagstjóri að vísa málinu til skipulagsráðs sem afgreiddi það á fundi sínum 11. júní 2008 með svofelldri bókun: ,,Ráðið gerir ekki athugasemdir við að byggingarleyfi verði gefið út þegar uppdrættir hafa verið lagfærðir. Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.“ Byggingarfulltrúi samþykkti síðan umsóknina á fundi hinn 24. júní 2008 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 26. sama mánaðar. Felur hið kærða byggingarleyfi m.a. í sér heimild til hækkunar útveggja hússins að Sörlaskjóli 24 um einn metra og samsvarandi hækkunar á þaki auk tveggja nýrra kvista á norðurfleti þaks. Á samþykktum byggingarteikningum er stækkun húss sögð vera 47 m2 og hækkun nýtingarhlutfalls úr 0,55 í 0,64.
Skutu kærendur veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeim hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir að Sörlaskjóli 24 og fá nánari upplýsingar hjá skipulags- og byggingarsviði borgarinar. Kærendur hafi leitað nánari upplýsinga um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á skuggavarp og útsýni gagnvart fasteignum sínum. Engin svör hafi hins vegar borist við athugasemdum kærenda en aðeins tilkynning um að umræddar framkvæmdir hafi verið samþykktar. Ætla megi að það stafi af því að upplýsingar um áðurgreind grenndaráhrif hafi ekki legið fyrir hjá borgaryfirvöldum en það hljóti að vera lágmarksréttur íbúa að fá slíkar upplýsingar um áhrif framkvæmda á eignir þeirra svo unnt sé að taka upplýsta ákvörðun.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu boraryfirvalda er farið fram á að hin kærða ákvörðun um veitingu byggingarleyfis standi óhögguð.
Við grenndarkynningu umsóttra breytinga á fasteigninni að Sörlaskjóli 24 hafi athugasemdir borist frá báðum kærendum sem að mestu hafi lotið að áhrifum á útsýni og skuggavarp á fasteignir þeirra að Sörlaskjóli nr. 26 og Ægissíðu nr. 117. Í skjalasafni skipulags- og byggingasviðs liggi fyrir svör við þeim athugasemdum, dags. 6. júní 2008. Þar komi eftirfarandi fram: ,,Hækkun hússins mun lengja skugga frá því sem nú er um 1-2 metra. Skipulagsstjóri tekur ekki undir þær athugasemdir sem borist hafa, enda ljóst að um óveruleg áhrif á nálæga byggð er að ræða. Yfir sumartímann nær skuggi hússins fyrir breytingu ekki yfir á lóð nr. 117 við Ægissíðu, en mun lítillega fara yfir þau eftir breytinguna. Ekki fæst séð að skugginn skerði nýtingu á garðinum yfir sumartímann.“
Kærendum hafi verið sent bréf, dags. 25. júní 2008, þar sem þeim hafi verið greint frá endanlegri afgreiðslu umdeildrar byggingarleyfisumsóknar en þau mistök virðist hafa orðið að láðst hafi að láta svör við athugasemdum kærenda fylgja. Þessi mistök beri að harma en þó verði ekki talið að þau eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Meðferð málsins hafi að öðru leyti verið lögum samkvæmt, afstaða tekin til athugasemda og þeim svarað með vönduðum hætti þótt farist hafi fyrir að senda þeim þau svör sem athugasemdir gerðu.
Niðurstaða: Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að þeir óttist skuggavarp og útsýnisskerðingu gagnvart fasteignum sínum vegna heimilaðrar hækkunar hússins að Sörlaskjóli 24 og að málsmeðferð hafi verið ábótavant þar sem nefnd grenndaráhrif hafi ekki verið könnuð og athugasemdum þeirra við grenndarkynningu ekki verið svarað.
Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjallað m.a. um grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar í þegar byggðum hverfum sem ekki hafa verið deiliskipulögð. Annast skipulagsnefnd grenndarkynninguna áður en málið er afgreitt af hálfu byggingaryfirvalda og tekur afstöðu til framkominna athugasemda í niðurstöðu sinni í málinu með sama hætti og þegar um er að ræða kynningu skipulags skv. 1. mgr. 25. gr. laganna. Tekið er fram að þeir sem tjáð hafi sig um málið skuli tilkynnt um niðurstöðu skipulagsnefndar auk niðurstöðu byggingarnefndar.
Óumdeilt er í málinu að láðst hafi að senda kærendum niðurstöðu skipulagsráðs Reykjavíkur í kjölfar grenndarkynningar hinnar umdeildu byggingarleyfisumsóknar þegar þeim var tilkynnt um samþykkt hennar. Hins vegar liggur fyrir að hugað var að grenndaráhrifum vegna kynntra breytinga á fasteigninni að Sörlaskjóli 24 í tilefni af athugasemdabréfum kærenda áður en skipulagsráð tók afstöðu í málinu. Í ljósi þess verður umræddur annmarki ekki talinn leiða til ógildingar ákvörðunarinnar.
Hús kærenda standa norðan og austan við húsið að Sörlaskjóli 24 í um 12-15 metra fjarlægð. Samkvæmt samþykktum teikningum fer nýtingarhlutfall lóðarinnar að Sörlaskjóli 24 úr 0,55 í 0,64 við hina umdeildu breytingu en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá er nýtingarhlutfall nágrannalóða eftirfarandi: 0,64 að Sörlaskjóli 22, 0,74 að Sörlaskjóli 26, 0,85 að Ægisíðu 115 og 0,57 að Ægisíðu 117. Hæðir húsa á svæðinu eru áþekkar og sker húsið að Sörlaskjóli 24 sig ekki úr að því leyti eftir heimilaða hækkun.
Með hliðsjón af framangreindum aðstæðum og þar sem hækkun hússins að Sörlaskjóli 24 um einn metra og aðrar breytingar verða ekki taldar hafa umtalsverð grenndaráhrif gagnvart nágrannafasteignum þykja ekki efni til að raska gildi umdeildrar ákvörðunar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. júní 2008, er borgarráð staðfesti 26. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir hækkun húss og fleiri breytingum á fasteigninni að Sörlaskjóli 24 í Reykjavík.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
__________________________ __________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson