Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2008 Efri-Klöpp

Ár 2010, miðvikudaginn 21. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 74/2008, kæra á synjun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 9. júlí 2008 á beiðni um leyfi til stækkunar húss að Efri-Klöpp í Mosfellsbæ um 50 m², um deiliskipulagningu lands og um breytta skráningu í Fasteignaskrá Íslands. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir G, Efri-Klöpp, Mosfellsbæ, synjun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 9. júlí 2008 á beiðni um leyfi til stækkunar húss að Efri-Klöpp um 50 m², um deiliskipulagningu lands og um breytta skráningu í Fasteignaskrá Íslands.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fund bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 13. ágúst 2008. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða synjun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Af málsgögnum verður ráðið að kærandi, sem búsettur er að Efri-Klöpp í Mosfellsbæ, hafi um nokkurt skeið átt í samskiptum við skipulags- og byggingaryfirvöld í Mosfellsbæ vegna óska hans um leyfi til stækkunar hússins að Efri-Klöpp um 50 m² og um deiliskipulagningu lands.  Með bréfi hans til skipulagsfulltrúa, dags. 10. júní 2008, fór hann fram á framangreint.  Var erindið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 9. júlí 2008 og eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Efri-Klöpp, … , ósk um stækkun húss.  Gunnar Júlíusson óskar þann 10. júní 2008 eftir heimild til að stækka hús um 50 m² og að deiliskipuleggja landið.  Einnig óskar hann eftir að skráningu húss og lóðar verði breytt úr sumarbústað og sumarhúsalóð í íbúðarhús og íbúðarlóð.  Lögð fram eldri gögn sem tengjast erindinu.  Frestað á 233. fundi.  Erindinu hafnað þar sem það samræmist ekki gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar.“ 

Þessari niðurstöðu vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er í gögnum málsins vísað til þess að ósamræmi sé á milli Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2002-2024 og gildandi svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins.  Í svæðisskipulaginu sé svæði það við Geitháls er hús hans standi á merkt sem frístundabyggð en samkvæmt aðaskipulaginu sé svæðið hluti af opnu óbyggðu svæði.  Með vísan til 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skuli vera innbyrðis samræmi milli svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana og sé aðalskipulagið því gallað hvað varði svæðið við Geitháls.  Með vísan til þessa hafi kærandi farið fram á heimild til stækkunar hússins að Efri-Klöpp, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, deiliskipulagningar lands og skráningu hjá Fasteignamati ríkisins í samræmi við not, þ.e. íbúðarlóð og íbúð. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu Mosfellsbæjar er vísað til þess að árið 2003 hafi farið fram endurskoðun á aðalskipulagi bæjarins og hafi þá verið gerðar töluverðar breytingar á afmörkun svæða fyrir frístundabyggð.  Nokkur svæði sem hafi áður verið skilgreind sem frístundabyggð hafi verið minnkuð verulega, s.s. við Hafravatn og norðvestan Selvatns, auk þess sem einstök minni frístundasvæði hafi verið felld brott.  Formlegri skilgreiningu þessara svæða hafi því verið breytt úr „sumarbústaðarlandi“ í „opið óbyggt svæði“ og hafi svæðið sem Efri-Klöpp, eignarland kæranda, standi á verið þar á meðal.  Markmiðið með þessu hafi verið að koma skipulagsmálum bæjarins í þann farveg að sumarhúsabyggðir yrðu afmarkaðri og samfelldari en áður. 

Gerð svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins hafi verið í höndum sveitarstjórna á svæðinu, sbr. 1. mgr. 12. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Svæðisskipulag hafi að geyma stefnu sveitarstjórna um þróun byggðar og landnotkun á hverjum tíma.  Sveitarstjórn hvers sveitarfélags beri hins vegar ábyrgð á að gert sé aðalskipulag fyrir sveitarfélagið, sbr. 1. mgr. 16. gr. laganna, og í því sé sett fram stefna sveitarstjórnarinnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar í sveitarfélaginu á minnst 12 ára tímabili.  Bæði svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulag Mosfellsbæjar hafi hlotið staðfestingu umhverfisráðherra og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Rétt og skylt hafi verið að synja kæranda um byggingarleyfi á grundvelli þess að það væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Ljóst sé að samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé sumarhús kæranda á svæði sem skilgreint sé sem opið óbyggt svæði og hafi það verið svo síðan 2003.  Á slíku svæði sé óheimilt að byggja við, endurbyggja eða byggja ný sumarhús.  Þeim sumarhúsum sem standi utan frístundabyggðar, s.s. á óbyggðum opnum svæðum, megi aðeins viðhalda með eðlilegum og nauðsynlegum framkvæmdum.  Þar sem 50 m² viðbygging geti ekki talist til eðlilegs og nauðsynlegs viðhalds sé bygging hennar ekki í samræmi við aðalskipulag.  Deiliskipulagning lands hefði af sömu ástæðu ekki komið til álita. 

Í 4. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 séu landnotkunarflokkar í skipulagi skilgreindir.  Ákvæði kaflans séu almennt orðuð en þó sé ljóst að íbúðarhúsnæði skuli hvorki vera á svæðum fyrir frístundabyggð né á opnum óbyggðum svæðum.  Nauðsynlegt og eðlilegt viðhald sumarhúsa séu einu leyfilegu framkvæmdir sem gera megi á óbyggðum opnum svæðum skv. gildandi aðalskipulagi.  Þar segi jafnframt að á frístundabyggðarsvæðum skuli ekki vera hús sem séu ætluð eða notuð til heilsársbúsetu.  Af þessu megi ljóst vera að kærandi hafi hvorki fyrir né eftir aðalskipulagsbreytingar mátt hafa réttmætar væntingar til þess að fá að breyta sumarhúsi og sumarhúsalóð í íbúðarhús og íbúðarlóð. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun á beiðni kæranda um leyfi til stækkunar húss að Efri-Klöpp um 50 m², um deiliskipulagningu lands og um breytta skráningu í Fasteignaskrá Íslands. 

Gildandi aðalskipulag Mosfellsbæjar var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hinn 12. febrúar 2003 og staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. júlí 2003.  Samkvæmt aðalskipulagsuppdrættinum er lóð kæranda að Efri-Klöpp innan opins óbyggðs svæðis og er ekki gert ráð fyrir sumarhúsum á svæðinu.  Enda þótt aðalskipulagið sýnist ekki vera í samræmi við gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins hvað varðar landnotkun á umræddu svæði verður að leggja aðalskipulagið til grundvallar við úrlausn málsins, enda hefur því ekki verið hnekkt.  Er það ekki heldur á færi úrskurðarnefndarinnar að endurskoða gildi þess. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti.  Þá segir í 2. mgr. 43. gr. laganna að framkvæmdir sem byggingarleyfi heimilar skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Fallist er á þau rök bæjaryfirvalda fyrir hinni kærðu ákvörðun að beiðni kæranda um deiliskipulag og um byggingarleyfi samrýmist ekki gildandi aðalskipulagi.  Hafi því ekki verið unnt að fallast á erindi kæranda þar sem með því hefði verið gengið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.  Af sömu ástæðum skorti skilyrði til þess að fallast á beiðni kæranda um breytta skráningu fasteignar hans í fasteignaskrá.  Verður kröfu kæranda um ógildingu á hinni kærðu synjun bæjarstjórnar því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 8. júlí 2008 á beiðni hans um leyfi til stækkunar húss að Efri-Klöpp um 50 m², um deiliskipulagningu lands og um breytta skráningu í Fasteignaskrá Íslands. 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson