Ár 2010, miðvikudaginn 3. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 72/2007, kæra á synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Hreinn Pálsson hrl., f.h. A ehf., lóðarhafa að lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði, synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi. Hin kærða synjun var staðfest á fundi bæjarráðs 11. júlí 2007.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða synjun verði felld úr gildi.
Málavextir: Með bréfi, dags. 1. nóvember 2006, óskaði kærandi máls þessa eftir leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi. Var beiðnin tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 20. s.m., sem samþykkti að umsóknin yrði grenndarkynnt með vísan til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þrjár athugasemdir bárust vegna grenndarkynningarinnar er aðallega lutu að stærð og hæð hússins. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 21. maí 2007 fjallaði nefndin um erindi kæranda að nýju og var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni: „Á grundvelli framkominna athugasemda og þar sem hæð hússins er meiri en leyfilegt er skv. skilmálum, þá hafnar S&B erindi umsækjanda.“ Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 6. júní 2007. Með bréfi kæranda til skipulags- og byggingarnefndar var óskað eftir afstöðu nefndarinnar til mögulegrar lækkunar á þaki hússins. Á fundi nefndarinnar 2. júlí 2007 var eftirfarandi bókað: „S&B stendur við fyrri bókun frá 21. maí 2007 og þar sem hæð hússins og stærð er meiri en skilmálar kveða á um og að teknu tilliti til vel rökstuddra athugasemda sem fram komu við grenndarkynningu þá hafnar S&B framkomnu erindi.“ Var framangreint staðfest á fundi bæjarráðs 11. júlí 2007.
Skaut kærandi synjun skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að umsókn hans um leyfi til byggingar frístundahúss í Eyjólfsstaðaskógi sé í samræmi við skilmála, bæði hvað stærð húss og byggingarform varði. Grenndarkynningin hafi ekki verið skipulega gerð, tekið langan tíma og kæranda ekki kynntar niðurstöður hennar. Þá séu rök synjunarinnar snubbótt.
Málsrök Fljótsdalshéraðs: Af hálfu Fljótsdalshéraðs er vísað til þess að samkvæmt umsókn kæranda um leyfi til byggingar frístundahúss í Eyjólfsstaðaskógi hafi nýtingarhlutfall verið 0,056 en eigi ekki að vera hærra en 0,05. Þá hafi mesta hæð samkvæmt teikningum hússins verið 7,55 m, mælt af neðsta gólfi, og hæð af aðkomugólfi á efsta þakkant verið 6,20 m, en megi ekki fara yfir 5,40 m. Verður af gögnum málsins ráðið að tilvitnaðar heimildir um hæð og stærð húsa á svæðinu eigi sér stoð í skjali er beri heitið Deiliskipulag fyrir frístundahúsabyggð – 2. áfangi – í landi Skógræktarfélags Austurlands í Eyjólfsstaðaskógi á Völlum.
Andsvör kæranda við málsrökum Fljótsdalshéraðs: Kærandi bendir á að samkvæmt upplýsingum sem hann hafi aflað sér hjá Skipulagsstofnun hafi samþykkt um deiliskipulag fyrir Eyjólfsstaðaskóg aldrei öðlast gildi þar sem auglýsing þess efnis hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.
——-
Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóðinni nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði.
Meðal gagna málsins er skjal er ber heitið Deiliskipulag fyrir frístundahúsabyggð – 2. áfangi- í landi Skógræktarfélags Austurlands í Eyjólfsstaðaskógi á Völlum. Eru þar m.a. tilgreindir almennir skilmálar um stærð og hæð húsa og nýtingarhlutfall lóða. Skjal þetta er unnið í apríl 1999 og er undirritað af bæjarstjóra Austur-Héraðs. Er hin kærða synjun m.a. byggð á því að hæð og stærð hússins sé umfram það sem heimilt sé samkvæmt ákvæðum er fram koma í skjali þessu.
Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og er það skilyrði gildistöku skipulags, sbr. gr. 6.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Við rannsókn úrskurðarnefndarinnar á kærumáli þessu kom í ljós að auglýsing um gildistöku deiliskipulags annars áfanga frístundahúsabyggðar í Eyjólfsstaðaskógi hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda og hefur það því ekki öðlast gildi. Var hin kærða synjun því reist á röngum forsendum. Gat skipulags- og byggingarnefnd ekki synjað umsókn kæranda með vísan til skipulags sem ekki hafði öðlast gildi heldur bar nefndinni að taka til athugunar hvort skilyrði væru til að afgreiða umsóknina á grundvelli 3. tl. til bráðabirgða eða 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þessa var ekki gætt og verður hin kærða synjun því felld úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni auk tafa við öflun málsgagna.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði.
________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson