Ár 2009, miðvikudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon hérasdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 80/2009, kæra á álagningu skipulagsgjalds á íbúð að Lindarvaði 6, Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi, dags. 24. nóvember 2009, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, framsendi Fasteignaskrá Íslands úrskurðarnefndinni erindi J og P, eigenda íbúðar að Lindarvaði 6 í Reykjavík, dags. 19. nóvember 2009, þar sem farið er fram á breytingu á álagningu skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Lindarvaði 6 í Reykjavík. Skilja verður erindi kærenda svo að þess sé krafist að álagning skipulagsgjaldsins verði felld niður gagnvart þeim.
Málsatvik og rök: Samkvæmt kaupsamningi, dags. 29. september 2006, seldi byggingaraðili fjórar íbúðir við Lindarvað nr. 4 og 6 í Reykjavík og mun þ.á m. hafa verið íbúð kærenda. Fram kemur í kaupsamningnum að áætlað sé að íbúðirnar verði fokheldar þremur mánuðum eftir kaupin. Nýr eigandi seldi síðan kærendum íbúð að Lindarvaði 6 með kaupsamningi, dags. 2. ágúst 2007. Íbúðin var virt til brunabóta af Fasteignaskrá Íslands hinn 29. október 2009 og í kjölfar þess fengu kærendur greiðsluseðla fyrir álögðu skipulagsgjaldi frá Tollstjóranum í Reykjavík með gjalddaga 1. nóvember 2009 og eindaga hinn 1. desember sama ár.
Skírskota kærendur til þess að þau hafi keypt umrædda íbúð fullbyggða af fyrri eiganda sem hafi keypt íbúðina af byggingaraðila. Telji kærendur að ekki eigi að leggja skipulagsgjaldið á þau, heldur á fyrri eiganda.
Fasteignaskrá Íslands tekur fram að upplýsingar um matsvirði umræddrar fasteignar til brunabóta hafi verið sendar Fjársýslu ríkisins að lokinni virðingu ásamt matsvirði annarra nývirtra húseigna auk upplýsinga um skráða eigendur þeirra í samræmi við 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í 7. gr. reglugerðar um skipulagsgjald nr. 737/1997 komi fram að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skeri úr ágreiningi sem upp kunni að koma vegna álagningar og innheimtu skipulagsgjalda og hafi erindi kærenda því verið framsent úrskurðarnefndinni.
Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignaskrá Íslands hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs. Þá segir í nefndu ákvæði að gjaldinu fylgi lögveð í eigninni.
Skipulagsgjald er sérstakt gjald sem ætlað er að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana. Er það lagt á fullbyggðar nýbyggingar og á sér ótvíræða lagastoð í 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 737/1997 fellur skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hefur farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignamat ríkisins (nú Fasteignaskrá Íslands) hefur tilkynnt innheimtumanni ríkissjóðs þær fjárhæðir. Gjaldinu fylgir lögveð í þeirri fasteign sem það er lagt á og verður að telja að rétt sé að beina innheimtu þess að þinglýstum eigenda fasteignar miðað við það tímamark þegar gjaldið fellur í gjalddaga, enda þótt dráttur kunni að hafa orðið á að eigandi nýrrar eignar sinnti þeirri skyldu sinni að óska brunavirðingar, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 809/2000 um lögboðna brunatryggingu húseigna og samsvarandi ákvæði í 2. mgr. 6. gr. eldri reglugerðar um sama efni nr. 484/1994. Eru því ekki rök til að fallast á það með kærendum að fella beri skipulagsgjald af íbúð þeirra niður gagnvart þeim.
Engar athugasemdir hafa komið fram í máli þessu um gjaldstofn eða fjárhæð hins umdeilda gjalds og verður því lagt til grundvallar að álagning þess sé tölulega rétt.
Tekið skal fram að í niðurstöðu málsins felst ekki afstaða til þess hvort kærendur kunni að eiga endurkröfu á hendur fyrri eiganda vegna skipulagsgjaldsins. Ræðst það af samningi aðila og reglum og venjum í fasteignakaupum. Úrlausn um slíkan endurkröfurétt er einkaréttarlegs eðlis og fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að skera úr um hann.
Samkvæmt því sem að framan er rakið skal álagning hins umdeilda skipulagsgjalds standa óröskuð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um að innheimta skipulagsgjalds af eignarhluta þeirra að Lindarvaði 6 í Reykjavík með fastnúmer 2295450 verði felld niður gagnvart þeim.
________________________________
Hjalti Steinþórsson
___________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson