Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

13/2009 Smiðjuvegur

Ár 2009, fimmtudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2009, kæra á synjun byggingarnefndar Kópavogs frá 21. janúar 2009 á kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna fasteignarinnar að Smiðjuvegi 68-70. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. febrúar 2009, er barst nefndinni samdægurs, kærir Sigurmar K. Albertsson hrl., f.h. R ehf., Smiðjuvegi 68, Kópavogi, synjun byggingarnefndar Kópavogs frá 21. janúar 2009 á kröfu um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 vegna fasteignarinnar að Smiðjuvegi 68-70.  Var framangreind synjun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 27. janúar 2009. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að lagt verði fyrir byggingarnefnd að beita þvingunarúrræðum samkvæmt VI. kafla laganna þar til a.m.k. þær tvennar innkeyrsludyr, sem settar voru í húsnæðið að Smiðjuvegi 68-70 og eru næstar eignarhluta kæranda, verði fjarlægðar og húsnæðinu komið í fyrra horf í samræmi við skipulag og teikningar. 

Málavextir:  Kærandi er eigandi hluta fasteignarinnar að Smiðjuvegi 68-70, nánar til tekið 407 m2 iðnaðarhúsnæðis á jarðhæð, merkt 01.01 og er í húsnæðinu starfrækt bón- og ryðvarnarþjónusta.  Eigandi rýmis í húsinu við hliðina á eign kæranda virðist hafa, án heimildar byggingaryfirvalda, breytt húsnæði sínu þannig að í stað glugga sem upphaflega voru á norðurhlið hússins hafi hann komið þar fyrir innkeyrsludyrum. 

Með bréfi lögmanns kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 27. október 2008, sagði m.a. eftirfandi:  „Vísað er til bréfa sem yður hafa verið send, símtala svo og tölvupósta er varða innkeyrsludyr, sem settar voru upp í óleyfi af ýmsum eigendum ofangreindrar fasteignar. … Því er sú krafa gerð að bæjaryfirvöld í Kópavogi geri þá kröfu til þeirra, sem eiga húsnæðið að Smiðjuvegi 68-72, að þeir breyti húsnæðinu í fyrra horf og í samræmi við samþykkt skipulag og teikningar.  Jafnframt er gerð sú krafa að bæjaryfirvöld beiti úrræðum VI. kafla l. nr. 73/1997, sbr. m.a. 57. gr. laganna.“ 

Í bréfi byggingarfulltrúa til lögmanns kæranda, dags. 21. janúar 2009, sem lagt var fram og samþykkt á fundi byggingarnefndar sama dag, sagði m.a. eftirfarandi:  „Við rannsókn á málinu hefur komið í ljós álitamál er hvenær ráðist hafi verið í framkvæmdir við mannvirkið.  Ekki er útilokað að þær breytingar sem gerðar höfðu verið á ytra byrði hússins hafi verið framkvæmdar áður en umbjóðandi yðar keypti sinn eignarhluta í Smiðjuvegi 68-70.  Ef atvik máls eru með þeim hætti hafa breytingar á mannvirkinu staðið í fjölda ára án afskipta umbjóðanda yðar, annara eigenda að mannvirkinu sem og byggingaryfirvalda.  Hefur þá umbjóðandi yðar sem og aðrir sameigendur sýnt af sér tómlæti vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á mannvirkinu.  Í máli úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nr. 2/2005 reyndi á áhrif tómlætis vegna beitingu þvingunarúrræða.  Í því máli hafði verið framkvæmt án þess að byggingarleyfi hafi legið fyrir.  Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu sameigenda fyrr en löngu eftir að framkvæmdir áttu sér stað.  Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja um beitingu þvingunarúrræða í því tilfelli hafi verið heimil og vísaði þar m.a. til tómlætisáhrifa.  Í ljósi málsatvika, meðalhófsreglu og framangreinds fordæmis er það mat byggingarnefndar að heimild skorti til þess að beita þvingunarúrræðum 6. kafla skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í máli þessu.  Með vísan til þess er ekki unnt að verða við erindi yðar.“ 

Hefur kærandi skotið framangreindri synjun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að breytingar þær er gerðar hafi verið á húsinu séu í því fólgnar að í stað glugga sem verið hafi á norðurhlið hússins hafi verið settar upp stórar innkeyrsludyr og sé ekki um það deilt að það hafi verið gert án leyfis byggingaryfirvalda.  Mikið óhagræði hafi orðið af þessum óleyfilegu breytingum fyrir kæranda sem reki ryðvarnar- og bónþjónustu.  Í hinum hluta húsnæðisins sé einnig rekin bifreiðaþjónusta, þ.m.t. dekkjaverkstæði.  Á álagstímum, vor og haust, þegar bifreiðaeigendur skipti um dekk sé atgangur slíkur að kærandi sé því sem næst verklaus, en þá sé bifreiðum þannig lagt fyrir utan húsið að viðskiptavinir kæranda komist ekki að.  Geti þessi tími verið allt að fjórir mánuðir á ári. 

Kærandi hafi kvartað og mótmælt strax þessum óleyfilegu breytingum og sífellt hafi verið lofað úrbótum en ekkert hafi verið gert.  Vissulega hafi kvartanir og mótmæli ekki verið borin fram á formlegan hátt, en loks hafi verið leitað til lögmanns sem komið hafi kvörtunum og mótmælum formlega á framfæri.  Eftir að bæjaryfirvöld hafi loks sinnt erindum kæranda hafi þannig verið brugðist við af öðrum eigendum hússins að kalla saman húsfund í þeim tilgangi að koma óleyfilegum verknaði í löglegt form.  Neytt hafi verið upp á kæranda samþykkt sem hann hafi kært til kærunefndar fjöleignarhúsamála og hafi niðurstaða nefndarinnar verið kæranda í hag. 

Ljóst sé að sameigendur kæranda hafi breytt eigninni án leyfis og í óþökk kæranda.  Eigi slíkt í sjálfu sér að nægja til að knýja það fram að eigninni verði breytt í fyrra horf.  Sé ljóst að hinar umdeildu breytigar hafi í för með sér stórfellt óhagræði fyrir kæranda ásamt því að verðgildi eignar hans muni rýrna. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær hefur ekki skilað sérstakri greinargerð í máli þessu heldur vísar til fyrirliggjandi gagna er úrskurðarnefndinni hafa borist. 

Niðurstaða:  Kærumál þetta lýtur að því að nágranni kæranda, eigandi hluta fasteignarinnar að Smiðjuvegi 68-70, breytti eignarhluta sínum án heimildar byggingaryfirvalda á þann veg að í stað glugga á norðurhlið var þar komið fyrir innkeyrsludyrum.  Heldur kærandi því fram að fyrirkomulag þetta trufli atvinnurekstur hans í sama húsi.  Kröfu kæranda um aðgerðir byggingaryfirvalda hafa ekki borið árangur en með hinni kærðu synjun hafnaði byggingarnefnd Kópavogs að beita úrræðum 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til þess að knýja fram breytingar á húsinu. 

Á svæði því er um ræðir er í gildi deiliskipulag sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 13. júní 1989 og af skipulagsstjóra ríkisins 27. júlí sama ár.  Tekur deiliskipulag þetta til lóða við Smiðjuveg.  Á árinu 1993 var heimiluð breyting á deiliskipulaginu vegna lóðanna nr. 68, 70 og 72 við Smiðjuveg er laut að breyttu þakformi og 3. júlí 2009 tók gildi breyting er varðaði sömu fasteignir og laut að heimild til að nýta þriðju hæð hússins sem gistiheimili.  Á upphaflegum deiliskipulagsuppdrætti er í engu gerð grein fyrir fyrirkomulagi innan lóðarinnar á þeim hluta hennar er mál þetta varðar, hvorki aðkomu að henni og húsinu sjálfu né bílastæðum.  Vegna þessa verður ekki talið að hagnýting þess eignarhluta sem næstur er kæranda brjóti gegn deiliskipulagi svæðisins þótt hún fari í bága við aðaluppdrætti hússins og afstöðumynd er þeim fylgdi. 

Í 1. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að ef framkvæmd, sem falli undir 27. gr. eða undir IV. kafla laganna, sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, hún byggð á annan hátt en leyfi standi til eða ef bygging sé tekin til annarra nota en sveitarstjórn hafi heimilað geti skipulagsfulltrúi/byggingarfulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir tafarlaust.  Þá segir ennfremur í 2. mgr. sömu greinar að ef byggingarframkvæmd, sem falli undir IV. kafla laganna, sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni og hún brjóti í bága við skipulag eða framkvæmd sé hafin með byggingarleyfi sem brjóti í bága við skipulag beri byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdir tafarlaust.  Samkvæmt þessum lagafyrirmælum er ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða, þegar byggingarframkvæmdir eru ekki í andstöðu við skipulag, háð mati byggingaryfirvalda hverju sinni. 

Í 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga er byggingarnefnd heimilað að knýja fram niðurrif óleyfisbygginga og er ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis einnig háð frjálsu mati hverju sinni.  Mat um beitingu þessa úrræðis hlýtur fyrst og fremst að byggjast á almannahagsmunum og skipulagsrökum en einstaklingum eru tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja einkaréttarlega hagsmuni sína. 

Hin umdeilda ákvörðun er einkum studd þeim rökum að álitamál sé hversu langt sé liðið síðan umræddar breytingar hafi verið gerðar og að kærandi kunni að hafa sýnt af sér tómlæti. 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eignaðist kærandi eignarhluta sinn á árinu 1996.  Munu hinar umdeildu innkeyrsludyr hafa verið settar í stað glugga á norðurhlið umrædds eignarhluta þegar á árinu 1997, en fyrir munu þá hafa verið einar dyr á þeirri hlið.  Ekki nýtur gagna um að kærandi hafi gert formlegar athugasemdir við breytingarnar fyrr en á árinu 2007, eða tíu árum eftir að honum mátti vera um þær kunnugt.  Verður að telja, með hliðsjón af þessum atvikum, að haldbær rök hafi búið að baki þeirri ákvörðun byggingarnefndar að beita ekki þvingunarúrræði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga gagnvart eiganda margnefnds eignarhluta.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað. 

Varakrafa kæranda lýtur að breytingu hinnar kærðu synjunar.  Til þess er úrskurðarnefndin ekki bær og er þeirri kröfu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar byggingarnefndar Kópavogs frá 21. janúar 2009 á kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna fasteignarinnar að Smiðjuvegi 68-70. 

Varakröfu kæranda er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson