Ár 2009, þriðjudaginn, 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 37/2009, kæra á ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. maí 2009, er barst nefndinni 25. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. 30 tilgreindra íbúa við Miðholt, Stafholt, Langholt og Stórholt á Akureyri, þá ákvörðun skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.
Málavextir: Á fundi umhverfisráðs hinn 8. mars 2006 var lögð fram hugmynd að byggingu 60 íbúða fyrir eldra fólk í fjölbýlishúsum á svæði austan Langholts á Akureyri. Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að skoða málið frekar. Á fundi skipulagsnefndar 19. janúar 2007 var lögð fram umsókn um leyfi til að deiliskipuleggja svæði sem afmarkast af Langholti í vestri, Krossanesbraut í austri, Undirhlíð í suðri og Miðholti í norðri. Svæði þetta hefur fram til þessa verið óbyggt en með Aðalskipulagi Aukureyrar 2005-2018 var því breytt úr óbyggðu svæði í íbúðasvæði. Á fundinum heimilaði nefndin umsækjanda að gera tillögu að deiliskipulagi á grundvelli þeirra gagna sem viðkomandi lagði fram. Var deiliskipulagstillaga hans kynnt á fundi nefndarinnar 22. ágúst 2007. Samþykkti nefndin 12. mars 2008 að auglýsa tillöguna samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Gerði tillagan ráð fyrir fimm einbýlishúsum á einni hæð með aðkomu frá Miðholti og tveimur sjö hæða fjölbýlishúsum, auk bílakjallara, með aðkomu frá Undirhlíð. Var tillagan samþykkt í bæjarstjórn 18. mars 2008. Tillagan auglýst til kynningar frá 27. mars til 8. maí 2008 og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum.
Á fundi skipulagsnefndar 25. júní 2008 var gerð sú breyting á auglýstri tillögu að íbúðum var fækkað úr 60 í 57. Á fundinum var jafnframt fjallað um framkomnar athugasemdir. Að öðru leyti var tillagan samþykkt. Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu skipulagsnefndar 1. júlí 2008. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 5. ágúst 2008, var óskað lagfæringa og skýringa á nokkrum atriðum. Þannig þyrfti að skýra nánar í greinargerð ábyrgð lóðarhafa á hugsanlegum breytingum á vatnsborði, óskað var eftir nánari skýringum við skuggavarpsmyndir og staðsetningar byggingarreits og bílakjallara. Á fundi skipulagsnefndar 13. ágúst 2008 voru bókuð svör við athugasemdum og fyrirspurnum Skipulagsstofnunar. Afgreiðsla skipulagsnefndar og breytingar á greinargerð var samþykkt af meirihluta bæjarráðs 28. ágúst 2008. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 4. september 2008, var tilkynnt að ekki væri gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um deiliskipulagssamþykktina í B-deild Stjórnartíðinda. Birtist auglýsing þar að lútandi 23. september 2008. Kærðu kærendur framangreinda samþykkt til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag hafnaði kröfu um ógildingu deiliskipulagsins.
Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 29. apríl 2009 var lögð fram umsókn um byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3 og var erindið samþykkt. Á fundi skipulagsnefndar 13. maí s.á. var fundargerð skipulagsstjóra lögð fram og hún samþykkt og lagt til við bæjarstjórn að hún yrði staðfest. Á fundi bæjarstjórnar 19. sama mánaðar var afgreiðsla skipulagsstjóra samþykkt.
Hafa kærendur skotið greindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök aðila: Til stuðnings kröfu sinni um ógildingu vísa kærendur til þess að hin kærða ákvörðun byggi á deiliskipulagi sem þeir telji ekki gilt að lögum og hafi þeir kært til úrskurðarnefndarinnar. Sé vísað til þeirra sjónarmiða er komi fram í því kærumáli.
Af hálfu Akureyrarbæjar er bent á að hið kærða byggingarleyfi eigi stoð í gildu deiliskipulagi sem hvorki sé haldið form- né efnisgöllum.
Byggingarleyfishafa var veitt færi á að tjá sig í málinu en engin andsvör hafa borist frá honum.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi nr. 3 á lóð við Undirhlíð 1-3. Var ákvörðunin staðfest á fundi bæjarstjórnar 19. maí 2009. Áður höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt bæjarstjórnar frá 1. júlí 2008 um deiliskipulag Undirhlíðar-Miðholts. Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag var hafnað kröfu kærenda um ógildingu þess deiliskipulags.
Af þeim gögnum er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina verður ekki annað ráðið en að hið kærða byggingarleyfi eigi sér stoð í gildandi deiliskipulagi svæðisins, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þá verður heldur ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið neinum þeim annmörkum öðrum er leiða ættu til ógildingar og verður því ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu þess.
Það athugist að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er það á valdsviði byggingarnefnda að fjalla um byggingarleyfisumsóknir, en með staðfestri samþykkt um embættisafgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúans á Akureyri hefur honum verið falin afgreiðsla þeirra mála. Hið kærða byggingarleyfi er samþykkt af skipulagsstjóra á afgreiðslufundi hans hinn 29. apríl 2009 og hefur fundargerð þess fundar yfirskriftina „afgreiðslur skipulagsstjóra“. Er þessi framsetning ónákvæm og til þess fallin að valda misskilningi, en þegar litið er til þess að skipulagsstjóri gegnir jafnframt embætti skipulags- og byggingarfulltrúa þykir þessi ágalli ekki eiga að hafa áhrif á gildi leyfisins.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsstjóra Akureyrarbæjar frá 29. apríl 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir sjö hæða fjölbýlishúsi á lóð nr. 1-3 við Undirhlíð.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson