Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2007 Lyngborgir

Ár 2008, mánudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.   

Fyrir var tekið mál nr. 81/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.     

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir B, Heiðarbæ 6 í Reykjavík, eigandi lóðar og húss nr. 48 í Oddsholti í landi Minni-Borgar í Grímsnesi, samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.     

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 19. október 2006 var  samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. sama mánaðar.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007.  Engar athugasemdir bárust. 

Auglýsing um gildistöku hins kærða deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. júlí 2007. 

Framangreindri samþykkt sveitarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er bent á að samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi liggi aðalvegur um svæðið um fjóra metra frá mörkum lóðar kæranda og um 20 m frá húsi hans.  Um sé að ræða malarveg með tilheyrandi ryki og grjótkasti.  Í gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé talað um 50-100 m fjarlægð vegar frá byggð.  Mikil hætta sé samfara því að hafa veginn svo nærri. 

Hið kærða deiliskipulag hafi í engu verið kynnt kæranda, sem sé afar slæmt, en í 17 ár hafi hann verið íbúi í Oddsholti. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðar Lyngborgar í landi Minni-Borgar hafi verið auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007 og hafi engar athugasemdir borist.  Í auglýsingunni hafi m.a. komið fram að hver sá sem ekki myndi gera athugasemd við tillöguna innan tilskilins frests teldist hafa samþykkt hana.   

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir að samþykkt var á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 19. október 2006 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. sama mánaðar.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007 án þess að athugasemdir bærust.  Var tekið fram í auglýsingunni að hver sá sem ekki gerði athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests, teldist vera samþykkur henni.

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. 

Því er haldið fram af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps að vísa beri kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi ekki komið á framfæri við sveitarstjórn  athugasemdum sínum þegar tillaga að hinu kærða deiliskipulagi var auglýst. 

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en kærandi máls þessa hafi fyrst með kæru til úrskurðarnefndarinnar komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hins kærða deiliskipulags. 

Fyrrnefnd ákvæði skipulags- og byggingarlaga verða ekki skilin öðruvísi en svo að þeir sem ekki koma á framfæri athugasemdum sínum vegna auglýsingar á tillögu að deiliskipulagi teljist vera samþykkir henni.  Úrskurðarnefndin er bundin af þessum lagaákvæðum og verða þau því lögð til grundvallar í málinu.  Eins og atvikum er hér háttað verður ekki fallist á að kærandi, sem að lögum telst hafa verið samþykkur umdeildri skipulagstillögu, hafi síðar getað haft uppi í kærumáli kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar, sem samþykkt hefur verið á grundvelli tillögunnar, án breytinga er varðað geta hagsmuni hans.  Verður kærandi því ekki talinn eiga kæruaðild í málinu og ber því að vísa því frá úrskurðarnefndinni.  
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson