Ár 2008, mánudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 67/2005, kæra á samþykkt bæjarráðs Garðabæjar frá 12. júlí 2005 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir stíg meðfram Álftanesvegi að Urriðaholti.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. ágúst 2005, er barst nefndinni 25. sama mánaðar, kærir J, f.h. eigenda jarðarinnar S, framkvæmdir við gerð stígs meðfram Álftanesvegi að Urriðaholti. Kröfðust kærendur þess að ef umboð eða heimildir væru ekki fyrir hendi yrðu framkvæmdir stöðvaðar. Af andsvörum kærenda, dags. 17. október 2005, við greinargerð Garðabæjar í málinu frá 14. september s.á., verður ráðið að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Úrskurðarnefndin aflaði upplýsinga bæjaryfirvalda um hina umdeildu framkvæmd og var upplýst að um væri að ræða framkvæmdaleyfi fyrir bráðabirgðatengingu að nýju framkvæmdasvæði og var gerð stígsins að mestu lokið er kæran barst úrskurðarnefndinni. Þóttu því ekki efni til að taka sérstaklega til úrlausnar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
Málsatvik og rök: Á árinu 2005 var lokið við gerð deiliskipulags fyrir verslunar- og þjónustusvæði í Urriðaholti í Garðabæ og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. júlí 2005. Við undirbúning framkvæmda á svæðinu óskaði bæjarverkfræðingurinn í Garðabæ eftir framkvæmdaleyfi til að gera stíg er tryggði bráðabirgðaaðkomu að lóðum á svæðinu og var umbeðið leyfi veitt hinn 12. júlí 2005 með hinni kærðu samþykkt bæjarráðs. Við gerð stígsins var farið yfir svæði þar sem eigendur jarðarinnar Selskarðs telja til beitarréttar og höfðu sett upp beitarhólf sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum er stígurinn var gerður. Höfðu kærendur uppi mótmæli við þessum athöfnum bæjaryfirvalda og gera kröfu til þess að þær verði metnar ólögmætar.
Af hálfu kærenda er á því byggt að umræddur stígur hafi ekki verið í samræmi við aðal- og deiliskipulag og að gerð hans hafi farið í bága við rétt kærenda og verið án heimildar rétthafa að svæðinu.
Af hálfu Garðabæjar er því haldið fram að lega umrædds stígs hafi verið ákvörðuð með hliðsjón af samþykktu aðalskipulagi og tillögu að deiliskipulagi. Stígurinn sé til bráðabirgða og liggi um svæði sem samkvæmt skipulagi eigi að vera óhreyft hraun.
————————
Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki þykir ástæða til að rekja frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Ekki verður í máli þessu tekin afstaða til þess hvernig háttað sé óbeinum eignarréttindum kærenda á umræddu svæði en því hefur ekki verið mótmælt að þeir geti átt lögvarða hagsmuni í málinu. Verður málið því tekið til efnislegrar úrlausnar.
Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn, við útgáfu framkvæmdaleyfis, taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Verður að skilja ákvæði þetta á þann veg að áskilið sé að framkvæmdir sem háðar eru framkvæmdaleyfi þurfi jafnframt að eiga stoð í skipulagi. Bæjaryfirvöld hafa látið úrskurðarnefndinni í té loftmynd af umræddu svæði þar sem greina má stíg þann sem um er deilt í málinu. Jafnframt liggja fyrir skipulagsuppdrættir aðal- og deiliskipulags. Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir svonefndum fjarstíg frá austri til vesturs um svæði það sem hér um ræðir. Við samanburð á þessum gögnum kemur í ljós að stígur sá er um er deilt í málinu fellur ekki að skipulagi og er lega hans nokkuð önnur en þar er gert ráð fyrir. Var því ekki gætt ákvæðis 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga er leyfi fyrir honum var veitt og var leyfið því ólögmætt.
Enda þótt bráðabirgðanotkun stígsins fyrir umferð bifreiða og vinnuvéla hafi verið hætt hefur hann ekki verið afmáður. Þykir í því ljósi rétt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna tafa við gagnaöflun og mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi samþykkt bæjarráðs Garðabæjar frá 12. júlí 2005 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir stíg meðfram Álftanesvegi að Urriðaholti.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson