Ár 2008, fimmtudagur 16. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 83/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2006 um að veita leyfi fyrir breytingum sem gerðar voru á fjölbýlishúsi á lóðinni nr. 21 við Vesturgötu á meðan á byggingu þess stóð.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. október 2006, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kæra L, I og D, öll til heimilis að Vesturgötu 23, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2006 um að veita leyfi fyrir breytingum sem gerðar voru á fjölbýlishúsi á lóðinni nr. 21 við Vesturgötu á meðan á byggingu þess stóð.
Gera kærendur þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda. Fyrir liggur að er kæra barst úrskurðarnefndinni var framkvæmdum samkvæmt hinu kærða leyfi að mestu lokið og kom því ekki til stöðvunar þeirra.
Málavextir: Hinn 11. janúar 2005 veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík leyfi m.a. til byggingar fjölbýlishúss á lóðinni að Vesturgötu 21 en fyrir lá samþykki eigenda Vesturgötu 23, dags. 16. nóvember 2004.
Hinn 7. maí 2006 setti einn kærenda máls þessa fram athugasemd til byggingarleyfishafa og byggingarfulltrúa vegna byggingar fjölbýlishússins. Athugasemd þessi laut m.a. að því að byggt væri út fyrir byggingarreit og að suðurveggir húsanna að Vesturgötu 21 og 23 mynduðu ekki beina línu svo sem upphaflegt leyfi gerði ráð fyrir, heldur skagaði suðurveggur hússins nr. 21 u.þ.b. 15 cm fram úr vegg hússins nr. 23.
Hinn 29. maí 2006 stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir við suðurvegg hússins að Vesturgötu 21, sem þá var í byggingu. Var það gert í kjölfar fyrrnefndrar kvörtunar íbúa að Vesturgötu 23 um að húsið væri ekki í samræmi við áðurnefnt samþykki þeirra. Var tekið fram í stöðvunarbréfi byggingarfulltrúa að einsýnt væri að byggingarverktaki hefði ekki unnið samkvæmt samþykktum teikningum. Með bréfi byggingarstjóra til byggingarfulltrúa, dags. 20. júní 2006, var hafnað að um mistök af hans hálfu væri að ræða og að teikningum hefði verið fylgt í hvívetna. Taldi byggingarstjórinn að það væri í höndum hönnuða, eiganda og byggingarfulltrúa að finna lausn sem allir gætu sætt sig við.
Með bréfi arkitekts hússins að Vesturgötu 21 til byggingarfulltrúa, dags. 16. júní 2006, var lagt til að komið yrði til móts við óskir íbúa að Vesturgötu 23 með því að suðurveggur vestan við stigahús Vesturgötu 21 yrði einangraður að innan og lagðir yrðu fram nýir uppdrættir þar sem sýnd væru þau frávik sem nauðsynleg væru. Benti arkitektinn jafnframt á að gera yrði þá kröfu til nágranna að þeir gerðu athugasemdir við byggingarlag jafnóðum og vart yrði við meint mistök, en biðu ekki þar til sýnt þætti að tjón byggingaraðila yrði sem mest, þ.e. þegar allri uppsteypu væri lokið. Sannanlega hefðu kærandur vitað af meintum mistökum mörgum mánuðum áður en formleg kvörtun hefði komið fram. Þá hefði verið ódýrara að lagfæra meint mistök. Taldi arkitektinn jafnframt að byggingin hefði snúist um 3,56° og væri ófullkomnum gögnum mælingadeildar borgarinnar um að kenna.
Með tölvubréfi byggingarfulltrúa til eins kærenda, dags. 29. júní 2006, var gerð grein fyrir málavöxtum og afstöðu embættisins. Kom þar fram að embættið teldi fullyrðingar arkitektsins í garð mælingadeildar borgarinnar ósannaðar og var jafnframt gerð grein fyrir tillögu arkitektsins varðandi færslu einangrunar og klæðningar til að lágmarka stall sem myndast hefði. Taldi byggingarfulltrúi þetta ásættanlega lausn í málinu þar sem gríðarlegur kostnaður fylgdi því að saga vegginn burtu. Í samantekt embættis byggingarfulltrúa, dags. 4. júlí 2006, var komist að þeirri niðurstöðu að hvorki eigandi Vesturgötu 21, hönnuðir né verktaki gætu vikist undan ábyrgð á þeim mistökum sem gerð hefðu verið við smíði hússins.
Með bréfi, dags. 24 júlí 2006, tilkynnti byggingarfulltrúi að stöðvun væri aflétt enda teldi hann ásættanlega lausn hafa fundist.
Með bréfi embættis byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 27. september 2006, var tilkynnt að ekki hefði verið komist að niðurstöðu um það hvað hefði farið úrskeiðis við byggingu hússins að Vesturgötu 21 þrátt fyrir ítarlega könnun þar að lútandi. Var jafnframt tekið fram í bréfinu að embættið teldi sig ekki hafa dóms- eða úrskurðarvald varðandi það hver bæri ábyrgð á því að suðurhlið hússins færi 15-16 cm fram fyrir suðurhlið Vesturgötu 23.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 10. október 2006 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir breytingum sem gerðar voru á húsinu á lóðinni nr. 21 við Vesturgötu á meðan á byggingu þess stóð.
Hafa kærendur kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að suðurveggur nýbyggingarinnar á lóðinni nr. 21 við Vesturgötu skagi út fyrir suðurvegg hússins að Vesturgötu 23 og loki af eða byrgi fyrir 20% af svölum þriggja íbúða hússins. Nýbyggingin skekki götumyndina norðanmegin verulega og að öllum líkindum sé byggt út fyrir lóðarmörk, auk þess sem mistökin verði til þess að frágangur á lóðarmörkum sé algörlega óviðunandi. Skekkjan hafi mátt vera ljós þegar grunnur hússins hafi verið gerður og ekki síðar en þegar veggjum jarðhæðarinnar hafi verið slegið upp. Ekkert hafi verið aðhafst í málinu, fjórar hæðir hafi verið byggðar og verði slík vinnubrögð að teljast vítavert kæruleysi af hálfu byggingaraðila er varði sektum.
Íbúar að Vesturgötu 23 hafi orðið varir við skekkjuna í byrjun maí og hafi þegar gert byggingarfulltrúa viðvart. Framkvæmdir við vesturhluta suðurveggjarins, sem liggi að svölum hússins nr. 23, hafi verið stöðvaðar en aðrar framkvæmdir við bygginguna hafi haldið áfram.
Af hálfu kærenda sé því haldið fram að með hinni kærðu ákvörðun sé farið á svig við reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þannig hafi 10., 12., 15. og 20. gr. laganna verið brotnar. Byggingarfulltrúi hafi ekki upplýst málið nægilega áður en byggingarleyfishafa hafi verið heimilað að halda áfram vinnu við vegginn. Í bréfi hans til kærenda, dags. 27. september 2006, segi að gerð hafi verið ítarleg könnun á því hvað hafi farið úrskeiðis án þess að niðurstaða hafi fengist. Þessu sé alfarið hafnað enda hafi embætti byggingarfulltrúa á sínum snærum sérfræðinga í öllum greinum byggingariðnaðarins sem ættu að geta komist að niðurstöðu um málið.
Því sé hafnað að byggingarfulltrúi hafi, með ákvörðun sinni um að heimila áframhaldandi framkvæmdir við vegginn, haft hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, enda hafi meðalhófs aðeins verið gætt gagnvart byggingarleyfishafa en ekki kærendum. Kærendum hafi ekki verið tilkynnt ákvörðun byggingarfulltrúa um að heimila áframhaldandi vinnu við vegginn og hafi það strítt gegn ákvæðum 20. gr. laganna. Að lokum sé því haldið fram að embætti byggingarfulltrúa hafi brotið gegn ákvæði laganna um upplýsingarétt.
Ljótt sé til þess að vita að arkitektar og byggingarleyfishafar komist upp með að sýna vítaverð vinnubrögð og kæruleysi án þess að þurfa á nokkurn hátt að bera ábyrgð á gjörðum sínum, hvorki gagnvart borgaryfirvöldum né nágrönnum sem brotið sé gegn, og geti síðan átölulaust fengið leyfi fyrir mistökunum eftir á.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er málatilbúnaði kærenda, þess efnis að embætti byggingarfulltrúa hafi brotið nefnd ákvæði stjórnsýslulaga, mótmælt sem ósönnum og ósönnuðum. Þvert á móti hafi embætti byggingarfulltrúa gætt meðalhófsreglu gagnvart öllum aðilum máls þessa vegna þess ástands sem upp hafi komið. Embættið hafi ennfremur sinnt rannsóknarskyldu sinni og annast upplýsingagjöf til allra aðila. Gögn málsins beri þess skýr merki. Það hefði verið vægast sagt harkalegt gagnvart eigendum Vesturgötu 21 að krefjast þess að suðurhlið hússins yrði fjarlægð með öllum þeim tilkostnaði sem því hefði fylgt. Hafi kærendur ekki sýnt fram á að skerðing hagsmuna þeirra sé með þeim hætti að það réttlæti slíka aðgerð.
Fullyrðingum kærenda um að suðurveggur nýbyggingarinnar loki af eða byrgi svalir þriggja íbúða um 20% sé mótmælt sem rangri og ósannaðri, enda séu svalir þessara íbúða um 90 cm að dýpt. Staðhæfingum kærenda um að eftirliti með byggingarframkvæmdum af hálfu opinberra aðila sé verulega ábótavant sé einnig mótmælt sem ósönnum og ósönnuðum. Þvert á móti hafi verið lögð áhersla á könnun þessa máls þegar upphafleg kvörtun kærenda hafi borist.
Telji Reykjavíkurborg ennfremur sýnt að ágreiningsefni aðila í máli þessu, þ.á m. varðandi bótarétt vegna gáleysis hönnuða eða byggingarstjóra, séu einkaréttarlegs eðlis. Sé í því sambandi sérstaklega nefnt að hönnuðir og byggingarstjórar skuli ábyrgðartryggðir fyrir fjárhagstjóni sem þeir kunni að valda í starfi af gáleysi.
Varðandi frágang á lóðamörkum sé áréttað að byggingarleyfishöfum beri að annast frágang í samráði við rétthafa aðliggjandi lóða. Hafi kærendur ekki sýnt fram á að slíkt sé ekki mögulegt.
Málsrök byggingarleyfishafa: Í málinu liggja fyrir sjónarmið byggingarleyfishafa sem sett hafa verið fram af arkitekti hinnar umdeildu nýbyggingar.
Vettvangur: Fulltrúar úrskurðarnefndarinnar kynntu sér aðstæður á vettvangi þriðjudaginn 27. maí 2008.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykkis byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2006 um að veita leyfi fyrir breytingum sem gerðar voru á fjölbýlishúsi á lóðinni nr. 21 við Vesturgötu á meðan á byggingu þess stóð. Upphaflegt byggingarleyfi var veitt hinn 11. janúar 2005 og lá þá fyrir samþykki eigenda hússins nr. 23 við Vesturgötu vegna framkvæmdarinnar.
Á svæði því er um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag og virðist því sem upphaflegt byggingarleyfi fjölbýlishússins hafi verið veitt á grundvelli grenndarkynningar. Var það leyfi ekki kært til úrskurðarnefndinnar og hefði staðið óhaggað ef byggt hefði verið í samræmi við það. Aftur á móti virðist sem við framkvæmd verksins hafi grunnur hússins ekki fylgt byggingarlínu þannig að snúningur varð á því. Gengur því norðausturhorn hússins á götuhlið nokkuð út úr húsalínu og suðvesturhorn þess að sama skapi þar sem svalir kærenda eru. Gerðu kærendur athugasemdir vegna þessa við framkvæmd byggingarinnar. Felst í hinu kærða byggingarleyfi að veitt er leyfi fyrir þeim breytingum á fjölbýlishúsinu sem urðu á meðan á byggingu þess stóð.
Þrátt fyrir að málsmeðferð byggingaryfirvalda og umsjón byggingarleyfishafa með framkvæmdum hafi verði ámælisverð telur úrskurðarnefndin að í ljósi aðstæðna og með hliðsjón af hagsmunum málsaðila sé ekki unnt að fallast á kröfur kærenda heldur hafi byggingarfulltrúa, eins og þarna stóð sérstaklega á, verið rétt að gefa út hið kærða leyfi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu samþykktar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2006 um að veita leyfi fyrir breytingum sem gerðar voru á fjölbýlishúsi á lóðinni nr. 21 við Vesturgötu á meðan á byggingu þess stóð.
__________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson