Ár 2008, fimmtudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 89/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 20. ágúst 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir vinnu- og geymsluhúsi á lóðinni nr. 42 við Skúlaskeið í Hafnarfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. september 2008, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir G, Hellisgötu 16, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 20. ágúst 2008 að veita byggingarleyfi fyrir vinnu- og geymsluhúsi á lóðinni nr. 42 við Skúlaskeið í Hafnarfirði. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti hina kærðu ákvörðun hinn 2. september 2008.
Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi yrðu stöðvaðar til bráðabirgða meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Mál þetta þykir nú næganlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.
Málavextir: Fasteignirnar að Hellisgötu 16 og Skúlaskeiði 42 í Hafnarfirði eru við enda svæðis sem afmarkast af Skúlaskeiði, Hellisgötu, Norðurbraut og Nönnustíg. Húsið að Hellisgötu 16, þar sem kærandi býr og rekur vinnustofu, er nokkuð stórt tveggja hæða fjöleignarhús með risi en næst því stendur húsið að Skúlaskeiði 42, sem er einnar hæðar einbýlishús með kjallara og risi. Norðan þessara húsa tekur við röð einsleitra íbúðarhúsa við Skúlaskeið en vestan við lóðir þeirra er grænt svæði er liggur að Norðurbraut.
Hinn 23. maí 2007 var veitt byggingarleyfi fyrir útihúsi fyrir geymslu- og vinnuaðstöðu á norðvesturhluta lóðarinnar að Skúlaskeiði 42 í Hafnarfirði að undangenginni grenndarkynningu, en svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt. Skyldi húsið vera kjallari og hæð, 32,4 fermetrar að grunnfleti. Kærandi í máli þessu gerði athugasemdir við hina kynntu umsókn og kærði síðan leyfisveitinguna til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 27. júní 2007. Ekki var hafist handa við framkvæmdir vegna útihússins innan árs frá veitingu byggingarleyfisins og féll það því úr gildi í samræmi við ákvæði 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Var umsókn um greindar byggingarframkvæmdir endurnýjuð hinn 2. júní 2008 og var erindið grenndarkynnt að nýju og barst athugasemd frá kæranda við fyrirhugaðar framkvæmdir. Skipulags- og byggingarráð féllst á fyrirhugaða byggingu fyrir sitt leyti hinn 12. ágúst 2008 og samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi umsóknina á fundi sínum hinn 20. sama mánaðar og var sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að umrædd bygging muni standa á lóðarmörkum við opið svæði og rýra gæði þess en ekki hafi verið getið um svæðið í útsendum kynningargögnum. Auk þess hafi þeir ágallar verið á meðferð grenndarkynningar að hún hafi ekki náð til leigjenda í næsta nágrenni og kæranda hafi enn ekki borist svör við athugasemdum sínum er settar hafi verið fram á kynningartíma. Sveitarstjórn hafi á árinu 1988 sett fram stefnumótun um hið opna svæði í hverfaskipulagi sem ekki virðist hafa verið tekið mið af við hina kærðu ákvörðun en það snerti hagsmuni íbúa hverfisins í heild. Með fyrirhugaðri framkvæmd séu gerð að engu áform um göngustíg er tengdi Norðurbraut við Hellisgötu
Umfang umdeildrar byggingar með fjögurra metra mænishæð falli illa að yfirbragði nærliggjandi byggðar og verði heimiluð bygging ekki talin óveruleg breyting í því gróna hverfi sem um ræði. Hafi því ekki verið lagaskilyrði fyrir því að veita umrætt byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu. Breyting sem þessi hafi fordæmisgildi og sé þess eðlis að deiliskipuleggja hefði átt umræddan reit samkvæmt meginreglu skipulags- og byggingarlaga og gefa þar með íbúum hverfisins kost á að tjá sig um breytinguna.
Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er gerð sú krafa að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað.
Í kæru séu engin rök færð fram fyrir því hvernig heimiluð bygging snerti hagsmuni kæranda enda sé byggingin ekki til þess fallin að raska grenndarhagsmunum nágranna. Um sé að ræða 32,4 fermetra byggingu og verði nýtingarhlutfall umræddrar lóðar 0,48 að framkvæmdum loknum. Byggingin hafi verið grenndarkynnt í tvígang fyrir 15 nágrönnum en aðeins hafi borist athugasemd frá kæranda. Vegna skorts á grenndarhagsmunum og með vísan til greinds annmarka á kæru beri að vísa málinu frá.
Kæranda, sem og öðrum nágrönnum, hafi gefist kostur á að koma fram með athugasemdir við grenndarkynningar umsóttrar byggingar og hafi athugasemdum kæranda verið svarað, síðast með bréfi, dags. 5. september 2008. Fullyrðingar kæranda um skort á svörum og ónóga kynningu fyrir íbúum eigi því ekki við rök að styðjast. Rétt sé að taka fram í þessu sambandi að grenndarkynning framkvæmda beinist að eigendum fasteigna en leigjendur hafi einungis tímabundinn afnotarétt að fasteign í samræmi við leigusamninga er þeir hafi gert.
Misskilnings gæti hjá kæranda varðandi túlkun 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga. Aðeins þegar um sé að ræða kynnta breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laganna sé kveðið á um umfang breytingar en um slíkt sé ekki að ræða í nefndri 3. mgr. 23. gr. er heimilar grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar í þegar byggðu hverfi. Ekki sé fallist á að umdeild bygging hafi áhrif á grænt svæði, er kærandi skírskoti til, eða á yfirbragð byggðar, umferð, bílastæðaþörf, útsýni eða skuggamyndun. Vegna ummæla kæranda um göngustíg sé bent á að viljayfirlýsingar einstakra sveitarstjórna frá fyrri tíð séu ekki skuldbindandi.
Andmæli byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafar krefjast frávísunar málsins. Ekki sé hægt að sjá að hin umdeilda bygging skerði á nokkurn hátt eign kæranda enda verði byggingunni komið fyrir á norðurhorni lóðar þeirra en íbúð kæranda sé á sunnanverðu horni hússins að Hellisgötu 16. Byggingin sé því ekki í sjónlínu frá íbúð kæranda nema ef ske kynni að hluta til út um risglugga íbúðarinnar.
Hinar umdeildu framkvæmdir hafi tvívegis verið grenndarkynntar, fyrst vorið 2007 og aftur sumarið 2008. Engar athugasemdir hafi borist utan þess að athugasemd hafi borist frá kæranda.
Byggingarleyfishafar hafi hafið endurbætur á fasteign sinni fyrir um átta árum og hafi athugasemdir kæranda vegna þeirra verið neikvæðar, þrátt fyrir að þau hafi hlotið viðurkenningar og styrki fyrir vel heppnaðar endurbætur.
Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 23. september 2008.
Niðurstaða: Af hálfu bæjaryfirvalda og byggingarleyfishafa er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni með þeim rökum að kærandi eigi ekki lögvarða hagmuni tengda hinu umdeilda byggingarleyfi. Kærandi er eigandi fasteignar á grannlóð og fékk grenndarkynningu er hin kærða ákvörðun var til meðferðar hjá byggingaryfirvöldum. Verður að telja kæranda eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í málinu sem eru skilyrði kæruaðildar og verður því ekki fallist á framkomna frávísunarkröfu.
Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er sveitarstjórnum heimilt að veita leyfi til framkvæmda þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna. Er hér um að ræða undantekningarreglu frá þeirri meginreglu 2. mgr. 23. gr. að gera þurfi deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Hefur þessi undantekningarheimild verið túlkuð til samræmis við undantekningarreglu 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem heimild er fyrir að grenndarkynna deiliskipulagsbreytingu í stað þess að auglýsa hana almennri auglýsingu eins og meginregla 26. gr. kveður á um. Er á þessari túlkun byggt í dómi Hæstaréttar í hæstaréttarmálinu nr. 14/2001 sem kveðinn var upp hinn 20. september 2001.
Af hálfu kæranda er því haldið fram að hin umdeilda bygging hafi í för með sér grenndaráhrif og breytingu á byggðamynstri sem ekki geti talist óveruleg og hafi því ekki verið heimilt að neyta undantekningarheimildar 3. mgr. 23. gr. laganna. Á þetta verður ekki fallist. Eins og að framan er rakið standa fasteignir kæranda og byggingarleyfishafa við enda umrædds svæðis og falla ekki, hvað útlit og afstöðu varðar, að þeim byggingum er mynda þá götumynd sem kærandi er væntanlega að skírskota til. Umdeild nýbygging stendur norðanvert við fasteign kæranda og verður ekki talin hafa umtalsverð grenndaráhrif á hana. Verður því, með hliðsjón af staðháttum og áhrifum nýbyggingarinnar á umhverfi sitt, að telja að heimilt hafi verið að taka hina kærðu ákvörðun að undangenginni grenndarkynningu. Þá verður hin kærða ákvörðun ekki talin hafa neitt fordæmisgildi þegar litið er til sérstöðu lóðarinnar að Skúlaskeiði 42.
Hagsmunaaðilar í skilningi 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga teljast fyrst og fremst þeir eigendur nágrannafasteigna sem búast má við að fyrirhuguð framkvæmd snerti, svo sem vegna skuggavarps, útsýnisskerðingar, aukinnar umferðar, aukins ónæðis eða annars óhagræðis. Leigjendur geta og talist hagsmunaaðilar í þessu sambandi ef við blasir að þeir eigi sértækra hagsmuna að gæta. Grenndarkynningin tók til 15 nágrannaeigna á svæðinu og með hliðsjón af mögulegum grenndaráhrifum byggingarinnar verður ekki talið að gengið hafi verið framhjá hagsmunaaðilum við framkvæmd kynningarinnar. Þá liggur fyrir að kæranda voru send svör Hafnarfjarðarbæjar við fram komnum athugasemdum.
Að öllu þessu virtu verða ekki taldir vera þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem varðað geti ógildingu hennar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 20. ágúst 2008, er bæjarstjórn staðfesti hinn 2. september s.á., að veita byggingarleyfi fyrir vinnu- og geymsluhúsi á lóðinni nr. 42 við Skúlaskeið í Hafnarfirði.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson