Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

75/2007 Krókeyrarnöf

Ár 2008, þriðjudaginn 23. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 75/2007, kæra á synjun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 2. maí 2007 á erindi varðandi leyfi til að byggja kanadískt timbureiningahús með STO Fibercement útveggjum á lóðinni nr. 18 við Krókeyrarnöf, Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júlí 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir V, lóðarhafi lóðar nr. 18 við Krókeyrarnöf, Akureyri, synjun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 2. maí 2007 á erindi kæranda um leyfi til að byggja kanadískt timbureiningahús með STO Fibercement útveggjum á lóðinni nr. 18 við Krókeyrarnöf.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málavextir:  Í júní 2006 fékk kærandi úthlutað byggingarlóð að Krókeyrarnöf 18 í Naustahverfi.  Með bréfi, dags. 26. febrúar 2007, óskaði kærandi eftir leyfi til að byggja kanadískt timbureiningahús með Novabrik hleðslusteinsklæðingu.  Var erindinu hafnað á fundi skipulagsnefndar hinn 28. febrúar 2007 þar sem nefndin vildi halda sig við þá meginstefnu sem gefin væri í gildandi deiliskipulagi svæðisins. 

Kærandi lagði fram nýtt erindi, dags. 13. mars 2007, sem tekið var fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 2. maí 2007, og fór á ný fram á heimild til að fá að byggja kanadískt timbureiningahús en nú með STO Fibercement útveggjum.  Meðfylgjandi var umsögn frá Kanon arkitektum.  Skipulagsnefnd hafnaði umsókninni með eftirfarandi bókun:  „Skipulagsnefnd hafnar erindinu þar sem það samræmist ekki skipulags- og byggingarskilmálum hvað varðar byggingarefni en þar segir í sameiginlegum ákvæðum að byggingar skulu vera steinsteyptar.“  Var kæranda kynnt afgreiðsla málsins með bréfi, dags. 3. maí 2007, og bent á að heimilt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan 3ja mánaða frá birtingu hennar. 

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að ákvæði það er skipulagsnefnd vísi til sé óljóst og bendir á að húsbyggjendur megi t.d. byggja úr blönduðum byggingarefnum, s.s. steinsteypta veggi klædda með timbri eða öðrum efnum að utan sem innan.  Brjóti skipulagsnefnd Akureyrarbæjar stjórnsýslulög með því að leyfa blönduð byggingarefni en hafna samt burðarvirki úr timbri með ytra byrði steinsteyptrar kápu.  Útlit hússins brjóti samkvæmt umsögn frá Kanon arkitektum ekki gegn ákvæðum í deiliskipulagi umrædds svæðis, enda klætt með steinsteyptri kápu.  Hafi kærandi orðið fyrir stórfelldu og ófyrirséðu fjárhagstjóni vegna óeðlilegrar túlkunar nefndarinnar á ákvæðum skipulagsins og áskilji sér rétt til að sækja bætur vegna þess. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í sameiginlegum ákvæðum um hönnun mannvirkja á bls. 2 í greinargerð deiliskipulags svæðisins segi að byggingarnefndarteikningar skuli vera í samræmi við byggingarreglugerð og skilmála.  Þá segi að allar húsagerðir skuli vera samræmdar í efni.  Samkvæmt sérákvæðum skuli byggingar vera steinsteyptar, þó leyfilegt sé að nota önnur efni í útveggjaklæðningu að hluta, með steinsteyptum flötum.  Hafi umsóknir kæranda því ekki uppfyllt þær kröfur sem settar séu í skipulagsskilmálum. 

Því sé hafnað að ákvæði skilmálanna séu óljós.  Þar sem segi að „…leyfilegt sé að nota önnur efni í útveggjaklæðningu að hluta, með steinsteyptum flötum“, sé átt við þá byggingarhefð sem nú tíðkist að hafa hluta af steinsteyptum veggjum viðarklædda.  

Telji Akureyrarbær að umdeild ákvörðun, sem rót eigi að rekja til skýrra markmiða og sérákvæða um byggingarefni í greinargerð skipulagsins, lögmæta með vísan til 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur í málinu að erindi kæranda, sem hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar laut að, var sett fram í tölvubréfi frá 13. mars 2007.  Var erindinu beint til skipulagsnefndar og fól í sér ósk um að nota STO Fibercement sem byggingarefni á útveggi áformaðs húss að Krókeyrarnöf 18.  Í erindinu var sérstaklega tekið fram að ekki væri óskað breytinga á byggingarskilmálum.  Engar byggingarnefndarteikningar fylgdu erindinu og hafnaði skipulagsnefnd því, eins og að framan er rakið, með þeim rökum að umbeðin útfærsla samræmdist ekki gildandi skipulagi. 

Kærandi sendi skipulagsnefnd síðan erindi hinn 8. maí 2007 með útlitsteikningum þar sem m.a. útveggjum, þaki og gluggum hafði verið breytt.  Lýsti kærandi þar þeirri skoðun sinni að fyrirhugað timburhús með áðurgreindri klæðingu samræmdist gildandi skilmálum og óskaði eftir staðfestingu skipulagsnefndar á þeirri skoðun sinni.  Mun skipulagsnefnd ekki hafa fallist á þá málaleitan.  Þá hefur verið upplýst í málinu að kærandi hafi hinn 10. október 2007 sótt um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu einbýlishúsi á umræddri lóð og var umsóknin samþykkt hinn 1. nóvember 2007.  Mun húsið nú vera risið. 

Umrætt erindi kæranda frá 13. mars 2007 fól ekki í sér byggingarleyfisumsókn og samkvæmt orðalagi erindisins sjálfs var þar ekki farið fram á breytingu á skilmálum gildandi skipulags.  Verður því að skýra erindið svo að þar hafi kærandi leitað álits skipulagsnefndar um hvort áformað timburhús með steypuklæðningu félli að skilmálum gildandi deiliskipulags umrædds svæðis.  Með hinni kærðu afgreiðslu hafnaði skipulagsnefnd því að svo væri. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar nema á annan veg sé mælt í lögum.  Afgreiðsla fyrirspurna eða álitsumleitana fela eðli máls samkvæmt aðeins í sér skoðun eða álit viðkomandi stjórnvalds en teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir þar sem ákvörðun er tekin um réttindi og/eða skyldur aðila í skjóli stjórnsýsluvalds. 

Af framangreindum ástæðum verður hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar Akureyrar ekki borin undir úrskurðarnefndina og er máli þessu af þeim sökum vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                      Þorsteinn Þorsteinsson