Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 72/2008, kæra vegna framkvæmda á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. ágúst 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir H, Laugavegi 5 í Reykjavík, framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík. Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar. Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kæranda.
Málavextir og málsrök: Lóðin Taðarkotssund 6 er óbyggð sem nýtt hefur verið sem bílastæði. Fyrir skömmu hófust framkvæmdir á lóðinni sem að sögn borgaryfirvalda miðuðu að fegrun hennar til bráðabirgða.
Af hálfu kæranda er vísað til þess að umræddar framkvæmdir séu í andstöðu við gildandi deiliskipulag svæðisins en samkvæmt því eigi að byggja hús á lóðinni. Þá hafi kynning á framkvæmdunum verið öll hin undarlegasta, einhver arkitekt segist hafa farið til hagsmunaaðila á svæðinu, en hann hafi aldrei komið að máli við kæranda. Farið sé fram á stöðvun framkvæmda og að formleg grenndarkynning fari fram.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem umrædd framkvæmd sé hvorki byggingarleyfisskyld né kalli á breytingu á deiliskipulagi.
Bent sé á að í vor og sumar hafi borgaryfirvöld unnið að fegrun miðborgarinnar, þ.á m. lóðarinnar að Traðarkotssundi 6, sem sé í eigu einkaaðila en ekki Reykjavíkurborgar. Ákveðið hafi verið í samráði við eigendur að fegra lóðina til bráðabirgða þar sem ástand hennar hafi verið bágborið. Samkvæmt skipulagi sé heimilt að byggja á lóðinni 660 fermetra hús en lóðarhöfum sé í sjálfsvald sett hvort þeir nýti þá heimild eða ekki. Fram að þessu hafi bílum verið ólöglega lagt á lóðinni en ekki sé gert ráð fyrir að þar séu bílastæði.
Ólögformleg hagsmunaaðilakynning hafi farið fram áður en framkvæmdir hafi hafist. Kynningarbæklingur hafi verið borinn út til nágranna og harmi Reykjavíkurborg að sá bæklingur hafi ekki borist kæranda. Hin umdeilda framkvæmd miði einungis að fegrun svæðisins og sé hvorki byggingarleyfisskyld né kalli á breytingu á deiliskipulagi og því ekki nauðsynlegt að fram fari hefðbundin grenndarkynning eins og kærandi fari fram á.
Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu aðila í skjóli stjórnsýsluvalds. Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds.
Í máli þessu eru kærðar framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík. Ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun borgaryfirvalda er byggir á skipulags- og byggingarlögum vegna hinna umdeildu framkvæmda og geti sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hinna umdeildu framkvæmda.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson