Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

133/2007 Birnustaðir

Ár 2008, miðvikudaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 133/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 4. október 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum í Súðavíkurhreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. október 2007, er barst nefndinni hinn 8. sama mánaðar, kærir Björn Jóhannesson hrl., f.h. M, G, Þ og Á, eigenda sumarhúss í landi Birnustaða, Súðavíkurhreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 4. október 2007 að veita Hólmabergi ehf. byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá var þess krafist að úrskurðarnefndin kvæði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu en með úrskurði uppkveðnum 29. október 2007 var þeirri kröfu hafnað með vísan til þess að byggingu hússins væri að mestu lokið. 

Málavextir:  Mál þetta á sér langan aðdraganda en deilt hefur verið um heimildir til byggingar vélageymslu að Birnustöðum í Laugardal í Súðavíkurhreppi.  Hafa deilur þessar staðið milli eiganda jarðarinnar annars vegar, sem óskað hefur eftir heimild til byggingar nýrrar vélageymslu, og hins vegar kærenda sem eru eigendur sumarhúss er á jörðinni stendur. 

Umrætt sumarhús er sagt hafa verið byggt á árinu 1988 og liggur fyrir byggingarvottorð, útgefið af byggingarfulltrúa hinn 16. febrúar 1998, þar sem fram kemur að húsið sé fullgert og byggt með leyfi byggingar- og skipulagsyfirvalda Súðavíkurhrepps, áður Ögurhrepps.  Hinn 13. október 1997 gáfu þáverandi eigendur Birnustaða út yfirlýsingu um að 1.500 m² lóð fylgdi sumarhúsinu samkvæmt uppdrætti, staðfestum af byggingarfulltrúa, auk annarra nánar tilgreindra réttinda.  Er sumarhúsið skammt norðaustan við íbúðarhúsið á jörðinni en auk þess var suðvestan við sumarhúsið gömul vélaskemma, um 10 metra frá lóðarmörkum, sem nú hefur verið rifin til hálfs.  Þá stóð lítill hjallur suðvestan við sumarhúsið, alveg við lóðarmörk þess, en hann hefur verið rifinn.

Nokkuð er síðan þeir eigendur sem ráðstöfuðu umræddri lóð undir sumarhúsið seldu jörðina Birnustaði, en sumarhúsið ásamt tilheyrandi lóð var undanskilið.

Ekki er í gildi deiliskipulag á umræddu svæði en í gildi er Aðalskipulag Súðavíkurhrepps 1999-2018.  Birnustaðir eru lögbýli og er land jarðarinnar skilgreint landbúnaðarsvæði.  Í greinargerð aðalskipulagsins segir m.a. að sveitarstjórn telji ekki að útiloka eigi byggingu einstakra dreifðra bústaða utan skilgreindra frístundabyggðarsvæða en í þeim tilvikum skuli þeir einungis staðsettir á landbúnaðarsvæðum.  Samkvæmt aðalskipulagsuppdrætti og greinargerð aðalskipulagsins er heimild til að reisa frístundahús í Laugardal. 

Umsókn um leyfi til byggingar nýrrar vélageymslu á jörðinni var fyrst samþykkt í byggingarnefnd hinn 27. október 2004.  Á grundvelli þeirrar samþykktar gaf byggingarfulltrúi út skriflegt byggingarleyfi hinn 23. mars 2005 með vísan til ákvæða 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður ráðið af málsgögnum að eftir þetta hafi byggingaryfirvöldum í Súðavíkurhreppi orðið ljóst að ekki hefði verið staðið rétt að undirbúningi ákvörðunar um leyfisveitinguna og var Skipulagsstofnun sent erindi af því tilefni.  Í svari Skipulagsstofnunar til byggingarfulltrúa, dags. 17. ágúst 2005, segir m.a:  „Vísað er til erindis Súðavíkurhrepps, dags. 11. ágúst 2005, þar sem óskað er meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga, með veitingu byggingarleyfis fyrir allt að 245,7 m² vélageymslu í landi Birnustaða.  Hámarkshæð húss er 5,5 m (mælt á uppdrætti) … Áður en Skipulagsstofnun getur afgreitt erindið þarf að liggja fyrir hvort gert hafi verið bráðabirgðahættumat af svæðinu í samræmi við ákvæði aðalskipulags Súðavíkur.  Þar sem um byggingu er að ræða í næsta nágrenni við núverandi frístundahús þarf jafnframt að kynna framkvæmdina fyrir eigendum þess og mælir stofnunin með því að reynt verði að ná sáttum um staðsetningu hennar.  Stofnunin bendir jafnframt á að gæta þarf ákvæða byggingarreglugerðar um fjarlægð frá lóðamörkum og að gera þarf yfirlitsmynd sem sýnir staðsetningu jarðarinnar/framkvæmdarinnar í sveitarfélaginu.“ 

Með bréfi, dags. 20. september 2005, tilkynnti byggingarfulltrúi eiganda Birnustaða að komið hefði í ljós að ekki hefði verið staðið rétt að veitingu leyfisins.  Hefði þess ekki verið gætt að leggja byggingarleyfisumsóknina fyrir Skipulagsstofnun og óska meðmæla samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en auk þess hefði verið að því fundið að ekki hefði farið fram grenndarkynning vegna sumarhúss er stæði nærri vélageymslunni.  Þar sem enn hefði ekki tekist að leggja fram umbeðin gögn, sem um hefði verið rætt við byggingarleyfishafa, væri áður útgefið byggingarleyfi frá 23. mars 2005 fellt úr gildi.  

Með bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 22. september 2005, var þeim tilkynnt að ákveðið hefði verið, með vísan til 2. mgr. (sic) 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, að grenndarkynna þá ákvörðun eiganda jarðarinnar að byggja vélageymslu á jörðinni.  Í bréfi, dags. 17. október 2005, settu kærendur fram athugasemdir vegna þessa og mótmæltu staðsetningu fyrirhugaðrar vélageymslu.  Á fundi byggingarnefndar hinn 8. nóvember 2005 var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:  „Byggingarnefnd telur ekki nægileg rök fyrir því að banna byggingu vélageymslu á áður samþykktum byggingarreit.“  Var bókunin staðfest á fundi sveitarstjórnar samdægurs og athugasemdum kærenda svarað.  Kærði lögmaður eigenda sumarhússins þessa niðurstöðu byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 7. nóvember 2005, en ekkert byggingarleyfi var þó veitt í framhaldi af framangreindri niðurstöðu byggingarnefndar.  Var kærumálið síðar dregið til baka þar sem engin kæranleg ákvörðun lá fyrir í málinu. 

Í bréfi Skipulagsstofnunar til byggingarfulltrúa, dags. 14. nóvember 2005, segir m.a. eftirfarandi:  „Vísað er til erindis Súðavíkurhrepps, dags. 8. nóvember 2005, þar sem ítrekuð er ósk um meðmæli Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga, með veitingu byggingarleyfis fyrir 246 m² vélageymslu í landi Birnustaða … Skipulagsstofnun undrast að sveitarstjórn skuli fallast á staðarval vélageymslunnar þrátt fyrir augljósa útsýnisskerðingu og réttlát mótmæli eigenda íbúðarhúss sem fyrir er á jörðinni.  Skipulagsstofnun gerir þó ekki athugasemd við að leyfi verði veitt fyrir byggingunni enda verði virt ákvæði byggingarreglugerðar um fjarlægð bygginga frá lóðarmörkum m.t.t. til byggingarefna.“ 

Málið virðist hafa legið niðri um nokkurn tíma eftir þetta en í tölvupósti sveitarstjóra hinn 20. mars 2007 til eins kærenda segir eftirfarandi:  „Sendi þér hér afrit af nýrri tillögu að staðsetningu geymslunnar sem óskað er eftir að fá heimild til að byggja á Birnustöðum.  Heyri frá þér þegar þú hefur skoðað þessa staðsetningu.“  Á fundi byggingarnefndar Súðavíkurhrepps hinn 30. apríl 2007 var tekið fyrir munnlegt erindi um byggingu margnefndrar vélageymslu.  Í gögnum málsins kemur fram að um sé að ræða 246 m² vélageymslu, þar sem vegghæð sé 3,97 metrar og mænishæð 5,51 metri.  Lengd hússins sé áformuð 21,71 metri og breidd þess 11,32 metrar.  Mun vélageymsla þessi koma í stað eldri og umtalsvert minni geymslu.  Segir í bókun byggingarnefndar að um sé að ræða nýja staðsetningu hússins og að erindið sé samþykkt þar sem það sé í samræmi við byggingarlög.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 31. maí 2007 var samþykkt byggingarnefndar tekin til afgreiðslu og lagt fram afrit af kæru kærenda til úrskurðarnefndarinnar og erindi byggingarfulltrúa.  Þá var og lögð fram skrifleg byggingarleyfisumsókn.  Í umsókninni segir m.a. eftirfarandi:  „Áður hefur verið sótt um byggingarleyfi fyrir þessu húsi en það var ógilt vegna ósamkomulags við nágranna um staðsetningu þess.  Nú hefur byggingin verið færð 9 m í SA og skerðir ekki, að okkar mati, lengur útsýni til SV, en það var m.a. það sem nágrannar í sumarhúsinu settu fyrir sig.“  Var afgreiðslu frestað til næsta fundar sveitarstjórnar. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 7. júní 2007 var tekin til afgreiðslu umsókn um byggingarleyfi fyrir vélageymslu á Birnustöðum og var eftirfarandi fært til bókar:  „Lögð fram greinargerð byggingarfulltrúa er varðar möguleg grenndaráhrif vegna byggingarinnar.  Lagt fram álit lögfræðings Súðavíkurhrepps vegna málsins.  Lagðar fram athugasemdir frá Margréti og Þóru Karlsdætrum á greinargerð byggingarfulltrúa.  Byggingarnefnd hefur áður fjallað um sama erindi sem lagt var munnlega fyrir nefndina af byggingarfulltrúa þann 30. apríl sl.  Nú hefur umsækjandi lagt fram skriflega umsókn um byggingarleyfi.  Nefndin hefur farið yfir öll gögn um málið og komist að sömu niðurstöðu og þann 30. apríl sl. þ.e. að nefndin leggur það til við sveitarstjórn að hún samþykki erindið.  Jafnframt átelur byggingarnefndin byggingaraðila harðlega fyrir að hafa ekki farið eftir munnlegum tilmælum byggingarfulltrúa um að hefja ekki byggingarframkvæmdir fyrr en skriflegt leyfi þar um hafi verið gefið út.“  Var framangreind afgreiðsla byggingarnefndar staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 8. júní 2007 með eftirfarandi bókun:  „Sveitarstjórn telur ekki að framkomin sjónarmið um meint grenndaráhrif séu þess eðlis að ekki beri að veita byggingaleyfi vegna byggingarinnar.“ 

Með vísan til ákvæða 44. gr. skipulags- og byggingarlaga gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi hinn 11. júní 2007 fyrir hinni umdeildu vélageymslu en fyrir liggur að byggingarleyfishafi hóf framkvæmdir áður en leyfið var veitt. 

Framangreindum ákvörðunum skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu þeirra og um stöðvun framkvæmda.  Ákvað úrskurðarnefndin, með úrskurði til bráðabirgða uppkveðnum hinn 3. júlí 2007, að stöðva skyldi framkvæmdir við bygginguna meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni.  Felldi úrskurðarnefndin síðan, með úrskurði uppkveðnum 26. júlí 2007, úr gildi hina kærðu ákvörðun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps um að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum.  Í kjölfar úrskurðarins var á fundi byggingarnefndar hinn 27. ágúst 2007 lagt fram erindi þar sem óskað var eftir byggingarleyfi fyrir vélageymslu og ákvað byggingarnefnd að leita meðmæla Skipulagsstofnunar á grundvelli 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 þar sem ekki væri fyrir hendi samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið.  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. september 2007, kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir staðsetningu vélageymslunnar á þeim stað sem umsóknin tæki til.  Ákvað byggingarnefnd á fundi hinn 18. september 2007 að leggja til við sveitarstjórn að umbeðið byggingarleyfi yrði veitt auk þess sem veitt var leyfi til að loka vélaskemmunni, en bygging hennar var þá á lokastigi.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 4. október 2007 samþykkti sveitarstjórn fundargerð byggingarnefndar frá 18. september 2007.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir hafi þegar í stað mótmælt niðurstöðu Skipulagsstofnunar frá 13. september 2007.  Ekki verði séð að hægt sé að byggja útgáfu byggingarleyfis fyrir vélageymslunni á 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem forsenda fyrir hinu kærða byggingarleyfi séu lögmælt meðmæli Skipulagsstofnunar.  Í því sambandi sé bent á að byggingarleyfishafi hafi byrjað framkvæmdir við byggingu vélageymslunnar án þess að hafa til þess tilskilin leyfi.  Byggingarleyfið, sem gefið hafi verið út hinn 11. júní 2007, hafi verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar.  Samkvæmt  2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga beri að stöðva byggingarframkvæmdir sem hafnar séu án þess að leyfi sé fengið fyrir þeim eða ef bygging brjóti í bága við skipulag.  Síðan skuli hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægð og jarðrask afmáð.  Hafa beri í huga að 3. tl. til bráðabirgða í lögunum sé undantekningarákvæði.  Samkvæmt því beri að leita meðmæla Skipulagsstofnunar áður en framkvæmdir hefjist enda séu meðmæli stofnunarinnar skilyrði þess að sveitarstjórn geti leyft einstakar framkvæmdir.  Ekki verði séð að hægt sé að beita fyrrgreindu bráðabirgðaákvæði til að afla eftir á meðmæla frá Skipulagsstofnun þegar fyrir liggi að framkvæmdir hafi verið hafnar án leyfis og byggingarleyfi þegar verið fellt úr gildi. 

Þá bendi kærendur á að í gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um byggingarreiti fyrir sumarhús komi fram að í deiliskipulagi svæða fyrir frístundabyggð skuli þess gætt að byggingarreitir séu ekki staðsettir nær lóðarmörkum en tíu metra.  Í því tilviki sem hér um ræði sé vélageymslan einungis 2,42 metra frá girðingu, sem kærendur hafi hingað til talið að væri á lóðarmörkum, en girðingin sé 7,82 metra frá sumarhúsi kærenda, þannig að einungis 10,24 metrar séu frá sumarhúsi kærenda að vélageymslunni.  Ný afstöðumynd af lóð sumarhússins, sem kærendur hafi látið vinna, bendi til að þess vélageymslan sé byggð langt inn á lóð sumarhússins.  Þó svo að miðað væri við að lóðamörkin væru þar sem núverandi girðing sé, þá séu ekki nema 2,42 metrar frá girðingunni að vélageymslunni og slíkt sé í andstöðu við skýr ákvæði gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð. 

Þá telji kærendur að líta beri til sjónarmiða um meðalhóf þegar tekin sé afstaða til staðsetningar vélageymslunnar og að sumarhús kærenda hafi verið byggt fyrir um 20 árum.  Óumdeilt sé að völ sé á annarri staðsetningu fyrir vélageymsluna þar sem tekið væri jafnt tillit til sjónarmiða kærenda sem og byggingarleyfishafa. 

Kærendur vísi einnig til grenndarsjónarmiða og haldi því fram að byggingin muni valda þeim útsýnisskerðingu, varpa skugga á hús og lóð þeirra, snjósöfnun á lóðinni muni verða veruleg ásamt því að valda þeim miklu ónæði sökum hávaða, vélaumferðar og mengunar frá vélum. 

Málsrök Súðavíkurhrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ekki hafi fyrr verið gerð athugasemd við lóðarmörk sumarhúss kærenda, er þeir hafi sjálfir ákvarðað án nokkurra afskipta byggingaryfirvalda.  Byggingaryfirvöld hafi ekkert á móti því að lóðarmörk verði ákvörðuð á annan hátt en verið hafi en slíkt þurfi þó að gerast í samráði við og með samþykki landeiganda. 

Því hafi aldrei verið í móti mælt að hin umrædda bygging hefði nokkur umhverfisáhrif en því sé mótmælt að hún hafi svo mikil áhrif sem kærendur telji og alls ekki svo mikil að leiða eigi til ógildingar byggingarleyfisins. 

Þá sé litið svo á að úrskurður úrskurðarnefndarinnar í málinu nr. 47/2007, er varðað hafi umþrætt byggingarleyfi, hafi eingöngu byggst á þeim sjónarmiðum að hvorki hafi verið fyrir hendi heimild til útgáfu byggingarleyfis, með stoð í grenndarkynningu, né að leitað hafi verið umsagnar Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti, með vísan til 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.  Ekki hafi af hálfu úrskurðarnefndarinnar verið gerðar efnislegar athugasemdir varðandi byggingarframkvæmdirnar, svo sem að þær brytu í bága við grenndarsjónarmið o.þ.h., og því verði að álykta sem svo að nefndin hafi ekki talið slíka annmarka á framkvæmdunum.  Komið hafi verið til móts við athugasemdir úrskurðarnefndarinnar að þessu leyti, með því að leitað hafi verið umsagnar Skipulagsstofnunar á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis í kjölfar umsóknar um byggingarleyfi vegna umræddrar vélaskemmu.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. september 2007, hafi ekki verið gerð athugasemd við að byggingarleyfi yrði veitt vegna staðsetningar vélaskemmunnar á þeim stað sem tilgreindur hafi verið í byggingarleyfisumsókn. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa/landeiganda er öllum kröfum kærenda harðlega mótmælt.  Byggingarleyfishafi hafi fullnægt öllum skilyrðum fyrir byggingunni og hafi fengið öll tilskilin leyfi með réttum hætti.  Byggingarleyfið brjóti hvorki í bága við skipulags- og byggingarlög né heldur reglugerðir sem settar hafi verið með stoð í þeim.  Þá sé tekið er undir sjónarmið Súðavíkurhrepps. 

Kærendur haldi því fram að ekki sé hægt að byggja útgáfu byggingarleyfis fyrir vélageymslunni á 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, því forsenda byggingarleyfis séu lögmælt meðmæli Skipulagsstofnunar.  Fyrir liggi að leitað hafi verið eftir meðmælum Skipulagsstofnunar þann 28. ágúst 2007 og hafi Skipulagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að hún gerði ekki athugasemd við umrætt byggingarleyfi.  Séu því lögmælt meðmæli Skipulagsstofnunar fyrir hendi og liggi þau til grundvallar byggingarleyfinu sem hafi verið gefið út þann 5. október 2007. 

Kærendur telji að byggingarleyfishafi hafi byrjað framkvæmdir við vélageymsluna án þess að hafa tilskilin leyfi byggingaryfirvalda og sveitarstjórnar.  Þessu sé harðlega mótmælt.  Framkvæmdir hafi á sínum tíma verið hafnar á grundvelli byggingarleyfis sem hafi verið gefið út af Súðarvíkurhreppi þann 23. mars 2005 (og 8. júní 2007).  Eftir að sú ákvörðun hafði verið kærð og fallist hafi verið á stöðvun framkvæmda hafi engar framkvæmdir átt sér stað.  Það hafi ekki verið fyrr en 18. september 2007, þegar byggingaraðila hafi verið veitt heimild til að loka vélageymslunni til að koma í veg fyrir fokskemmdir, sem framkvæmdir hafi aftur farið af stað og þá aðeins til að loka húsinu en ekki hafi verið unnið við aðra verkþætti.  Framkvæmdir hafi svo byrjað að nýju í kjölfar útgáfu byggingarleyfisins þann 5. október 2007. 

Sú staðhæfing að byggingarleyfishafi hafi beitt 3. tl. bráðabirgðaákvæðisins til að afla eftir á meðmæla frá Skipulagsstofnun sé með öllu órökstudd.  Framkvæmdir hafi áður verið hafnar á grundvelli byggingarleyfis sem veitt hafi verið þann 23. mars 2005 en hafi svo verið stöðvaðar.  Byggingaraðilar hafi þá sótt um byggingarleyfi á ný og hafi öllum formreglum laga verið fylgt.  Það að byggja á því að meðmæli Skipulagsstofnunar hafi verið ólögmæt á grundvelli þess að framkvæmdirnar hafi áður verið hafnar með stoð í byggingarleyfi Súðarvíkurhrepps, er síðar hafi verið talið ógilt, eigi sér enga stoð. 

Meðal tilgangs laga nr. 73/1997 hafi verið að gera meðferð skipulags- og byggingarmála einfaldari og auka frumkvæði sveitarfélaga, sbr. athugasemdir við frumvarp laganna. 

Ákvæði gr. 4.11 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 eigi við um frístundabyggð og taki ákvæði reglugerðarinnar til gerðar deiliskipulags þegar slík svæði séu skipulögð.  Eitt frístandandi sumarhús nálægt lögbýli geti seint talist frístundabyggð.  Samkvæmt Aðalskipulagi Súðavíkur 1999-2018 sé þetta svæði skilgreint sem landbúnaðarsvæði og ekki liggi fyrir neitt deiliskipulag.  Samkvæmt grein 4.14.1 sömu reglugerðar sé að finna skilgreiningu á landbúnaðarsvæði.  Sé það skilgreint svo að slíkt svæði nái yfir allt land jarða eða lögbýla, sbr. ákvæði jarðalaga og ábúðarlaga um land sem nýtt sé til landbúnaðar.  Skuli á slíku svæði fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri á jörðinni.  Kærendum máls þessa sé ljóst, eða megi hafa verið ljóst, allt frá upphafi, að þeir eigi ekki sumarbústað í frístundabyggð.  Þau ákvæði sem hér reyni á séu ákvæði gr. 75.1 og 75.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Uppfylli byggingin og staðsetning hennar öll ákvæði reglugerðarinnar.  Benda verði á að hinn þinglýsti lóðaruppdráttur með sumarhúsinu sé sú heimild sem miða verði við, en ekki nýir uppdrættir sem kærendur hafi nú látið gera.  Sumarhúsið hafi verið byggt fyrir 20 árum og lóðin afmörkuð út frá sumarhúsinu 10 árum síðar.  Frá þeim tíma hafi kærendur fært girðingu inn á land byggingarleyfishafa og verði því ekki miðað við fjarlægð frá girðingu heldur þeim mældu hælum sem byggingarfulltrúi hafi sett niður og miðað hafi verið við þegar staðsetning skemmunnar hafi verið ákvörðuð. 

Tekið hafi verið verulegt tillit til sjónarmiða kærenda og vélageymslan færð til.  Ekki sé völ á annarri staðsetningu eins og kærendur vilji halda fram.  Landeigandi verði að hafa svigrúm til þess að skipuleggja húsakost á landbúnaðarsvæði sínu eins og best þjóni rekstrinum.  Fyrir ofan einbýlishús hans séu gamlar grafir þar sem miltisbrandssýktar kýr hafi verið urðaðar um aldamótin 1900 og hafi því ekki komið til greina að reisa vélaskemmuna þar.  Ekki hafi verið hægt að hafa skemmuna vestan við einbýlishúsið, þ.e.a.s. milli þess og fjárhúss og hlöðu, þar sem rotþró sé þar á milli og einnig dys.  Þá þurfi að vera þar til staðar aðstaða fyrir heyflutning og aðstaða úti til að geyma hey.  Sé það svo að eina staðsetningin sem komið hafi til greina fyrir vélaskemmuna hafi verið þar sem byggingarleyfið geri ráð fyrir henni.  Eldri vélageymsla hafi staðið á svipuðum stað og sú nýja, reyndar nokkru neðar, og að sjálfsögðu megi gera ráð fyrir hávaða vegna þeirra véla sem notaðar séu til landbúnaðar.  Hafi ekkert breyst í því sambandi frá því að sumarhúsið hafi verið byggt.

—————

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök í málinu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi vegna fyrra kærumáls hinn 20. júlí 2007.  Auk nefndarmanna og starfsmanns nefndarinnar voru á staðnum kærendur og lögmaður þeirra, forsvarsmaður byggingarleyfishafa ásamt lögmanni hans, byggingarfulltrúi Súðavíkurhrepps og sveitarstjóri. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir vélageymslu að Birnustöðum í Súðavíkurhreppi.  Á svæðinu er í gildi Aðalskipulag Súðavíkurhrepps 1999-2018.  Samkvæmt byggingarleyfinu á byggingin að rísa á skilgreindu landbúnaðarsvæði sunnan við lóð kærenda, sem er frístundalóð, og stendur á henni sumarhús í eigu þeirra.  Gerir aðalskipulagið ráð fyrir að stök sumarhús geti verið á landbúnaðarsvæðum í sveitarfélaginu og samræmist sumarhúsið því stefnumörkun aðalskipulagsins.  Fyrirhuguð nýbygging er 246 m² að stærð og er langhlið hússins 21,71 metri, samsíða suðvesturmörkum lóðar kærenda.  Mænishæð byggingarinnar er 5,51 metri.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Er landið allt skipulagsskylt og skulu framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 9. gr. nefndra laga. 

Tvær heimildir eru í skipulags- og byggingarlögum fyrir því að vikið sé frá skyldu til að gera deiliskipulag vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Er þar annars vegar um að ræða heimild í 3. mgr. 23. gr. laganna um leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu og hins vegar ákvæði 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga sem kveður á um að sveitarstjórn geti, án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, leyft einstakar framkvæmdir sem um kunni að verða sótt og sé unnt að binda slíkt leyfi tilteknum skilyrðum.  Báðar fela þessar heimildir í sér undantekningu frá meginreglu laganna um deiliskipulagsskyldu og sæta því þröngri skýringu. 

Í máli því sem hér er til úrlausnar var leitað meðmæla Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga enda voru ekki skilyrði til að neyta heimildar 3. mgr. 23. gr. laganna eins og atvikum var háttað í hinu umdeilda tilviki.  Kom fram í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. september 2007, að ekki væri gerð athugasemd við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir staðsetningu vélageymslunnar á þeim stað sem umsóknin tæki til og var hið umdeilda leyfi veitt á grundvelli þeirrar afgreiðslu. 

Heimildarákvæði 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var bætt inn í lögin að tillögu umhverfisnefndar Alþingis en sambærilegt ákvæði var ekki að finna í frumvarpi til laganna.  Í áliti nefndarinnar frá 9. maí 1997 segir svo:  „Á ákvæði til bráðabirgða eru lagðar til nokkrar breytingar.  Snúa þær í fyrsta lagi að því að heimila sveitarstjórn að leyfa einstakar framkvæmdir sem um kann að verða sótt, án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag. Áður skal sveitarstjórn þó hafa fengið meðmæli Skipulagsstofnunar.  Heimilt er að binda leyfið ákveðnum skilyrðum.“ 

Úrskurðarnefndin telur að túlka verið undantekningarákvæði umrædds 3. tl. til bráðabirgða á þann veg að áskilin meðmæli Skipulagsstofnunar þurfi að liggja fyrir áður en sveitarstjórn geti heimilað þær framkvæmdir sem um sé sótt og af því leiði að ekki sé unnt að leggja ákvæðið til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um leyfi fyrir þegar byggðu mannvirki.  Skorti því á að fullnægt væri lagaskilyrðum við útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis og verður það því fellt úr gildi.  Leiðir af þeirri niðurstöðu að ekki þykja efni til að fjalla um aðrar málsástæður, en að sumum þeirra hefur áður verið vikið í fyrri úrskurði nefndarinnar frá 26. júlí 2007. 

Rétt er þó að taka fram, vegna þeirrar nýju málsástæðu kærenda að umdeild vélageymsla nái inn á lóð sumarhúss þeirra, að í málinu hefur verið talið rétt að styðjast við uppdrátt, samþykktan af byggingarfulltrúa 3. september 1997, sem mun vera fylgiskjal með þinglýstu heimildarbréfi kærenda fyrir lóð sumarhússins.  Samkvæmt uppdrættinum eru suðurmörk lóðarinnar 8 metra frá suðurhlið sumarhússins, samsíða henni, og er eðlilegast að lóðin sé mæld út frá sumarhúsinu sjálfu, enda var það þegar risið þegar lóð þess var afmörkuð.  Verða ný sjónarmið kærenda um afmörkun lóðar og um lóðarmörk því ekki talin hafa neina þýðingu við úrlausn málsins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Fellt er úr gildi hið kærða byggingarleyfi fyrir byggingu vélageymslu að Birnustöðum í Súðavíkurhreppi, sem staðfest var á fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps hinn 4. október  2007. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                   ____________________________
 Ásgeir Magnússon                                                      Þorsteinn Þorsteinsson