Ár 2008, fimmtudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 159/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. nóvember 2007 um að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á lóðinni nr. 27 við Melabraut á Seltjarnarnesi.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. desember 2007, er barst úrskurðarnefndinni 11. sama mánaðar, kæra H og B, Melabraut 28, E Þ, S Á, K R. E og E M E, Melabraut 25, F R, M D, H O K og R H, Melabraut 26, K Ó og L G, Melabraut 30, H M, Melabraut 32, C B S, T M, K P og S H Melabraut 29, og B Á og G L, Miðbraut 26 þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. nóvember 2007 að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á lóðinni nr. 27 við Melabraut. Var ákvörðunin staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 14. nóvember 2007. Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. desember 2007, er bárust nefndinni hinn 11. sama mánaðar, kæra G I. R og Þ Þ. Þ, Miðbraut 32 og Á J og Í Í, Miðbraut 34 einnig fyrrgreinda ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 8. nóvember 2007. Hagsmunir kærenda fara saman og ákvað úrskurðarnefndin því að sameina síðari kærumálin hinu fyrsta, sem er númer 159/2007.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. Er krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 31. ágúst 2006 var samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi Vesturhverfis, eða þess svæðis er afmarkast af Lindarbraut, Vallarbraut, Hæðarbraut og Melabraut, og samþykkti bæjarstjórn hinn 25. september 2006 að auglýsa tillöguna. Var kynningartími tillögunnar frá 4. október 2006 til og með 2. nóvember s.á. og bárust athugasemdir við hana.
Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 8. mars 2007 var tillagan samþykkt ásamt drögum að svörum við athugasemdum. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna hinn 27. júní 2007. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 26. júlí 2007, kom fram að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að auglýsing um samþykki bæjarstjórnar birtist og hinn 7. ágúst 2007 var gildistakan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Fram kemur í greinargerð deiliskipulagstillögunar að markmið með endurskoðun deiliskipulags Vesturhverfis sé að samræma stærðir húsa, yfirbragð og nýtingarhlutfall lóða og gefa lóðarhöfum, sérstaklega á syðri hluta svæðisins þar sem nýtingarhlutfall er undir meðalnýtingu, möguleika á auknu byggingarmagni innan uppgefinna byggingarreita. Hefur skipulagsbreytingin verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar hinn 8. nóvember 2007 var samþykkt að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á lóðinni nr. 27 við Melabraut. Var ákvörðunin staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 14. nóvember 2007.
Af hálfu kærenda er bent á að kærendur hafi áður kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun bæjarstjórnar um breytt deiliskipulag svæðisins. Þá sé hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins, hæð hússins sé of mikil ásamt því að bílastæði séu of mörg.
Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er bent á að samkvæmt deiliskipulagi svæðisins sé heimilt að byggja tveggja hæða hús á lóðinni og í skýringum á deiliskipulagsuppdrætti komi fram fjöldi bílastæða á íbúð.
Byggingarleyfishafa gafst kostur á að tjá sig um framkomna stöðvunarkröfu en gerði ekki.
Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi er veitt með stoð í breyttu deiliskipulagi svæðis er markast af Lindarbraut, Vallarbraut, Miðbraut og Melabraut. Hefur deiliskipulagsbreytingin verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Er skipulagssvæðinu skipt í svæði A, B og C og er nýtingarhlutfall mismunandi eftir svæðum eða 0,3 til 0,5. Svæði þessi ganga þvert á götur þannig að við sömu götuna er nýtingarhlutfall lóða mismunandi. Eru uppi álitaefni er varða gildi umrædds skipulags og þar með grundvöll hins kærða byggingarleyfis og þykir eftir atvikum rétt að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Framkvæmdir, sem hafnar eru samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi við byggingu fjögurra íbúða húss á lóðinni nr. 27 við Melabraut á Seltjarnarnesi, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
__________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson