Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

98/2005 Miklabraut

Ár 2007, föstudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2005, kæra á ákvörðunum skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. október 2005 um niðurrif bílskúra og byggingu nýrra á lóðum nr. 24, 26 og 28 við Miklubraut í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. nóvember 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, f.h. húsfélags Mjóuhlíðar 8-10 í Reykjavík, þær ákvarðanir skipulagsráðs frá 26. október 2005 að heimila niðurrif núverandi bílskúra og byggingu nýrra á lóðunum nr. 24, 26 og 28 við Miklubraut í Reykjavík.

Skilja verður erindi kæranda svo að þess sé krafist að hinar kærðu samþykktir skipulagsráðs verði felldar úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á baklóðum húsanna að Miklubraut 24, 26 og 28 eru bílskúrar sem byggðir voru fyrir nokkrum tugum ára.  Milli lóða kæranda og baklóðanna við Miklubraut 24-28 liggur gatan Mjóahlíð. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 3. maí 2005 voru teknar fyrir umsóknir íbúðareigenda að Miklubraut 24, 26 og 28 þess efnis að veitt yrðu leyfi til að rífa umrædda bílskúra á lóðum þeirra og byggja nýja.  Var afgreiðslu frestað og á fundi byggingarfulltrúa hinn 12. júlí 2005 voru umsóknirnar lagðar fram að nýju ásamt samþykki rétthafa aðliggjandi lóða.  Afgreiðslu var frestað og málunum vísað til skipulagsfulltrúa sem ákvað að grenndarkynna umsóknirnar fyrir hagsmunaaðilum.  Bárust athugasemdir frá 32 íbúum við Mjóuhlíð. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 26. október 2005 voru lögð fram svör við framkomnum athugasemdum ásamt samantekt skipulagsfulltrúa og umsögn framkvæmdasviðs.  Voru umsóknirnar samþykktar og þær staðfestar í borgarráði 27. september s.á.

Skaut kærandi ákvörðunum skipulagsráðs frá 26. október 2005 til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Á fundi byggingarfulltrúa hinn 25. september 2007 var samþykkt að nýju, að undangenginni grenndarkynningu, byggingarleyfi fyrir bílskúr að Miklubraut 24 og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 27. september s.á.  Hefur þessi ákvörðun ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að bílskúrar á lóðunum við Miklubraut 24, 26 og 28 séu lítið sem ekkert notaðir sem bílskúrar en bílastæði framan við þá og á milli þeirra séu notuð af eigendum skúranna.  Með því sé komið í veg fyrir að íbúar að Mjóhlíð 8-10 geti lagt ökutækjum sínum fyrir framan hús sín.  Muni nýir bílskúrar enn auka á bílastæðavanda íbúa að Mjóuhlíð.  Um litla og þrönga götu sé að ræða sem sé ófær slökkvi- og sjúkrabifreiðum.  Telji kærandi að sjónmengun sé af núverandi skúrum og rétt sé að rífa þá.  Að lokum sé lögð áhersla á að núverandi skúrar hafi verið byggðir án leyfis en það síðar veitt, eða fyrir um 20 árum, og þá án þess að grenndarkynning hafi farið fram.

Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að ekki sé fyrir hendi deiliskipulag fyrir þann reit er umræddir bílskúrar standi á.  Núverandi bílskúrar og bílastæði við vesturhlið þeirra hafi verið samþykktir á fundi byggingarnefndar borgarinnar hinn 12. apríl 1984 en þeir hafi verið byggðir nokkru áður.  Ekki sé fallist á að bílskúrarnir hafi verið byggðir án leyfis og vísað sé til samþykktar bæjarráðs Reykjavíkur frá 28. júlí 1951 því til stuðnings.

Vísað sé til umsagnar framkvæmdasviðs þar sem fram komi að ekki sé möguleiki að bæta það fyrirkomulag sem ríki varðandi skipulag bílastæða í umræddri götu og að bílastæði sem gert sé ráð fyrir við hlið bílskúranna samsvari rúmlega einu bílastæði við götu.

Hin kærðu leyfi geri ráð fyrir endurbyggingu bílskúra sem þegar séu til staðar og hafi verið samþykktir af byggingaryfirvöldum.  Sé því hvorki um að ræða aukningu á umferð né á notkun bílastæða miðað við núverandi ástand.  Reykjavíkurborg hefði í raun verið óheimilt að synja um endurbyggingu skúra þeirra sem um ræði í málinu nema að viðlagðri bótaábyrgð þar sem um samþykktan byggingarrétt sé að ræða.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fellur samþykkt sveitarstjórnar úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.   Í máli þessu liggur fyrir að ekki voru gefin út byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir bílskúrum á lóðunum að Miklubraut 24, 26 og 28 innan þess tíma og eru samþykktir sveitarstjórnar því úr gildi fallnar með vísan til  tilvitnaðs ákvæðis.  Hefur kærandi af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinna kærðu ákvarðana og verður kröfu þess efnis því vísað frá. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson