Ár 2007, þriðjudaginn 11. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 37/2007, kæra vegna gatnagerðarframkvæmda sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs við Hamrafell, Fellabæ.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. apríl 2007, er barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir O, Hamrafelli 3, Fellabæ, gatnagerðarframkvæmdir við Hamrafell í Fellabæ.
Skilja verður kæruna svo að þess sé krafist að umdeildar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs hinn 12. mars 2007 var lögð er fram tillaga að fyrirkomulagi lóða við enda götunnar Hamrafells í Fellabæ sem nefndin samþykkti fyrir sitt leyti og fól skipulagsfulltrúa að kynna málið fyrir rétthöfum lóða nr. 2-4 og 3.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 26. mars 2007 var fært til bókar að byggingarfulltrúi hafi fundað með eigendum húsa að Hamrafelli 2, 3 og 4 og var eftirfarandi fært til bókar: „S&B samþykkir framlagða tillögu og felur skipulagsfulltrúa að láta færa tillöguna inn á væntanlegt deiliskipulag fyrir svæðið.“
Hinn 23. apríl 2007 var á fundi skipulags- og byggingarnefndar fjallað um gatnagerð við Hamrafell og var eftirfarandi bókað: ,, ..eigandi íbúðarhússins að Hamrafelli 3, Fellabæ og S .. f.h. Búseta á Héraði, eigandi íbúðarhússins að Hamrafelli 4, Fellabæ og S .., ítreka fyrri tillögu sína, með rýmkun á snúningsplani í enda götunnar og krefjast þess að samið verði um kaup á landi við landeiganda austan Hamrafells 3. S&B hafnar erindinu og vísar að öðru leyti í bókun nefndarinnar 26. mars 2007.“
Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurðarnefndin kanni lögum samkvæmt réttmæti framkvæmda við götuna Hamrafell, sem Fljótsdalshérað standi að, án þess að fyrir hendi sé deiliskipulag eða samkomulag við íbúa götunnar. Bréfi kæranda og annarra íbúa við götuna, dags. 11. apríl 2007, hafi ekki verið svarað, en á meðan haldi framkvæmdir áfram og sé gatan ófær öðrum en gangandi vegfarendum.
Niðurstaða: Í máli þessu er kærð framkvæmd við gatnagerð við Hamrafell í Fellabæ. Af málsgögnum verður ekki ráðið að gefið hafi verið út formlegt framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa mun hin kærða framkvæmd hafa falið í sér jarðvegsskipti, endurnýjun lagna og yfirborðsfrágang götu þeirrar sem fyrir var.
Verður ekki talið að ágreiningur um framangreinda framkvæmd sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður máli þessu því vísað frá nefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.