Ár 2007, fimmtudaginn 29. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 135/2007, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. júlí 2007 og afgreiðslu bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 á umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss að Nesbala 36.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. október 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir V, eigandi fasteignarinnar að Nesbala 48, Seltjarnarnesi, afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. júlí 2007 og afgreiðslu bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 22. ágúst 2007 á umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss að Nesbala 36. Þá hafa úrskurðarnefndinni borist bréf tveggja nágranna kæranda, dags. 16. og 25. október 2007, þar sem tekið er undir sjónarmið hans en ekki verður litið á erindi þessi sem kærur eða meðalgöngu.
Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu samþykktir verði felldar úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. Er krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness þann 6. apríl 2006 var tekin fyrir umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Nesbala 36, en lóðin hefur verið óbyggð allt frá því skipulag var gert fyrir umrætt svæði snemma árs 1979. Umsókninni var synjað þar sem byggingin fór út fyrir byggingarreit.
Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 22. júní 2006 var lögð fram að nýju umsókn um leyfi til byggingar húss á lóðinni og var samþykkt að senda málið í grenndarkynningu. Á fundi nefndarinnar 17. ágúst 2006 var umsóknin samþykkt þar sem engar athugasemdir höfðu borist við grenndarkynninguna og ákvörðunin staðfest í bæjarstjórn 23. ágúst 2006.
Í framhaldi af nánari hönnun hússins sendi lóðarhafi inn nýja umsókn þar sem óskað var eftir leyfi fyrir verulegri hækkun þess vegna breyttra hönnunarforsendna. Var samþykkt að senda erindið í grenndarkynningu. Athugasemdir bárust frá nágrönnum og var umsókninni hafnað á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 11. janúar 2007. Aftur var send inn umsókn um breytingu á hæð væntanlegs húss og málið á ný sent í grenndarkynningu. Enn bárust athugasemdir og var umsókninni hafnað á grundvelli þeirra.
Á fundi nefndarinnar 12. júlí 2007 var tekið fyrir erindi frá lóðarhafa þar sem tillögur að breytingum á húsinu að Nesbala 36 voru dregnar til baka. Afgreiddi nefndin erindið með svohljóðandi bókun: „Tekið fyrir að nýju erindi ……… Skipulags- og mannvirkjanefndar (sic) vísar til samþykktar sinnar frá 17. ágúst 2006“. Þessa afgreiðslu staðfesti bæjarstjórn Seltjarnarness á fundi sínum hinn 22. ágúst 2007.
Á aðaluppdráttum er áritun um samþykkt byggingarnefndar hinn 17. ágúst 2006. Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa eru byggingarleyfisgjöld ógreidd en byggingarstjóri mun hafa skrifað sig á verkið hinn 19. júlí 2007 og iðnmeistarar verið tilkynntir hinn 15. nóvember 2007.
Kærandi telur að ef litið væri svo á að hinar kærðu samþykktir fælu í sér loforð um útgáfu byggingarleyfis þá beri að fella þær úr gildi og setja málið í grenndarkynninu. Ekki hafi verið unnt að veita leyfið á grundvelli fyrri samþykktar frá árinu 2006 þar sem hún hafi verið fallin úr gildi samkvæmt 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er tekið fram að fyrir liggi deiliskipulag fyrir svæðið vestan Nesbala, ásamt byggingarskilmálum, sem samþykkt hafi verið í skipulagsnefnd 27. mars 1979 og í bæjarstjórn þann 12. apríl sama ár. Ástæða þess að málið hafi verið sent í grenndarkynningu hafi verið sú að nýtingarhlutfall á lóðinni hafi verið nokkru hærra en byggingarskilmálar segi til um eða 0,375 í stað 0,3. Þess beri að geta að Nesbali 36 sé síðasta óbyggða lóðin á svæðinu og sé nýtingarhlutfall byggðra lóða í hverfinu frá 0,29 – 0,35. Grenndaráhrif hinnar umdeildu byggingar séu óveruleg og séu því ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.
Af hálfu byggingarleyfishafa er því haldið fram að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni. Ljóst megi vera að kæranda hafi verið kunnugt um allar ákvarðanir sem teknar hafi verið í málinu fyrir 10. september 2007, enda séu allar ákvarðanir bæjaryfirvalda á Seltjarnarnesi birtar opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins. Sé kæra í málinu því of seint fram komin og beri að vísa henni frá.
Verði ekki fallist á kröfu byggingarleyfishafa um frávísun sé kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda mótmælt. Ekkert hafi verið athugavert við meðferð málsins þegar hið umdeilda byggingarleyfi hafi verið veitt og hafi m.a. fullnægjandi grenndarkynning farið fram.
Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin frekar í þessum þætti málsins.
Niðurstaða: Í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa Seltjarnarness, dags. 12. september 2007, kemur fram að honum hafi daginn áður borist tilkynning byggingarfulltrúa, dags. 5. september 2007, um hinar kærðu afgreiðslur. Verður við það að miða að viðtaka tilkynningarinnar marki upphaf kærufrests í málinu og var hann því ekki liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 10. október 2007.
Áhöld eru um það hvort unnt hafi verið að leggja samþykkt bæjarstjórnar frá 23. ágúst 2006 til grundvallar við útgáfu umdeilds byggingarleyfis, sbr. 5. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þá leikur verulegur vafi á um hvort framkvæmd og forsendur grenndarkynningar hafi fullnægt lagaskilyrðum sé til þess litið að deiliskipulag er talið vera í gildi fyrir umrætt svæði. Verður af þessum sökum fallist á kröfu kæranda um að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Framkvæmdir, sem hafnar eru á lóðinni nr. 36 við Nesbala á Seltjarnarnesi, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
____________________________
Hjalti Steinþórsson
___________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson