Ár 2007, föstudaginn 23. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 148/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 25. júlí 2007 um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við verslunarmiðstöðina Glerártorg á lóðinni nr. 1 við Gleráreyrar á Akureyri.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. nóvember 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Hákon Stefánsson lögfr., f.h. Svefns og heilsu ehf., þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 25. júlí 2007 að veita leyfi fyrir viðbyggingu við verslunarmiðstöðina Glerártorg á lóðinni nr. 1 við Gleráreyrar. Hin kærða ákvörðun var samþykkt í skipulagsnefnd bæjarins hinn 22. ágúst 2007 og staðfest í bæjarstjórn hinn 4. september sama ár.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan málin væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykja málsatvik nú nægjanlega upplýst til þess að taka kæruna til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.
Málavextir: Í febrúarmánuði 2007 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar breytt deiliskipulag fyrir Gleráreyrar 1-10 á Akureyri, sem er verksmiðjulóð sú sem Samband íslenskra samvinnufélaga hafði undir verksmiðjur sínar og nefndist í eldra skipulagi Dalsbraut 1. Tók skipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 2. apríl sl. Hefur kærandi máls þessa krafist ógildingar á nefndri skipulagsákvörðun í kæru til úrskurðarnefndarinnar með þeim rökum að skipulagsákvörðunin sé haldin ýmsum ógildingarannmörkum. Var kröfu kæranda um ógildingu umræddrar skipulagsákvörðunar hafnað með úrskurði uppkveðnum hinn 21. nóvember 2007.
Meðal fyrirhugaðra mannvirkja á umræddu skipulagssvæði er viðbygging við Glerártorg, Gleráreyrum 1, Akureyri. Hinn 11. apríl 2007 veittu bæjaryfirvöld leyfi til jarðvegsskipta vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda á nefndri lóð. Kærandi skaut þeirri leyfisveitingu til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærumálinu frá sökum aðildarskorts með úrskurði uppkveðnum hinn 14. júní 2007. Hinn 13. júní 2007 veitti skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrar leyfi fyrir útmælingu og gerð sökkla á umræddri lóð vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar og skaut kærandi máls þessa þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Var því máli vísað frá með úrskurði uppkveðnum 22. ágúst 2007 þar sem heimilaðar framkvæmdir þóttu ekki snerta lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann ætti kæruaðild í málinu. Skipulags- og byggingarfulltrúi veitti síðan leyfi fyrir umdeildri viðbyggingu við verslunarmiðstöðina að Geráreyrum 1 hinn 25. júlí 2007 og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi til þess að hin kærða ákvörðun byggi á deiliskipulagi sem hann telji ekki gilt að lögum og kærandi hafi skotið til úrskurðarnefndarinnar. Sé vísað til þeirra sjónarmiða er komi fram í því kærumáli.
Rétt sé að upplýsa að Akureyrarbær reki nú mál fyrir matsnefnd eignarnámsbóta í þeim tilgangi að taka eignarnámi Dalsbraut 1i, Akureyri, fastanr. 215-1370 og fastanr. 215-1373 (matshl. 040101), ásamt tilheyrandi lóðarréttindum. Sú krafa eigi m.a. rætur að rekja til þess að syðri hluti lóðarinnar Dalsbraut 1i, að stærðinni 2.040 m², verði lagður til Gleráreyra 1, líkt og skýrt sé tekið fram í greinargerð og lóðaskipulagi núgildandi skipulags.
Liggi því fyrir að 2.040 m² af lóðinni Gleráreyrar 1 í núgildandi skipulagi séu lóðarréttindi Dalsbrautar 1i skv. eldra skipulagi sem óumdeilt sé að kærandi njóti eignarréttinda yfir. Kærandi hafi ekki gefið eftir eignarréttindi sín yfir umræddum 2.040 m² sem felldir hafi verið inn í lóðina Gleráreyrar 1. Kærandi telji óheimilt að gefa út byggingarleyfi á lóð nema samþykki allra eigenda hlutaðeigandi lóðar liggi fyrir. Kærandi sé ótvírætt sameigandi að lóðinni Gleráreyrar 1. Þegar af þeirri ástæðu sé útgáfa hins kærða byggingarleyfis ólögmæt og því beri að fella það úr gildi.
Kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hins umdeilda byggingarleyfis. Það varði byggingarframkvæmdir á lóð sem liggi að lóð kæranda og hluti af lóðarréttindum hans hafi verið færð undir þá lóð eins og fyrr sé rakið og án þess að kærandi hafi verið sviptur eignarrétti sínum á þeirri spildu.
Núgildandi deiliskipulag taki til lóðanna Gleráreyrar 1-10, þ.e. eitt skipulag sé fyrir svæði það sem mannvirki kæranda standi á og hin kærða ákvörðun heimili framkvæmdir á. Kærandi telji að í lögum nr. 73/1997 sé byggt á því að eigendur mannvirkja innan sama deiliskipulagsreits hafi almennt lögvarða hagsmuni af framkvæmdum innan reitsins. Þetta megi m.a. ráða af 7. mgr. 43. gr. laganna sem geri ráð fyrir að grenndarkynning fari fram séu gerðar óverulegar breytingar á deiliskipulagi.
Kærandi hafi fengið upplýsingar um hina kærðu ákvörðun hinn 5. október 2007 í kjölfar fyrirspurnar þar um. Áður hafi kærandi kært útgáfu bráðabirgðaleyfis fyrir sömu framkvæmd til úrskurðarnefndarinnar. Telur kærandi að bæjaryfirvöldum hafi verið rétt og skylt að tilkynna honum um hinar kærðu ákvarðanir, þar sem hann hafi áður kært deiliskipulagið til úrskurðarnefndarinnar, sem og útgáfu bráðabirgðaleyfis er verið hafi undanfari þess byggingarleyfis sem nú sé til umfjöllunar. Kærandi telji sig hafa mátt treysta því að nýtt byggingarleyfi yrði ekki veitt vegna umdeildra framkvæmda meðan hann hafi staðið í þeirri trú að kærumál hans vegna fyrrgreinds bráðabirgðaleyfis væri óútkljáð hjá úrskurðarnefndinni. Telji kærandi því að kæra þessi sé fram komin innan kærufrests.
Að öðru leyti skírskoti kærandi máli sínu til stuðnings til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem og ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Málsrök Akureyrarbæjar: Akureyrarbær gerir kröfu um að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.
Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segi að frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt, eða mátt vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.
Tekið sé undir málsástæðu byggingarleyfishafa í athugasemdum hans til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. nóvember 2007, um að kærandi byggi ekki á því að honum hafi ekki mátt vera kunnugt um útgáfu umrædds byggingarleyfis, heldur því að borið hafi að birta honum útgáfu þess sérstaklega. Bæjaryfirvöldum beri ekki skylda til að tilkynna öðrum en byggingarleyfisaðilum um útgáfu byggingarleyfis, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem segi að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Athygli sé vakin á því að fundargerðir skipulagsnefndar og bæjarstjórnar birtist samdægurs á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 69/2007, dags. 22. ágúst 2007, þar sem segi að kæruaðild einstaklinga að skipulagsákvörðun feli ekki sjálfkrafa í sér kæruaðild að ákvörðunum um mannvirkjagerð á tilteknum skipulagsreit.
Í tölvupósti lögmanns kæranda til Akureyrarbæjar 4. október 2007 sé spurt hvort gefið hafi verið út byggingarleyfi á Gleráreyrum 1. Þá segi að viðkomandi hafi kært einhverja bráðabirgðaheimild til byggingarframkvæmda á lóðinni og síðan hafi hann ekkert frétt af málinu. Daginn eftir hafi Akureyrarbær upplýst lögmann kæranda um byggingarleyfið.
Kæranda hafi mátt vera ljóst að eftir jarðvegsskipti og eftir að leyfi hafi verið gefið út fyrir útmælingu og sökklum yrði gefið út byggingarleyfi fyrir frekari framkvæmdum. Kærandi reki verslun að Gleráreyrum 3 og hafi því mátt vera ljóst þegar uppbygging hófst að búið væri að gefa út byggingarleyfi. Framkvæmdir hafi hafist strax eftir útgáfu byggingarleyfisins 4. september 2007 og hafi viðbyggingin risið hratt á fyrstu dögunum.
Þá vísi Akureyrarbær til 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem segi að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varði tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greini í 4.–6. gr. laganna. Það sé meginregla að þegar farið sé fram á upplýsingar þá skuli óska þess sérstaklega og bréflega. Ekki sé hins vegar hægt að fara fyrirfram fram á öll gögn sem eigi eftir að koma í tiltekið mál eða sem gefin verði út í tilteknu máli. Kærandi hafi því ekki getað búist við því að Akureyrarbær upplýsti hann í hvert sinn sem gefið yrði út byggingarleyfi á Gleráreyrum 1. Kæranda hafi hins vegar borið að gæta hagsmuna sinna, enda hafi Akureyrarbær, sem stjórnvald, ríkar skyldur til upplýsingagjafar ef eftir henni sé leitað.
Telja verði að sá mánaðarfrestur sem kærandi hafi haft til að kæra byggingarleyfið hafi verið liðinn þegar kæra var lögð fram. Um það leyti sem kærandi hafi óskað eftir upplýsingum hvort búið væri að gefa út byggingarleyfi hafi verið búið að steypa upp allan norðurvegg viðbyggingarinnar, sem snúi að verslun kæranda, ásamt öllum vesturveggnum og ca. 40% af suðurvegg viðbyggingarinnar. Einnig hafi verið byrjað á uppsetningu þaks. Kærandi hafi hins vegar ekki kært byggingarleyfið fyrr en 2. nóvember 2007.
Þá sé frávísunarkrafa bæjarins studd þeim rökum að kærandi hafi ekki sýnt fram á að kröfur sem hann hafi uppi í kæru varði lögmæta hagsmuni hans. Í kæru sé ekki gerð grein fyrir því á hvaða grunni kærandi telji sig hafa af því lögvarða hagsmuni að úrskurður gangi um kæru hans, s.s. vegna grenndaráhrifa. Hann telji sig enn vera lóðarleiguhafa að því svæði sem umdeilt byggingarleyfi taki til, á grundvelli eldra skipulags, þar sem ekki hafi tekist samkomulag um bætur fyrir lóðarleiguréttindi sem fallið hafi til Gleráreyrar 1, sem áður hafi talist til Dalsbrautar 1i. Akureyrarbær vísi til deiliskipulags sem tekið hafi gildi 2. apríl 2007. Þó enn sé óútkljáður ágreiningur um bætur fyrir skerðingu á lóðarréttindum til handa kæranda á grundvelli 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi deiliskipulagið með sinni lóðaafmörkun þegar tekið gildi. Vakin sé athygli á því að þótt kærandi missi lóðarréttindi á baklóð fái hann stærri og verðmætari lóð fyrir framan verslun sína samkvæmt nefndu deiliskipulagi.
Þar sem ekki hafi tekist samningar með aðilum um bætur hafi verið nauðsynlegt að fara fram á það við matsnefnd eignarnámsbóta að bætur verði metnar, m.a. fyrir lóðarskerðingu.
Deiliskipulag svæðisins fjalli fyrst og fremst um lóðina Gleráreyrar 1 þar sem uppbygging eigi sér stað og um byggingu verslunarhúsnæðis á þeirri lóð sem umþrætt byggingarleyfi heimili. Þær kröfur og athugasemdir sem kærandi hafi uppi í málinu varði með engu móti hagsmuni hans sem lóðarhafa og fasteignareiganda að Gleráreyrum 3.
Hvað efnishlið máls varði bendi bæjaryfirvöld á að hið kærða byggingarleyfi eigi stoð í gildu deiliskipulagi fyrir Gleráreyrar 1-10. Skipulagið sé hvorki haldið form- né efnisgöllum. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hagsmunum hans sem fasteignareiganda á svæðinu sé raskað með þeim hætti að leiða eigi til ógildingar byggingarleyfisins.
Með vísan til ferils málsins, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar vegna kæru á leyfi til jarðvegsskipta, dags. 14. júní 2007, og úrskurðar vegna kæru á leyfi til útmælingar og gerðar sökkla á lóðinni, dags. 22. ágúst 2007, þar sem báðum málum hafi verið vísað frá vegna aðildarskorts og skorts á lögvörðum hagsmunum, telji Akureyrarbær að gera verði mjög miklar kröfur til þess að í húfi séu verulegir einstaklegir lögvarða hagsmunir svo til álita komi að verða við ógildingarkröfu í máli þessu. Sér í lagi eigi þetta við þar sem framkvæmdir séu þegar komnar á það stig að byggingin verði fokheld í byrjun desember nk. og kærandi hafi getað kært veitingu leyfisins strax í byrjun eða um miðjan september sl.
Andmæli byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er skírskotað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um kærufrest. Kærandi byggi málatilbúnað sinn ekki á því að ágallar hafi verið á hinu kærða leyfi, eða honum hafi ekki mátt vera kunnugt um útgáfu þess, heldur að borið hafi að birta honum útgáfu byggingarleyfisins sérstaklega. Úrskurðarnefndina bresti því lagaheimild til þess að úrskurða efnislega um mál er berist að liðnum kærufresti.
Bent sé á að hvorki hafi nýbygging verið reist né samþykkt innan lóðarmarka Dalsbrautar 1i eins og þó mætti ráða af kæru. Þá beri að hafa í huga að nefnd lóð sé leigulóð en ekki eignarlóð. Í eignarskiptayfirlýsingu fyrir Dalsbraut 1i frá árinu 1989 komi fram að lóðin sé 3.331,3 m² en sú eignarskiptayfirlýsing sé eina skjalið yfir stærð og staðsetningu lóða að Dalsbraut 1 með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 360/2006. Eigendur eigna á lóðinni Dalsbraut 1i hafi komið sér saman um að skipta lóðinni upp í tvo sérafnotafleti þannig að norðurhluti lóðar skuli tilheyra matshluta 0101 en suðurhluti skuli tilheyra matshluta 0102. Kærandi hafi ekki hirt um að taka þetta fram í málatilbúnaði sínum.
Athugasemdir kæranda við umsögn Akureyrarbæjar og andmæli byggingarleyfishafa: Kærandi telur að kæra hafi borist innan kærufrests enda hafi honum fyrst orðið kunnugt um útgáfu hins kærða byggingarleyfis 5. október 2007. Fullyrðingar þess efnis að kæranda hafi mátt vera kunnugt um útgáfu byggingarleyfisins fyrr sé mótmælt. Framkvæmdir að Gleráreyrum 1 hafi staðið allt frá því í október/nóvember 2006 er byrjað hafi verið á niðurrifi mannvirkja á svæðinu. Erfitt sé fyrir kæranda að vita hvaða framkvæmdir hafi byggst á hvaða leyfum og þá sé erfitt að fylgjast með svo umfangsmiklum framkvæmdum sem staðið hafi yfir í langan tíma. Mannvirki hafi verið rifin, jarðvegur grafinn upp, steyptir grunnar o.fl. Kærandi fallist ekki á það að hann hafi mátt gera sér grein fyrir því að byggingarleyfi hafi verið gefið út í september sl. í ljósi þess að hann hafi ekki getað gert sér grein fyrir hvenær ein leyfisskyld framkvæmd byrji eða ljúki og hvenær önnur taki við.
Málatilbúnaður Akureyrarbæjar þess efnis að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu virðist byggður á misskilningi. Óumdeilt sé að lóðin Gleráreyrar 1 skv. gildandi skipulagi sé að hluta í eigu kæranda en 2.040 m² hluti hennar hafi áður tilheyrt lóð í eigu kæranda að Dalsbraut 1i sem nú sé Gleráreyrar 3. Bæjaryfirvöld virðist hins vegar standa í þeirri trú að breyting á deiliskipulaginu sem slík hafi sjálfkrafa svipt kæranda eignarrétti að áðurgreindum hluta lóðaréttinda hans sem felldur hafi verið undir Gleráreyrar 1. Kærandi telji þennan málatilbúnað ekki fá stoð í gildandi rétti enda liggi fyrir krafa bæjaryfirvalda hjá matsnefnd eignarnámsbóta um eignarnám á umræddum fasteignaréttindum kæranda.
Sú staðreynd að Gleráreyrar 1 sé í sameign kæranda og fleiri aðila hafi m.a. þau áhrif að bæjaryfirvöldum hafi borið að tilkynna kæranda um veitingu umdeilds byggingarleyfis, m.a. með hliðsjón af 20. gr. stjórnsýslulaga, en óheimilt sé að gefa út leyfi á lóð án samþykkis allra eigenda. Með vísan til þessa hafi kæra borist innan kærufrests þar sem kærði hafi ekki sinnt ekki lögboðinni skyldu fyrr en 5. október sl. er hann hafi tilkynnt um úrlausn málsins. Þá fyrst hafi kærufrestur byrjað að líða.
Kærandi mótmælir því að framkvæmdaraðili geti áskilið sér rétt til að koma að sjónarmiðum er byggi á efnisþætti málsins. Slíkt fari í bága við reglur er gildi um starfsheimildir úrskurðarnefndarinnar. Þannig sé ekki gert ráð fyrir því að úrskurðarnefndin taki fyrst afstöðu til formhliðar máls og gefi aðilum síðar kost á því að gera athugasemdir við efnisþátt þess, sé kröfu ekki vísað frá. Slíkan áskilnað beri því að virða að vettugi.
Málsaðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Af hálfu Akureyrarbæjar og byggingarleyfishafa hefur verið gerð krafa um frávísun málsins. Er sú krafa byggð á því að kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta og að kæra hafi borist að liðnum kærufresti.
Hið kærða byggingarleyfi heimilar að reist verði viðbygging við verslunarmiðstöð í næsta nágrenni við fasteign kæranda á lóð sem kærandi telur sig eiga hlutdeild í. Í ljósi þessa þykir kærandi eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu.
Framkvæmdir við niðurrif og jarðvegsvinnu hafa staðið um nokkurt skeið á umræddu svæði og skaut kærandi leyfum fyrir þessum framkvæmdum til úrskurðarnefndarinnar á sínum tíma, m.a. leyfi fyrir jarðvegsskiptum og gerð sökkla á lóðinni að Gleráreyrum 1. Sveitarstjórn staðfesti veitingu hins kærða byggingarleyfis hinn 4. september 2007 en yfirlit um úttektir vegna framkvæmdanna á fyrrnefndri lóð ber með sér að þær hafi byrjað nokkru áður. Þá liggur fyrir að viðræður stóðu yfir milli kæranda og bæjaryfirvalda í septembermánuði sl. um bætur fyrir þau lóðarréttindi kæranda sem færð voru undir Gleráreyrar 1 með deiliskipulagsbreytingu svæðisins.
Fallast má á það með kæranda að hann hafi ekki mátt vænta þess að byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á umræddri lóð yrði veitt án vitundar hans þegar litið er til þess að hluti lóðar kæranda að Gleráreyrum 3 hafði verið lagður undir Gleráreyrar 1 með skipulagsákvörðun. Með hliðsjón af því og greindri forsögu og framvindu framkvæmda á svæðinu verður ekki með vissu ráðið að kæranda hafi mátt vera ljóst að umþrætt leyfi hefði verið veitt fyrr en fyrirspurn hans var svarað hinn 5. október 2007. Verður því, eins og hér stendur sérstaklega á, við það miðað að kærufrestur hafi ekki byrjað að líða fyrr en þann dag. Telst kæra í máli þessu þar af leiðandi hafa borist innan kærufrests.
Af framangreindum ástæðum verður ekki fallist á frávísunarkröfu málsins.
Í gr. 3.4 í greinargerð og skipulagsskilmálum með deiliskipulagsbreytingu þeirri, er gerð var fyrir umrætt svæði og tók gildi hinn 2. apríl 2007, kemur fram að 2.040 m² spilda úr suðurhluta lóðarinnar, er nefnd var Dalsbraut 1i fyrir skipulagsbreytinguna, er færð undir Gleráreyrar 1. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi eigi óbein eignarréttindi sem lóðarhafi að Dalsbraut 1i, að minnsta kosti að hluta til. Hefur Akureyrarbær nú krafist eignarnáms yfir fasteignarréttindum kæranda til þess að hrinda lóðaskipulagi fyrrgreindrar deiliskipulagsbreytingar í framkvæmd með stoð í 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Jafnframt hafa bæjaryfirvöld krafist þess, með stoð í 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, að matsnefnd eignarnámsbóta heimili Akureyrarbæ að taka umráð þeirra fasteignaréttinda sem um ræðir en sú beiðni mun enn ekki hafa hlotið afgreiðslu.
Gildistaka skipulags leiðir ekki sjálfkrafa til yfirfærslu eignarréttinda þótt í skipulaginu felist áform um aðilaskipti að slíkum réttindum heldur þarf eignarnám eða heimild matsnefndar eignarnámsbóta til að ná fram breyttum umráðum þeirra. Átti kærandi því óbein eignarréttindi að hluta þeirrar lóðar að Gleráreyrum 1 er mörkuð hafði verið í breyttu deilskipulagi svæðisins er sveitarstjórn samþykkti veitingu hins kærða byggingarleyfis fyrir viðbyggingu á lóðinni hinn 4. september 2007, enda hafði kærandi ekki gefið þau eftir eða misst þau með öðrum hætti. Eru þessi réttindi enn á forræði hans. Myndi ákvæði í eignaskiptayfirlýsingu um skiptingu lóðar í sérafnotafleti engu breyta hér um enda fæli slíkt ákvæði ekki í sér breytt eignarráð lóðarréttinda.
Í 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga er gert að skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis að samþykki sameigenda liggi fyrir sé um sameign að ræða. Í ljósi aðstæðna verður að telja að kærandi hafi haft réttarstöðu sameiganda að umræddri lóð og hafi því borið að leita samþykkis hans áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Þar sem þessa var ekki gætt verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi með vísan til fyrrgreindar 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 25. júlí 2007, sem samþykkt var í skipulagsnefnd 22. ágúst 2007 og staðfest í bæjarstjórn 4. september sama ár, um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við verslunarmiðstöðina Glerártorg á lóðinni nr. 1 við Gleráreyrar.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
__________________________ ________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson