Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2005 Akratorgsreitur

Ár 2007, fimmtudaginn 1. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2005, kæra eigenda fasteignarinnar að Kirkjubraut 22 og lóðarinnar nr. 7 að Sunnubraut, Akranesi, á ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Akraneskaupstaðar frá 30. maí 2005 um breytingu á deiliskipulagi hluta Akratorgsreits, svonefnds Hvítanesreits.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júní 2005, er barst nefndinni 6. júlí sama ár, kæra H og V, Lyngheiði 18, Kópavogi, eigendur fasteignar að Kirkjubraut 22 og eignarlóðar að Sunnubraut 7, ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Akraneskaupstaðar frá 30. maí 2005 um breytt deiliskipulag hluta Akratorgsreits á Akranesi. 

Framangreind ákvörðun var samþykkt í bæjarráði hinn 2. júní 2005 og í bæjarstjórn 13. júní sama ár.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er kærð afgreiðsla bæjarins á erindi kærenda frá 20. maí 2005 um nýtingarhlutfall á lóðum kærenda að Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7, Akranesi. 

Málavextir:  Árið 1990 samþykkti bæjarstjórn Akraness deiliskipulag Akratorgsreits á Akranesi.  Um er að ræða allstórt svæði sem í greinargerð er sagt afmarkað af Merkigerði, Kirkjubraut, Skagabraut, Suðurgötu, Merkiteigi og Vesturgötu.  Jafnframt deiliskipulagi þessu var gerð breyting á landnotkunarþætti þágildandi aðalskipulags Akraness til að tryggja að fullt samræmi væri milli aðalskipulags og deiliskipulags svæðisins.  Samkvæmt deiliskipulaginu var gert ráð fyrir að allmörg hús á svæðinu skyldu víkja, þar á meðal hús kærenda að Kirkjubraut 22. 

Hinn 15. mars 2004 var undirritaður samningur milli Akraneskaupstaðar og Sveinbjörns Sigurðssonar hf. um framkvæmdir á hluta umrædds svæðis, svonefndum Hvítanesreit, og var, í samvinnu fyrrgreindra aðila, unnin tillaga að breyttu deiliskipulagi sem tók til afmarkaðs svæðis milli Kirkjubrautar og Sunnubrautar.  Fól tillagan í sér sameiningu nokkurra lóða við Kirkjubraut í eina og að hluti götunnar Akurgerðis yrði lagður undir sömu lóð, auk lóðar nr. 3 við Sunnubraut.  Jafnframt var gert ráð fyrir að lóðirnar nr. 22 við Kirkjubraut og nr. 7 við Sunnubraut yrðu sameinaðar og heimilað að reisa fjögurra hæða verslunar- og íbúðarhús á lóðunum. 

Tillagan var staðfest í bæjarráði hinn 23. september 2004 og samþykkt í bæjarstjórn hinn 28. september s.á.  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. nóvember 2004.

Kærendur máls þessa kærðu umrædda breytingu á deiliskipulaginu, auk  útgáfu byggingarleyfis fyrir fjöleignarhúsi á lóðinni að Kirkjubraut 12-18 til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er felldi fyrrgreinda ákvörðun úr gildi með úrskurði uppkveðnum hinn 18. febrúar 2005.  Var niðurstaða nefndarinnar á því byggð að hin kærða breyting á deiliskipulagi viki frá því fyrirkomulagi á gatnakerfi skipulagssvæðisins sem gert væri ráð fyrir í Aðalskipulagi Akraness 1992-2012.  Jafnframt var talið að óheimilt hefði verið að víkja frá ákvörðun aðalskipulags um landnotkun lóðanna nr. 22 við Kirkjubraut og nr. 7 við Sunnubraut í deiliskipulaginu, en samkvæmt uppdrætti aðalskipulagsins væru lóðir þessar íbúðarlóðir en ekki til byggingar verslunar- og íbúðarhúss eins og áformað væri með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun.  Jafnframt féllst nefndin á ógildingu byggingarleyfisins fyrir fjöleignarhúsi á lóðinni að Kirkjubraut 12-18.

Í kjölfar þessa var lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi bæjarins, hvað varðar Akratorgsreit.  Í breytingunni fólst að Akurgerði yrði lokað varanlega og götusvæðið sameinað aðliggjandi lóðum.  Var tillagan samþykkt og auglýsing um gildistöku breytts aðalskipulags birt í B-deild Stjórnartíðinda 25. maí 2005.

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Akraneskaupstaðar hinn 28. febrúar 2005 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi Akratorgsreits og lagt til að tillagan yrði auglýst og samþykkti bæjarstjórn þá tillögu nefndarinnar á fundi sínum hinn 2. mars 2005.

Hinn 9. mars 2005 var auglýst ný tillaga að deiliskipulagi fyrir hluta Akratorgsreits, svonefndan Hvítanesreit, er gerði ráð fyrir að sameinaðar yrðu í eina lóð lóðir nr. 12, 14, 16 og 18 við Kirkjubraut, lóð nr. 3 við Sunnubraut og hluti af götunni Akurgerði.  Gert var meðal annars ráð fyrir byggingu fjögurra hæða verslunar- og íbúðarhúss ásamt geymslu og bílakjallara á lóðinni, er yrði nr. 12-18 við Kirkjubraut, og að nýtingarhlutfall lóðarinnar breyttist úr 0,80 – 1,15 í 1,8.  Við breytinguna yrði Akurgerði lokað varanlega við Kirkjubraut líkt og samþykkt hefði verið í aðalskipulagi.  Jafnframt kom fram að lóðin nr. 22 að Kirkjubraut yrði íbúðarlóð, og að núverandi hús stæði óbreytt.  Lóð nr. 7 við Sunnubraut yrði einnig íbúðarlóð, þar sem gert væri ráð fyrir að byggt yrði einbýlishús á tveimur hæðum ásamt bílageymslu.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar yrði undir 0,55.  Tillagan var endurauglýst 16. mars 2005 og veittur frestur til að skila inn athugasemdum til 29. apríl s.á.

Hinn 21. mars 2005 sendu kærendur bréflega fyrirspurn til bæjarráðs Akraness að því er virðist vegna áður framkominna óska bæjarins um viðræður um kaup á eignum þeirra að Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7.  Var þess farið á leit að kærendur yrðu upplýstir um ákveðin atriði af því tilefni.  Í svarbréfi bæjarritara, dags. 31. mars 2005, sem er samhljóða bókun bæjarráðs sama dag sagði:  „Bæjarráð hefur ekki tekið sérstaka afstöðu til nýtingar umræddra lóða, en ef af kaupum verður þá kann svo að fara að hús á lóðinni nr. 22 við Kirkjubraut verði flutt á hentugri lóð, enda gert ráð fyrir því í gildandi deiliskipulagi að húsið verði flutt.“

Kærendur máls þessa gerðu jafnframt athugasemd við framkomna tillögu að deiliskipulagi í bréfi til tækni- og umhverfissviðs Akraneskaupstaðar, dags. 20. maí 2005, og töldu að tillagan samræmdist á engan hátt þeim skipulagsmarkmiðum Akraneskaupstaðar sem kunngjörð hefðu verið með ofangreindu bréfi bæjarritara.  Var þess krafist með vísan til yfirlýstra skipulagsmarkmiða bæjarins og gildandi jafnræðisreglna að heimilað yrði nýtingarhlutfall lóðanna að Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7 að hámarki 1,8.  Jafnframt var mælst til þess að gert yrði ráð fyrir fjögurra hæða húsi auk geymslu og bílakjallara, með mænishæð að hámarki 13,7 m og að önnur ákvæði yrðu þau sömu og lóðarinnar nr. 12-18 við Kirkjubraut og nr. 3 við Sunnubraut. 

Í greinargerð sviðstjóra tækni- og umhverfissviðs Akraneskaupstaðar hinn 30. maí 2005 vegna andmæla kærenda segir:  „Í ljósi fyrri afstöðu  [kærenda] og niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála var ekki talin ástæða til að leggja til breytingar á aðalskipulagi Akraness 1992-2012 um landnotkun lóðanna nr. 22 við Kirkjubraut og nr. 7 við Sunnubraut, enda virtist óbreytt aðalskipulag þjóna best hagsmunum eigenda.  Í tillögu að deiliskipulagi er hins vegar skilgreindur byggingarreitur fyrir lóðina nr. 7 við Sunnubraut þar sem slík skilgreining lá ekki fyrir í eldra deiliskipulagi.  Með framsetningu umræddrar deiliskipulagstillögu felst hins vegar engin höfnun á endurskoðun aðalskipulags og/eða landnotkun þessara tveggja lóða en nauðsynlegt er, hafi eigendur nú skipt um skoðun varðandi nýtingu lóðanna, að óskir þar um berist skipulags- og umhverfisnefnd svo að unnt sé að taka þær til efnislegrar umfjöllunar og afgreiðslu.“

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann sama dag var málið tekið fyrir á ný. Niðurstaða fundarins var sú að leggja til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan yrði samþykkt og gerði nefndin greinargerð sviðstjóra að sinni.  Á fundi bæjarráðs hinn 2. júní 2005 var tillagan samþykkt sem og á fundi bæjarstjórnar hinn 13. júní 2005.  Auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. júlí 2005.

Kærendur skutu framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir.

Málsrök kærenda:  Í kæru segir að íbúar svæðisins hafi staðið andspænis staðföstum skipulagsákvörðunum bæjaryfirvalda og þeirri staðreynd að verktakinn hafi grafið út grunn nýbyggingar fyrir miðjan desember 2004 í skjóli jarðvegsrannsókna en byggingarleyfi hafi verið gefið út 11. janúar 2005. 

Sveitarfélagið hafi með samningi við verktaka þann 15. mars 2004 skuldbundið sig til að ná fram ákveðnum skipulagsmarkmiðum en sá samningur hafi orðið til án nokkurs samráðs við eigendur fasteigna og íbúa innan skipulagsreitsins.  Eftir að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi kveðið upp úrskurði sína hafi botnsökklar verið steyptir og með bréfi, dags. 7. mars 2005, hafi bæjaryfirvöld óskað eftir því að verktaki hæfi framkvæmdir á ný til að fyrirbyggja tjón vegna aðstæðna í grunninum.  Í kjölfarið hafi byggingarframkvæmdir hafist á ný í nafni öryggishagsmuna án þess þó að lögformlegt byggingarleyfi hafi legið fyrir.

Hagsmunir sem myndast hafi í formi kjallara stórhýsis innan skipulagsreitsins hafi ekki orðið til á grundvelli framkvæmda sem byggðar hafi verið á lögformlegum forsendum og hafi sveitarfélagið tekið þátt í að festa í sessi umdeild skipulagsáform og skapa lóðarhöfum Kirkjubrautar 12-18 hagsmuni á kostnað annarra lóðarhafa innan skipulagsreitsins.

Kærendur telji að tillagan sé í ósamræmi við skilyrði 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gr. 3.1.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 varðandi innbyrðis samræmi skipulagsáætlana og lýsingu á raunverulegum markmiðum viðkomandi stjórnvalda og ákvörðunum um notkun lands, fyrirkomulag byggðar og forsendum þeirra ákvarðana.  Samkvæmt aðalskipulagstillögu sem feli í sér endurskoðun á Aðalskipulagi Akraneskaupstaðar 2005-2017, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Akraness hinn 13. júní 2005 séu lóðirnar að Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7 auðkenndar sem miðsvæði, miðbær en ekki sem íbúðarhúsalóðir.  Hin kærða ákvörðun geri ráð fyrir að ofangreindar lóðir séu íbúðarhúsalóðir.  Þannig sé alvarlegt ósamræmi á milli kærðrar deiliskipulagstillögu og tillögu að endurskoðuðu Aðalskipulagi Akraneskaupstaðar 2005-2017.

Ennfremur sé gert ráð fyrir því að húseignin að Kirkjubraut 22 standi áfram, þrátt fyrir að bæjaryfirvöld hafi lýst því yfir að ákveðið hafi verið að hún skyldi víkja.  Deiliskipulags- tillagan samræmist þannig á engan hátt fram komnum, yfirlýstum og staðfestum skipulagsmarkmiðum Akraneskaupstaðar, sem m.a. hafi verið kunngjörð með bréfi bæjarritara til kærenda þann 31. mars 2005.  Tillagan verði því að skoðast sem málamyndagerningur, í beinni andstöðu við raunveruleg skipulagsmarkmið Akraneskaupstaðar fyrir deiliskipulagsreitinn, og brjóti þannig í bága við ákvæði og markmið laga nr. 73/1997 og reglugerðar nr. 400/1998.

Ítrekað hafi fram komið að sveitarstjórn telji lóðina að Kirkjubraut 22 ekki vera hentuga fyrir þá húseign kærenda sem á lóðinni standi og að hún falli ekki að þeirri götumynd sem stefnt hafi verið að við Kirkjubraut.  Akraneskaupstaður hafi lagt áherslu á að markmið deiliskipulagsins og að fyrirhugaðar byggingar muni ekki valda skerðingu á gæðum byggðar á svæðinu heldur muni framkvæmd þess styrkja og endurlífga gamla miðbæinn.  Uppbygging samkvæmt skipulaginu myndi koma til með að falla vel að bæjarmyndinni.  Einnig hafi sveitarfélagið áður lýst því yfir að engin takmörk séu á nýtingarhlutfalli í aðalskipulagi.  Í ljósi þess að ákveðið hefði verið að stefnt skyldi að því að fasteign þeirra að Kirkjubraut 22 skyldi víkja og vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Sunnubraut 7 séu verulegir hagsmunir fólgnir í því að hafa heimild fyrir sem hæstu nýtingarhlutfalli á lóðunum. 

Kærendur bendi á að þeir hafi í samræmi við skipulagsmarkmið sveitarfélagsins skoðað heppilegri staðsetningu fyrir fasteign þeirra að Kirkjubraut 22 og samhliða því hafið undirbúning að framtíðaruppbyggingu á fyrrgreindum eignarlóðum sínum.  Því sé nauðsynlegt að landnotkun og nýting lóðanna verði í samræmi við áður fram komin skipulagsmarkmið innan deiliskipulagsreitsins og þau markmið sem fram komi í tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi bæjarins.

Þá sé því haldið fram að erindi þeirra, dags. 20. maí 2005, sé fyllilega í samræmi við, og myndi styrkja enn frekar, þau áður yfirlýstu markmið Akranesskaupstaðar að mynda heillega og heilsteypta götumynd að Kirkjubraut.

Kærendur hafi farið fram á að njóta sömu skilmála og nýtingarhlutfalls og eigendur lóðarinnar að Kirkjubraut 12-18 í ljósi jafnræðisreglna og góðrar stjórnsýslu, um leið og þeir hafi samþykkt skipulagsáformin, enda séu lóðir þeirra sambærilegar og innan sama skipulagsreits.

Skipulagsáformum hafi ítrekað verið breytt innan deiliskipulagsreitsins, án nokkurs samráðs við kærendur, með beinum og verulegum áhrifum á eignir þeirra á skipulagssvæðinu.  Þannig orki það tvímælis að þegar þeir hafi fallist á skipulagsmarkmiðin í bréfi, dags. 20. maí 2005, og lagt fram skýrar kröfur um að gætt yrði innbyrðis samræmis og jafnræðis við skipulagsbreytingar að ekki skyldi hafa verið fallist á þær.  Feli afgreiðsla málsins í sér alvarlegt brot á 11. gr. stjórnsýslulaga, jafnræðisreglunni.  

Með vísan til yfirlýstra skipulagsmarkmiða Akraneskaupstaðar og 11. gr. stjórnsýslulaga sé afgreiðsla á erindi kærenda ómálefnaleg og óásættanleg.  Sé lóðarhöfum mismunað í kjölfar þess að kærendur hafi með erindi sínu óskað eftir sambærilegum réttindum innan skipulagsreitsins og um leið fallist á skipulagsmarkmið bæjarins. 

Ósamræmi milli fyrirliggjandi skipulagsáætlana varðandi landnotkun sé óásættanlegt og samræmist ekki markmiðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þannig sé ljóst að deiliskipulagstillagan lýsi á engan hátt skipulagsmarkmiðum bæjarins um landnýtingu og notkun.  Verði tillagan staðfest muni það óhjákvæmilega fela í sér ranga upplýsingagjöf til þeirra aðila sem hyggist fjárfesta í fasteignum innan skipulagsreitsins.  Verulegir hagsmunir og lagaleg skylda krefjist þess að rétt sé frá skipulagshugmyndum greint, bæði hvað varði umrædda lóð en einnig vegna þeirra áhrifa sem það geti haft á nærliggjandi lóðir.

Að lokum sé bent á að stærð lóðarinnar að Kirkjubraut 22 sé 255 fermetrar á kærðum skipulagsuppdrætti en hún sé í raun 405 fermetrar.

Málsrök Akraneskaupstaðar:  Akraneskaupstaður krefst þess að öllum kröfum kærenda verði hafnað.  Með umræddum breytingum á deili- og aðalskipulagi hafi bæjaryfirvöld eingöngu verið að koma til móts við kröfur og sjónarmið kærenda eins og þeim hefði verið lýst í fyrra kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni svo og vegna niðurstöðu þess máls.
 
Hafi í ljósi ofangreinds verið horfið frá því að sameina lóðir þeirra á skipulagi og skilgreina þær undir verslunar- og íbúðarhús.  Fyrrgreindar lóðir séu því skilgreindar sem íbúðarlóðir eins og í samþykktu Aðalskipulagi Akraness 1992-2012 og því sé fullt samræmi milli hins kærða deiliskipulags og aðalskipulagsins.

Kærendur geti ekki byggt mál sitt á því að hið kærða deiliskipulag brjóti í bága við tillögu að nýju aðalskipulagi 2005-2017, enda hafi það skipulag ekki verið í gildi þegar hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt.  Rétt þyki þó að taka fram að hið samþykkta deiliskipulag sé einnig í fullu samræmi við væntanlegt aðalskipulag.

Bent sé á að skv. 2. mgr. gr. 4.4.1 reglugerðar nr. 400/1998 sé beinlínis gert ráð fyrir því að íbúðarhúsnæði geti verið á miðsvæðum, og sé oft svo, sbr. og 4. mgr. gr. 4.4.2 sem fjalli sérstaklega um íbúðir á miðsvæði.  Fram hafi komið við meðferð fyrra málsins hjá úrskurðarnefndinni að kærendur hafi sérstaklega keypt lóðina nr. 7 við Sunnubraut til að verja húseign sína að Kirkjubraut 22 gegn fyrirhuguðum skipulagsáformum.  Þá hafi þeir mótmælt í bréfi, dags. 14. maí 2004, að húseignin að Kirkjubraut 22 skyldi víkja.  Jafnframt hafi það verið mat úrskurðarnefndarinnar að rétt væri að endurskoða þá ákvörðun að rífa húsið að Kirkjubraut 22 vegna ákvæða laga um húsafriðun.  Með hliðsjón af framansögðu, og sér í lagi til að koma til móts við margítrekuð mótmæli kærenda, hafi í hinu kærða deiliskipulagi verið gert ráð fyrir að Kirkjubraut 22 yrði íbúðarlóð og að núverandi hús stæði þar áfram.

Kærendur geti engan rétt öðlast á grundvelli bréfs bæjarritara frá 31. mars 2005 sem ritað hafi verið áður en hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt.  Deiliskipulag sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi og fyrrgreint bréf bindi ekki hendur sveitarfélagsins við ákvörðun um nýtt deiliskipulag. 

Hvorki hafi verið lögð fram gögn um framtíðaruppbyggingu á eignarlóðunum né um flutning hússins að Kirkjubraut 22 og sé þessi meinti undirbúningur í hróplegu ósamræmi við fyrri afstöðu kærenda og kröfur þeirra í fyrra máli.

Þá sé tekið fram vegna afgreiðslu sveitarfélagins á erindi kærenda frá 20. maí 2005 að lóðir kærenda séu ekki skilgreindar með sama hætti í Aðalskipulagi Akraness 1992-2012 og lóðin að Kirkjubraut 12-18 og þegar af þeirri ástæðu geti ekki gilt sömu sjónarmið um lóðirnar, byggingarmagn þeirra og nýtingarhlutfall.  Kærendum sé fullljóst að ekki sé um sambærilegar aðstæður eða lóðir að ræða.  Sé afgreiðsla Akraneskaupstaðar því að öllu leyti bæði eðlileg og málefnaleg og í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag.

Að lokum telur sveitarfélagið að röng tilgreining á fermetrafjölda í deiliskipulagi sé minniháttar annmarki og geti ekki valdið ógildingu deiliskipulagsins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi er tekur til hluta  Akratorgsreits á Akranesi, svonefnds Hvítanesreits.   

Kærendur krefjast þess að hin kærða deiliskipulagsákvörðun verði felld úr gildi og telja að hún brjóti í bága við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og reglugerða á því sviði varðandi innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.  Jafnframt er því haldið fram að umþrætt deiliskipulag sé í ósamræmi við raunveruleg skipulagsmarkmið bæjarins og vísa kærendur einkum í bréf bæjarritara, dags. 31. mars 2005, því til stuðnings og til framkominnar tillögu að endurskoðuðu Aðalskipulagi Akraneskaupstaðar 2005-2017 þar sem lóðir kæranda séu auðkenndar sem miðsvæði.

Samkvæmt 7. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi.  Þá skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti og skal í deiliskipulagi útfæra nánar ákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði samkvæmt ákvæðum 23. gr. laga nr. 73/1997.  Ákvæði deiliskipulags skulu því vera í fullu samræmi við ákvæði aðalskipulags þar um.
 
Svæði það sem hér um ræðir er hluti miðbæjar Akraness og samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Akraness 1992-2012 var gert ráð fyrir að svæðið væri meðal annars nýtt undir verslun og þjónustu.  Samkvæmt uppdrætti aðalskipulagsins voru lóðirnar nr. 22 við Kirkjubraut og nr. 7 við Sunnubraut þó íbúðarlóðir, líkt og gert er ráð fyrir í skipulagsákvörðun þeirri er nú sætir kæru til úrskurðarnefndarinnar, og verður því að telja að skilyrði ákvæða 7. mgr. 9. gr. laga nr. 73/1997, um innbyrðis samræmi milli skipulagsáætlana, sé fullnægt.

Ekki kemur til skoðunar hvort hin kærða tillaga að breyttu deiliskipulagi sé í samræmi við núgildandi Aðalskipulag Akraness 2005-2017, enda hafði það ekki tekið gildi þegar auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt.

Kærendur hafa einnig kært afgreiðslu Akraneskaupstaðar hinn 30. maí 2005 á erindi þeirra, dags. 20. maí 2005, en líta verður svo á að sú afgreiðsla sé hluti af málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar og sætir hún því ekki sjálfstæðri úrlausn.  Rétt er þó að taka fram að málefnalegar ástæður geta verið fyrir því að nýtingarhlutfall sé ekki hið sama á samliggjandi lóðum, svo sem þegar ekki er um sambærilega landnotkun að ræða líkt og í máli því sem hér er til úrlausnar.

Kærendur vísa jafnframt í bréf bæjarritara og telja að þar hafi bæjaryfirvöld lýst skipulagsmarkmiðum bæjarins sem síðar hafi ekki verið byggt á þegar tillaga að breytingu á deiliskipulagi hafi verið samþykkt.  Á þetta verður ekki fallist heldur verður að telja að skipulagsmarkmið bæjarins endurspeglist í skipulagstillögunni en ekki í bréfi bæjarritara sem aðeins felur í sér svar almenns eðlis við fyrirspurn kærenda.

Með vísan til framanritaðs verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og umhverfisnefndar frá 30. maí 2005.  Þá þykja ekki aðrir þeir annmarkar á málsmeðferð sem leitt geti til ómerkingar hins kærða deiliskipulags.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að ógild verði ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar frá 30. maí 2005 er varðar breytingu á deiliskipulagi fyrir hluta Akratorgsreits á Akranesi,  svonefndum Hvítanesreit, sem birt var í B- deild Stjórnartíðinda hinn 5. júlí 2005.

 

 

___________________________ 
                      Hjalti Steinþórsson                          

 

_______________________________             ____________________________
            Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson