Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

19/2006 Funahöfði

Ár 2007, fimmtudaginn 12. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon, héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2006, kæra eiganda eignarhluta á fyrstu hæð fasteignarinnar að Funahöfða 7, Reykjavík, á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2006 á erindi varðandi breytingu á notkun greinds eignarhluta úr skrifstofuhúsnæði í íbúðarherbergi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 
úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. mars 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir S, eigandi eignarhluta á fyrstu hæð fasteignarinnar að Funahöfða 7, Reykjavík, afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2006 á erindi varðandi breytingu á notkun greinds eignarhluta úr skrifstofuhúsnæði í íbúðarherbergi.  Borgarráð staðfesti hina kærðu afgreiðslu hinn 9. febrúar 2006.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu afgreiðslu.

Málsatvik og rök:  Kærandi mun vera eigandi að 377,2 fermetra skrifstofuhúsnæði, með fastanúmeri 204-3015, á fyrstu hæð hússins að Funahöfða 7 í Reykjavík.  Á árinu 1998 mun umræddu húsnæði, ásamt atvinnuhúsnæði á annarri hæð hússins, hafa verið breytt í íbúðarherbergi til útleigu án tilskilinna leyfa.  Á árinu 2004 fór kærandi fram á við borgaryfirvöld að heimilað yrði að breyta umræddu skrifstofuhúsnæði í íbúðarherbergi en erindinu var synjað með þeim rökum að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 væri ekki gert ráð fyrir slíku húsnæði að Funahöfða 7.

Í byrjun árs 2006 sendi síðan kærandi byggingarfulltrúa fyrirspurn þar sem farið var fram á að eignarhluti kæranda að Funahöfða 7 yrði skráður sem íbúðarherbergi til samræmis við aðrar eignir í götunni þar sem fengist hefði samþykki fyrir íbúðarhúsnæði og gistiheimili.  Var erindinu hafnað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 7. febrúar 2006 með vísan til þess að umbeðin notkun samræmdist ekki deiliskipulagi. 

Vísar kærandi til þess að samkvæmt skráningu Fasteignamats ríkisins hafi verið heimiluð íbúðarherbergi að Funahöfða 17A og gistiheimilisrekstur að Funahöfða 19.

Borgaryfirvöld benda á að hvorki sé fyrir hendi leyfi fyrir íbúðarhúsnæði að Funahöfða 17A né leyfi fyrir gistiheimili að Funahöfða 19, enda væri slík notkun andstæð gildandi deiliskipulagi svæðisins.

Niðurstaða:  Erindi kæranda, sem beint var til byggingarfulltrúa í janúar 2006, er ritað á eyðublað með árituninni „fyrirspurn“ og fylgdu erindinu engin gögn eða teikningar er fylgja skulu byggingarleyfisumsókn, m.a. um breytta notkun húsnæðis.  Bókun um hina kærðu afgreiðslu ber það ótvírætt með sér að þar sé verið að fjalla um fyrirspurn kæranda og tilkynning borgaryfirvalda til kæranda um afgreiðslu fyrirspurnarinnar hefur ekki að geyma upplýsingar um kæruheimild og kærufrest til æðra stjórnvalds, svo sem skylt væri skv. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, ef tilkynningin væri stjórnvaldsákvörðun.  Hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa fól því aðeins í sér afstöðu byggingaryfirvalda Reykjavíkur til fyrirspurnar kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verður stjórnvaldsákvörðun ekki skotið til æðra stjórnvalds nema hún feli í sér lokaákvörðun um mál.  Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega leyfisumsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur ekki, eðli máls samkvæmt, talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir.

Af framangreindum ástæðum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _____________________________    Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson