Ár 2007, þriðjudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 66/2005, kæra á ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 28. september 2004 um veitingu byggingarleyfis fyrir stækkun sumarhúss að Finnheiðarvegi 14 í landi Norðurkots, Grímsnes- og Grafningshreppi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. ágúst 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðrún Sverrisdóttir, f.h. Þ, Grandavegi 45, Reykjavík, eiganda sumarhússins að Miðheiðarvegi 9 í landi Norðurkots, ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 28. september 2004 um að veita byggingarleyfi fyrir stækkun sumarhúss að Finnheiðarvegi 14 í Norðurkotslandi, Grímsnes- og Grafningshreppi. Hin kærða ákvörðun var staðfest í sveitarstjórn hinn 13. október 2004.
Kærandi krefst þess að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.
Málavextir og málsrök: Lóðin að Finnheiðarvegi 14 er 10.000 fermetrar og stendur á lóðinni sumarhús sem byggt var um 1970 og er stærð þess um 63,4 fermetrar. Á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 28. september 2004 var lögð fram umsókn um stækkun sumarhússins um 48,2 fermetra og féllst byggingarnefnd á hana.
Vísað er til þess að kæranda hafi orðið það ljóst í júní 2004 að byggt hefði verið við sumarhúsið að Finnheiðarvegi 14 en lóð kæranda liggi meðal annars að þeirri lóð. Hafi ofangreind framkvæmd hafist án tilskilinna leyfa og verið stöðvuð. Kærandi hafi þá talið óþarft að kæra framkvæmdina en einnig vegna frétta um að unnið væri að því að fá byggingarleyfi. Engin grenndarkynning hafi átt sér stað þá um sumarið eða nokkurt samráð verið haft við kæranda vegna framkvæmdarinnar. Síðsumars 2005 hafi kærandi haft samband við byggingarfulltrúa og verið upplýstur um að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir ofangreindri framkvæmd en kæranda hafi ekki verið leiðbeint um kærurétt sinn né um kærufrest. Kæranda hafi verið tjáð af starfsmanni byggingarfulltrúa að svo virtist sem ekki hafi verið farið að lögum við framkvæmd grenndarkynningar heldur eingöngu stuðst við óstaðfesta frásögn eiganda umrædds sumarhúss og leyfið veitt í framhaldi af því. Hafi starfsmaðurinn ætlað að athuga málið frekar og hafa samband við kæranda en hafi ekki gert.
Kærandi telji að brotið hafi verið gegn ákvæði 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem engin grenndarkynning hafi farið fram. Jafnframt sé ljóst að kærandi eigi ótvíræðra hagsmuna að gæta í máli þessu þar sem lóð hans liggi að Finnheiðarvegi. Umrædd bygging skerði mjög útsýni kæranda og hafi mikil áhrif á ásýnd umhverfisins þar sem um tveggja hæða mannvirki sé að ræða.
Að lokum sé bent á að kæranda hafi ekki verið og hafi ekki getað verið kunnugt um að leyfi fyrir byggingunni hafi verið veitt fyrr en hann hafi fengið þær upplýsingar um mánaðarmótin júlí/ágúst 2005. Kærandi hafi vitað að sótt hefði verið um byggingarleyfi og beðið eftir því að grenndarkynning færi fram lögum samkvæmt. Þá sé hugsanlegt að framkvæmdin hafi verið nær fullkláruð þegar hún hafi verið stöðvuð. Sé því ljóst að kærufrestur hafi ekki verið liðinn þar sem að staðfesting á útgáfu leyfisins hafi ekki fengist fyrr en um mánaðarmótin júlí/ágúst 2005.
Af hálfu skipulagsfulltrúa er andmælt fullyrðingum kæranda um að grenndarkynna hafi átt framkvæmdina. Málsmeðferð skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 eigi við þegar deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða. Á umræddu svæði sé í gildi deiliskipulag sem vísað sé til og sé umrædd bygging í samræmi við skipulagið.
Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála samkvæmt þágildandi ákvæði 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, nú 5. mgr. 8. gr. tilvitnaðra laga, er einn mánuður frá því kæranda var kunnugt um eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Kæranda máls þessa var um það kunnugt sumarið 2004 að búið væri að stækka sumarhúsið að Finnheiðarvegi 14 og að unnið væri að því að fá byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni þó ekki fyrr en hinn 25. ágúst 2005 eða tæpu ári eftir að hið kærða leyfi var veitt. Eins og atvikum máls þessa er háttað verður að líta svo á að kærufrestur hafi þá verið liðinn sbr. ákvæði laga nr. 73/1997 um kæruheimildir og kærufrest. Þá verður ekki talið að atvik máls þessa séu þess eðlis að réttlæti að taka málið til efnismeðferðar skv. 1. eða 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ber því, samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson