Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

23/2007 Laugarvegur

Ár 2007, fimmtudaginn 31. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2007, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur um breytt deiliskipulag Laugavegar 95-99 og á ákvörðun skipulagsráðs frá 7. febrúar 2007 um að heimila byggingu steinsteypts húss á lóðinni nr. 99 við Laugaveg, ásamt því að byggja við og ofan á húsin að Laugavegi 95 og 97 og ofan á núverandi hús að Laugavegi  99.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. mars 2007, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kæra G og E, f.h. Húsfélagsins Hverfisgötu 108 / Snorrabraut 22, Reykjavík ákvarðanir borgaryfirvalda varðandi uppbyggingu á horni Laugavegar og Snorrabrautar.  Skilja verður kæruna á þann veg að annars vegar sé kærð ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. ágúst 2006 um breytt deiliskipulag Laugavegar 95-99 ásamt síðari breytingu og hins vegar skipulagsráðs frá 7. febrúar 2007 um að heimila byggingu þriggja hæða steinsteypts húss á lóðinni nr. 99 við Laugaveg auk inndreginnar fjórðu hæðar og geymslukjallara ásamt því að byggja við og ofan á húsin að Laugavegi 95 og 97 og ofan á núverandi hús að Laugavegi  99. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Með bréfi, dags. 11. maí 2007, setti kærandi einnig fram kröfu um að kveðinn yrði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 17. maí 2006 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi staðgreinireits 1.174.1 er tók til lóðanna 95-99 við Laugaveg og lóðarinnar nr. 24 við Snorrabraut.  Auglýsingartími var frá 7. júní til og með 19. júlí 2006 og bárust engar athugasemdir.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 28. júlí 2006 var tillagan samþykkt.  Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi, dags. 15. ágúst 2006, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. nóvember 2006. 

Deiliskipulagsbreytingin fól m.a. í sér heimildir til að byggja eina hæð ofan á húsin nr. 95-99 við Laugaveg og að byggja fjögurra hæða hús og kjallara á lóðinni nr. 99 við Laugaveg, við hlið þess sem þar er fyrir.          

Á fundi skipulagsráðs hinn 1. desember 2006 var lagt fram erindi varðandi sameiningu lóðanna nr. 95, 97 og 99 við Laugaveg og nr. 24 við Snorrabraut og var fært til bókar að ekki væru gerðar athugasemdir við að unnin yrði tillaga að breyttu  deiliskipulagi þessa efnis og á fundi skipulagsráðs hinn 13. sama mánaðar var hún samþykkt með vísan til 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð.  

Á fundi skipulagsráðs hinn 7. febrúar 2007 var samþykkt að heimila byggingu þriggja hæða steinsteypts húss á lóðinni nr. 99 við Laugaveg auk inndreginnar fjórðu hæðar og geymslukjallara ásamt því að byggja við og ofan á húsin að Laugavegi 95 og 97 og ofan á núverandi hús að Laugavegi  99.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum þann 8. febrúar 2007.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi enga vitneskju haft um hið kærða deiliskipulag fyrr en honum hafi borist bréf frá byggingarleyfishafa í desember árið 2006 þess efnis að framkvæmdir væru við það að hefjast.  Allt virðist hafa verið gert til að leyna kæranda breytingunum þrátt fyrir loforð og fyrirheit um að samráð yrði við hann haft. Hið kærða byggingarleyfi hafi í för með sér verulega neikvæð grenndaráhrif og gangi freklega á rétt kæranda þar sem byggingarnar muni skyggja á sól í garði og íbúðum hússins.  

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þær séu of seint fram komnar.  Kæra  hafi borist hinn 14. mars 2007, en auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. janúar 2007.  Ljóst megi því vera að kærufrestur vegna breytingar á deiliskipulagi hafi verið löngu liðinn.  Hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við samþykkt deiliskipulag.  

Verði ekki fallist á frávísun málsins sé byggt á því að málsmeðferð hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög og því beri að staðfesta hinar kærðu ákvarðanir.  Tillaga að breytingu á deiliskipulagi hafi verið auglýst í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og hafi engar athugasemdir borist. 

Í ljósi alls ofangreinds og á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, telji Reykjavíkurborg einsýnt að hafna beri kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Reykjavíkurborg ítreki þó þá afstöðu sína að kjósi byggingarleyfishafar að halda áfram með framkvæmdirnar, áður en efnisúrskurður liggi fyrir, geri þeir það á eigin ábyrgð og áhættu.
 
Byggingarleyfishafi mótmælir framkominni stöðvunarkröfu.  Byggingaráform á reit þeim sem vestastur sé hafi verið kynnt fyrir mörgum árum og engar breytingar gerðar.  Kærufrestur sé því liðinn.  Hvað varði hæð bygginga á reitnum þá hafi þær verið  kynntar í samræmi við lög og reglur.  Kærufrestur sé því liðinn, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Á því sé byggt að byggingarleyfið sé í samræmi við skipulag.

Vísað sé til þess að framkvæmdir þær sem hafnar séu að Laugavegi 95-99 séu í  grunni hússins og því nokkrir mánuðir í það að ráðist verði í byggingu efstu hæðar þess.  Því sé ekki þörf á að stöðva framkvæmdir, að minnsta kosti ekki í bili.

Niðurstaða:  Ekki verður á þessu stigi tekin afstaða til þess hvort vísa eigi frá kröfum kæranda í málinu eða einstökum þáttum þess. Bíður það frekari meðferðar málsins.

Af málsgögnum sem nú liggja fyrir verður ekki ráðið að á hinum kærðu ákvörðunum séu slíkir annmarkar að líklegt sé að koma þurfi til ógildingar þeirra.  Þykja því ekki efni til að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda meðan málið er til frekari rannsóknar hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum er hafnað.

 

        ___________________________          
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                            ____________________________
            Ásgeir Magnússon                                                            Þorsteinn Þorsteinsson