Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.
Fyrir var tekið mál nr. 41/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. mars 2007 um að rífa húsið við Suðurströnd 4, girða af svæðið og hefja þar jarðvinnu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. maí 2007, er barst nefndinni hinn 11. s.m., kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. mars 2007 að rífa húsið við Suðurströnd 4, girða af svæðið og hefja þar jarðvinnu. Bæjarstjórn staðfesti greinda ákvörðun hinn 14. mars 2007.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.
Málsatvik og rök: Hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerði ráð fyrir gervigrasvelli við Suðurströnd og íbúðarbyggð við Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa. Fyrirfram hafði verið gert ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum. Var síðan unnið að gerð deiliskipulagstillagna fyrir íbúðarbyggð á Hrólfsskálamel og Suðurströnd sem öðluðust gildi hinn 16. október 2006 og 4. janúar 2007. Hefur kærandi máls þessa einnig kært þær ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurðum úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum í dag var kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulags Hrólfskálamels og Suðurstrandar vísað frá úrskurðarnefndinni.
Hinn 8. mars 2007 samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd að rífa húsið við Suðurströnd 4, girða af svæðið og hefja þar jarðvinnu. Bæjarstjórn staðfesti greinda ákvörðun hinn 14. mars 2007.
Byggir kærandi kröfu sína á því að hin kærða framkvæmd eigi stoð í deiliskipulagi sem sé ólögmætt. Skipulagið stangist á við niðurstöður bindandi kosninga í sveitarfélaginu og sé auk þess haldið ýmsum öðrum annmörkum sem tíundaðir séu í kærum kæranda vegna umræddra deiliskipulagsákvarðana. Ljóst sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu enda búi hann í næsta nágrenni við umrætt svæði.
Kröfu sína um stöðvun framkvæmdarinnar rökstyður kærandi á þann veg að hún sé undanfari byggingar og því hluti af frekari framkvæmdum. Ljóst sé að hagsmunir kæranda af stöðvun framkvæmdarinnar séu mun meiri en sveitarfélagsins. Þá liggi einnig fyrir að sveitarfélagið muni ekki bíða neitt tjón við slíka frestun.
Seltjarnarnesbær krefst frávísunar málsins en ella að kröfu kæranda verði hafnað. Vísa beri málinu frá þar sem kæran eigi ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, skv. 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Kærandi byggi ekki á því að hið kærða leyfi sé í andstöðu við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Eingöngu sé byggt á að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við niðurstöðu bindandi kosninga og að brotið hafi verið gegn 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Úrskurðarnefndinni hafi ekki verið falið að úrskurða um brot gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga heldur fari félagsmálaráðuneytið með úrskurðarvald um slík mál samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Því beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.
Einnig sé á því byggt að kærandi eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta, skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í því máli sem hér um ræði verði ekki séð í hverju hinir einstaklegu lögákveðnu hagsmunir kæranda séu fólgnir enda geri hann ekki grein fyrir þeim í kæru sinni. Þá búi kærandi í töluverðri fjarlægð frá Hrólfsskálamel.
Verði máli þessu ekki vísað frá sé vísað til þess að hið kærða leyfi sé fullkomlega lögmætt og í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins sem geri ráð fyrir niðurrifi umrædds húss en það sé í samræmi við bindandi kosningar sem fram hafi farið hinn 25. júní 2005.
Niðurstaða: Eins og fyrr greinir var með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum fyrr í dag vísað frá úrskurðarnefndinni kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulags Hrólfsskálamels. Byggðist sú niðurstaða nefndarinnar á því að kærandi ætti ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, svo sem áskilið er, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Af sömu ástæðu telst kærandi ekki eiga lögvarða hagsmuni af byggingu einstakra húsa eða mannvirkja eða öðrum framkvæmdum á svæðinu sem stoð eiga í deiliskipulagi þess. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Geirharður Þorsteinsson