Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2005 Holtsgata

Ár 2006, fimmtudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2005, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. júní 2005 um að heimila sameiningu lóðanna nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð, að rífa húsið nr. 32A við Bræðraborgarstíg og bílskúr á lóðinni nr. 1 við Holtsgötu ásamt því að byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílageymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. júlí 2005, sem barst nefndinni sama dag, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. H, Holtsgötu 5, Reykjavík, ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. júní 2005 um að heimila sameiningu lóðanna nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð, að rífa húsið nr. 32A við Bræðraborgarstíg og bílskúr á lóðinni nr. 1 við Holtsgötu ásamt því að byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílgeymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð. 

Kærandi setti einnig fram kröfu um stöðvun framkvæmda, en með úrskurði úrskurðarnefndarinnar hinn 16. september 2005 hafnaði nefndin þeirri kröfu. 

Krefst kærandi ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir:  Hinn 9. febrúar 2005 samþykkti skipulagsráð deiliskipulag svokallaðs Holtsgötureits, svæðis er markast af Holtsgötu, Bræðraborgarstíg, Sólvallagötu og Vesturvallagötu.  Hin kærða deiliskipulagsákvörðun fól m.a. í sér að heimilt yrði að  byggja á óbyggðum lóðum á svæðinu ásamt því að byggja við nokkur hús sem fyrir væru á reitnum.  Samkvæmt deiliskipulaginu er nýtingarhlutfall óbyggðra lóða að hámarki 1,5.  Eitt bílastæði er fyrir hverja 50 m² í viðbótarbyggingarmagni atvinnuhúsnæðis og eitt bílastæði er fyrir hverja íbúð.  Lóðir á horni Bræðraborgarstígs og Holtsgötu eru sameinaðar og heimilt er að byggja á lóðinni 13 íbúða þriggja hæða hús með risi og neðanjarðarbílgeymslu með aðkomu frá Bræðraborgarstíg.  Kærandi máls þessa kærði einnig fyrrgreinda deiliskipulagsákvörðun skipulagsráðs.  

Á fundi skipulagsráðs hinn 29. júní 2005 var tekin fyrir umsókn um leyfi til sameiningar lóðanna nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð, að rífa húsið nr. 32A við Bræðraborgarstíg og bílskúr á lóðinni nr. 1 við Holtsgötu og loks leyfi til að byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílgeymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð.  Umsóknin var samþykkt á fundinum með eftirfarandi bókun:  „Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.  Frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“

Kærandi hefur skotið framangreindri ákvörðun skipulagsráðs til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að svo virðist sem hin kærða samþykkt byggi á deiliskipulagi svokallaðs Holtsgötureits frá 9. febrúar 2005 sem sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Sé vísað til þeirra röksemda sem reifaðar hafi verið vegna kæru um gildi deiliskipulagsins.  Telur kærandi m.a. að hið kærða leyfi til framkvæmda brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrár nr. 33/1944 um friðhelgi eignarréttar o.fl., ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ákvæðum reglugerðar nr. 400/1998 og ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10., 11., 12. og 13. gr. laganna.

Þá telur kærandi að hin kærða samþykkt sé í andstöðu við deiliskipulag svæðisins ásamt því að vera ólögmæt og því beri að fella hana úr gildi.   

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að kærandi geri ekki neinar efnislegar athugasemdir við hina kærðu samþykkt þrátt fyrir kröfu um ógildingu hennar eða bendi á nein atriði sem leitt geti til ógildingar hennar.  Kröfu um ógildingu sé því hafnað enda ekkert komið fram í málinu sem bendi til þess að byggingarleyfið sé háð einhverjum annmörkum.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kæranda mótmælt.  Komið hafi verið til móts við athugasemdir kæranda, m.a. með því að færa aðkomu að bílgeymslu frá Holtsgötu yfir á Bræðraborgarstíg.  Athugasemdir um nýtingarhlutfall hefðu þurft að koma fram á meðan unnið hafi verið að gerð skipulagsins en þær hafi ekki komi fram fyrr en síðar.

Álit Brunamálastofnunar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins:  Úrskurðarnefndin leitaði álits Brunamálsstofnunar á því hvort deiliskipulag Holtsgötureits samræmdist reglum og kröfum um eldvarnir í íbúðabyggð.  Í bréfi Brunamálastofnunar, dags. 31. ágúst 2005, kom fram að vesturgafl hússins nr. 3 við Holtsgötu gæti ekki talist vera fullnægjandi eldvarnarveggur þar sem umbúnaður reykræstiops þar rýrði brunamótstöðu og væri það í andstöðu við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Framangreindu mótmælti Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sem taldi að fyrirkomulag brunavarna á aðaluppdráttum samræmdist ákvæðum byggingarreglugerðar.  

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er krafa kæranda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis studd þeim rökum að leyfið byggist á deiliskipulagi sem kærandi telur ólögmætt og hefur kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag hafnað kröfu kæranda um ógildingu deiliskipulags þess sem hið umdeilda byggingarleyfi á stoð í.  Ekki verður heldur séð að byggingarleyfið brjóti gegn rétti kæranda sem varinn sé af stjórnarskrá nr. 33/1944 eða að undirbúningur þess hafi verið í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga nr.  37/1993 líkt og kærandi heldur fram.  

Samkvæmt deiliskipulagi Holtsgötureits er gert ráð fyrir því að byggingarreitur hússins nr. 3 við Holtsgötu nái að lóðarmörkum Holtsgötu 5, þó með þeirri takmörkun að nýting hans þrjá metra frá lóðarmörkum Holtsgötu 5 er háð samþykki eiganda þess húss.  Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir að við vesturgafl hússins nr. 3 við Holtsgötu verði komið fyrir reykræstiopi sem nái einn metra út fyrir húsið í átt að Holtsgötu 5.  Ekki liggur fyrir leyfi eiganda Holtsgötu 5 til hagnýtingar byggingareitsins með framangreindum hætti svo sem áskilið er í deiliskipulagi svæðisins og er byggingarleyfið því að þessu leyti í andstöðu við það.  Þá liggja ekki fyrir fullnægjandi niðurstöður um það að veggurinn uppfylli kröfur um eldvarnarveggi, sem Brunamálastofnun taldi vera forsendu deiliskipulagsins.  Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að fallast á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ógildingin þó takmörkuð við þann hluta leyfisins er varðar húsið nr. 3 við Holtsgötu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun skipulagsráðs frá 29. júní 2005 um að heimila sameiningu lóðanna nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð, að rífa húsið nr. 32A við Bræðraborgarstíg og bílskúr á lóðinni nr. 1 við Holtsgötu ásamt því að byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílageymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð er felld úr gildi hvað varðar húsið nr. 3 við Holtsgötu. 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________            _____________________________
  Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson