Ár 2006, mánudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 34/2004, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 21. apríl 2004, um deiliskipulag Vesturbæjarsundlaugar.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. maí 2004, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Huldulandi 9, Reykjavík, eigandi Hagavagnsins, sem er veitingavagn við Vesturbæjarsundlaug, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 21. apríl 2004 um deiliskipulag Vesturbæjarsundlaugar. Greind afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarráði hinn 27. apríl 2004.
Skilja verður kæru kæranda á þann veg að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.
Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 9. júlí 2003 voru lögð fram drög að deiliskipulagi Vesturbæjarsundlaugar og var samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu. Á fundi nefndarinnar hinn 17. september 2003, að lokinni kynningu fyrir hagsmunaaðilum, var tillagan lögð fram að nýju og samþykkt að auglýsa hana. Málið var í auglýsingu frá 8. október til 19. nóvember 2003. Nokkrar athugasemdir bárust. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. apríl 2004 var málið tekið fyrir á ný að lokinni auglýsingu. Við afgreiðslu málsins var m.a. lagt fram bréf kæranda þar sem hann óskaði eftir stækkun á veitingavagni sínum við Vesturbæjarsundlaugina. Einnig var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa um beiðnina. Var hin auglýsta deiliskipulagstillaga samþykkt með eftirfarandi bókun: „Auglýst deiliskipulagstillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa.“ Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á fundi hinn 27. apríl 2004. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. júní 2005.
Hin kærða deiliskipulagssamþykkt nær til svæðisins í kringum Vesturbæjarsundlaug, og afmarkast af aðliggjandi lóðum einbýlishúsa við Einimel, til suðurs og vesturs, fjölbýlishúsalóðum við Hagamel til norðurs og af Hofsvallagötu til austurs. Stærð reitsins er 17.963 m². Vesturbæjarsundlaug var opnuð árið 1961 en á árunum 1998-1999 var byggt við laugina og bætt við heitum pottum og eimbaði. Samkvæmt skipulaginu er m.a. heimilað að stækka sundlaugarsvæðið, bæta við innisundlaug, heilsuræktarstöð og stækka útiaðstöðu. Þá breytist aðkoman að lauginni, bætt er við stígum inn á grænt svæði umhverfis laugina og á torgi til hliðar við fyrirhugaðan aðalinngang, nær Hofsvallargötu, er gert ráð fyrir heimild til að reka veitingavagn (pylsuvagn), að hámarksstærð 27 fermetra.
Kærandi hefur kært deiliskipulagssamþykktina til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi ítrekað leitað til borgarinnar um viðunandi veitingaaðstöðu við Vesturbæjarsundlaug. Með hinni kærðu ákvörðun hafi verið heimilað að við laugina yrði staðsettur veitingavagn að hámarksstærð 27 fermetrar. Beiðni kæranda um að veitingavagninn yrði 55 fermetrar hafi engar undirtektir hlotið og aðeins verið samþykkt að vagninn stækkaði úr 18 í 27 fermetra. Rekstrargrundvöll sé ekki unnt að tryggja í slíkri aðstöðu. Til að svo megi verða sé grundvallaratriði að breyta rekstrinum, þar verði að hafa fullkomna grilllínu með nægu starfsfólki til að uppfylla nútíma kröfur.
Kærandi felli sig ekki við þau rök borgarinnar að veitingaaðstaða hins svokallaða pylsuvagns við Laugardalslaug gefi fordæmi fyrir því hvernig aðstaðan við Veturbæjarlaug skuli að vera og óskar eftir því að úrskurðarnefndin kveði upp úr um að aðstaða veitingavagnsins verði 55 fermetrar eins og kærandi hafi óskað í stað 27 fermetra.
Hafa verði í huga að borgin komist ekki hjá því að hafa veitingarþjónustu til reiðu þegar framkvæmdum á svæðinu ljúki því gestir muni reikna með því. Mjög sennilegt sé að þeir muni vænta líkrar þjónustu og gestum sé boðið upp á í líkamsræktarstöðinni í Laugardal.
Þá sé sá möguleiki fyrir hendi að veitingareksturinn verði innandyra í byggingu laugarinnar en þá yrðu bæði vegfarendur sem og gestir laugarinnar og líkamsræktarinnar að eiga greitt aðgengi að slíkri veitingasölu. Þá mætti einnig tengja veitingaþjónustuna við líkamsræktarhúsið þannig að byggður yrði rani út frá fyrstu hæð þess í áttina að austurhorni lóðarinnar sem samanstæði af þremur hringlaga byggingum í takt við bogadregnar línur líkamsræktarbyggingarinnar. Innsta byggingin myndi hýsa veitingasal fyrir gesti líkamsræktarinnar og sundlaugarinnar, ysta byggingin yrði salur fyrir gangandi vegfarendur og miðbyggingin yrði vinnuaðstaða beggja salanna.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að skipulags- og byggingarnefnd hafi verið fullkomlega heimilt að afgreiða málið með þeim hætti sem gert hafi verið. Fyrir liggi að hið kærða deiliskipulag hafi fengið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Deiliskipulagstillagan hafi verið kynnt þeim aðilum sem hafi átt hagsmuna að gæta á svæðinu. Kæranda hafi ekki verið sent sérstakt kynningarbréf þar sem lagt hafi verið til að stækka mætti pylsuvagn hans í 27 fermetra, sem sé sambærilegt þeim veitingaskála sem standi við Laugardalslaug, og því hafi verið talið að hagsmunir hans væru tryggðir með deiliskipulaginu. Kærandi hafi auk þess komið að athugasemdum sínum þegar deiliskipulagið hafi verið auglýst. Það sé því fráleitt að telja að það valdi ógildi deiliskipulagsins þótt kærandi hafi ekki fengið sérstakt bréf í hagsmunaaðilakynningu, enda hafi hann komið að öllum athugasemdum sínum innan tímamarka.
Skipulagsvaldið liggi hjá sveitarfélögunum í landinu. Það hafi verið ákvörðun skipulagsyfirvalda, með vísan í umsögn skipulagsfulltrúa, að synja kæranda um stækkun veitingaskálans við Vesturbæjarsundlaugina í 55 fermetra, sem væri 28 fermetra stækkun umfram það sem deiliskipulagið heimilaði. Kærandi telji að ekki sé rekstrargrundvöllur fyrir 27 fermetra aðstöðu, en rökstyðji það ekki frekar. Af því tilefni sé tekið fram að Reykjavíkurborg sé ekki skylt að tryggja meintan rekstargrundvöll kæranda með því að heimila stækkun af því tagi sem óskað hafi verið eftir og sé úr takti við sambærilega aðstöðu við sundlaugar annars staðar í borginni. Einnig sé tekið fram að nefndur pylsuvagn standi inni á lóð Reykjavíkurborgar með leyfi ÍTR, en ekki á einkalóð kæranda, og sé borginni því algjörlega í sjálfsvald sett að ákveða hvað sé leyft á lóðinni og hvað ekki.
Niðurstaða: Svo sem að framan greinir fól umdeild deiliskipulagssamþykkt m.a. í sér að svæðið umhverfis Vesturbæjarsundlaugina í Reykjavík yrði stækkað, byggð yrði innisundlaug og heilsuræktarstöð. Þá breyttist aðkoman að lauginni samkvæmt deiliskipulaginu og á torgi til hliðar við fyrirhugaðan aðalinngang var heimiluð staðsetning veitingavagns að hámarksstærð 27 fermetrar. Hefur kærandi sett fram kæru vegna framangreinds og óskar eftir heimild til þess að veitingavagninn verði mun stærri, eða 55 fermetrar.
Áður en hin kærða deiliskipulagsákvörðun var tekin var tillaga sama efnis auglýst lögum samkvæmt, en þá þegar hafði nokkrum hagsmunaaðilum á svæðinu verið kynnt fyrirætlan borgaryfirvalda, þó ekki kæranda. Af málsgögnum má greina að allar götur frá árinu 1998 hafi kærandi farið þess á leit við borgina að heimiluð yrði stækkun á veitingaaðstöðu hans við Vesturbæjarsundlaugina. Á þetta hafði ekki verið fallist en skipulagsyfirvöldum var full kunnugt um óskir kæranda um stækkun veitingaaðstöðu hans og má því fallast á að það raski ekki gildi ákvörðunarinnar þótt kæranda hafi ekki verið kynnt skipulagsáformin sérstaklega á undirbúningsstigi. Ekki skiptir heldur máli þótt kærandi gerði ekki athugasemdir á kynningartíma skipulagsins enda lágu bréf hans til skipulags- og byggingarnefndar, dags. 6. mars og 29. mars 2004, fyrir við afgreiðslu málsins ásamt svörum skipulagsfulltrúa þar sem afstaða var tekin til sjónarmiða kæranda.
Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 annast sveitarstjórnir gerð skipulagsáætlana sem eiga, skv. 2. mgr. 9. gr. sömu laga, m.a. að marka stefnu um landnotkun og þróun byggðar. Verður ekki séð að kærandi hafi átt lögvarinn rétt til þess að skipulagsyfirvöld létu honum í té frekari aðstöðu í landi borgarinnar en gert var með hinni kærðu ákvörðun, sem telja verður að reist hafi verið á málefnalegum grundvelli.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu samþykktar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 21. apríl 2004, sem staðfest var á fundi borgarráðs hinn 27. apríl 2004, um deiliskipulag Vesturbæjarsundlaugar.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________________ ____________________________ Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson