Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/2004 Rafstöðvarsvæði

Ár 2006, fimmtudaginn 22. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2004, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 27. janúar 2004 um að breyta deiliskipulagi Rafstöðvarsvæðis í Elliðaárdal. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. mars 2004, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir Landsvirkjun þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 27. janúar 2004 um að breyta deiliskipulagi Rafstöðvarsvæðis í Elliðaárdal, sem fól m.a. í sér að land sem nýtt hafði verið undir olíutanka varastöðvar Landsvirkjunar var tekið til annarra nota.  Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Hinn 31. mars 2001 var tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur tillaga að deiliskipulagi á umhverfi Rafstöðvarinnar í Elliðaárdal og Ártúns en málinu frestað.  Nefndin tók síðan fyrir deiliskipulagstillögu, dags. 22. mars 2002, fyrir Rafstöðvarsvæði í Elliðaárdal hinn 10. apríl 2002 og var samþykkt að auglýsa tillöguna til kynningar.  Vegna athugasemda Stangveiðifélags Reykjavíkur ákvað skipulags- og byggingarnefnd á fundi sínum hinn 2. maí 2002 að afturkalla auglýsingu tillögunnar og var málinu vísað til borgarráðs.  Hinn 2. apríl 2003 tók skipulags- og byggingarnefnd fyrir endurskoðaða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Rafstöðvarsvæðis í Elliðaárdal og samþykkti að auglýsa tillöguna og var málinu vísað til borgarráðs. 

Að lokinni auglýsingu var tillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar en þá lágu fyrir athugasemdir nokkurra aðila, þar á meðal kæranda, sem taldi sig eiga lóðir á skipulagssvæðinu.  Jafnframt lágu fyrir bréf borgarlögmanns, dags. 7. júlí 2003, og sameignarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og borgarstjórnar Reykjavíkur um Landsvirkjun, dags. 1. júlí 1965, ásamt umsögn skipulagsfulltrúa.  Var afgreiðslu málsins frestað. 

Hinn 21. janúar 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd umrætt deiliskipulag og staðfesti borgarstjórn þá samþykkt hinn 5. febrúar s.á.  Deiliskipulagið öðlaðist svo gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 23. mars 2004.  Kærandi undi ekki þeirri ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að með sameignarsamningi ríkis og Reykjavíkurborgar um Landsvirkjun, dags. 1. júlí 1965, hafi Reykjavíkurborg lagt fyrirtækinu til tiltekin orkumannvirki í Elliðaárdal.  Í 2. gr. nefnds samnings, lið B3 og B4, komi fram að Reykjavíkurborg legði Landsvirkjun til eimhverfilsstöð við Elliðaár, með öllu sem fylgdi og fylgja bæri, ásamt hæfilegri lóð undir stöðina auk lóðar á svæðinu undir aðalspennistöð Sogsvirkjunar með útivirkjum.  Stærð og mörk greindra lóða skyldi borgarráð Reykjavíkur ákveða að fengnum tillögum stjórnar kæranda. 

Eftir auglýsingu umdeildrar skipulagstillögu hafi kærandi vakið athygli borgaryfirvalda á að í tillögunni væri í engu getið þriggja lóða kæranda á skipulagssvæðinu, þ.e. norðan varaaflstöðvar þar sem olíutankar tengdir stöðinni hafi staðið, lóðar er tilheyrði varaaflstöðinni og lóðar undir tengivirki sunnan Elliðaárstöðvar sem rifið hafi verið fyrir nokkrum árum.  Mótmælt hafi verið því verklagi að hafa ekkert samráð við kæranda við skipulagsgerðina þrátt fyrir augljósa hagsmuni hans, en gert hafi verið ráð fyrir að hluti umræddra lóða yrði tekinn til almenningsþarfa og að varaaflstöðin yrði rifin. 

Í kjölfar greindra athugasemda hafi lóðir undir vararafstöð og tengivirki verið ákvarðaðar og markaðar á skipulagsuppdráttinn en hafnað hafi verið eignarhaldi kæranda á lóð þar sem olíutankar hafi staðið án haldbærra raka en tankarnir hafi verið hluti vararafstöðvarinnar þótt þeir hafi staðið nokkuð frá stöðvarhúsinu, væntanlega af öryggisástæðum. 

Kærandi telur að hið kærða skipulag sé gert á röngum forsendum og ekki verði fallist á að unnt sé að breyta skipulagi í þeim tilgangi að svipta kæranda eignarlóð sinni þar sem olíutankar hafi áður staðið, gegn eindregnum mótmælum, en kærandi líti svo á að skilyrði eignarnáms skv. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 séu ekki fyrir hendi.  Beri því að gera grein fyrir umræddri lóð kæranda í hinu kærða skipulagi. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hið samþykkta deiliskipulag verði staðfest. 

Frávísunarkröfu styður Reykjavíkurborg einkum þeim rökum að krafa kæranda eigi ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, sbr. ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Nefndin hafi hvorki valdheimildir til að fjalla um málið né hlutast til um að kærandi verði skráður eigandi hinnar umdeildu lóðar á deiliskipulagsuppdrætti.  Þá hafi nefndin heldur ekki heimildir til að kveða á um bótaskyldu vegna ákvarðana sem annars heyri undir hana, en tilgangur kærunnar virðist skv. gögnum málsins einnig vera sá að búa til bótagrundvöll gagnvart borgaryfirvöldum. 

Mál þetta fjalli að öllu leyti um ágreining sem uppi sé milli kæranda og Reykjavíkurborgar um eignarrétt á tiltekinni lóð innan hins kærða deiliskipulags.  Það sé ekki á valdi úrskurðarnefndar að skera úr um ágreining um eignarrétt milli aðila.  Slíkur ágreiningur sé einkaréttarlegs eðlis og verði ekki leystur nema með samningum milli aðila eða eftir atvikum fyrir dómstólum. 

Hvað efnishlið máls varði hafi Reykjavíkurborg verið heimilt að deiliskipuleggja umrætt svæði.  Bent sé á að lóðin, sem olíutankar vararafstöðvarinnar hafi áður staðið á, sé að mestu leyti utan hins deiliskipulagða svæðis, sem afmarkist af hitaveitustokknum er liggi um Elliðaárdalinn.  Verði síðar leitt í ljós að lóðin sé eign kæranda verði Reykjavíkurborg eftir atvikum bótaskyld, taki borgin lóðina eignarnámi.  Deila um eignarrétt á umræddri lóð haggi því ekki gildi hins kærða deiliskipulags. 

Niðurstaða:  Kærandi á fasteignir á svæði því sem ákvarðanir eru teknar um í hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun.  Á kærandi því lögvarða hagsmuni í máli þessu og hefur hann gert athugasemdir við undirbúning og efni skipulagsins.  Er það á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að endurskoða lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður því ekki fallist á kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun kærumálsins. 

Fyrir liggur í málinu að ekki var tekið tillit til eignarréttarlegra hagsmuna kæranda í skipulagstillögu þeirri sem auglýst var til kynningar.  Vegna athugasemda kæranda var í skipulaginu gerð grein fyrir tveimur lóðum sem hann hefur eftir atvikum sætt sig við. 

Hefur kærandi borið fyrir sig að hinu kærða skipulagi sé áfátt að því leyti að ekki sé þar gerð grein fyrir lóð er var nýtt undir olíutanka sem tengdust vararafstöð kæranda og hafi orðið hans eign við sameignarsamning ríkis og Reykjavíkurborgar um Landsvirkjun frá árinu 1965.  Hafa borgaryfirvöld andmælt þeim skilningi kæranda og haldið því fram að einungis hafi verið um að ræða afnotarétt að umdeildri landspildu á meðan nefndir olíutankar hafi staðið þar.  Hefur kærandi jafnframt gert athugasemd við að ekki hafi verið haft samráð við hann sem hagsmunaaðila við undirbúning og gerð skipulagstillögu þeirrar sem var undanfari hinnar kærðu ákvörðunar. 

Samkvæmt framansögðu er uppi ágreiningur milli kæranda og borgaryfirvalda um eignarráð að lóð þeirri er fyrrnefndir olíutankar stóðu á.  Verður sá ágreiningur, sem varðar túlkun á samningsákvæði í sameignarsamningi um Landsvirkjun, ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur á slíkt álitaefni undir dómstóla.  Deiliskipulagsákvörðun getur ekki ein og sér haft áhrif á eignarréttindi manna.  Sú staðreynd að umrædd lóð, sem ráða má að yrði að hluta til inni á svæði því sem hið kærða skipulag tekur til, er ekki mörkuð á skipulagsuppdráttinn eða grein fyrir henni gerð í skipulagsskilmálum haggar því ekki gildi umdeilds skipulags. 

Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum hagsmunaaðila við gerð skipulagsáætlana um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið.  Þessa var ekki gætt gagnvart kæranda á vinnslustigi hins kærða deiliskipulags.  Hins vegar kom kærandi að athugasemdum sínum við kynningu tillögunnar og var tekið tillit til þeirra að öðru leyti en því sem að framan er rakið.  Með tilliti til þessa þykir greindur annmarki ekki eiga að leiða til ógildingar umrædds skipulags. 

Með skírskotan til ofangreindra sjónarmiða verður hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð: 

Kröfu kæranda, um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 27. janúar 2004 um að breyta deiliskipulagi Rafstöðvarsvæðis í Elliðaárdal, er hafnað. 

 

 

___________________________         
                   Hjalti Steinþórsson                                 

 

                                                                                      _____________________________                 ____________________________ 
  Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson