Ár 2006, fimmtudaginn 27. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.
Fyrir var tekið mál nr. 15/2003, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 5. febrúar 2003 um breytingu deiliskipulags fyrir staðgreinireit 1.171.0 er tekur til svæðis innan Laugavegar, Bankastrætis, Ingólfsstrætis, Hverfisgötu og Smiðjustígs.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. mars 2003, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir Davíð Guðmundsson lögfræðingur f.h. M ehf., Laugavegi 1, Reykjavík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 5. febrúar 2003 um breytingu deiliskipulags staðgreinireits 1.171.0 er tekur til hluta Laugavegar og Bankastrætis til austurs, hluta Ingólfsstrætis til suðurs, hluta Hverfisgötu til vesturs og hluta Smiðjustígs til norðurs.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara að hann þurfi ekki að þola skerðingu á byggingarrétti sem eigninni tilheyri skv. deiliskipulagi frá árinu 1963. Enn fremur krefst kærandi þess að framkvæmdir stjórnvalda við gildistöku skipulagsins verði stöðvaðar og gildistöku þess frestað þar til ágreiningur um það hafi verið til lykta leiddur.
Málavextir: Á árinu 2000 hófst undirbúningur að endurskoðun deiliskipulags reits 1.171.0 sem afmarkast af hluta Laugavegar og Bankastrætis til austurs, hluta Ingólfsstrætis til suðurs, hluta Hverfisgötu til vesturs og hluta Smiðjustígs til norðurs. Á þeim reit sem hér um ræðir var í gildi skipulagsuppdráttur, staðfestur af félagsmálaráðherra hinn 6. mars 1963. Skipulagsuppdrætti þessum var breytt árið 1990 varðandi lóðirnar austan Traðarkotssunds og vegna byggingar bílastæðahúss á horni Hverfisgötu og Smiðjustígs. Var sú breyting staðfest af ráðherra hinn 11. nóvember s.á.
Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti að auglýsa tillögu að deiliskipulagi reitsins á fundi sínum hinn 11. september 2002. Jafnframt samþykkti nefndin að tilkynna hagsmunaaðilum um auglýsinguna. Tillagan var auglýst til kynningar frá 1. nóvember 2002 til 13. desember s.á. með athugasemdafresti til 13. desember 2002. Á kynningartíma tillögunnar bárust 10 athugasemdir þ.m.t. frá kæranda. Voru þær, ásamt deiliskipulagstillögunni, lagðar fyrir skipulags- og byggingarnefnd hinn 23. janúar 2003. Var afgreiðslu málsins frestað. Tillagan ásamt athugasemdum og umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdirnar, dags. 29. janúar 2003, var lögð á ný fyrir skipulags- og byggingarnefnd hinn 5. febrúar 2003 og samþykkt á þeim fundi með breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa. Borgarráð staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum hinn 19. febrúar 2003. Athugasemdaaðilum var tilkynnt um afgreiðslu tillögunnar með bréfi, dags. 13. febrúar 2003. Tillagan var send Skipulagsstofnun til skoðunar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og með bréfi, dags. 7. mars 2003, féllst Skipulagsstofnun á að auglýsing um gildistöku skipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagið öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. mars 2003.
Hið kærða deiliskipulag gerir m.a. ráð fyrir nýbyggingum á lóðum nr. 1, 3, 5 og 11 við Laugaveg og nr. 6 við Traðarkotssund. Þá er og tilgreint í skipulaginu að nokkur hús á svæðinu séu friðuð vegna aldurs, þ.m.t. hús kæranda við Laugaveg 1.
Kærandi hefur skotið deiliskipulagsákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi setur fram þær athugasemdir til stuðnings kröfum sínum að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 29. janúar 2003, sem ráðið hafi úrslitum í máli þessu. Reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt hafi því ekki verið fylgt. Hin kærða ákvörðun sé því haldin slíkum ágöllum að ómerkingu varði.
Kærandi bendir á að skv. deiliskipulagi svæðisins frá árinu 1963, sem hafi verið í samræmi við deiliskipulag frá árinu 1923, hafi verið gert ráð fyrir fjögurra hæða húsi á lóðinni nr. 1 við Laugaveg. Þar segi m.a.: „Við Laugaveg og Bankastr. er fyrirhuguð fjögurra hæða byggð, 13,0 metra djúp, og er neðsta hæðin inndregin um 4,6 m, súlur innifaldar.“ Megi glöggt sjá af teikningu deiliskipulagsins að heimilt sé að byggja þrjár hæðir ofan á núverandi fasteign. Um þetta hafi ekki verið ágreiningur.
Skv. hinu kærða deiliskipulagi sé byggingarréttur sem veittur hafi verið með skipulaginu frá árinu 1963 afturkallaður en þess í stað veittur byggingarréttur á baklóð fasteignarinnar. Í svarbréfi skipulagsfulltrúa, dags. 29. janúar 2003, komi fram að húsið að Laugavegi 1 hafi verið byggt árið 1848 og það því sjálfkrafa friðað, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun. Skv. ákvæðinu séu öll hús, sem reist hafi verið fyrir árið 1850, friðuð. Síðan segi áfram í bréfi skipulagsstjóra að í þróunaráætlun miðborgar Reykjavíkur sé ekki gert ráð fyrir breytingu á núverandi stöðu hússins og sé sú afstaða staðfest í deiliskipulaginu, en veitt heimild til uppbyggingar til beggja hliða við hið friðaða hús og á baklóð þess. Bornar séu saman heimildir til nýbyggingar á lóðinni og sé komist að þeirri niðurstöðu að hámarksbyggingarmagn aukist um 540 fermetra með tilkomu hins nýja deiliskipulags. Í bréfinu segi einnig: „Í ljósi þess verður vart talið að nýtingarréttur sé skertur á lóðinni, þar sem jarðhæð, sem er verðmætasti hluti húsa í miðborgum, stækkar mjög mikið, auk þess sem nýting á efri hæðum, hvort sem er fyrir atvinnustarfsemi eða íbúðir, flyst á baklóð sem að mörgu leyti er ekki verri staður fyrir slíka starfsemi m.a. m.t.t. hljóðvistar. Það er því lagt til að ekki verði gerðar breytingar á fyrirliggjandi tillögu.“
Ekki sé ágreiningur í máli þessu um að húsið að Laugavegi 1, sem byggt hafi verið fyrir árið 1850, sé friðað skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun. Aftur á móti sé bent á að þrátt fyrir friðun hússins sé hvorki gert ráð fyrir því í lögunum að eigendur þess skuli taka á sig bótalaust að byggingarréttur þeirra á lóðinni verði skertur, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna, né gengið út frá því að óheimilt sé að breyta húsinu, flytja það eða rífa. Í umræddum lögum sé þvert á móti gert ráð fyrir að slíkt sé heimilt með þeim áskilnaði sem þar um sé gerður, skv. 2. mgr. 6. gr., sbr. 13. gr. laganna. Af þessum sökum hafni kærandi því alfarið að af honum verði tekinn byggingarréttur skv. hinni kærðu ákvörðun.
Af fyrrgreindu bréfi skipulagsstjóra, dags. 29. janúar 2003, megi ráða að heimilt sé að skerða byggingarrétt á lóðinni með breyttu deiliskipulagi komi annar í hans í stað. Þessu sé til að svara að réttur kæranda til að nýta sér þann rétt sem honum hafi verið veittur með skipulaginu frá árinu 1963 eigi ekki að hrófla við rétti hans til að sækjast síðar eftir auknum byggingarrétti á baklóð eignarlóðar sinnar. Af þeim sökum sé ekki hægt að fallast á það mat skipulagsfulltrúa að stjórnvöldum sé heimilt að skerða einhliða og bótalaust byggingarrétt kæranda með því að honum verði úthlutað annars konar réttindum. Slík breyting hljóti að vera háð samþykki kæranda. Í máli þessu hafi hvorki verið farið þess á leit við kæranda að hann afsali sér fyrrgreindum réttindum sínum né að hann fallist á að skerða byggingarrétt sinn með þeim hætti.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kæranda, um „…framkvæmdir stjórnvalda við gildistöku…“ skipulagsins eða frestun réttaráhrifa þess verði hafnað og að varakröfu um að kærandi þurfi ekki að þola skerðingu á byggingarrétti miðað við deiliskipulag reitsins frá 1963, verði vísað frá nefndinni. Þá er krafist staðfestingar á hinn kærðu ákvörðun.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að 5. gr. reglugerðar nr. 621/1997 veiti úrskurðarnefndinni ekki rétt til þess að fresta gildistöku deilskipulagsins. Samkvæmt skýru orðalagi greinarinnar veiti hún eingöngu heimild til að stöðva framkvæmdir. Engum framkvæmdum, í skilningi skipulags- og byggingarlaga, sé fyrir að fara í því tilviki sem hér um ræði.
Í varakröfu kæranda virðist felast ósk um að úrskurðarnefndin kveði á um breytingu á hinu samþykkta deiliskipulagi. Til þess sé úrskurðarnefndin ekki bær og því beri að vísa varakröfunni frá.
Varðandi þá málsástæðu kæranda að andmælaréttur hans hafi verið virtur að vettugi þar sem hann hafi ekki fengið að tjá sig um umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir sem hafi borist við kynningu tillögunnar, þá vísar Reykjavíkurborg til þess að í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé mælt nákvæmlega fyrir um málsmeðferð deiliskipulagstillagna, þ.e. kynningu, auglýsingu þeirra og rétt hagsmunaaðila til að gera athugasemdir. Séu þessar reglur settar til að tryggja lýðræðislega málsmeðferð, andmælarétt hagsmunaaðila og að mál séu nægilega vel upplýst og rannsökuð til að hægt sé að taka í þeim lögmætar ákvarðanir. Málsmeðferð deiliskipulagstillagna, samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, samræmist að þessu leyti almennum reglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga þ.m.t. reglunni um andmælarétt.
Leitað hafi verið eftir samráði við hagsmunaðila á reitnum við upphaf deiliskipulagsvinnunar og eftir að drög að tillögu hafi verið unnin. Þá hafi tillagan verið auglýst til kynningar í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga auk þess sem hagsmunaaðilum hafi verið send bréf þar sem þeim hafi sérstaklega verið tilkynnt um að tilllagan hafi verið auglýst til kynningar. Kæranda hafi þannig verið gefið tækifæri til þess að neyta andmælaréttar sem hann hafi gert. Hafi athugasemd hans fengið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og verið svarað með málefnalegum rökum sem kæranda hafi verið send.
Í 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga komi m.a. fram að sveitarstjórn skuli, að lokinni auglýsingu deiliskipulagstillagna, taka afstöðu til þeirra athugasemda sem borist hafi. Í 3. mgr. 25. gr. segi að sveitarstjórn skuli að lokinni afgreiðslu máls senda þeim aðilum sem athugasemdir hafi gert umsögn sína um þær. Hvergi sé mælt fyrir um að athugasemdaaðilum skuli gefinn kostur á að gera athugasemdir við eða svara umsögn sveitarstjórnar áður en til afgreiðslu máls komi. Ótvíræð skylda hvíli því ekki á Reykjavíkurborg að gefa athugasemdaaðilum kost á að tjá sig um umsagnir um athugasemdir þeirra áður en mál séu tekin til afgreiðslu.
Fallast megi á að upp kunni að koma slík tilvik að eðlilegt geti talist að gefa athugasemdaaðila tækifæri til þess að tjá sig frekar um deiliskipulagstillögu, eða málsgögn henni tengd, eftir að athugasemdafresti sé lokið ef ljóst sé að upplýsa þurfi tiltekin atriði frekar. Við mat á því sé eðlilegt að taka mið af sjónarmiðum sem fram komi í 13. gr. stjórnsýslulaga. Auk þess þurfi að hafa hliðsjón af þeim hagsmunum sem í húfi séu og reglu stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga um málshraða. Í tilviki kæranda hafi engin ástæða verið til að veita á ný frest til andmæla. Kæranda hafi verið gefið tækifæri til að neyta andmælaréttar og hann komið sjónarmiðum sínum skýrt á framfæri. Enginn vafi hafi verið um afstöðu hans og afstaða borgaryfirvalda hafi legið fyrir í hinni kynntu deiliskipulagstillögu. Rangt sé hjá kæranda að afstaða Reykjavíkurborgar hafi fyrst komið fram í hinni kærðu umsögn. Með vísan til framangreinds sé ljóst að við meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi ekki verið brotið gegn andmælarétti kæranda, hvort sem litið sé til ákvæða skipulags- og byggingarlaga, stjórnsýslulaga eða meginreglna stjórnsýsluréttar.
Reykjavíkurborg telur rangt hjá kæranda að hið breytta deilskipulag skerði verðmæti eignar hans. Samkvæmt skipulaginu sem staðfest hafi verið árið 1963 sé gert ráð fyrir að heimilt sé að byggja á lóðinni fjögurra hæða hús fram við Laugaveginn. Lóðin sé um 18,5 m breið en hús skv. skipulaginu hafi mátt vera 13 metra djúp. Neðsta hæðin hafi átt að vera inndregin um 4,6 metra. Samtals hafi því mátt byggja á lóðinni 877 fermetra. Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi verði ekki heimilt að byggja út við götuna nema viðbyggingar á 1. hæð. Í stað þess verði heimilt að byggja eina hæð á suðurhluta baklóðarinnar og þriggja hæða hús nyrst á lóðinni. Heimilt sé að hafa kjallara undir báðum nýbyggingunum. Byggingarmagn á lóðinni skv. deiliskipulaginu sé 1417 fermetrar, þ.e. 540 fermetrum meira en skv. skipulaginu frá 1963. Byggingarmagnið á lóðinni sé því aukið. Þá telji Reykjavíkurborg að fleiri atriði í deiliskipulaginu hafi jákvæð áhrif á verðmæti lóðar kæranda umfram skipulagið frá 1963, s.s. möguleikinn á stærri jarðhæð en áður, breyttar bílastæðakröfur o.fl.
Þrátt fyrir að rétt væri hjá kæranda að verðmæti fasteignarinnar hafi lækkað leiði það ekki til þess að deiliskipulagið sé ólögmætt og ógildanlegt. Skipulags- og byggingarlögin geri ráð fyrir að skipulagsáætlanir geti leitt til tjóns fyrir eigendur fasteigna, sbr. 33. gr. laganna. Eigi þeir þá rétt á bótum úr sveitarsjóði eða að sveitarstjórn leysi fasteignina til sín. Vegna fullyrðinga kæranda skuli tekið fram að Reykjavíkurborg hafi aldrei sagt að kærandi þurfi að þola lækkun á verðmæti fasteignar sinnar bótalaust eins og látið sé liggja að í kæru. Reykjavíkurborg telji aftur á móti að verðmæti fasteignar kæranda hafi ekki lækkað við gildistöku hins nýja deiliskipulags. Sá ágreiningur, þ.e. hvort bótaskylda sé til staðar eða tjón hafi orðið, sé sjálfstætt mál og verði ekki rekið fyrir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, enda breyti það engu um gildi skipulagsins. Kærandi hafi hvorki óskað eftir viðræðum við Reykjavíkurborg um þann hluta málsins né hafi hann gert reka að því að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni.
Augljóst sé að lögmæt sjónarmið búi að baki þeirri breytingu sem gerð hafi verið á skipulagi reitsins, ekki bara hvað varði fasteign kæranda heldur skipulag reitsins í heild. Deiliskipulag reitsins frá 1963 hafi verið úrelt og löngu tímabært að endurskoða það m.t.t. gerbreyttra viðhorfa til húsaverndar og uppbyggingar. Með hinu nýja deiliskipulagi sé ekki bara fallið frá áformum um niðurrif Laugavegar nr. 1 heldur margra annarra húsa á reitnum. Ástæður þess að ákveðið hafi verið að falla frá heimild til niðurrifs Laugavegar nr. 1 séu þær að húsið sé friðað skv. ákvæðum laga um húsafriðun þar sem það hafi verið byggt árið 1848. Þá sé húsið merkilegt fyrir margra hluta sakir. Það hafi verið byggt af þýskum trésmið sem byggt hafi nokkur glæsilegustu húsin í upphafi timburhúsatímabilsins í Reykjavík. Það sé elsta húsið við Laugaveginn og með elstu húsum borgarinnar sem enn standi á upprunalegum stað. Úr breyttri notkun þess megi lesa hluta úr sögu borgarinnar auk þess sem verslað hafi verið í þessu elsta verslunarhúsi við Laugaveginn frá því um aldamótin 1900. Varðveislugildi þess á þeim stað sem það standi sé því mjög mikið vegna uppruna þess og sögu. Við deiliskipulagið hafi verið tekið mið af þessu án þess að skerða uppbyggingarmöguleika kæranda.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 5. febrúar 2003 um breytingu deiliskipulags staðgreinireits 1.171.0 er tekur til hluta Laugavegar og Bankastrætis til austurs, hluta Ingólfsstrætis til suðurs, hluta Hverfisgötu til vesturs og hluta Smiðjustígs til norðurs. Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Laugavegi 1.
Eins og að framan er rakið byggir málatilbúnaður kæranda m.a. á því að málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins hafi ekki verið virtar. Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjallað um kynningu, samþykkt og gildistöku deiliskipulags. Þar segir m.a. að eftir að sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst. Þegar frestur til athugasemda sé liðinn skuli sveitarstjórn fjalla um tillöguna á nýjan leik og í þeirri umfjöllun taka afstöðu til athugasemda sem borist hafi. Að því loknu skuli sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun hið samþykkta deiliskipulag ásamt athugasemdum og umsögnum um þær. Jafnframt beri sveitarstjórn að senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu umsögn sína um þær.
Í máli því sem hér er til meðferðar liggur fyrir að eftir að athugasemdarfresti lauk fjallaði skipulags- og byggingarnefnd um umdeilda tillögu og tók nefndin afstöðu til athugasemda sem henni bárust og tilkynnti þeim er athugasemdir gerðu við hana. Með vísan til þessa verður ekki fallist á það með kæranda að brotið hafi verið gegn andmælarétti hans enda hlaut tillagan lögboðna málsmeðferð.
Málatilbúnaður kæranda byggir einnig á því að hin kærða ákvörðun feli í sér að byggingarréttur á lóðinni verði skertur frá því sem heimilað var í eldra deiliskipulagi. Ástæður þær sem Reykjavíkurborg teflir fram vegna þessa eru þær helstar að húsið að Laugavegi 1 sé friðað, skv. ákvæðum laga um húsafriðun nr. 104/2001, ásamt því að það sé merkilegt fyrir margra hluta sakir. Verður að telja að hin kærða ákvörðun skipulagsyfirvalda borgarinnar sé reist á lögmætum og málefnalegum rökum. Verður því ekki fallist á ógildingu hennar vegna þessa.
Ekki verður heldur tekið undir sjónarmið kæranda þess efnis að hugsanleg verðrýrnun á eign hans vegna skipulagsbreytingarinnar eigi að leiða til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. Slík verðrýrnun gæti aftur á móti leitt til þess að hann öðlaðist rétt til skaðabóta samkvæmt ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, en um þann bótarétt fjallar úrskurðarnefndin ekki.
Framsetningu hins kærða deiliskipulags er þannig háttað að á uppdrætti þess segir að nánari markmið og forsendur deiliskipulagsins komi fram í heftinu „Miðborgarsvæði Reykjavíkur. Greinargerð og deiliskipulagsskilmálar fyrir staðgreinireit 1.171.0. Á uppdrætti deiliskipulagsins er í engu getið um landnotkun en það er gert í fyrrgreindu hefti, nánar tiltekið í 1. kafla greinargerðar/skilmálum þess. Kemur þar fram að innan svæðisins sé heimil sú notkun sem samræmist reglum þar um skv. Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016. Áfram segir síðan: „Í því sambandi er rétt að minna á að sérstakar takamarkanir gilda um starfsemi á nokkrum götuhliðum jarðhæða innan miðborgarinnar (sjá kort nr. 2 hér að neðan yfir skilgreind götusvæði og reglur um útreikning götusvæða, fskj. 2). Reglur um málsmeðferð vegna þessa eru fylgiskjal með skilmálum þessum (sjá fskj. nr. 1).“ Kort nr. 2 sem vitnað er til hér að ofan ber heitið „Skilgreind götusvæði“ og kemur þar fram að svæðinu austan Ægisgötu og vestan Snorrabrautar sé skipt í miðborgarkjarna, aðalverslunarsvæði og hliðarverslunarsvæði. Kort þetta er án mælikvarða.
Í gr. 5.4.2 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að á skipulagsuppdrætti deiliskipulags skuli setja fram þá stefnu sem kynnt sé í skipulagsgreinargerð fyrir skipulagssvæðið og bundin sé í þeim skipulagsskilmálum sem þar eru settir fram. Þá skuli skipulagsskilmálar deiliskipulags, eftir því sem svæðið gefi tilefni til, koma fram á skipulagsuppdrætti og kveða m.a. á um landnotkun, lóðastærðir, umferðarsvæði og byggingarreiti. Ennfremur segir að skipulagsskilmálar skuli einnig eftir atvikum kveða á um önnur atriði en ofangreind eftir aðstæðum hverju sinni, s.s. þrengri skilgreiningu landnotkunar á einstökum reitum, lóðum, byggingum eða byggingarhlutum.
Telja verður að framsetning deiliskipulagsuppdráttar hinnar kærðu ákvörðunar, hvað landnotkun varðar, sé ekki í samræmi við fyrrgreint ákvæði skipulagsreglugerðar. Einnig er efnisinnihald þeirra skjala, sem vitnað er til og eiga að ákvarða landnotkun svæðisins, um sumt ruglingslegt og óskýrt og til þess fallið að valda misskilningi. Þegar litið er til þess að á umræddu skipulagssvæði er fyrir gróin byggð með mótaða landnotkun og að einstakir fasteignaeigendur leiða rétt af hinu kærða skipulagi þykir ekki, þrátt fyrir þessa óskýru framsetingu deiliskipulagsákvörðunarinnar, alveg nægjanleg ástæða til þess að ógilda hana.
Að öllu framanrituðu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Varakrafa kæranda felur annars vegar í sér kröfu um að úrskurðarnefndin breyti hinu kærða deiliskipulagi og hins vegar að gildistöku þess verði frestað. Hvorugt er á valdi úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er úrskurðarnefndinni falið vald til að meta lögmæti kærðra ákvarðana en ekki til að breyta þeim. Þá hefur úrskurðarnefndin heimild til að kveða upp úrskurð um stöðvun framkvæmda en ekki er heimild í lögum fyrir nefndina til að fresta gildistöku skipulagsákvarðana sveitarfélaga. Varakröfu kæranda er af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar ásamt töfum við gagnaöflun.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 5. febrúar 2003 um breytingu deiliskipulags fyrir staðgreinireit 1.171.0 er tekur til svæðis innan Laugavegar, Bankastrætis, Ingólfsstrætis, Hverfisgötu og Smiðjustígs.
Varakröfu kæranda er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
______________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Aðalheiður Jóhannsdóttir