Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2002 Bankastræti

Ár 2006, fimmtudaginn 6. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar- verkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson, arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2002, kæra eiganda hússins að Bankastræti 3, Reykjavík á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. júlí 2002, á deiliskipulagi staðgreinireita 1.170.1 og 1.170.2 er taka til svæðis innan Lækjargötu, Bankastrætis, Þingholtsstrætis og Amtmannsstígs. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. ágúst 2002, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir E, f.h. H, Bankastræti 3, Reykjavík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. júlí 2002 á deiliskipulagi staðgreinireita 1.170.1 og 1.170.2, er taka til hluta Lækjargötu til austurs, hluta Bankastrætis til suðurs, hluta Þingholtsstrætis til vesturs og hluta Amtmannsstígs til norður.  Borgarráð staðfesti ákvörðunina hinn 16. júlí 2002 og auglýsing um gildistöku hennar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. janúar 2003. 

Skilja verður kröfu kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Í febrúar árið 2000 hófst vinna við gerð deiliskipulags miðborgar Reykjavíkur og hinn 16. janúar 2002 var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar tillaga Batterísins ehf. – arkitekta að deiliskipulagi fyrir staðgreinireiti 1.170.1 og 1.170.2, sem afmarkast af hluta Lækjargötu, hluta Bankastrætis, hluta Þingholtsstrætis og hluta Amtmannsstígs, ásamt drögum að greinargerð og skilmálum.  Á þeim fundi var málinu frestað og tillögunni vísað til umsagnar menningarmálanefndar.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 6. mars 2002 var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu að deiliskipulagi.  Vinna við deiliskipulag reits nr. 1.170.0 var ekki lokið en á honum standa margar opinberar byggingar, m.a. Stjórnarráð Íslands. 

Deiliskipulagstillagan var til kynningar frá 10. maí til 21. júní 2002 og var athugasemdafrestur til 21. júní 2002.  Tvær athugasemdir bárust, þar af önnur frá kæranda.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 10. júlí s.á. var málið tekið fyrir að nýju og umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir, dags. 1. júlí 2002, lögð fram.  Á fundinum var deiliskipulagstillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og vísað til borgarráðs.  Staðfesti borgarráð afgreiðslu nefndarinnar hinn 16. júlí 2002. 

Í kjölfar þessa var athugasemdaraðilum tilkynnt um afgreiðslu málsins.  Var þeim send umsögn skipulagsfulltrúa og leiðbeint um kærurétt og kærufrest með bréfi, dags. 16. maí 2002.  Tillagan, ásamt fylgiskjölum, var að því loknu send til afgreiðslu Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. janúar 2003. 

Lóðir á svæði því sem hið kærða deiliskipulag tekur til eru að mestu fullbyggðar.  Þó felur skipulagið m.a. í sér heimild til hækkunar húsa nr. 4 og 6 við Bankastræti. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kröfu sína á því að deiliskipulag alls Bankastrætisins tengist þar sem að breytingar á byggingum á svæðinu komi til með að hafa áhrif á aðrar nærliggjandi byggingar.  Vegna þessa sé ógerlegt að skipuleggja reiti þá sem hér um ræði sem sjálfstæðar og óháðar einingar. 

Einnig sé bent á að megintilgangur nýs deiliskipulags sé að skapa samræmda heild og heildstæða götumynd, m.a. með því að byggð norðan Bankastrætis og Laugavegar sé tryggð ákveðin birtuskilyrði með því að hafa byggðina hærri norðan megin við götu.  Kærandi telur að verði leyft að reisa tvær hæðir og ris ofan á húsið við Bankastræti 4 og 6 verði þessi boðskapur að engu hafður.  Gæta verði jafnvægis við hönnun svæðanna og að ákvarðanataka hafi ekki óbærileg áhrif á næstu svæði. 

Kærandi kveðst hafa ítrekað óskað eftir því að fá nýtingarhlutfall á lóðinni að Bankastræti 3 hækkað með því að nýta lóðina að lóðamörkum í austri, norðri og til vesturs með nýbyggingu sem falli að næstu húsum.  Þess sé óskað að lóðir norðan götu öðlist sama rétt til bygginga og lóðir sunnan götu.  Verði ekki á það fallist áskilji kærandi sér rétt til skaðabóta. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Í greinargerð Reykjavíkurborgar, móttekinni hinn 23. september 2004, er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.  Varðandi þá gagnrýni kæranda að ekki skuli vera gert samræmt deiliskipulag fyrir Bankastræti sunnan og norðan götu bendir Reykjavíkurborg á að í skipulags- og byggingarlögum komi fram að deiliskipulag sé skipulagsáætlun fyrir afmarkaða reiti innan sveitarfélags sem byggð sé á aðalskipulagi og kveði nánar á um útfærslu þess.  Í 2. mgr. 23. gr. laganna komi jafnframt fram að deiliskipulag skuli gera á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. 

Í skipulagsforsendum deiliskipulagsins komi fram að reitirnir séu í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 skilgreindir sem miðborgarsvæði og í Þróunaráætlun miðborgar sem V-2.1 (hliðarverslunarsvæði) að undanskildum lóðum meðfram Bankastræti sem skilgreindar séu sem V-1.1 (aðalverslunarsvæði). 

Vinna við deiliskipulagningu allra svokallaðra Bankastrætisreita hafi hafist á sama tíma og verið í höndum sama skipulagsráðgjafa einmitt með það í huga að tekið yrði tillit til heildstæðar götumyndar.  Reitur 1.170.0 hafi ákveðna sérstöðu en á honum sé m.a. Stjórnarráð Íslands og Íslenska Óperan.  Meginástæða þess að dregist hafi að ljúka deiliskipulagi reitsins sé sú að gera þurfi könnun á framtíðahúsnæðisþörf og staðsetningu Íslensku Óperunnar.  Nú sjái fyrir endann á þeirri vinnu. 

Ekki sé hægt að sjá að það geti valdið ógildingu deiliskipulagsins þótt ekki hafi verið lokið við deiliskipulagningu reits 1.170.0 á sama tíma.  Almennt sé deiliskipulag unnið fyrir afmarkaðan staðgreinireit og séu ekki fordæmi fyrir því að það hafi valdið ógildingu slíks deiliskipulags á þeim grundvelli að nauðsynlegt hafi verið að hafa stærra svæði undir með vísan til þess að skipulag eins reits hafi áhrif á annan.  Við deiliskipulagningu einstakra reita sé að sjálfsögðu haft til hliðsjónar hvaða áhrif breytingar muni hafa á nánasta umhverfi þótt það sé ekki innan þess reits sem skipulagið nái til, enda hafi tillögurnar verið unnar af sama ráðgjafa og vinna við þær hafist á sama tíma. 

Þá sé einnig bent á að núverandi hús við Bankastræti 4 sé byggt árið 1927.  Í upphafi hafi verið gert ráð fyrir því að á lóðinni risi fimm hæða hús.  Núverandi hús á lóðinni beri það með sér að ætíð hafi verið ætlunin að byggt yrði ofan á það.  Sé því ekki hægt að fallast á að ekki hefði mátt búast við því að á lóðunum myndi vera heimilað meira byggingarmagn en standi á þeim núna.  Ákvæði deiliskipulagsins um heildstæða götumynd sé einmitt fylgt með því að heimila meira byggingarmagn á lóðunum við Bankastræti 4 og 6 og fylgi þ.a.l. þeirri götumynd sem gert hafi verið ráð fyrir og hafi nú þegar risið við Bankastræti.  Ekki hafi verið sýnt fram á að skuggavarp af heimiluðu byggingarmagni hafi óviðunandi áhrif á fasteign kæranda að Bankastræti 3. 

Varðandi hækkað nýtingarhlutfall fasteignar kæranda upplýsir Reykjavíkurborg að skipulagsráðgjafar sem vinni að tillögu að deiliskipulagi vegna reits 1.170.0 hafi til skoðunar óskir um aukið nýtingarhlutfall og hafi þegar verið fallist á að heimila frekari uppbyggingu á lóðinni.  Ljóst sé þó að vanda verði til þess með vísan til sérstöðu hússins að Bankastræti 3 og reitsins í heild. 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til skipulags- og byggingarsviðs, dags. 4. janúar 2005, var tilkynnt að nefndin myndi, við úrlausn kærumáls þessa m.a. kanna hvort framsetning deiliskipulagsins samrýmdist ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og ákvæðum skipulagsreglugerðar um framsetningu skipulagsáætlana.  Tilefnið var það að í hinu kærða deiliskipulagi sem og í öðru kærðu deiliskipulagi er fyrir nefndinni lá var um landnotkun vísað til Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 og Þróunaráætlunar miðborgarinnar.  Var borgaryfirvöldum gefinn kostur á að lýsa viðhorfum sínum til þessara sjónarmiða og var viðbótargreinargerð móttekin hinn 18. janúar 2006. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að hið kærða deiliskipulag samanstandi af skipulagsuppdrætti, dags. 8. janúar 2002, lagfærðum 26. júlí 2002 og greinargerð sem sé sem sett fram á A4 blöðum og sé kölluð „Miðborgarsvæði Reykjavíkur, Greinargerð og skilmálar með deiliskipulagi fyrir staðgreinireiti 1.170.1 og 1.170. sem afmarkast af Lækjargötu, Bankastræti, Þingholtsstræti og Amtmannsstíg (fylgir deiliskipulagsuppdrætti dags. 8.1 2002)“.  Greinargerðin sé dagsett 16. janúar 2002.  Í greinargerðinni séu einnig skilmálar skipulagsins. 

Á skipulagsuppdrættinum sé gerð grein fyrir lóðaafmörkun, byggingarreitum, núverandi byggð auk þess sem sýndar eru götumyndir sem sýna breytingarnar o.fl.  Á uppdrættinum sé útdráttur úr greinargerð skipulagsins þar sem gerð sé grein fyrir afmörkun svæðisins, núverandi ástandi og meginþáttum skipulagsins auk þess sem gerð sé grein fyrir breytingum einstakra lóða í töflu.  Tilvísun til greinargerðar skipulagsins á uppdrættinum sé ekki alveg nákvæm en vísað sé til þess að öðru leyti gildi almennir deiliskipulagsskilmálar fyrir Miðborgarsvæði Reykjavíkur, dags. í  janúar 2002. 

Bæði greinargerð deiliskipulagsins og uppdrátturinn séu sett fram með sama hætti eða sambærilegum og deiliskipulagsáætlanir sem unnar hafi verið á svipuðum tíma af öllum reitum við Laugaveginn og annarstaðar í miðborginni.  Eins og fram komi í inngangi greinargerðarinnar byggi skilmálarnir á Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016, sem í gildi hafi verið á þeim tíma, og stefnu sem sett hafi verið fram í einstökum köflum Þróunaráætlunar miðborgar sem samþykktir voru í borgarráði og borgarstjórn.  Byggi greinargerðin og skilmálarnir á fyrirmynd af greinargerð og skilmálum sem notaðir hafi verið við gerð deiliskipulagsáætlana af öllum reitum á miðborgarsvæðinu en sniðnir að hverjum reit fyrir sig í hverju tilviki. 

Um landnotkun sé fjallað í kafla 1 í skilmálum greinargerðarinnar.  Í kafla 1.1 komi fram að innan svæðisins sé heimil sú notkun sem samræmist reglum þar um samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 m.s.br.  Séu reitirnir báðir innan svæðis sem skilgreint sé sem miðborg-miðsvæði samkvæmt aðalskipulagi eins og gerð sé grein fyrir í kafla 1.2 í skilmálunum.  Í skilmálunum sé minnt á að sérstakar takmarkanir gildi um starfsemi á nokkrum götuhliðum jarðhæða innan miðborgarinnar samkvæmt aðalskipulagi.  Sé í því sambandi vísað til korts sem sýni götuhliðarnar þar sem takmarkanirnar gildi og það sýnt í greinargerðinni.  Nánar sé síðan fjallað um það í kafla 1.2 í skilmálunum.  Tekið sé fram að heimilt sé í deiliskipulagi fyrir hvert svæði/reit að kveða nánar á um notkun einstakra lóða, hæða eða hluta bygginga.  Í skipulaginu sé það ekki gert varðandi þá reiti sem skipulagið taki til.  Þó sé tekið fram að óheimilt sé að veita leyfi fyrir starfsemi nýrra næturklúbba með vísan til samþykktar borgaráðs frá 25. júlí 2000. 

Í kafla 1.2 sé tekið fram að sé sótt um breytingu á jarðhæð skilgreinds götusvæðis samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 skuli slík breyting kynnt fyrir hagsmunaðilum á svæðinu í samræmi við reglur þar um sem fylgi skipulaginu sem fylgiskjal nr. I.  Síðan sé gerð grein fyrir hvaða götuhlið sé að hluta innan svæðisins og að allar húseignir á reitunum séu í miðborg-miðhverfi samkvæmt skilgreiningu aðalskipulags um landnotkun. 

Hvað landnotkun varði sé í deiliskipulaginu vísað til gildandi landnotkunar samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur sem í gildi hafi verð á þeim tíma er deiliskipulagið hafi verið samþykkt, að öðru leyti en því að bannað sé að opna nýja næturklúbba.  Landnotkun svæðisins sé óbreytt í núgildandi aðalskipulagi, Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. 

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. skipulags- og byggingarlaga sé í aðalskipulagi sett fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun o.fl. fyrir 12 ára tímabil.  Samkvæmt 3. málsl. 4. mgr. 23. gr. sömu laga skuli í deiliskipulagi útfæra nánar ákvæði aðalskipulags um viðkomandi svæði.  Í 2. mgr. greinar 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segi eftirfarandi:

„Í deiliskipulagi er stefna og ákvæði aðalskipulags, s.s. um þéttleika byggðar og byggðamynstur, nánar útfærð fyrir viðkomandi skipulagssvæði.  Nýtingarhlutfall skal ákveða fyrir landnotkunarreiti, götureiti eða einstakar lóðir.  Heimilt er að skilgreina landnotkun þrengra í deiliskipulagi en gert er í aðalskipulagi.  Heimilt er að kveða á um mismunandi notkun einstakra hæða eða hluta í byggingum.  Stærðir lóða skal ákveða í deiliskipulagi hverju sinni í samræmi við landfræðilegar aðstæður, húsagerð, staðsetningu húsa á lóðum og aðgengi að samgöngum og opnum svæðum, sbr. einnig ákvæði byggingarreglugerðar gr. 75.“ 

Í 3. mgr. greinar 4.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem fjalli um hverju skuli gera grein fyrir í deiliskipulagi á miðsvæðum, segi:

„Í deiliskipulagi skal gera grein fyrir byggingarmagni og nánar skilgreindri landnotkun á einstökum lóðum og reitum og einstökum byggingarhlutum, eftir því sem ástæða þykir til. Einnig skal þar gera grein fyrir nýtingu útisvæða, s.s. torga og almenningsgarða, trjágróðri, leiksvæðum, bílastæðum og öðru sem þurfa þykir.“ 

Með vísan til framangreinds sé heimilt en ekki skylt að kveða nánar á um landnotkun í deiliskipulagi en gert sé í aðalskipulagi.  Löng venja sé fyrir því á Íslandi að taka ákvarðanir um landnotkun í aðalskipulagi sem síðan sé vísað til í deiliskipulagi.  Óalgengt sé hins vegar að gerðar séu frekari takmarkanir á landnotkun í deiliskipulagsáætlunum hér á landi.  Hafi úrskurðarnefndin ekki gert athugasemdir við þessa framkvæmd hingað til. 

Um landnotkun á umræddum götureitum fari því eftir Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 en landnotkunarþáttur þess varðandi miðborgina sé nokkuð ítarlegur en um landnotkun í miðborginni sé fjallað í kafla 3.1.5 í „Greinargerð I“ auk þess sem „Greinargerð III“ fjalli eingöngu um landnotkun í miðborginni.  Þar segi m.a. á bls. 5:

„Rétt er að geta þess í upphafi að þar sem annað er ekki sérstaklega tekið fram gildir stefnumörkun sem kemur fram í kafla 3.1.5. í Greinargerð I-Stefnumörkun . Heimilt er í deiliskipulagi að útfæra notkunina nánar þ.m.t. setja tiltekna notkunarflokka á einstakar byggingar, hæðir bygginga, lóðir o.s.frv.“

Með vísan til framangreinds sé ljóst að framsetning sú sem beitt sé í hinu kærða deiliskipulagi samræmist ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, skipulagsreglugerðar ásamt stefnumörkun og framsetningu aðalskipulagsins.

Minnt sé á að „Greinargerð III“, með Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, hafi upphaflega verið staðfest sem breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016.  Hafi hún verið í gildi þegar hið kærða deiliskipulag var samþykkt.  Óverulegar breytingar hafi verið gerðar á þeim kafla við gerð núgildandi aðalskipulags.  Því megi segja að sá hluti aðalskipulagsins hafi verið staðfestur tvisvar og í bæði skiptin í fullu samráði við Skipulagsstofnun og án athugasemda af hálfu umhverfisráðherra. 

Þar sem úrskurðarnefndin sé ekki valdbær til að endurskoða aðalskipulagsáætlanir og þar sem aðalskipulagið sé ekki til umfjöllunar í þessu máli hafi enga þýðingu, hvað landnotkun svæðisins varði, þó deiliskipulagið yrði fellt úr gildi þar sem sama landnotkun gildi áfram samkvæmt aðalskipulaginu. 

Jafnvel þó úrskurðarnefndin hafi athugasemdir við framsetningu landnotkunar í deiliskipulaginu sé það mat Reykjavíkurborgar að það geti ekki leitt til ógildingar skipulagsins í heild enda myndi slík ákvörðun vera mjög íþyngjandi gagnvart eigendum allra fasteigna á reitnum.  Eðlilegt væri og í samræmi við sjónarmið um meðalhóf, telji nefndin þrátt fyrir framangreint að landnotkunarkafli skipulagsins samræmist ekki skipulags- og byggingarlögum, að sá hluti skipulagsins yrði felldur úr gildi og Reykjavíkurborg gert að endurskoða framsetningu hans.

Þá gerir Reykjavíkurborg kröfu um að kæru kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni án kröfu þar sem nefndin sé ekki valdbær til slíkrar ákvarðanatöku sem krafist sé. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. júli 2002 á deiliskipulagi staðgreinireita 1.170.1 og 1.170.2, er tekur til hluta Lækjargötu til austurs, hluta Bankastrætis til suðurs, hluta Þingholtsstrætis til vesturs og hluta Amtmannsstígs til norðurs.  Felur hið kærða deiliskipulag m.a. í sér heimild til hækkunar húsanna nr. 4 og 6 við Bankastræti.  Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Bankastræti 3, gegnt húsunum að Bankastræti 4 og 6, en hin kærða ákvörðun tekur ekki til hans eignar.  Er málatilbúnaður kæranda fyrst og fremst byggður á því að deiliskipuleggja þyrfti stærra svæði en gert væri með hinni kærðu ákvörðun með tilliti til jafnræðis um nýtingu og götumyndar. 

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags.  Sú meginregla gildir skv. 2. mgr. sömu greinar að gera skuli deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Vinna við gerð deiliskipulags miðborgarinnar hófst á árinu 2000.  Í skipulagsferlinu var miðborgarsvæðinu skipt í nokkra skipulagsreiti og hver þeirra um sig tekinn til skipulagsmeðferðar.  Í máli þessu setur kærandi fram þá athugasemd að efnisrök standi til þess að Bankastrætið í heild sinni sé deiliskipulagt en ekki skipt niður í nokkra skipulagsreiti enda komi slíkt í veg fyrir heildstæða götumynd.  Í gr. 3.1.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að í þéttbýli skuli deiliskipulag að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit og hefur verið farið að þessari reglu við hina umdeildu deiliskipulagsgerð. 

Framsetningu hins kærða deiliskipulags er þannig háttað að á uppdrætti þess segir varðandi skipulagsforsendur að reitirnir séu í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 skilgreindir sem miðborgarsvæði.  Þá segir að í Þróunaráætlun miðborgar séu þeir skilgreindir sem V.2.1 (hliðarverslunarsvæði) að undanskildum lóðum meðfram Bankastræti sem skilgreindar séu sem V.1 (aðaverslunarsvæði).  Á uppdrætti deiliskipulagsins er í engu getið um landnotkun en það er gert í 1. kafla greinargerðar/skilmálum þess.  Kemur þar fram að innan svæðisins sé heimil sú notkun sem samræmist reglum þar um skv. Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 m.s.br.  Áfram segir síðan:  „Í því sambandi er rétt að minna á að sérstakar takamarkanir gilda um starfsemi á nokkrum götuhliðum jarðhæða innan miðborgarinnar (sjá kort nr. 2 hér að neðan  yfir skilgreind götusvæði og reglur um útreikning götusvæða, fskj. 2).  Reglur um málsmeðferð vegna þessa eru fylgiskjal með skilmálum þessum (sjá fskj. nr. 1).“  Kort nr. 2 sem vitnað er til hér að ofan ber heitið „Skilgreind götusvæði“ og kemur þar fram að á svæðinu austan Ægisgötu og vestan Snorrabrautar sé skipt í miðborgarkjarna, aðalverslunarsvæði og hliðarverslunarsvæði.  Kort þetta er án mælikvarða og í svart/hvítu.  Á deiliskipulagsuppdrættinum segir enn fremur:  „Að öðru leyti gilda „Almennir deiliskipulagsskilmálar fyrir Miðborgarsvæði Reykjavíkur“, dags. janúar 2002.“ 

Í 1. mgr. gr. 5.1.2 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að á skipulagsuppdrætti skuli sýna fyrirhugaða landnotkun og þróun byggðar í samræmi við þá stefnumörkun sem kynnt sé í skipulagsgreinargerð.  Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að stærð uppdráttar skuli vera samkvæmt ÍST 1, eftir því sem við verði komið.  Telja verður að framsetning deiliskipulagsuppdráttar hinnar kærðu ákvörðunar, hvað landnotkun varðar, sé ekki í samræmi við fyrrgreint ákvæði skipulagsreglugerðar og efnisinnihald þeirra skjala, sem vitnað er til og eiga að ákvarða landnotkun svæðisins, er um sumt ruglingslegt og óskýrt.  Þegar litið er til þess að á umræddu skipulagssvæði er fyrir gróin byggð með mótaða landnotkun og að einstakir fasteignareigendur leiða rétt af hinu kærða skipulagi þykir  ekki alveg nægjanleg ástæða til þess að ógilda deiliskipulagið þrátt fyrir framangreinda ágalla á framsetningu og skýrleika þess. 

Húseign kæranda er á miðborgarsvæði við tiltölulega þrönga verslunargötu þar sem fyrir er þétt byggð og hátt nýtingarhlutfall lóða, sem gerir það að verkum að húsaraðir beggja vegna götu hafa áhrif hvor á aðra hvað varðar birtuflæði og skuggavarp.  Aukið byggingarmagn í þá veru sem í hinu kærða skipulagi felst við greindar aðstæður verður ekki talið snerta grenndarhagsmuni kæranda þannig að ógilda beri hina kærðu ákvörðun. 

Að öllu þessu virtu verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 10. júlí 2002, sem staðfest var í borgarráði Reykjavíkur hinn 16. júlí 2002, um samþykkt deiliskipulags staðgreinireita 1.170.1 og 1.170.2, fyrir hluta Lækjargötu, hluta Bankastrætis, hluta Þingholtsstrætis og hluta Amtmannsstígs í Reykjavík. 

 

 

 

________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________         _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Geirharður Þorsteinsson