Ár 2006, fimmtudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.
Fyrir var tekið mál nr. 10/2006, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. apríl 2004 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Skúlagötusvæði við Lindargötu og breytingu á því skipulagi sem skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti hinn 12. janúar 2005 varðandi lóðina að Lindargötu 27-29 í Reykjavík. Þá er kærð veiting byggingarleyfis fyrir átta hæða íbúðarhúsi á lóðinni að Lindargötu 27-29 sem byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti hinn 22. mars 2005.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. febrúar 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðfinna J. Guðmundsdóttir hdl., f.h. D, K, K og M, íbúa að Lindargötu 25 í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. apríl 2004 að samþykkja deiliskipulag fyrir Skúlagötusvæði við Lindargötu og breytingu á því skipulagi sem skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti hinn 12. janúar 2005 varðandi lóðina að Lindargötu 27-29 í Reykjavík. Þá er kærð veiting byggingarleyfis fyrir átta hæða íbúðarhúsi á lóðinni að Lindargötu 27-29 sem byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti hinn 22. mars 2005.
Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda skv. hinu kærða byggingarleyfi þar til málsúrslit liggi fyrir.
Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn er málið varða og greinargerðir Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa og þykir málið nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
Málavextir: Þann 5. nóvember 2003 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi reits 1.152.4, sem afmarkast af Hverfisgötu, Klapparstíg, Lindargötu og Vatnsstíg, og var sú afgreiðsla staðfest af borgarráði 11. nóvember s.á. Áður hafði nefndin kynnt tillöguna fyrir hagsmunaaðilum.
Á fundi nefndarinnar hinn 7. apríl 2004 var skipulagstillagan tekin fyrir að lokinni auglýsingu en athugasemdir höfðu borist frá tveimur aðilum. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti auglýsta tillögu með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda og vísaði málinu til borgarráðs sem samþykkti bókunina á fundi sínum 13. apríl 2004.
Hinn 26. nóvember 2004 samþykkti skipulagsfulltrúi á embættisafgreiðslufundi sínum að grenndarkynna tillögu að breytingu á ofangreindu deiliskipulagi, að því er varðaði lóðina að Lindargötu 27 og 29. Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Lindargötu 20, 26, 28 og 30, Skúlagötu 10 og 12 og Klapparstíg 1 og 1a en engar athugasemdir bárust. Skipulagsráð Reykjavíkur staðfesti deiliskipulagsbreytinguna hinn 12. janúar 2005.
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti síðan byggingarleyfi á umræddri lóð fyrir átta hæða íbúðarhúsi á grundvelli hins breytta deiliskipulags og mun hafa verið hafist handa við framkvæmdir í nóvember 2005.
Í kjölfar þess settu kærendur sig í samband við skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur og voru upplýst um hina grenndarkynntu deiliskipulagsbreytingu og í bréfi, dags. 12. desember sl., óskuðu þeir eftir endurupptöku málsins. Á fundi borgarráðs hinn 20. desember 2005 var samþykkt að vísa málinu til meðferðar lögfræðiskrifstofu stjórnsýslu- og starfsmannasviðs. Sviðsstjóri fundaði með kærendum vegna málsins og urðu lyktir þær, skv. minnisblaði sviðsstjóra, dags. 15. og 19. janúar 2006, sem sent var tveimur kærenda, að skilyrði væru hvorki fyrir hendi til að endurupptaka málið né til afturköllunar stjórnvaldsákvörðunarinnar.
Hafa kærendur skotið fyrrgreindum deiliskipulagsákvörðunum og veittu byggingarleyfi til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir hafi ekki fengið vitneskju um hinar kærðu deiliskipulagsákvarðanir fyrr en í nóvember 2005 og hafi þá verið farið fram á endurupptöku deiliskipulagsins hinn 12. desember s.á. vegna ágalla á málsmeðferð. Með bréfi forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu, dags. 19. desember 2005, til borgarráðs hafi verið óskað eftir heimild til að afturkalla skipulagsbreytinguna frá janúar 2005 með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga á þeim forsendum að um hafi verið að ræða ógildanlega ákvörðun. Með bréfi borgarritara, dags. 19. janúar 2006, hafi kærendum verið gert kunnugt um að umdeilt deiliskipulag yrði ekki afturkallað. Á því sé byggt að þá fyrst hafi kærufrestur byrjað að líða og sé kæran því innan kærufrests.
Fyrir liggi að deiliskipulagið frá 13. apríl 2004 hafi verið auglýst í dagblöðum lögum samkvæmt en einnig sent íbúum sem borgin taldi að hagsmuna hefðu að gæta. Kærendur hafi ekki verið þeirra á meðal þó svo hús þeirra standi við hlið lóðarinnar nr. 27 við Lindargötu. Hefðu þeir þó átt að vera þeir aðilar sem hvað mestra hagsmuna hefðu að gæta af umræddum breytingum. Samkvæmt grein 3.2 í skipulagsreglugerð eigi að leitast við að marka stefnu og áherslur skipulagstillögu í sem mestri samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaðila og kynna þeim áform um skipulagsgerðina og leita eftir skoðunum þeirra varðandi áherslur. Skilja verði ákvæðið svo að yfirvöld verði við slíkt að gæta jafnræðis meðal borgaranna en það hafi ekki verið gert heldur hafi aðilum verið mismunað og jafnræðis ekki gætt þar sem borgin hafi eingöngu kynnt tillöguna fyrir einstökum aðilum en ekki kærendum.
Áður en umrætt deiliskipulag hafi verið samþykkt 13. apríl 2004 hafi verið í gildi deiliskipulag fyrir svæðið frá janúar 1985 en fyrir lóðina nr. 29 við Lindargötu hafi verið samþykkt deiliskipulag 21. janúar 2003. Í greinargerð með deiliskipulaginu frá árinu 2004 komi fram að helstu breytingarnar séu aukið leiksvæði fyrir leiksskóla, lóðirnar nr. 27 og 29 við Lindargötu verði sameinaðar og lóðarmörk þeirra færð lengra til norðurs. Að öðru leyti sé gert ráð fyrir uppbyggingu á svæðinu með svipuðum hætti og fyrra skipulag hafi gert ráð fyrir. Sama orðalag sé notað í auglýsingunum sem birtust í blöðunum. Í greinargerðinni sé síðan vísað í töflu með skilmálum einstakra lóða. Í töflunni komi fram að ekkert nýtingarhlutfall sé á lóðunum nr. 27 og 29 við Lindargötu en eftir sameininguna verði það 2,51 og heimilt sé að byggja allt að einn metra út fyrir skilgreindan byggingarreit á annarri hæð og ofar. Í uppdráttum sem fylgi komi fram að ekkert hús sé á lóðunum fyrir skipulagsbreytinguna en eftir hana megi byggja á lóðinni nr. 27 fjórar hæðir, kjallara og ris og á lóðinni nr. 29 sex hæðair, kjallara og ris. Hús kærenda á nr. 25 sé skilgreint sem hluti af verndaðri götumynd, tvær hæðir kjallari og ris, og sé nýtingarhlutfallið hækkað úr 0,69 upp í 0,75 og gert ráð fyrir að reisa megi viðbyggingu garðmegin án fjölgunar bílastæða. Liggi alveg ljóst fyrir að miklir hagsmunir séu og hafi verið í húfi fyrir kærendur vegna umrædds deiliskipulags enda hús þeirra skilgreint sem hluti af verndaðri götumynd sem varla eigi við rök að styðjast eftir að við hlið þess hafi verið heimiluð bygging húss upp á margar hæðir.
Hinn 12. janúar 2005 hafi síðan verið gerð breyting á deiliskipulaginu með grenndarkynningu sem ekki hafi náð til kærenda þótt þeir eigi verulegra hagsmuna að gæta í málinu og þar með hafi verið gengið á persónulegan og lögvarðan rétt þeirra. Með breytingunni hafi lágmarkshæð á vestari hluta nýbyggingarinnar við Lindargötu 27 verið lækkuð en mörk efstu hæðar að Lindargötu 29 færð í sömu hæð lengra til vesturs og inn á lóðina nr. 27. Með þessari breytingu hafi því hluti af nýbyggingunni á lóðinni nr. 27 verið lækkaður en hluti af henni settur í sömu hæð og nýbyggingin á lóðinni nr. 29. Þá hafi verið heimilaður bílastæðakjallari undir húsinu, lóðarmörk færð til norðurs og veitt heimild til að byggja allt að einn metra út fyrir skilgreindan byggingarreit á fyrstu hæð og ofar við Lindargötu 27 en hefði áður verið á annarri hæð og ofar.
Deiliskipulagsbreytingin sé ólögmæt þar sem gengið hafi verið framhjá kærendum við grenndarkynningu hennar og sjónarmið kærenda aldrei komist að í málinu. Ákvörðunin sé íþyngjandi fyrir kærendur og takmarki réttindi þeirra að verulegu leyti, bæði persónuleg og fjárhagsleg. Á grundvelli umrædds deiliskipulags hafi síðan verið veitt byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóðinni nr. 27 og 29 við Lindargötu í samræmi við deiliskipulagið frá 12. janúar 2005. Af hálfu kærenda sé á því byggt að svo verulegir gallar hafi verið á kynningu deiliskipulagsbreytinganna og um leið lögmæti ákvörðunarinnar, að byggingarleyfi sem veitt hafi verið á grundvelli þess sé ógilt. Þessu til stuðnings sé vísað til álits umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 2210/1997.
Þá telji kærendur að forsendur fyrir hinni vernduðu götumynd séu brostnar. Hið nýja skipulag hafi valdið því að verðmæti fasteignar þeirra hafi lækkað, nýtingarmöguleikar hennar hafi skerst frá því sem áður hafi verið auk þess sem hún hafi rýrnað svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður. Skuggavarp hafi aukist enda byggingin við hliðina of há. Þó svo að hluti byggingarinnar sem standi á lóðinni nr. 27 hafi verið lækkaður um 1,5 metra þá komi á móti að hluti byggingarinnar hafi verið hækkaður um 5,4 metra. Telji kærendur að möguleikarnir á því að nýta lóð þeirra hafa skerst verulega með deiliskipulagsbreytingunni samþykktri 12. janúar 2005 vegna hækkunar á húsinu að hluta, m.a. vegna aukins skuggavarps. Kærendur hafi nýlega fengið samþykki fyrir svölum á annarri hæð húss síns sem nú komi að litlum notum vegna skuggavarpsins og nálægðar við nýbygginguna. Þá sé til lítils að byggja við húsið viðbyggingu þegar umrædd nýbygging muni rísa svo nálægt eign þeirra. Aukið ónæði og óþægindi muni stafa af hinu nýja húsi við byggingu bílastæðakjallara og ekki hafi verið athugað hvaða áhrif bygging hans muni hafa á hús kærenda. Bent sé á að í 4. mgr. gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segi að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar. Fyrirhuguð bygging sé í andstöðu við heildaryfirbragð þess svæðis sem til stóð að vernda. Hafi upphaflega verið við það miðað að mörk varðandi uppbyggingu Skuggahverfis ætti að vera við lóð nr. 29 en því hafi nú verið breytt.
Sú hlið fyrirhugaðrar byggingar sem snúi að húsi kærenda sé aðeins þremur metrum frá lóðarmörkum auk þess sem veitt sé heimild til að byggja einn metra út fyrir byggingarreit frá fyrstu hæð og upp úr. Sé gert ráð fyrir stórum gluggum á hliðinni beint út að húsi og lóð kærenda. Vísað sé í þessu sambandi til brunavarnaákvæða um fjarlægð milli húsa og að þessi tilhögun gangi enn frekar gegn grenndarhagsmunum kærenda.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ógildingarkröfum verði hafnað.
Vísað er til þess að kæran sé of seint fram komin hvað alla kröfuliði varði. Deiliskipulag reits 1.152.4 hafi öðlast gildi 14. júní 2004 með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og umdeild skipulagsbreyting sem grenndarkynnt hafi verið hafi öðlast gildi með birtingu auglýsingar hinn 25. janúar 2005. Þá hafi hið kærða byggingarleyfi verið samþykkt af byggingarfulltrúa 29. mars 2005.
Í 5. málsl. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 komi skýrt fram að frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá þeim tíma að kæranda var kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á. Kærufrestur vegna fyrstu ákvörðunarinnar hafi því runnið út hinn 14. júlí árið 2004, en kæran sé dagsett þann 21. febrúar 2006. Ekki sé að finna neinar útskýringar á því í kæru hvers vegna kæran sé jafn seint fram komin og raun beri vitni nema þær að kærendum hafi verið ókunnugt um auglýsingar í blöðum. Það að borgarar fylgist ekki með lögboðnum auglýsingum geti ekki talist haldbær afsökun fyrir því að kæra komi of seint fram.
Annað sé uppi á teningnum að því er varði síðari skipulagsákvörðunina frá 12. janúar 2005. Ítreka beri að breytingar með þeirri skipulagsákvörðun hafi öðru fremur falist í því að lækka hámarkshæð vesturhluta byggingarinnar við Lindargötu 27, sem snúi að húsi kærenda, stækka lóðina til norðurs og gera ráð fyrir bílastæðakjallara undir húsinu. Þau mistök hafi átt sér stað að tillagan hafi ekki verið grenndarkynnt gagnvart kærendum.
Framkvæmdir hafi byrjað á umræddri lóð í lok nóvember 2005 en í bréfi kærenda frá 28. nóvember s.á. komi fram að þá fyrst hafi þeim verið ljóst að samkvæmt gildandi deiliskipulagi væri ráðgerð átta hæða bygging að Lindargötu 27, þar af tæpar tvær hæðir neðan götulínu. Telja verði, ef kærufrestur vegna seinni deiliskipulags-ákvörðunarinnar miðist ekki við birtingu gildistökuauglýsingar í Stjórnartíðindum eins og lögboðið sé, þá hafi kærufrestur í síðasta lagi byrjað að líða frá þeim tíma sem kærendum mátti vera kunnugt um að ákvörðunin hefði verið tekin. Sé því mótmælt að hægt sé að teygja kærufrest lengur en til loka árs 2005 vegna umræddrar ákvörðunar. Reykjavíkurborg leggi sérstaka áherslu á að kærufrestir í skipulags- og byggingarmálum séu ákvarðaðir skammir af löggjafanum svo að ekki ríki réttaróvissa um lögmæti ákvarðana lengur en brýna nauðsyn beri til með tilliti til hagsmuna byggingarleyfishafa. Í ljósi þessa verði kærendur því að bera hallann af því að kæran sé of seint fram komin.
Þá sé frávísunarkrafan studd þeim rökum að kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá umrædda breytingu á deiliskipulagi fellda úr gildi í ljósi þess að breytingin felist í því að lækka hámarkshæð byggingarinnar við Lindargötu 27, gengt húsi kærenda, stækka lóðina til norðurs og gera ráð fyrir bílastæðakjallara undir húsinu. Eina atriðið sem hafi möguleg neikvæð áhrif á hagsmuni kærenda á framkvæmdastigi sé vegna bílakjallarans. Vekja beri athygli á því að framkvæmd við hann hafi verið að mestu leyti um garð gengin þegar kæran hafi komið fram. Efnislegar athugasemdir kærenda á frumstigi málsins hafi einkum lotið að bílakjallaranum og ónæði vegna hans og þeim stóru byggingum sem nú séu að rísa í grennd við minni og viðkvæmari eldri byggð. Yfirlýst markmið borgaryfirvalda sé að fjölga bílastæðum neðanjarðar í miðborginni þótt því geti fylgt hvimleitt ástand fyrir íbúa í grenndinni á meðan framkvæmdir standi yfir, en um sé að ræða bílastæðalausn sem létti einnig á þeirri byggð sem fyrir sé. Ekki sé tekið undir þau sjónarmið að umræddar breytingar á deiliskipulagi valdi frekari röskun á hagsmunum kærenda umfram það sem kunni að leiða af samþykkt eldra deiliskipulags.
Komi kæran til efnislegrar skoðunar bendi Reykjavíkurborg á að sjónarmið kærenda um skerðingu á nýtingu lóðar þeirra vegna hinna kærðu breytinga séu þess eðlis að þau geti aldrei valdið ógildingu umræddra ákvarðana. Ljóst sé að hin samþykkta breyting á deiliskipulagi geti valdið einhverjum afmörkuðum grenndaráhrifum á hluta af lóð kærenda en við slíkum áhrifum megi að jafnaði búast þegar gerðar séu breytingar á húsum í þéttbýli. Aukning skuggavarps inn á lóð kærenda, þegar sól sé lægst á lofti, sé innan þeirra marka sem miðað sé við í þéttri byggð og hið sama megi segja um útsýnisskerðingu. Við umfjöllun um grenndarsjónarmið verði sérstaklega að hafa í huga að í skipulags- og byggingarlögum sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að breyta skipulagsáætlunum, sbr. t.d. 25. og 26. gr. þeirra laga. Telji aðilar sig hins vegar geta sannað að þeir hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt megi búast við hjá fasteignaeigendum í þéttbýli eigi þeir bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. laganna. Um bótarétt sé úrskurðarnefndin hins vegar ekki bær til að fjalla.
Hvað varði hið kærða byggingarleyfi, þá geri kærendur ekki neinar efnislegar athugasemdir við það, þrátt fyrir kröfu um ógildingu þess, né bendi þeir á nein atriði sem leitt geti til ógildingar þess. Kröfu um ógildingu sé því hafnað enda ekkert komið fram í málinu sem bendi til þess að byggingarleyfið sé háð neinum annmörkum.
Andmæli byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að öllum kröfum kærenda verið vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að þeim verði hafnað.
Sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir umdeildu húsi að Lindargötu 27 hinn 2. febrúar 2005 og hafi byggingarfulltrúi samþykkt hana 22. mars s.á. Byggingarleyfishafi hafi tilkynnt kærendum um væntanlegar framkvæmdir sem síðan hafi hafist með uppsetningu girðingar í samráði við borgaryfirvöld og lögreglu en girðingarefni hafi verið flutt á staðinn hinn 30. nóvember 2005.
Varðandi kærðar deiliskipulagsákvarðanir eru sjónarmið byggingarleyfishafa á sömu lund og tíunduð hafa verið af hálfu Reykjavíkurborgar fyrir frávísunarkröfum en áhersla lögð á að kærufrestur 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé ákvarðaður út frá hlutlægu viðmiði og komi grandsemi kærenda því ekki til álita í þeim efnum. Meginreglan sé sú að borgurum eigi að vera kunnugt um þær ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu að lögum. Sé þessi ályktun í fullu samræmi við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað, þar sem segi að birt fyrirmæli skuli binda alla frá og með deginum eftir útgáfu þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin hafi verið birt, ef þau geymi ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku.
Varðandi hið kærða byggingarleyfi sé á því byggt að kærendum hafi mátt vera kunnugt um byggingarleyfið fljótlega eftir veitingu þess í ljósi þess að deiliskipulagsbreytingin að baki leyfinu hafi sætt opinberri birtingu. Jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar það tímamark sem gert sé í kæru, þ.e. í nóvember 2005, sé ljóst að kærufresturinn hafi verið liðinn í desember s.á. Rétt sé að benda á að í bréfum kærenda til borgaryfirvalda sé óskað eftir endurupptöku á deiliskipulagi en ekki byggingarleyfi. Ákvæði 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geti því ekki komið til skoðunar við útreikning kærufrests.
Af kæru verði ráðið að krafa um ógildingu byggingarleyfisins sé eingöngu byggð á því að það hafi verið veitt á grundvelli ólögmæts skipulags. Kæran snerti því í reynd ekki byggingarleyfið sem slíkt heldur deiliskipulagið að baki því. Krafan um ógildingu leyfisins sé því afleidd af kröfu um ógildingu skipulagsins. Hafi kærendur enga hagsmuni af því að úrskurðarnefndin fjalli um gildi byggingarleyfisins ef kæruliðum um skipulagsákvarðanirnar verði vísað frá en kærufrestir vegna þeirra ákvarðana sé löngu liðnir. Af þessum sökum beri að vísa öllu málinu frá.
Að baki skömmum kærufresti í skipulags- og byggingarmálum búi sjónarmið um réttaröryggi og hagsmunir leyfishafa. Ekki sé unnt að mynda nýjan kærufrest með beiðni um endurupptöku máls enda væru reglur um kærufresti þýðingarlausar og færi slík túlkun gegn sjónarmiðum 1. málsl. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Framangreindum röksemdum til stuðnings megi vísa til dóms Hæstaréttar frá 16. júní 2005 í málinu nr. 45/2005.
Byggingarleyfishafi telji enga þá form- eða efnisannmarka vera á hinum kærðu ákvörðunum að leitt geti til ógildingar. Sérstaklega sé bent á að mistök við grenndarkynningu skipulagsbreytingarinnar frá 12. janúar 2005 geti ekki ein og sér valdið ógildingu þeirra ákvörðunar. Fram komi í svari borgarritara við endurupptökubeiðni kærenda að ekkert liggi fyrir um að athugasemdir kærenda hefðu leitt til annarrar niðurstöðu en raunin hafi orðið á hefðu þær legið fyrir við afgreiðslu málsins.
Áhersla sé lögð á að byggingarleyfishafi hafi ríka hagsmuni af því að umdeilt skipulag verði ekki ógilt enda hafi hann fengið útgefið byggingarleyfi á grundvelli þess og hafið framkvæmdir samkvæmt því í góðri trú um gildi skipulagsins og byggingarleyfisins. Framkvæmdir hafi ekki verið hafnar fyrr en kærufrestir hafi verið liðnir og verði að telja að kærendur hafi sýnt af sér tómlæti með því að hafa ekki freistað þess að fá skipulaginu hnekkt fyrr. Ótækt sé að byggingarleyfishafi gjaldi fyrir það og ógilding umdeildra ákvarðana muni fyrirsjáanlega valda honum miklu tjóni.
Aðilar hafa fært fram frekari rök og sjónarmið fyrir kröfum sínum en hér hafa verið rakin og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Borgaryfirvöld og byggingarleyfishafi hafa sett fram kröfu um frávísun kærumáls þessa. Hefur sú krafa einkum verið studd þeim rökum að kæra hafi borist að liðnum kærufresti.
Fyrir liggur að umdeildar deiliskipulagsákvarðanir sættu opinberri birtingu, sú fyrri hinn 11. júní 2004 og sú seinni hinn 24. janúar 2005. Við mat á upphafi kærufrests hins kærða byggingarleyfis verður við það að miða að kærendum hafi mátt vera ljóst að leyfi hafði verið gefið út fyrir framkvæmdum á lóðinni nr. 27-29 við Lindargötu í síðasta lagi í lok nóvember, er þeir rituðu skipulags- og byggingarsviði borgarinnar bréf vegna fyrirhugaðrar byggingar og þegar undirbúningur framkvæmda hófst með flutningi girðingarefnis á staðinn. Gátu kærendur þá þegar kært veitingu byggingarleyfsins án tillits til beiðni þeirra um endurupptöku hinna kærðu deiliskipulagsákvarðana, en kæra þeirra barst ekki úrskurðarnefndinni fyrr en rúmum tveimur og hálfum mánuði síðar, eða hinn 18. febrúar 2006. Hafa því allar hinar kærðu ákvarðanir verið kærðar að liðnum kærufresti sem er einn mánuður skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Kemur þá til skoðunar hvort einhver þau atvik séu fyrir hendi sem leiða eigi til þess að málið verði tekið til efnismeðferðar samkvæmt undanþáguheimildum 1. og 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ljóst er að deiliskipulagsákvörðunin sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. júní 2004 verður ekki tekin til efnismeðferðar samkvæmt greindum undanþáguákvæðum þar sem meira en eitt ár er liðið frá birtingu gildistökuauglýsingar, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Seinni skipulagsákvörðunin, sem fól í sér tilteknar breytingar á heimilaðri húsbyggingu skv. fyrra skipulagi, var kærð tæpum tólf mánuðum eftir gildistöku að teknu tilliti til tímans sem afgreiðsla endurupptökubeiðni kærenda tók í samræmi við 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Ekki verður talið að slíkur dráttur á að kæra ákvörðun, sem birt var opinberri birtingu, teljist afsakanlegur og með hliðsjón af efni ákvörðunarinnar verður ekki fallist á að veigamiklar ástæður mæli með því að ákvörðunin verði tekin til efnismeðferðar. Ennfremur liggja ekki fyrir ástæður er réttlætt geti að kæra vegna umrædds byggingarleyfis, sem tengist fyrrgreindum skipulagsákvörðunum að efni til, verði tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti.
Að öllu framangreindu virtu og með vísan til 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Ásgeir Magnússon
_____________________________ ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Aðalheiður Jóhannsdóttir